Að blóta

Heldur þykir mér þeim hafi skriplast á skötu almannatenglum Goða og Kjarnafæðis þar sem þeir hafa látið fúkyrðin ganga yfir þjóðina dögum saman í auglýsingum sínum um þorramat.

Myndin var fengin að láni á vefnum.

Blót er skv. orðabók Árnastofnunar: „1.trúarathöfn til heiðurs guðum í heiðnum sið“. Merking 2 er hins vegar útskýrð svo: „ljótt orðbragð, bölv“.

Fólk fagnaði þorra forðum daga og það var hvorki gert með bölvi né ragni heldur lotningu gagnvart goðum og guðum, náttúruöflum og hinu stóra samhengi alls sem er.

Auglýsendur og stórnendur fyrirtækja þurfa að vera næmir fyri menningu og sögu, siðum og venjum og gæta sín á nálægðarmörkum gagnvart fólki. „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“, segir í ljóði Einars Benediktssonar, Einræður Starkaðar. Þeir eiga að vita að blót og bölv er tvennt ólíkt.

Svonefnd þorrablót urðu algeng á liðinni öld og endurvakin af veitingahúsi í Reykjavík, sem vinur minn og kollega, séra Halldór heitinn Gröndal, stýrði á sínum tíma, áður en hann lauk guðfræðiprófi og fór að deila út brauði og víni í kirkjunni. Veitingahúsið Naust var vinsælt og þótti eitt það fínasta í landinum um árabil.

Þorrablótin voru endurvakin um land allt. Ég man þegar afi minn fór með sitt trog á þorrablót eða þorragleði í Gúttó á Ísafirði uppúr miðri síðustu öld og naut þar þjóðlegra rétta, hlustaði á harmonikkuspil og fékk sér snúning. Þetta voru góðar og þjóðlegar skemmtanir en lausar við bölv og ragn, blótsyrði og djöfulgang, nema einn og einn gestur færi kannski framúr sjálfum sér og öðrum hófsamari í dálæti á snöfsum og yrði sér til skammar.

Nú hafa fyrrnefnd fyrirtæki orið sér til skammar og gengið fram af mörgum landanum.

Ég sendi báðum fyrirtækjunum tölvupóst og fékk svar um að þeir hafi „verið að leika sér með tungumálið“ en hafi nú ákveðið að eftirleiðis verði sett „bíp“ yfir bölvið, breitt verði yfir ósómann og skömmina. Það er kannski fyrsta skref í átt til iðrunar og eftirsjár sem leiðir til þess að sekir biðji fólk að fyrirgefa sér eins og bréfritarinn bað mig. Honum verður þar að ósk sinni hvað mig varðar.

En mér finnst fyrirtækin bæði tvö og fjölmiðlar einnig – og þar með Ríkisútvarpið – sem er allra landsamanna, þurfi að biðja þjóðina afsökunar á að hafa útvarpað blótsyrðum dögum saman með orðfæri andskotans yfir landsmenn, nú þegar sólin er blessunarlega loksins farin að lyfta sér í hænufetum upp himinhvolfið og við farin að vona fyrir endann á kófinu, ætlandi okkur að þreyja bæði þorrann og góuna.

Gleðilegan þorra!

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.