Má hefta tjáningarfrelsi, var rétt að loka á Trump?

Enurskoðuð grein að hluta til sem áður birtist í Kjarnanum 16. janúar 2021.

Tjáningarfresli ætti að vera öllum heilagt sem búa í lýðræðislegu þjóðfélagi og reyndar hvar sem er. Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðisins og farsæls lífs á jörðinni.

En eru einhver mörk á því hvað fólk getur sagt á opinberum vettvangi?

Vissulega er það mjög umdeilanlegt að samfélagsmiðlarnir Twitter og Facebook hafi sett hömlur á tjáningu Trumps forseta. Sumir hafa fagnað þeirri ákvörðun meðan aðrir harma hana.

Tjáningarfrelsi felur það í sér að mér er heimilt að tjá mig um hvað sem er og með þeim hætti sem ég kýs, en ég verð jafnframt að standa og falla með því sem ég segi hverju sinni. Að hefta mann sem er í senn vinsæll og líka afar óvinsæll, kosinn nýlega af 70 milljónum Bandaríkjamanna, þó ekki nægði til sigurs, er mjög alvarleg gjörð. Nú er ég enginn aðdáandi Trumps, finnst hann fyrirlitlegur á margan hátt, en hann á þó sinn rétt til tjáningar eins og ég og þú. Tilfinningar mínar eru eitt en skoðanir og rökhusun mega þó ekki lúta valdi þeirra. Hvað munu þær milljónir manna gera á næstu vikum og mánuðum sem telja að kosningunum hafi verið stolið af Trump?

Fengi að láni af Vefnum

Hver hefur vald til að þagga niður í öðrum? Enginn hefur í raun það vald, en samt er því valdi beitt.

Skoðum nú hver á samfélagsmiðlana sem milljónir um allan heim nýta sér til að tjá skoðanir sínar, miðla sem væru ekki neitt án okkar sem notum þá. Eigum við þessa miðla? Nei! Á almenningur þessa miðla? Nei! Þessir miðlar eru í einkaeigu.

Morgunblaðið og Fréttablaðið, svo dæmi séu tekin, eru einkareknir fjölmiðlar, sem geta auðvellega neitað að birta grein eftir hvern sem er, ef ritsjórninni líkar ekki það sem greinarhöfundar vilja fá birt á síðum blaðanna. Þessi blöð eru í einkaeigu, hvort sem það eignarhald er á einni hendi að margra svo sem hluthafa.

Ritstjórnir hafa vald og geta neitað og sett stein í götu hvers sem er, ef svo ber undir.

Frjálsir og óháðir fjölmiðlar eru mikilvægir en hver getur tryggt slíkt hlutleysi?

Líklega er mikilvægst að í hverju lýðræðislegu þjóðfélagi séu starfandi fjölmiðlar sem eru í eigu almennings, kjósenda í landinu. Þá er í það minnsta mögulegt að veita slíkum fjölmiðlum lýðræðislegt aðhald. Og yfir þessa fjölmiðla er sett fólk sem við, almenningur, höfum kosið til pólitískrar ábyrgðar. Þau sem sitja í Útvarpsráði eiga að tryggja jafnvægi og aðhald svo að Rúv starfi í þágu almennings og spegli fjölbreytni skoðana.

Mogginn er þekktur um þessar mundir fyrir einhliða áróður í forystugreinum og svonefndum Staksteinum, en mér virðist blaðið þó vera opið fyrir tjáningu fólks af öllu tagi og fréttaflutningur er ekki áberandi einhliða þótt sumt sé augljóslega birt beinlínis v.þ.a. það er á réttri flokkslínu. Eitt sinn sagði prestur í líkræðu um Moggann þegar ekki var tóm til þesa að lesa upp löng æviágrip og verkefni hins látna í smáatriðum, að um það gætu áheyrendur lesið nánar í dagblaði því „sem þjónar dauðanum öðrum miðlum betur.“ Enginn stenst Mogganum snúning í þeim efnum!

Fjölmiðlar, eins og t.d. BBC í Bretlandi og Rúv á Íslandi, eru í almannaeigu en sæta nú gagnrýni, einkum hægri afla, fyrir að vera ekki nægjanlega hlutlægir í öllum málum. Sé það reyndin, þá er í það minnsta hægt að andmæla slíku undir fána hlutleysir og lýðræðis og sama á reyndar við um aðra, einkarekna fjölmiðla. En munurinn er sá að hinir opinberu miðlar verða að taka tillit til gagnrýninnar meðan hinir geta bara ullað á lýðræði og hlutlægni og farið sínu fram. Að vísu geta einkareknir fjölmiðlar orði fyrir búsifjum ef kaupendur segja upp áskrift. Hvað varðar Rúv þá get ekki sagt upp áskrift.

Við búum í breyttum heimi. Samfélagsmiðlar og Netið eru gríðarlegir áhrifavaldar í lífi milljarða fólks. Eigandi Facebook gæti til að mynda sest við tölvuna sína og skoðað út frá algrímum hvort honum líki ásýnd umræðu heimsins eða ekki. Hann gæti, í krafti eignarhalds síns og valds, ákveðið að hann vildi sjá annan blæ á umræðunni í heiminum og fengið vilja sínum framgengt. Þetta er nýtt að einn maður geti stýrt umræðu heimsins alls og haft áhrif á skoðanamyndum milljarða fólks með einum takka á lyklaborði.

Herra Algrímur ræður hvað ég sé á miðlum því hann er búinn að reikna út hvað ég skoðaði á Netinu í gær og sendir mér því greinar og myndir sem hann heldur að ég vilji sjá. Þar með ýtir Herra Algrímur undir einsleitni skoðana með því að fóðra fólk á afmörkuðum sviðum.

Hvernig getum við tryggt réttláta og heiðarlega fjölmiðlun?

Einfaldasta svarið er:

Leyfum fólki að tjá sig og heftum ekki tjáningarfrelsið, því það er heilagur réttur hvers og eins.

Hver og einn verður svo að standa og falla með orðum sínum og gjörðum, fá á sig brim og ágjafir eða vinsældalækinn rennandi tæran, sem sumir þrífast ekki án. Og nú eru lækin orðin sálfræðilegt rannsóknarefni!

En umfram allt þá er mikilvægast í hverju samfélagi að kenna fólki að hugsa rökrétt, að kenna því að lesa og skrifa og skiptast á skoðunum.

Lútherska kirkjan kenndi Íslendingum að lesa fyrr á öldum og bjó það þar með undir að tjá sig og taka þátt í þjóðfélagslegri umræðu. Þessu má gjarnan halda til haga á tímum ágjafa og andúðar í garð kristinnar kirkju.

Heimspekingurinn Voltaire sagði eitthvað á þessa leið:

„Ég er ósammála því sem þú segir, en ég er reiðubúinn að verja rétt þinn til að tjá þig á þennan hátt, fram í rauðan dauðann.“ (Þýð. mín úr ensku)

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.