Ævintýri um réttlætisráðherra

eftir Örn Bárð Jónsson

Hér er tengill á upplestur höfundar sem tekur tæpar 5 mínútur:

Á Íslandi er til opinbert embætti sem ber heitið dómsmálaráðherra. Hann eða hún sem því gegnir á hverjum tíma fer einkum með vald dómstóla ef marka má orðsins hljóðan.

Dómsmál! Er það eina inntakslýsingin á hlutverki dómsmálaráðherra?

Á vef Árnastofnunar (malid.is) gefur að líta skyldheiti við orðið dómsmál. Skoðum nokkur þeirra:

málshöfðun,

málatilbúnaður,

ákæra,

fangelsi,

yfirheyrsla,

fangavist,

réttarhald,

dómstóll,

úrskurður,

sakfelling,

vitnisburður,

refsing.

Auðvitað þarf einhver að halda utan um mál á bak við allan þennan alvarlega orðaforða. En væri ekki hægt að hafa betra og hljómfegurra nafn á þessu embætti sem hljómar í mínum eyrum og málkennd eitthvað svo valdsmannslegt.

Ég veit að orðið dómsmál er auðvitað notað um það að komast að hinu sanna, að finna muninn á réttu og röngu, sönnu og lognu. Þá er mér og ljóst að dómstólar dæma ekki bara til sektar heldur og til sýknu. Þeir leita sannleikans í hverju máli eða ættu að minnsta kosti að gera það.

Dómsmálaráðherra. Þetta samantjaslaða, valdsmannslega orð, gerir það að verkum að maður sér nánast fyrir sér böðulinn í máli Agnesar og Friðriks, með öxina reidda, áður en hún, með gljábeitta egg, lýkur dómsverkinu í nafni konungs?

John Rawls (1921-2002), var bandarískur stjórnmálaheimspekingur, sem lagði sig sérstaklega eftir að túlka siðferði, lög og stjórnmál. Hann sagði m.a. að „æðsta dyggð sérhverrar opinberrar stofnunar væri réttlæti“. Hann er þekktastur fyrir Réttlætiskenningu sína – A Theory of Justice – sem kom út á bók árið 1971. Tíðum hefur sagt verið um Rawls að hann hafi verið einn áhrifamesti fræðimaður 20. aldar á sviði stjórnmálaheimspeki.

Þjóð okkar kallar stöðugt á réttlætið og höfðar þar með til stjórnmálamanna, Alþingis, ráðuneyta og þeirra sem þar starfa. Frumskylda allra í opinberri þjónustu og reyndar okkar allra, er að efla réttlætið.

Við eigum nú þegar hið jákvæða hugtak heilbrigðisráðherra, en sem betur fer ekki orðið sjúkdómaráðherra og þaðan af síður pillu- og uppskurðarráðherra, hvað þá dauðansalvörumálaráðherra.

Á hinum Norðurlöndunum, nema í Finnlandi, heitir embættið justisminister. Í hinum enskumælandi heimi er talað um justice eða réttlæti og reyndar er hinn íslenski dómsmálaráðherra kallaður minister of justice í enskri þýðingur á vef ráðuneytisins.

Hvernig finnst þér orðið réttlætisráðherra hljóma?

Heyrirðu ekki hinn frelsandi réttlætistón í orðinu, hinn jákvæða óm og gleðihljóm, sem er í algjörri mótsögn við hið dimma orð DÓMS-MÁLA-RÁÐ-HERRA?

Réttlætisráðherra er fallegt nafn en auðvitað mætti svo ganga lengra og skipta út hugtakinu ráðherra fyrir orðið þjónn sem mundi enn betur undirstrika að embætti er skylt orðinu ambátt. En látum þjónshugtakið liggja á milli hluta í bili.

En eins og í ævintýrunum, eiga góðar sögur og góðir draumar að enda vel, t.d. svona:

„Upp frá því lifðu þau sæl í réttlæti og friði því þjóðin hafði loksins eignast sinn réttlætisráðherra.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.