
Ég vara þig við því þetta er montfærsla á samfélagsmiðli.
Í dag hjólaði ég úr Miðbæ Reykjavíkur, vestur í Sundlaug Seltjarnarness. Synti þar skriðsund og gerði æfingar, fór í heitan nuddpott og gufubað, sem er reyndar annað en Sauna – Nota Bene!
Eitt af verkefnum dagins var að fara í verzlunina Litur og föndur á Smiðjuvegi í Kópavogi. Ég stóð eins og ungbarn, sem reyndar getur ekki staðið, en ég nota samt þá líkingu, því þegar ég var í lauginn, var skýjafarið svo stórfenglegt og myndrænt, að þar sveif ungbarn, sem var með það í undirbúningi að teygja vinstri höndina upp að munninum til að sjúga puttann. Skýin eru oft mikil listaverk og ég hafði einmitt verið að stúdera ský á netnámskeiði fyrr um daginn! Tilviljun? Nei!
Nú ertu auðvitað búin/n að missa þráðinn: Ég var semsagt nýbaðaður sem ungabarn, „klæddur og kominn á ról“ og rökræddi við sjálfan mig hvort ég ætti að leggja það á mig að hjóla suður í Kópavog, sem er heimsfrægur fyrir skipulag – eða þannig.
Ég var svo léttur á mér eftir bað og sund að ég lét mig hafa það.
Ég hjólaði Ægisíðuna sem var falleg, eins og hún er í næstum því flestum veðrum, en þó ekki öllum, en sem ég er kominn suður fyrir flugvöllin og Fossvogurinn framundan þá sé ég dimm ský yfir Álftanesi og Bessastöðum – og ég hugsa: „Ég vona nú að allt sé í lagi hjá Guðna forseta og Elízu og börnunum. Þau þurfa nú að vera í standi fyrir jól og áramót, matarboð og veizlur og allt það!“
Nú var komið él yfir Kópavogshálsinn og ég gaf bar í og lét mig hafa það í bómullarbuxum (gleymdi regnbuxunum heima) að hjólaði í gegnum Fossvoginn en þá gengu él yfir mig og rengskúrir þannig að ég blotnaði dálítið að austanverðu.
En þegar ég kom í Fossvogsdalinn, þar sem ég mætti, að mig minnir þremur manneskjum, sem litu hvorki til hægri né vinsti, en hengdu haus og vörðust þannig regni og vindum. En þrátt fyrir þær móttökur hverfisbúa gangvart „aflraunamanni“, sem var einn á ferð á sínum rafhjólfáki og þar á ofan blautur á austurhliðinni, hélt ég ótrauður áfram, beit á jaxlinn (já, ég er ekki með falskar) og hélt áfram inn allan Fossvoginn og upp brattar brekkur og inn Smiðjuveginn og komst loks í Liti og föndur.
Ég tjóðraði rafhjólið við rammgert stálvirki og hélt inn í minni múnderingu, þ.e.a.s. blárri úlpu með skærgulu vesti yfir, með hjálm, þykka svigskíðahanska (en gæti þess þó að fara ekki í svig og rása sem minnst), í bómullarbuxur, dökkbláum, ögn of síðum, nútímaskóm (þú veist þessum sem eru úr einhverju næloni og halda hvorki vatni né vindi, eru í raun sem sokkar, eru töff og þess vegna kaupir maður svon skó, enda danskir og minna á orðið bergmál).
Já, ég minntist á buxurnar, sem höfðu áður blotnað að austanverðu.
En þegar ég leitaði eftir farsímanum var hann hvergi að finna. Hvorki í buxnavösum né úlpuvösum sem eru út um alla flíkina svo það tekur tíma að gera vörutalningu. Um huga minn flugu orðin: „Hef ég týnt 150 þúsund króna símanum mínum á leiðinni í Kópavog af öllum stöðum?!!!“ (Þetta eru ekki fordómar, ég tek það fram. Ég hefði alveg eins getað verið á leiðini í sama éljagangi í Mosfellsbæ að íhuga Guðsjafarþulu eftir skáldið góða í Dalnum).
Ég hefði auðvitað miklu fremur getað týnt símanum á leið til Mæamí v.þ.a. að hann hefði verið tekinn af mér eins og allt annað í eftirlitinu í Leifsstöð og því hefði ég skilið hann eftir á færibandinu eins og þunnildi sem sent er í afskurð og refafóður. En ég var bara ekki á leiðinni í sól og sumaryl, í golf og spilavíti hjá Trump. Nei, ég var bara á hjóli í leið í Kópavog og lenti í éli og blotnaði á austurhliðinni.
Ég stóð sem sagt þarna inn í Litum og föndri, skipti litum og velti því fyrir mér hvað ég ætti að gera því innkaupalistinn minn var auðvitað í rímænders í símanum sem hvergi fannst. Ég bar mig illa og spurði hvort ég gæti fengi að hringa í Sundlaug Seltjarnarness.
Afgreiðslufólkð var í fyrstu spyrjandi: „Höfum við einhverja ábyrgð á einhverjum gömlum karli í blárri úlpu með neonvesti utanyfir sem er auk þess blautur að austanverðu?“
Ég fékk síma, svona þráðlausan frá síðustu öld, sem er hvorki borðsími né farsími. En mig vantaði númerið í lauginni góðu! Konurnar sýndu stillingu og flettu því upp í farsíma staðarins og ein þeirra kallaði til mín hátt út í búðina þar sem ég stóð með þráðlausa, gamaldags-símakriflið: fimmsexeinnfimmtánfimtíuogeinn. Ring, ring og svo svaraði þessi elskulega kona af erlendum uppruna sem hafði geymt símann minn og ég spurði hana í ofvæni um símann minn! Hún var ekki viss en kallaði á aðstoðarkonu sem spurði: „Hvernig er hann í á litinn? Í hvernig hulstri?“ Ég svaraði: „Brúnt eða svona dimmfjólublátt.“ Og hún svaraði: „Já, hann er hér.“
Vá, hjartað tók kipp eins og hjá fjárhirðunum forðum í Betlehem sem voru þó algjörlega símalausir og algjörlega ókunnugt um Alnetið en samt í beinu sambandi við Alheiminn og sjálfan stjórnandann þar! Flottir strákar sem vissu upp á hár hvað var að gerast en þó ekki við fyrsta sjokkið heldur bara eftir að englarnir hringdu með hringingu sem er hvergi hægt að fá í dag, sama hvað farsíminn kostar.
Ég sagðist mundu sækja símann innan tíðar. Þvílíkur léttir. Hann var þá til eftir allt saman og ég var á leiðinni – eða var hann kannski á leiðinni til mín, hann sem stjórnar lífi mínu og opnar mér allar leiðir og opnar mér leyndardóma, alla þekking og fyllir hjartað einhverri ólýsanlegri kennd, sem gerir mann óeigingjarnan og svo tryllingslega vísan, að allar hagtölur heimsins skipta engu, Bitkoin og allar myntir, hvort sem er úr málmi eða pappír, rafurmagni, gulli eða silfri, skipta bara engu og meira að segja Rafmyntaráð Íslands mundi bara klóra sér í hausnum yfir og seja: Þessi kennd er öllu jarðneskum verðmætum æðri!
En aftur að rímænder-listanum sem var í símanum. Ég varð að fá leyfi til að komast í tölvuna í búðinni til að leita eftir námskeiðinu sem ég er á í henni Ameríku og finna litina sem kennarinn mælti með:
Ultramarine-blár,
Cobalt-blár,
Primary-blár,
Pthalo-blár,
Permanent-grænn medium (þó ekki fyrir hár),
Viridian,
Napólí-gulur,
Fölur kadmíum gulur (já, lífið er ekki alltaf dans á rósum),
Frumgulur,
Fílabeinssvartur – ég hef alltaf haldið að fílabein væri hvítt. Liturinn er líklega notaður til að villa á sér heimildir sem á þó ekki við um prestshempuna því hún kemur ætíð upp um mann. Minnir mig á að Van Gogh var eitt sinn að rannsaka málverk eftir einn af hinum frægu, flæmsku málurum og á málverkinu var kona í svartri hempu. Og Bingó! Viti menn: Van Gogh fann 27 mismunandi svarta liti í einni og sömu hempunni. Já, hempurnar eru margslungnar, flottar og marglitar í raun, þótt þær virðist – bara – svartar! Van Gogh skar svo af sér eyrað við annað tækifæri, en það er önnur saga, enda gagnaðist það honum ekki í leit að litum. Já, ég var að tala um Fílabeinssvartan! Svo kom Zínk-hvítur og af honum þarf slatta.
En þá var þetta auðvitað gjörsamlega framandi tölva, einhver fornaldar gripur Micrósoft, Smámjúkur. Er gaman að vera smámjúkur? (Þetta nafn á fornaldartölvu minnir mig á nafnið á hinni fögru Mjallhvít sem Vestur-Íslenski teiknarinn, Thorson, hjá Disney, teiknaði af konu frá Siglufirði, sem hann var skotinn í.)
En lyklaborðoð og tölvan voru af sama sauðahúsi og ég kunni ekki að slá inn att-merkið, þú veist, a-ið með sveiflunni – sem er svona: @ – og opnar allar dyr eins og orðin „sesam, opnist þú!“ sem Alibaba kunni.
Þetta tókst eftir nokkrar tilraunir. Mér fór að líða betur og mér var loksins farið að hlýna á austurhliðinni.
Til viðbótar átti ég að kaupa liti ástar og hita: Feneyja-rauðan,
Alízarín crimson (ekkiert skyldur þekktum manni sem ber eftirnafni Grimsson) og
Frumrauðan (en hann vísar ekki til hesta).
Nóg um litbrigði lífsins í bili.
Jæja, ég komst á stíginn og loks niður Fossvogsdalinn og í gegnum Vogahverfið, meðfram Reykjansbrautinni og Sæbrautinni og loks að Hörpunni og nýbyggingunni sem geymir dýrustu íbúðir Íslandssögunnar, sem alvitrir fjölmiðlar vita að kosta mörghundruð milljónir og það tilbúnar undir tréverk, þ.e.a.s. tilbúnar en ekki timbraðar.
Ég fann loks gvassið og penslana, pallettuna og allt sem ég þurfti að kaupa, borgaði með korti, fékk nótu og allt það, þakkaði fyrir þjónustu og hjálpsemi – og hélt út á Smiðjuveginn á ný, sem nú vísaði niðurímóti. En til að komast inn á hjólastíg neðar í götunni þurfti ég að komast á milli bíla á þeim tíma dags þegar borgin okkar þjáist af lúmenskorti og var nærri orðinn undir bíl þjóðþekkts manns sem stöðvaði bílinn ögn of seint, svo ég komst ekki framhjá honum þar sem hann blokkeraði aðganginn á hjólastígnum. Hann hafði fyrir því að opna gluggann bílstjóramegin enda með rafmagnsupphalara – og reyndar einnig niðurhalara. Og ég spurði: Ætlarður ekki, nafni minn, að hleypa mér inn á hjólastíginn? Hann brosti sínu breiðasta í gegnum krullurnar og sagðist vera að reyna að rata í Kópavoginum og lét sem hann hefði ekki verið í símanum að leita leiðsagnar.
Jæja, ég komst um hafnarsvæðið, í gegnum gamla Slippinn og út á Seltjarnarnes þar sem síminn minn kæri, beið eins og þægt barn eftir pabba, sem hafi gleymt honum. En hann var þó ekki með handlegginn á uppleið til að sjúga puttann eins og barnið sem birtist mér á himninum er ég var rennblautur í sundi.
Ó, sú gleði og hamingja, að finna aftur símann, sem týndist! Þvílík gleði og gæfa.
Einu sinni týndist sjálft jólabarnið, en þó ekki sem bleyjubarn, heldur með barnaskóplapróf, 12 ára, og hafði þá slegið alla kennara landsins út af laginu. Rúllaði þeim upp í Gettu betur.
Duglegur strákur, hann Jesús.
Og nú átti ég bara eftir að hjóla aftur í 101, koma við í einni búð, sem ekki má nefna – og komast heim!
Já, aðventan snýst um komu, um Hann sem kemur, um Hann sem kom forðum, eins og barnið, sem ég sá í skýjum himinsins fyrr í dag, þar sem ég var sjálfur nánast eins og barn í laug, næstum fatalaus, en fékk þó að njóta hlýju og umhyggju, sem samfélagið veitir mér.
Jólin eru að koma. Hátíðin hans sem breytti heiminum og hafði meiri áhrif en nokkur önnur persóna veraldarsögunnar. Hann heitir Jesús og er Kristur, frelsari allra manna.
Hann fæddist fyrir austan, þaðan sem austanáttin kemur, sú sem minnti mig á sig á austanverðum líkama mínum er ég fór í gegnum Fossvoginn.
Regnið hans, skírnarvatnið, fossar á mig og fossar enn, vatnið úr lindinni einu sem líknar og blessar, hreinsar mig og þig um alla eilífð og segir:
Ég – elska – þig!
– – –
Aðventuþankar eftir Örn Bárð Jónsson, fyrrverandi sóknarprest, og núverandi sund- og hjólreiðamann – og eilíft barn Guðs.
Höfundur óskar þér friðsællar aðventu og gleðilegra jóla!