Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art ,

Hugleiðing á páskum 2024

eftir Örn Bárð Jónsson

Viltu hlusta og/eða lesa? Hér fyrir neðan er tengill á hljóðupptöku sem tekur rúmar 4 mínútur.

Kristur með vinum sínum, körlum og konum

TILKYNNING Á TJÓNI

Um bænadagana skoðaði ég dagskrá RÚV til að leita að einhverju um kristnar rætur menningar okkar, því allt, sem Evrópa og hinn Vestræni heimur standa fyrir, er í grunninn Kristið.

Richard Dawkins, merkur raunvísindamaður, einn helsti talsmaður guðleysingja í heiminum, segist vera „menningarkristinn“, honum þykir vænt um sálmahefðina, kirkjurnar og siðferðið, sem fylgir kristninni, en getur ekki trúað á Guð. Hann óttast framgang islam á Bretlandseyjum, sem ætlar sér auðvitað að taka yfir hinn kristna heim og skerða mannrétti okkar, sem öll eru kristin í dýpsta grunni. Verum á verði!

Kyrravikan leið í ár með sínum dimmu stefjum og dimbiltónum. Páskarnir tóku svo við með boðskap vonar og trúar um lausn á sjálfum dauðanum. Mótsagnir og gátur lífsins eru magnaðar, því það er á milli trúar og efa, sem undrin gerast eins og í eðlisfræði og vísindum.

En undrin virðist þurfa að bæla og þau eru falin af stofnun sem áður miðlaði menningararfinum betur en nú á tímum. Hugsanlega telja sumir að um arfinn megi ekki ræða lengur og þess vegna sé hann þaggaður niður. Er það á forsendum einhvers ímyndaðs hlutleysis, sem er auðvitað ekki til, þegar dýpst er skyggnst?

Ég las í gegnum dagskrá Sjónvarps allra landsmanna um bænadaga og páska og fann þar ekkert sem talist gæti stuðningur við hinn kristna menningararf,

ekkert á föstudaginn langa,

ekkert á skírdag,

ekkert á laugardaginn, þegar þess er minnst að Kristur lá í gröf sinni, (nema þá ein amerísk bíómynd um söguna af Nóa úr Gamla testamentinu) og

ekkert sjálfan gleðidaginn, upprisudaginn, páskadaginn og

ekkert á 2. í páskum!

Ekkert!

Mér kann auðvitað að hafa yfirsést eitthvað smálegt en hvað heildina varðar þá voru þetta því miður heiðnir páskar á RÚV, en einstaka örður má þó líklega finna í fréttum daganna um kirkju og kristni, en ekkert í áætlaðri dagskrá.

Um það sem breytti heiminum öllum til góðs, virðist ekki vera nein ástæða til að fjalla um í dagskrá Sjónvarpsins, miðils sem ég er skikkaður til að styðja með greiðslum í ríkissjóð, í landi þar sem tæplega 60% landsmanna eru skráð í kristin trúfélög og þá eru líklega ótalin börn hinna kristnu.

Benda má á að ríkisreknar sjónvapsstöðvar Norðurlandanna senda reglulega út margvíslegt menningarefni tengt kirkju og kristni, t.d. Danir sem senda út messur í sjónvarpi um hverja helgi og svo auðvitað á hátíðum auk þess marskonar efni um menningararfinn. Nema hvað!

Hvað er orðið um menninguna og mannskilninginn, grunngildin, rétt og rangt, réttlætið og sannleikann, heilindi og helgi, hjá stofnun, sem ætlað er að viðhalda hinum heilnæma gróðri kristinnar menningar og færa hann komandi kynslóðum í formi aldingarðs en ekki uppblásinnar eyðimerkur?

Hver ber ábyrgð á þessum “heiðindum”?

Ég verð að komast að því, vegna þess að ég þarf að tilkynna alvarlegt tjón.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons
,