Höfundur hefur ítrekað lent í hremmingum þegar hann hefur fengið pakka frá útlöndum með einhverju sem hann hefur pantað eða fengið sent sem gjöf. Hér kemur flækjusagan.

Oft hef ég pantað vörur í pósti frá útlöndum og margsinnis frá Kína en hef nú hætt því þar þar sem Pósturinn tekur 400 krónur í sendingarkostnað frá Evrópu til Íslands af hverjum smápakka, meira að segja af þeim sem vega allt niður í 2 grömm.
Pósturinn flytur margskonar vörur og nú hefur honum tekist hið ómögulega, að flytja Ísland úr Evrópu.
Ég spurði fyrirtækið um póstgjaldið „frá Evrópu“ í fyrra og var sagt að Kínverjar væru með svo ofurhagstæða samninga við Evrópusvæðið og borguðu svo lítið fyrir flutninga til álfunnar, að Pósturinn hefði fengið sérstakt leyfi hjá Alþingi til að leggja þennan aukakostnað á vörur sem koma til Evrópu enda þótt sá eða sú sem pantar hafi þegar greitt Kínverjum fyrir flutning heim að dyrum sínum á Íslandi.
Og við sem búum í Evrópu erum neydd til þess að kaupa þjónustu þessa einkavædda fyrirtækis, sem virðist hafa algjörlega rústað arfleifð stofnunar sem þjónaði landi og þjóð lengi og vel og hét, Póstur & Sími, rústað með einhverskonar nývæðingu, með yfirdrifnum flækjustigum og símsvörun úr tölvu sem talar með kvenmannsrödd, heilsar á ensku og segir, HÆ!
Að komast framhjá tölvuvæddum samskiptum kostar að maður hringi og bíði í röð og haldi áfram að heyra rödd tölvukonunnar aftur og aftur, sem heilsaði með orðinu, HÆ, en segir svo, seint og um síðir, hvaða númeri mér hafi verið úthlutað í biðröðinni.
Ég hafði áður fengið bréf frá Póstinum. Það var dagsett 7. apríl 2021, en barst mér í póstbox þar sem ég bý, viku seinna eða 14. apríl. Langar eru leiðirnar í henni Reykjavík og ófærðin gríðarleg að halda mætti á snjóléttasta vetri í áratugi (2020-2021)
Ég fór í tölvuna eftir að hafa opnað bréfið, en hnökrar í tölvukerfi Póstsins gerðu það að verkum að aðeins hluti þess sem ég vildi koma til skila náði í gegnum tölvuheila fyrirtækisins.
Mér var sagt í bréfinu að ég ætti pakka í Póstinum frá Frakklandi sem væri 2 grömm að þyngd. Ég kannaðist ekki við neina pöntun frá Frakklandi sem vægi 2 grömm. Eftir að hafa horft á nokkrar krimmamyndir á liðnum vikum í sjónvarpi datt mér helst í hug að einhver hrekkjóttur fransmaður væri að senda mér eitthvert ólöglegt duft til að koma höggi á mig.
Í bréfinu kom fram að tekið væri geymslugjald fyrir hvern dag uppá 195 krónur og væntanlega líka um helgar þegar enginn getur sótt pakka því Pósturinn er með allt lokað.
Jæja, í dag fékk ég loks tölvupóst, 21. apríl 2021, þegar liðnar eru 2 vikur frá komu þessa 2ja gramma pakka.
Ég hafði í millitíðinni gefið leyfi fyri því með rafrænum hætti að þessi „níðþungi“ pakki yrði opnaður og rannsakaður og borgaði 495 krónur fyrir þann þjónustuvæna greiða hins einkavædda Pósts. Ég spurði þjónustufulltrúann hvort Pósturinn hefði ekki getað viktað pakkann en fékk það svar að það mætti alls ekki gera því það gæti komið Póstinum í lögfræðilegt klandur fyrir dómstólum og þess vegna væru allar sendingar af óþekktri þyngd sagðar vega 2 grömm!
Hvernig átti ég að geta ráðið í gátuna um hvað væri í 2ja gramma pakka frá Frakklandi? Varla bók á frönsku sem ég er ekki einu sinni læs á!
Fyrrgreindan dag, 21. apríl, sem er síðasti vetrardagur, Guði sé lof, fékk ég tölvupóst um að ég yrði að senda inn fullnægjandi upplýsingar um innihald 2ja gramma pakkans. Nú treysti ég ekki lengur á rafræn samskipti og hringdi í Póstinn. Þar svaraði vélmenni og heilsaði: Hæ! Loks eftir langa bið óskaði ég eftir að hringt yrði í mig og það gekk eftir.
Ég sagði farir mínar ekki sléttar, lýsti hremmingum mínum og kvartaði undan væntanlegum himinháum geymslugjöldum og leyfði mér að segja að virt stofnun, Póstur & Sími, hefði verið eyðilögð, af þessu einkahlutafélagi, sem nú heitir Pósturinn. Mér liði eins og ég gæti gert mér í hugarlaund að fólki hefði liðið í Sovétríkjunum sálugu og bætti við að ef þetta símtal væri hljóðritað þá vildi ég að það bærist forstjóranum.
Þú, lesandi minn góður, skilur nú að mér var orðið nokkuð heitt í hamsi.

Jæja, þjónustufulltrúinn þaulæfði sýndi mikla lipurð og rausn og sagðist geta fellt niður geymslugjöldin. Já, takk!
-En hvað er í pakkanum? spurði ég.
-Það er bók í þessum pakka. Við fengum nefnilega leyfir frá þér, eins og þú manst, til að opna pakkann, sem þú borgaðir 495 krónur fyrir, en nú þarftu að senda okkur reikning.
Ég svaraði og sagðist þegar hafa sent upplýsingar í tölvusvari um verð á bók (29,99 dollarar) sem ég hefði pantað frá Bandaríkjunum í janúar og væri ekki enn komin en hefði fengið upplýsingar frá söluaðila um að hann hefði sent nýtt eintak en hvergi kom fram í svari hans að þetta væri 2ja gramma pakki og færi í gegnum Frakkland. Bókin er sem sagt frá Bandarísku fyrirtæki og send í gegnum Frakkland, en samt tekur Pósturinn sérstakt „Kínagjald“ uppá krónur 400. Er stofnunin þá búin að flytja Bandaríkin til Kína á sama hátt og Ísland úr Evrópu? Er Pósturinn með sérstaka spádómsgáfu um yfirtöku Kínverja á öllum heimsins löndum?
Ég spurði þjónustufulltrúann hvernig ég hefði átt að geta mér þess til að í pakkanum væri 2ja gramma bók. Slíkar bækur fást bara í Putalandi sem Gúlliver heimsótti á 18. öld, en væri nú liðið undir lok. Blandaði henni reyndar ekkert í söguna um Putaland. En þarna var þá, sem sagt, komin í ljós, með ærnum kostnaði og fyrirhöfn, sem stóð í 2 vikur, bókin frá bandaríska fyrirtækinu.
Þá fann ég í tölvupósthólfinu mínu póst frá söluaðilanum frá því í byrjun janúar með mynd af reikningi. Þar kemur fram að bókin kostaði 29,99 bandaríkja dali eða um 3.700 íslenskar krónur. Flutningskostnaður var 9,99 dalir eða 1.300 krónur. Samtals 5.000 krónur. Ég hafði sent póstinum verð bókarinnar nokkru fyrr en ekki getið um sendingarkostnaðinn sem var auðvitað fyrir flutningi bókarinnar að dyrum mínum í Reykjavík en ekki til Frakklands sem er í Evrópu en Ísland er ekki lengur þar að skilningi Póstsins eins og fyrr er getið.
Svo kom reikningurinn fyrir alla hina ofurlipru þjónustu Póstsins uppá krónur 1.900 og þegar ég hafði reynt að uppfæra upplýsingar mínar um greiðslukort á vefnum flotta og borgað með kortinu, komu skilaboð um að ekki hefði tekist að skuldfæra fyrir þjónustuna.
Ég hugsaði með mér: Á morgun kemur betri tíð með Fyrsta sumardegi og á föstudaginn reyni ég aftur að greiða með kortinu mínu. En þá fann ég það út á vefnum í millitíðinni að búið væri að skuldfæra þjónustuna, krónur 1.900 og pakkinn kominn í afgreiðslu á Melunum. Skilaboðin um að ekki hefði tekist að skuldfæra voru þar með ekki rétt því greiðslan var nú komin í gengum hina flóknu tölvuheima fyrirtækisins og nú með sérstakri gjaldtöku fyrir að taka við greiðslunni uppá 450 krónur, staðgreiðslu af Debetkorti!
Verðið á bókinni með sendingarkostnaði hafði þar með hækkað um 38%. Og ferlið tekið 2 vikur!
Mynd af reikningnum fylgir hér. Skoðum hann nánar:

Sendingargjald frá Evrópu til Íslands þ.e.a.s. frá Frakklandi kr. 400. Ástæðan er að Kínverjar eru svo sniðugir í samingum við Evrópu. En þetta er ekki pöntun frá Kína heldur Bandaríkjunum!
Næst er Umsýslugjald E3 – Sjálfvirk skuldfærsla kr. 450, gjald fyrir að taka af Debetkorti mínu, sem er ígildi staðgreiðslu. Ekki tekur Bónus 450 krónu gjald fyrir skuldfærslu af kortunum mínum, hvert sinn sem ég geri innkaup þar á bæ og ekki heldur Krónan eða Nettó, ekkert fyrirtæki sem ég þekki, nema Pósturinn.
Þá ber næst að telja fyrrnefnd gjald uppá 495 krónur fyrir að fá leyfi til að þukla 2ja gramma pakkann, opna hann og komast að því að í honum væri bók án reiknings. Hljómar eins og lýsing í æsilegri glæpasögu.
Og að lokum kemur svo krumla ríkisins og tekur 555 krónur af þessum pakka því þetta er bók sem kemur inn í bókalandið mikla og slíkt verður að tolla því það verður að hamla gegn erlendri menningu og listum (þetta er listaverkabók) og sekta fólk sem les bækur á útlensku.
Til þess að viðhalda þessari vitleysu í rafvæddu þjóðfélagi hefur ríkið samþykkt einkavæðingu Póstsins sem er reyndar kominn að fótum fram vegna brasks og ævintýramennsku á liðnum árum með illa ígrunduðum fjárfestingum í óskyldum greinum.
Og við borgum brúsann, íbúar Íslands, sem er sem stendur, utan Evrópu, að skilningi Póstsins.
Hvernig kemst ég framhjá þessu volaða fyrirtæki sem heitir Pósturinn?
Verð ég að semja við fólk sem ferðast með flugi um að bera fyrir mig bréf og pakka á milli landa, milli heimsálfa, því Ísland er ekki lengur í Evrópu?
Næst þegar ég þarf að flytja bók milli landa fer ég kannski bara suður í Leifsstöð og sem við eitthvert burðardýr um að taka bók með sér til mín í bakaleiðinni. Það verður mun ódýrara og fyrirhafnarminna en 2ja vikna þref og flækjustig í Póstinum með ærnum kostnaði.
Tilraun mín til að velja póstbox á Grandanum fór ekki í gegnum tölvukerfi Póstsins sem er auðvitað hannað af hálaunuðum kerfisfræðingum og því varð ég að stíga á bak mínum hjólhesti og þeysa út á Hagatorg og sækja pakkann.
Það reyndist þó vera besta gjörðin í öllu þessu ferli, bæði holl og hressandi. Stúlkan í afgreiðslunni þar var kurteis og elskuleg er hún bað um kennitölu og nafn og kvaddi hjólreiðamanninn sem var Nota Bene bæði með hjálm og grímu.
Tekið skal fram að þetta er ritað á Íslandi árið 2021, en ekki afritað úr bókinni 1984 eftir George Orwell.
Svo rann upp árið 2022 og ég fæ senda bók frá sögufélagi héraðsins í Noregi þar sem ég bjó um hríð. Bókin er skráð sem gjöf og send til Íslands – og viti menn: Tekið er „Sendingargjald – Evrópa“ kr. 400 sem ég á að borga þrátt fyrir að Norðmenn hafi þegar greitt fyrir sendinguna frá Noregi til Íslands. Það þarf sem sagt að greiða tvisvar fyrir að senda eina bók frá Noregi til Íslands. Fyrst borga Norðmenn og svo Íslendingurinn fyrir eina ferð fyrir eina bók frá Noregi til Íslands. Við þetta bætist fyrrnefnt „Umsýslugjald“ 450 kr. fyrir að skuldfæra kortið mitt og loks tollur eða „Aðflutningsgjöld E3“ kr. 372 eða samtals 1.222 fyrir lítið kver sem er gjöf frá Noregi til mín. Sjá reikninginn hér:

Nú er mér nóg boðið. Hvernig kemst ég framhjá þessu volaða fyrirtæki sem heitir Pósturinn?
Ég verð að finna eitthvað annað fyrirtæki.
Hjálp!