Þú getur hlustað með því að halda áfram og velja afspilun.

Heiminum stafar hætta af moldríkum mönnum.
Nú er mikið rætt um kaup Elon Musk, ríkasta manns veraldar, á samfélagsmiðlinum Twitter. Hann er sagður hafa mjög yddaðar skoðanir. Ef hann kemst yfir miðil sem hann getur beitt til að koma sínum ydduðu skoðunum til áhrifa meðal almúgans, þá stafar heiminum hætta af honum og öllum slíkum mönnum, sem í krafti auðs geta farið á svig við lýðræðið og þær stofnanir sem eiga að verja það og efla. Hann er sagður vilja endurreisa Trump!
Svo er það hann Mark Zucherberg (sykurklettur) sem á Facebook sem nú heyrir undir Meta. Hann gæti ákveðið einn daginn að vilja fá ögn meira sætabragð af umræðunni á vefnum stóra eða þróa tiltekna skoðun sína. Og allur heimurinn fer í gang og hlýðir FB. Hrollvekjandi.
Hermenn hryðjuverkamannsins og hrottans, Vladimir Pútins, fara nú með eldi og brennisteini um Úkraínu. Hann er annað dæmi um moldríkan mann sem í krafti auðs og valda svífst einskis enda með brenglaðar hugmyndir um sjálfan sig, land sitt og heiminn.
Ólíkir menn og ekki sambærilegir að öðru leyti en aurum sínum, en auðurinn gerir þá alla hættulega, því margur verður af aurum api, eins og alkunna er.
En setjum nú Ísland í brennidepil. Enda þótt dæmin sanni hér á landi, að lýðræðið sé gallað, þá er Alþingi hinn löglegi vettvangur til að ræða mál og skoðanir og greiða um atkvæði á löglega kjörnu þjóðþingi og setja þjóðinni lög. En, Nota bene, þingið verður þá að vera löglega kjörið. Var núverandi þing löglega kjörið?
Hvernig munu sveitarstjórnarkosningarnar fara? Verða kosningar dagsins löglegar og rétt framkvæmdar?
Spilling er mun útbreiddari í landinu en margur heldur. Alltof margir fljóta sofandi að feigðarósi vegna þess að þeir nenna ekki að móta sér skoðanir, sem byggðar eru á rökum og íhuguðu innsæi. Þess vegna kjósa sauðirnir margir ætíð það sama. Mehehehehehehe! Þeir rata á jötuna eins og féð í fjárhúsum landsins, meðan minnihluti almennings mótmælir á Austurvelli.
Hvað er til ráða? Hvernig er hægt að vekja fólk til alvöru rökræðu um landsins gagn og nauðsynjar? Hvernig er hægt uppræta spillinguna sem grasserar um allt? Hvernig?
Heiminum stafar mikil hætta af moldríkum mönnum en einnig af …
skoðanalausu fólki,
sem kýs yfir sig aftur og aftur,
áframhaldandi spillingu.
Góðar stundir!
– – –
Hugvekjan er eftir Örn Bárð Jónsson sem las hana inn kjördaginn 14. maí 2022.