Veðurfræðingar án framtíðar!

Eiga veðurfræðingar einhverja framtíð fyrir sér? Eru þeir í tilvistarkreppu? Ég svara fyrri spurningunni með jái en hinni seinni með neii. Fyrirsögnin er ekki með spurningarmerki, heldur upphrópun og því er hún fullyrðing og það er grafalvarlegur hlutur að segja slíkt. En leyfðu mér að skýra mál mitt.

Þessar vangaveltur mínar fjalla ekki um að veðurfræðingar eigi enga framtíð fyrir sér. Spá má t.d. fyrir um að tölvur taki alveg yfir það verkefni að flytja veðurfréttir og að veðurfræðingar muni þar með ekki eiga neina framtíð fyrir sér. Nei, ég er ekki að tala um það eða spá fyrir um slíkt, heldur fjalla ég hér um að þeir tala sumir í Sjónvarpi eins og engin framtíð sé til og það þykir mér vera alvarlegustu fréttir sem unnt er að flytja í fjölmiðlum, hreinar dómsdagsfréttir. Engin framtíð! Hjálp!

Veðurfregnir sagðar t.d. á mánudegi fjalla eðli máls samkvæmt um veðrið þann sama dag, en svo kemur að veðrinu á morgun og þá segja sumir veðurfræðingar eitthvað á þessa leið: það er rigning á morgun á Suðurlandi en hins vegar er sól á Norðurlandi, á Vestfjörðum er hlýtt, á miðvikudaginn er betra veður en á fimmtudaginn er hvasst o.s.frv. Allt er í nútíð og engin framtíð í augsýn.

Ég tek það fram að þetta er ekki vísindaleg grein. Ég hef ekki gert könnun á öllum fréttatímum ársins og mun ekki gera slíka úttekt, en ég leyfi mér að benda á að tíðaruglingur er algengur í málinu og þar er ég auðvitað sekur eins og margir aðrir um að spyrja t.d. stundum og segja: Hvenær er fundurinn? í stað þess að segja: Hvenær verður fundurinn?

Kæru veðurfræðingar, sem eruð í tíðarugli, komnir yfir málfarsleg tíðahvörf og hættir að nota tíðir, horfið nú fram á veginn og sjáið fyrir ykkur framtíð sem getur vitaskuld verið annað hvort björt eða dimm á köflum. Talið um að á morgun verði sól eða rigning, að um næstu helgi verði veðrið svona eða hinsegin.

Skapanornir í norrænni goðafræði heita Urður, Verðandi og Skuld. Með Urði er vísað til fortíðar, Verðandi nútíðar en Skuld horfir til framtíðar. Urður þekkir veðrið í gær og Verðandi veður dagsins en Skuld spáir í framtíðina sem er ókomin en hennar er vænst í trú og von um betri tíð með blóm í haga, eða þannig. Sumir veðurfræðingar skulda okkur framtíð.

Og svo vil ég gera eina athugasemd um það þegar hvatt er í lok veðurfrétta. Ekki þakka okkur áhorfendum fyrir nokkurn skapaðan hlut t.d. með orðunum: „Þakka ykkur fyrir.“ Það er algjör óþarfi að þakka okkur fyrir þjónustu ykkar. Við eigum að þakka og gerum það í hug og hjarta, einkum þegar spáð er góðri tíð og veðurfréttir fluttar í stuttu og hnitmiðuðu máli en ekki langlokum. Kveðjið bara t.d. með orðunum: „Verið þið sæl“ eða „Góðar stundir!“ en forðist eins og pestina að segja „Eigið gott kvöld“ sem er í anda kveðjuvenju starfsfólks við greiðslukassa verslana: „Eigðu góðan dag“ sem er bein þýðing á „Have a good day.“ Enn eitt dæmið um áhrif enskunnar á íslenskt mál. Nema kveðjan sé hugsuð með ypsiloni, „eygðu“ góðan dag. Þá fær hún alveg nýja merkingu með því að vísa til góðrar framtíðar í augsýn, en eyrað nemur því miður ekki hvort sá er kveður hugsar orðið með einföldu ii eða ypsiloni.

Kæru veðurfræðingar og aðrir landsmenn, ég kveð eins og skrifað stendur:

Eygið góða framtíð!

Greinin birtist í Kjarnanum sunnudaginn 26. júní 2022 og svo hér að viðbættri hljóðupptöku.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.