Í gær fór ég í Neskirkju til að hlusta á dr. Harald Hreinsson, ræða um Afhelgun bókaþjóðar. Hann gerði það vel og skilmerkilega með tilvísunum í bókmenntapáfa liðinnar aldar sem töldu flestir kristni skipta minna máli í menningunni en margir aðrir. Eina mótvægið sem eitthvað kvað að gegn nefndum páfum var biskup Sigurbjörn Einarsson sem fór gjarnan með himinskautum eins og honum einum var lagið!
Haraldur ræddi í inngangi um hugtakið veraldarhyggja sem þýðing á orðinu sekularisering og ég setti fram í umræðum í lokin þá tillögu að nota orðið heimskun um veraldarhyggju, þ.e. þegar heimurinn tekur yfir og hafnar hinu himneska.
Jesús sagði forðum við lærisveina sína: „Í heiminum hafið þér þrenging, en verið hughraustir, ég hef sigrað heiminn.“ Þau orð gilda fyrir okkur öll, konur og karla.
Myndina skissaði ég á staðnum með blekpenna og get því engu breytt fremur en í lífinu sjálfu, nema með vatnslitum.
Ef þú smellir á myndina geturðu þysjað hana út og inn.

You must be logged in to post a comment.