Stutt hugvekja um fyrirgefningu með smá endurbótum. Texti og hljóðupptaka.
Í fréttum vikunnar hefur verið fjallað um afsökunarbeiðni Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins. Hann biðst innilega afsökunar á orðum sínum gagnvart framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, sem hann viðhafði í veislu og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í svari við gagnrýni þingmanna á fundi Alþingis: „Verðum að geta tekið því þegar fólk biðst afsökunar með mjög skýrum hætti“.
Þetta er bara ein frétt en miðlarnir moka út sínum vibrögðum sem er skiljanlegt. Og sumir hafa kallað viðbrögð SIJ „gaslýsingu“ sem er aðferð notuð í pólitík þegar öllu er neitað en svo hengja menn sig á aukaatriði og afvegaleiða umræðuna.
Nú veit ég ekki hvort SIJ hefur haft tal af Vigdísi Häsler sem varð fyrir hans ótrúlegu tjáningu en það verður hann að gera ef í honum er einhver veigur sem persónu. Alvöru iðrun og fyrirgefning verður ekki framkvæmd með einhliða yfirlýsingu um afsökun.
En þetta mál leiðir hugann að því með hvaða hætti menn biðjast afsökunar og þá sérstaklega ef menn biðjast fyrirgefningar.
Börn sem gert hafa á hlut annars barns segja gjarnan snöggt og snúðugt: Fyrirgefðu! Þá er það gerandinn sem sendir frá sér einhliða yfirlýsingu og ekkert annað. Hann hrifsar til sín fyrirgefninguna sem er ekki hægt því hún verður að koma frá þolandanum, þolandinn er dómarinn.
Sá sem biðst fyrirgefningar á einhverju veit sig sekan og því þarf hann að biðja þolandann um að fyrirgefa sér, segjast sjá eftir orðum sínum eða gjörðum og lýsa því með hvaða hætti hann muni leita betrunar.
Að biðjast fyrirgefningar og sættast er í raun réttarfarslegur gjörningur þar sem spurt er: Viltu fyrirgefa mér?

Hinn seki biður þolandann að fella dóm og náða sig. Valdið er þar með hjá þolandanum, sem getur neitað og dæmt hinn seka til að bera verknað sinn áfram óuppgerðan. Það er einskonar refsing. En ef þolandinn fyrirgefur þá náðar hann hinn seka og þar með er málið búið.
Enginn getur tekið sér fyrirgefningu með einfaldri yfirlýsingu. Hinn seki getur bara lotið lágt, iðrast og farið fram á dóm í von um náðun. Gerandi verður að tala við þolanda og leysa málið fyrir dómstóli hins síðarnefnda.
Þetta þarf að kenna í uppeldinu heima og á leikskólum og reyndar á öllum menntastigum. Þetta tilheyrir grundvallarsýn á sekt, dóm og sættir í mannlegum samskiptum og kunnátta í þessum efnum á að fylgja fólki ævina út.