Þungunarrof, samkynhneigð og kynusli

Hvernig stendur á því að Bandaríkin snúa við gömlu og frægu máli, Roe gegn Wade, um fóstureyðingar eða það sem nú er gjarnan kallað þungunarrof? Hvað veldur þessu ofríki gegn ákvörðunarrétti fólks?

Hvers vegna eru sumar kirkjudeildir, ég endurtek, sumar, á móti því að fólk njóti þeirra sjálfsögðu mannréttinda að ráða sínum málum?

Hvað veldur því að sumar kirkjudeildir hafa gert kynlíf og allt sem því tengist, næstum að glæpi og synd? Í flestum tilfellum er um að ræða bandaríska söfnuði úr röðum svokallaðra baptista eða endurskírenda. Þetta eru í flestum tilfellum litlir söfnuðir eða fríkirkjur með presta og prédikara sem ekki hafa lokið akademísku guðfræðinámi heldur aðeins þjálfun í skólum sem þeir sjálfir reka og þar sem þess er gætt að ekki sé vikið frá bókstafstrú og afturhaldsguðfræði. Það er synd.

En svo eru stóru kirkjudeildirnar, kaþólska kirkjan með páfann í Róm og réttrúnaðarkirkjurnar með sína patríarka í Konstantinópel og Moskvu, þær eru ekkert betri í þessum efnum, þrátt fyrir akademíska guðfræði. Lífið er stundum mótsagnarkennt.

En lúthersku þjóðkirkjurnar á Norðurlöndum og þar með Íslandi eru búnar að vinna sig í gegnum þetta mál og komast að sanngjarnri og kærleiksríkri niðurstöðu.

Eigum við að skoða orðið synd í Nýja testamentinu?

Hvað merkir orði synd á grísku sem NT var ritað á?

Orðið synd er á grísku hamartia, sem merkir að missa marks eða geiga. Þú setur ör á streng og miðar á skotskífuna, en þú missir marks. Knattspyrnumaðurinn tekur vítaspyrnu og brennir af. Kylfingurinn slær til vinstri eða hægri, húkkar eða slæsar, en slær sjaldan beint.

Þetta er syndin í sinni frummerkingu, okkur mistekst svo margt. Hún er geigun, brotalöm, sem er í öllum mönnum, konum og körlum og við losnum aldrei við.

Fyrsti bíllinn sem ég eignaðist var af sænskri gerð, en ég gef ekki upp framleiðandann. Ég keypti hann notaðan, en þetta var syndugur bíll. Syndin kom fram í því að hlaup var í stýri sem gerði það að verkum að bíllinn leitaði stöðugt út af veginum. Mitt hlutverk var að halda bílnum á veginum.

Seinna eftir að ég lærði guðfræði komst ég að því að í mér sjálfum er sama tilhneiging, að fara út af veginum. Mitt hlutverk er að stýra mínu eigin lífi og halda mig á veginum og gæta þess að aka ekki út í skurð.

Hvers vegna er kynlíf orðið að einhverskonar meginhugtaki um það sem kallað er synd. Kynlíf er ein fegursta gjöf sem Guð hefur gefið sköpun sinni. Allar lífverur stunda kynlíf í einni eða annarri mynd. Er það synd? Nei, auðvitað ekki, svo fremi að ofbeldi annars aðilans gegn hinum sé ekki til staðar.

Þegar ég vann sem prestur í Noregi var ég stundum spurður hvort Íslendingar væru ekki fremur fjálslyndir þegar kæmi að kynlífi og barneignum fyrir hjónaband. Ég svaraði eitthvað á þá leið að við værum ekki mikið að skipta okkur af kærleikanum og ástinni, sem færi sínu fram og rynni eins og lækurinn, sem ætíð finnur sér farveg. Dr. Björn heitinn Björnsson, prófessor í siðfræði, skrifaði doktorsritgerði sína í Skotlandi og rannsakaði hjónabandið á Íslandi. Hann komst m.a. að því að fyrsta barn foreldra var oftar en ekki fætt utan hjónabands en annað barnið innan. Þetta var og er kannski enn hið íslenska munstur. Fólk kynnist, verður ástfangið, eignast barn og giftir sig svo þegar annað barnið er komið undir.

Og nú erum við komin að þeim tímapunkti í sögunni að eitt af hinum stóru lýðræðisríkjum í heiminum, Bandaríkin, bakkar áratugi aftur í tímann og vill endurvekja eða banna konum að gangast undir þungunarrof.

Auðvitað er fóstureyðing eða þungunarrof eyðing á mögulegu lífi. Slíkt er ekki léttvæg ákvörðun konu eða foreldra, en eigi að síður verður að virða vilja konunnar um yfirráð yfir eigin líkama.

Læknisfræðinni fleygir fram og við munum sem mannkyn ætíð fara eins langt og vísindin leyfa, með þekkingu sinni og uppgötvunum, en þó með einhverri hliðsjón af siðfræði og réttlæti.

Að leggjast gegn vilja kvenna í þessum efnum er ekki boðlegt. Að ráðast gegn fólki sem er samkynhneigt eða leitar eftir kynleiðréttingu er líka óboðlegt. Það er í raun ofríki sem er nákskylt orðinu fasismi sem er reyndar ofnotað orð nú um stundir en samt finnst mér að það eigi við í þessu samhengi. Hvers vegna viljum svo mörg beita aðra órétti og með fordómum veitast að þeim og sjálfsákvörðunarrétti þeirra? Er það í lagi?

Er í lagi að banna konum að ráða yfir líkama sínum? Er í lagi að veitast að þeim sem finna sig ekki sem hann eða hún.

Nei, það er ofríki eða fasismi að neita fólki um sjálfsákvöðunarrétt í fyrrgreindum tilfellum.

Jesús skrifar í sandinn.

Gyðingar áttu sitt lögmál á dögum Jesú og komu með hórseka konu til hans og sögðust hafa staðið hana að verki. Lögmál þeirra sagði að grýta ætti slíka konu. Íslendingar drekktu þeim fyrr á öldum og tóku þar með ekki mið af djúpum skilningi Jesú á elsku og miskunn í garð náungans.

En hvað gerði Jesús? Hvernig svaraði hann spurningu hatursfullu karlanna? Hann laut niður og skrifaði í sandinn eitthvað sem enginn veit hvað var en sagði svo:

„Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“ Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“ (Jóh 8)

Hann vísar til syndar og þar átti hann kannski við að hún ætti að virða sjálfa sig og láta eigi lítillækka sig í samskiptum við aðra, einkum karla.

Hvers vegna viljum við beita annað fólk ofríki, taka frá því sjálfákvörðunarréttinn, beita kúgum og ofbeldi til að næra eigin fordóma?

Fordómar eru eins og illgresi sem skýtur rótum í huga okkar. Illgresið berst með vindinum og rætir sig áður en við gerum okkur grein fyrir því. Hlutverk okkar er að uppræta illgresið úr beðum hugans, alla daga og því starfi lýkur aldrei. Fordómarnir eru eins og skógarkerfillinn sem er að taka yfir gróður víða um land. Syndin, brotalömin í lífi okkar, veldur því að fræ fordóma ná að rótfestast og vaxa í huga okkar og hjarta. Það er synd og hana þarf að glíma við alla ævina, uppræta illgresið úr eigin hugarfylgsnum. Við erum öll með einhverja fordóma, á öllum tímum.

Verum á verði! Forðumst fordóma! Leyfum fólki að lifa á þann hátt sem það telur ríma best við eigin upplifun og skilning á sínum hneigðum.

„Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig“, sagði Jesús. Hann sagði „skaltu“ sem merkir að elskan er ekki tilfinning, heldur ákvörðun, gjörð, verknaður, hún er á okkar valdi. Ef elskan væri tilfinning hefði hann aldrei sagt „elska skaltu“ því þá hefði hann þurft að segja: elskaðu náungann þegar þér líður þannig að þú viljir náunganum vel.

Það er allt annað en það sem Jesús sagði og meinti.

Elskan er nefnilega á þínu valdi!

Greinin birtist í Kjarnanum 28. júní 2022 en er nú einnig birt hér ásamt hljóðupptöku.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.