Borgin Lviv í Úkraínu og kaldhæðni örlaganna

Greinin er eftir blaðakonuna, Maren Kvamme Hagen, og birtist á vef NRK (Norska ríkisútvarpsins) og er hér endursögð og lesin inn af Erni Bárði Jónssyni með leyfi höfundar og birt á vefsíðu hans ornbardur.com.

Borgin Lviv

Rússar réðust einmitt á þessa borg, sunnudaginn 13. mars 2022. Í grein á vef NRK, norska ríkisútvarpsins, er rætt hvers vegna borgin búi yfir vissri ógn fyrir rustann í Rússlandi.

Árið 2010 fékk Philippe Sands í London boð um að flytja fyrirlestra um störf sín við háskólann í Lviv. Sands er leiðandi sérfræðingur á sviðinu „glæpir gegn mannkyni“, þ.e. mál um dráp, þjóðarmorð og nauðungarflutninga borgara á tímum styrjalda. Í ferilskrá hans finnast mál frá Júgóslavíu, Rwanda, Kongo, Afganistan, Téténíu, Sýrlandi, Íran og Írak.

Lviv? Sands hafði varla heyrt orð áður um borgina, en landakortið sýndi að Lviv liggur á krossgötum milli austurs og vesturs í Evrópu.

Þetta vakti áhuga Sands og hann sló til. Í borginni búa um 700 þúsund manns og hún er oft kölluð menningarmiðstöð Úkraínu. Stór hluti borgarinnar er á varðveisluskrá Unesco. Borgin er einskonar Vínarborg Úkraínu. Í dag 13. mars 2022, réðust Rússar á borgina.

En taktu nú eftir. Þeir tveir menn sem standa að baki helstu kenningum og rannsóknum á alþjóðlegum refsirétti gegn stríðsglæpamönnum stunduðu einmitt nám í Lviv.

Glettni örlaganna

Í liðinni viku voru hugtökin „glæpur gegn mannkyni“ og „þjóðarmorð“ uppi á borðum í Haag.

Alþjóðadómstóllinn þar í borg hóf rannsókn á mögulegum brotum gegn mannkyni sem eiga að hafa átt sér stað í Úkraínu.

Um leið hefur Úkraína beðið Alþjóðadómstól SÞ um að slá því föstu að þjóðarmorð hafi ekki verið framið í landinu, en sú ásökun er meðal röksemda Pútins fyrir innrásinni.

Philippe Sands (61) sem býr í London finnst þetta vera afar kaldhæðnislegt.

Frá fyrstu heimsókn hans til Lviv árið 2010 hefur hann komið þangað árlega. Hann hefur í senn rannsakað sínar eigin rætur (afi hans fæddist í borginni) og einnig grafið upp söguna um stúdentana tvo sem breyttu sögu réttvísinnar. 80 árum síðar eru hugmyndir þeirra í deiglu stríðsins, fullyrðir lögfræðiprófessorinn.

Hann fann Hersch Lauterpacht, lögmanninn á bak við hugtakið „glæpur gegn mannkyni“, og Raphael Lemkin, manninn á bak við hugtakið „þjóðarmorð“. Sagan hafði gleymt þessum mönnum en Sands dustaði rykið af spennandi lífi þeirra tveggja sem breyttu sögunni.

Báðir voru stúdentar við háskólann í Lviv og gyðingatrúar og fengu snemma að kenna á því hvernig stríð getur leikið fólk.

Fyrri stúdentinn

Hersch Lauterpacht fæddist í Zólkiew, litlum bæ nálægt Lviv árið 1897. Fjölskyldan flutti til Lviv þegar Lauterpacht var 13 ára og fáum árum síðar hóf hann nám í lögfræði við háskólann þar í borg.

Fyrri heimsstyrjöldin hafði mikil áhrif á fólkið því bardagar áttu sér stað á svæðinu. Á síðasta námsári hans lauk styrjöldinni en Lviv varð vettvangur átaka milli Úkraínumanna og Pólverja. Fjölskylda hans var gyðingatrúar og lenti í eldlínunni á milli hópanna. Lauterpacht stóð vaktir á íbúasvæði gyðinganna. Margir gyðingar töpuði lífi í því sem kallað var pogromar (ofsóknir og fjöldamorð á einstökum hópum).

Pólland gekk sigrihrósandi frá þessum átökum og tók yfir borgina, sem hlaut nafnið Lwów. Vegna staðsetningar sinnar, mitt á milli austurs og vesturs, hefur Lviv átt óvenju marga valdhafa og borgin gengið undir ýmsum nöfnum.

Árið 1919, eftir að hafa lokið námi, ferðaðist Lauterpacht til Vínarborgar. Hann tók lestina frá sömu lestarstöð og var í fréttum sunnudagsins 13. mars, þar sem flóttamennirnir sáust leita sér að samastað.

Í Vínarborg, eins og víða í Evrópu, var uppgangur antísemitismans í algleymingi. Það var einmitt þar sem Adolf Hitler þróaði sínar brengluðu hugmyndir, sem ungur, misheppnaður listnemi.

Lauterpacht sökkti sér niður í alþjóðalög og hóf að skrifa doktorsritgerð sína. Hann þótti óvenjuhæfur nemandi með hestburði af gáfum.

Árið 1923, eftir að hafa kvænst, ferðaðist Lauterpacht með samnemendum sínum til Englands. Síðar varð hann prófessor við háskólann í Cambridge.

Á sama tíma hafði Síðari heimsstyrjöldin hörmulegar afleiðingar fyrir fjölskyldu hans í Lviv og Zólkiew. Þau féllu fyrir morðhundum nasista.

Lauterpacht vann hörðum höndum að því að þróa kenningar um réttlæti og mannlega reisn. Andspænis enn annarri styrjöld hugsaði Lauterpacht tært og skýrt sem lögfræðingur þrátt fyrir miklar persónulegar fórnir. Við þessar aðstæður bjó hann til orðaþrenninguna: „crimes against humanity“ eða „glæpir gegn mannkyni“ sem sló í gegn í réttarferlinu sem kennt er við borgina Nurnberg í Þýskalandi.

Hinn stúdentinn

Á sama tíma sem Lauterpacht vann að því að fá hugtakið „glæpur gegn mannkyni“ inn í réttarhöldin í Nurnberg, færði Raphael Lemkin rök fyrir því að besta leiðin til að refsa nasistum væri að fá þá ákærða fyrir „þjóðarmorð“.

Lemkin fæddist árið 1900 í Bialystok, bæ sem nú tilheyrir Póllandi og er við landamæri Hvíta-Rússlands. Hann fékk einnig að upplifa að valdbeiting beið við sjóndeildarhringinn. Þegar Lemkin var sex ára voru hundruð gyðinga drepnar í bænum.

Árið 1910 flutti fjölskyldan til annars bæjar, en þegar Fyrri heimsstyrjöldin skall á varð sveitabærinn þeirra lagður í rúst og fjölskyldan varð að koma sér burt.

Lemkin var 18 ára þegar hann hóf að brjóta heilann um hugtakið „þjóðarmorð“ eða útrýmingu hópa fólks. Hann heyrði í fréttum sagt frá fjöldamorðum á Armenum.

Lemkin stundaði einnig nám í Lviv, þar sem hann stundaði doktorsnám 1921-1926. Eftir það hóf hann störf sem lögfæðingur hjá hinu opinbera. Þegar Hitler komst til valda, varð hugtakið þjóðarmorð mikilvægara en áður. Hann einsetti sér að þróa refsirétt út frá hugtakinu.

Hugtakið náði ekki inn í ferlið í Nurnberg en hefur allt frá þeim dögum verið þekkt í alþjóðalögum.

Metsölubók

Sagan um stúdentana tvo er tekin úr bók Sands „Aftur til Lemberg“, [nafnið gáfu nasistar borginni á sínum tíma] sem kom út árið 2017. Bókin var útnefnd besta fræðirit sem út kom í Bretlandi það ár og hefur síðar komið út í 24 löndum.

Bókin hefur klifið sölulistana og Sands fær tölvupóst frá lesendum og blaðamönnum frá öllum heimshornum.

– Fólk uppgötvaði bæinn, sem ég gleðst yfir, en ég fann hann hins vegar vegna sorglegra atburða, segir hann.

Philippe Sands sýnir í bókinni hvernig námsmennirnir tveir áttu sameiginlegt markmið, en komu með ólík svör um hvernig vernda mætti fólk gegn stríði. Þeir trúðu báðir á möguleika lögfræðinnar á rósturtímum, en unnu með ólík hugtök og mismunandi réttarfarslegar aðferðir.

Við erum ekki bláeygir bjánar

Philippe Sands kynnti nýlega tillögu um að stofna eigin dómstól vegna stríðsins í Úkraínu. Á bak við frumkvæðið stendur með honum utanríkisráðherra Úkraínu og fv. forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown. Hugmyndin er að ná því að draga einstaklinga til ábyrgðar fyrir stríðið í heild. Af ólíkum ástæðum getur dómstóllinn í Haag nefnilega ekki rannsakað ofbeldislögbrot, sem ná yfir heilt stríð, frá upphafi til enda.

Á blaðamannafundi þar sem tillagan var kynnt, voru nokkrir sem spurðu: Hefur slíkt frumkvæði einhverja þýðingu, þegar stríðið er þegar hafið, sprengjurnar falla og almenningur deyr?

Sands útskýrði að stríð sé eitt samhangandi lögbrot og að rannsóknin taki til þess að velta við hverjum steini.

– Hver einasta árás á hvert og eitt hús, á kjarnorkuver, á hvern einstakling, er hluti af stríðsrekstrinum. Við erum ekki bláeygir bjánar þegar alþjóðalög eiga í hlut og við vitum ekki hvað kann að koma út úr þessu, en að aðhafast ekkert er ekki valkostur, sagði Sands skýrt og skorinort, en með mildi og mjúkum raddblæ.

Sprungan sem hleypir ljósinu inn

Á blaðamannafundinum og í viðtölum við blaðamann NRK var Sands, á heimili sínu í London, með stórt málverk í bakgrunni. Hann útskýrði að hann hefði keypt málverkið af óþekktum listamanni, Nicholas Jolly, sem í dag á verk í The Metropolitan Museum of Art.

Verkið hefur yfir sér óhuggulegan blæ þrátt fyrir heiti verksins: „Fjölskyldan.“ Í verkinu eru óblíð andlit í dimmum kjallara, tveir gluggar hleypa inn ælugrænni birtu um leið og dimmur skuggi manns ræður í forgrunni.

– Þetta er óreiðuhús. Kalla mætti það hina evrópsku fjölskyldu, segir Philippe Sands, með órætt bros á vör.

– Konunni minni líkar það ekki, en ég hef mætur á því.

Hann vinnur með lög, hann ritar bækur, störf sem ætla mætti að væru ólík: annað lýtur stjórn reglna og lagagreina en hinu er ætlað að víkka sjóndeildarhringinn á skapandi hátt. Hvaða þýðingu hafa þessi tvö svið að segja í slíku kreppuástandi, fyrir hann og heiminn?

– Hjartslátturinn í öllu sem ég geri er hugmyndin um réttlæti, hvort sem það er gert með vísun í harðan heim laganna eða með því að opna ímyndunaraflið með skáldskap.

Upp á síðkastið hefur Sands verið upptekinn af yfirstandandi tíð – hvaða lærdóm höfum við dregið? Hvert stefnum við? Hafa hlutirnir skánað?

Hann segir að orð sem hafi gefið hugsunum hans vængi sé að finna í texta eftir Leonard Cohen, Anthem, en þar segir: „There is a crack in everything, that’s how the light gets in“.

– Burtséð frá því hve myrkrið sé svart, finnast möguleikar, og við verðum að halda í vonina, samstöðuna og samheldnina.

Sagan sýnir að unnt er að draga stríðsherra fyrir rétt, burtséð frá því hve óraunsætt það kunni að virðast í fyrstu, en leiðin er löng. Ár kunna að líða áður en Pútin og aðrir verði dregnir til ábyrgðar fyrir stríðsreksturinn í Úkraínu.

Á sama tíma streymir flóttafólkið til Lviv. Borgarstjórinn sagðu nýlega að bærinn væri að yfirfyllast. Samvkæmt NTB (norsku fréttaveitunni) hefur 440 menntastofnunum og menningarmiðstöðvum verið breytt í herbergi fyrir flóttafólk.

Eftir að Sands sagði söguna um stúdentana tvo frá Lviv, setti háskólinn í Lviv upp mynd af þeim á vegg.

Þaðan horfa Lauterpacht og Lemkin á enn eitt stríðið.

Hér er tengill á norsku greinina:

https://www.nrk.no/kultur/xl/byen-lviv_-philippe-sands-og-skjebnens-ironi-1.15879415

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.