Fyrir mörgum árum þýddi ég textann góða, Tears in Heaven, eftir Eric Clapton, sem hann orti eftir að hafa misst son sinn sem féll út um glugga háhýsis.
Eric syrgði son sinn og orti þetta ljóð um himininn. Mundi drengurinn þekkja hann þar í fyllingu tímans? Hann veit að hann sjálfur á ekki heima á himum, ekki fyrr en kannski síðar, og því verður hann að halda lífinu áfram og vinna úr sorginni.
Erfitt er að fylgja sagnhætti enskunnar og því þýddi ég textann í framsöguhætti germyndar í stað viðtengingarháttar.
Ung stúlka sem tók þátt í söngvakeppni framhaldsskólanna fyrir margt löngu hafði samband við mig og spurði hvort hún mætti syngja þýðingu mína sem fulltrúi Menntaskólans í Borgarnesi, að mig minnir, og gaf ég leyfi mitt.

En svo týndist textinn og hvarf af netinu en nú hef ég rifjað hann upp og birti hann hér aftur og líklega í sömu mynd og fyrr.
Hér er upptaka þar sem þýðandinn raular textann. Er þetta ekki í lagi?
Muntu þekkja mig
ef ég sé þig á himnum?
Verður allt sem var,
ef ég sé þig á himnum?
Ég þrauka verð,
hald’ áfram ferð
Því ég veit ég á ei heima
hér á himnum
Muntu leiða mig
ef ég sé þig á himnum?
Muntu styrkja mig
ef ég sé þig á himnum?
Ég finna verð
leið, ljúka ferð
Því ég veit ég get ei dvalið
hér á himnum
Tíminn bugar hug
Tíminn beygir kné
Tíminn hjartað sker
Miskunnaðu mér
Hjálpa mér!
Við mærin há
er frið að fá
og ég veit að engin verða
tár á himnum
Muntu þekkja mig
ef ég sé þig á himnum?
Verður allt sem var
ef ég sé þig á himnum?
Ég þrauka verð
hald’ áfram ferð,
Því ég veit ég á ei heima
hér á himnum
Því ég veit ég á ei heima
hér á himnum.
Þýðing: Örn Bárður Jónssons sem á réttinn a íslenska textanum ©