Til Davíðs Þorlákssonar vegna Bakþanka hans í Fréttablaðinu 21. október 2020 og samskipta við hann á Facebook í kjölfarið.
„Ákrot“ heitir það í þínum pistli. Huggulegt orðaval. Já, þetta fólk „krotar“ til að ná fram sínum málstað og setur kusk á hvítflibbann þinn.
Svo er sagt það hafi verið slæm hugmynd „að skipa stjórnlagaráð með fólki sem hafði flest hvorki sérfræðiþekkingu ný lýðræðislegt umboð til að skrifa nýja stjórnarskrá.“
Er þetta sannleikanum samkvæmt?
Nei, það sér hver heiðarlegur maður.
Hverjir hafa sérfræðiþekkingu til að skrifa stjórnarskrá?
Svarið er: Heiðarlegt fólk með réttlætiskennd.
Samlíkingin við þríeykið og veiruna er bara aulalegur brandari.
Það að gera lítið úr okkur sem sömdum nýju stjórnarskrána er ekki siðlegt og ekki heldur kristilegt af því þú fórst inn á þá sálma. Já, auðvitað máttir þú kýla prestinn undir beltisstað svo hann findi fyrir því.
Þar fyrir utan var urmull af sérfræðingum í stjórnlagaráði. Þar voru stjórnmálafærðingar, læknar, lögfræðingar, guðfræðingar, a.m.k. einn hagfræðingur, hjúkrunarfræðingur með nám í uppeldis- og kennslufræðum, sérfræðingur í búvísindum, félagsmálajálkar, fólk með reynslu úr fjölmiðlum, stærðfræðingar, heimspekingar og einstaklingar með allskonar háskólagráður og svo fólk með réttlætiskennd og þjóðfélagsvitund. Hverjir eru sérfræðingar í ritun stjórnarskrár? Varla þingmenn sem eru kosnir af flokkslistum, ekki sem einstaklingar, heldur mengi úr flokki, hópur sem veittur er af magnafsláttur, ef svo má að orði komast. Þingmenn hafa allskonar þekkingu og lífsreynslu og við treystum þeim, en þeir eru sjaldnast sérfræðingar í þeim málaflokkum, sem þeir setja lög um. Við sem kosin vorum til stjórnlagaþings vorum kosin í persónukjöri, ekki af listum, ekki heldur af flokkslistum, heldur sem fólk er þjóðin valdi og treysti til þess að vinna af heilindum og í anda réttlætis og sannleika.
Hvers vegna ekki að treysta þeim sem þjóðin valdi til að semja nýja stjórnarkrá? Við sem þjóðin valdi í sérstakri kosningu höfðum vissulega lýðræðislegt umboð þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi ógilt kosninguna á eintómum hýpótesum, tilgátum. Hugsanlega hefði hugsanlega einhverjir, hugsanlega á einhverjum stað, getað séð hvað einhver annar hefði hugsanlega kosið. Hæsitréttur varð að gjalti í þessum dómi sínum.
Forsetakosningarnar í sumar voru sama marki brenndar (ég nennti ekki að vekja athygli á því) og allar kosningar á lýðveldistímanum hefði mátt dæma ógildar á samskonar hýpótesum, fabúlum, geimflugi í ímyndunarveiki. Hæstiréttur afgreiddi „pöntun“ sem tveir aðilar úr stuttbuxnadeildinni í Valhöll komu með í réttinn.
Sjálfstæðisflokkurinn sem auðvitað bað fólk að taka ekkert mark á kosningunni til stjórnlagaþings og bjóða sig ekki fram, missti af lestinni. Ef flokkurinn hefði tekið lög Alþingis alvarlega um stjórnlagaþing hefði hann getað haft mun meiri áhrif ef fleiri hefðu boðið sig fram úr þeim herbúðum. Þau sem áttu rætur í flokknum voru samt nokkur og unnu af heilindum enda úrvalsfólk.
En ríkisstjórnin gerði það eina rétta í stöðunni og skipað þau sem kjörin höfðu verið í stjórnlagaráð. Jóhanna Sigurðardóttir hafði kjark og þor til að reyna að koma böndum á drekann sem ógnar þessu samfélagi meir en nokkuð annað.
Þú segir að svona mikilvægt mál eigi að vera í höndum þeirra sem eru lýðræðislega kosnir til þess. Já, ég er sammála því v.þ.a. þingið á að taka tillögur stjórnlagaráðs til efnislegrar meðferðar og greiða atkvæði um hverja þá grein sem fyrirfinnst í frumvarpinu til nýrrar stjórnarskrár. Auðvitað á Alþingi að fjalla um það. Hvers vegna ertu að hnykkja á slíkum sjálfsögðum hlutum. Hver hefur talað gegn því að Alþingi eigi síðasta orðið? Enginn! Þess vegna er greinin þín þegar hingað er komið bæði með lygar í textanum og svo dylgjur um eitthvað annað. „Tilgangurinn helgar meðalið“, segir orðtakið en það vísar til rökvillu og hættulegrar hegðunar af hálfu fólks. Gættu þín á slíkum málflutningi ef þú ætlar að komast áfram sem heiðarlegur maður í heimi hér.
Svo á undirbúningsvinnan að vera í höndum „fagfólks“, segir þú. Eru það lögfræðingar, þrasfræðingar, menntaðir í lítilli deild á Íslandi, í íslenskum lögum, með litla þekkingu á öðrum fræðigreinum. Hvað læra laganemar t.d. um siðfræði, heimspeki, sögu, trúarbrögð, sálfræði, geðlæknisfræði, sögu, bókmenntir, menningu og svo mætti lengi telja. Þetta er þröngt nám sem veitir bara brautargengi á Íslandi þar sem þrasfræðingar taka 30 þúsund kall á tímann við að leiðbeina fólki í íslensku lagaumhverfi. Lögfræðingar eru flestir með þrönga menntun í lögum smáríkis og vita sumir afar lítið um hina stóru veröld. Eru þeir „fagfólkið“ sem þú auglýsir eftir?
Þú talar af virðingu um „dönsku“ stjórnarskrána sem Sveinn Björnsson, fyrsti forseti vor, sagði um að semja yrði uppá nýtt án tafar og tóku flestir þingmenn undir það. Breytingarnar sem gerða hafa verið á henni eru bara smá tilfærstlur varðandi kosningakerfið sem er enn meingallað og svo var mannréttindakaflinn tekinn í gegn vegna tengsla okkar við siðaðar þjóðir. Flestar breytingar á lagaumhverfi, dómstólum og lögregluvaldi, höfum við neyðst til að taka upp vegna tengsla okkar við hið stórhættulega Evrópusamband sé mið tekið af málflutningi þíns flokks.
Bindandi kosning 2012? Hver heldur því fram? Enginn? Hvers vegna ertu þá að ýja að því? Þú hlýtur að sjá að greinin þín er algjör steypa frá upphafi til enda.
Þú hnykkir svo á með frösunum sem notaðir eru til að þjóna kvótagreifunum, fjölskyldunum, sem valsa um með gróðann af auðlyndinni, fela hann í skattaskjólum, múta stjórnmálamönnum í fjarlægum löndum og sýna ofbeldi í samskiptum við embættismenn og fjölmiðlafólk hér heima sem reynir að vinna vinnuna sína.
Þetta er málflutningur flokksins sem þú augljóslega tilheyrir, sem áður fyrr gat talað um „stétt með stétt“ en er nú fastur í frösum sem lýsa má með orðunum: „við og útgerðin“.
Bútasaumsaðferðin dugar ekki í þessu tilfelli. Enginn setur nýja bót á gamalt fat eða nýtt vín á gamla belgi, sagði Kristur í pólitískum afskiptum sínum á sinni tíð.
Alþingi er ekki stjórnarskrárgjafinn enda þótt Alþingi segi sitt síðasta orð um nýtt frumvarp. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og það verður þjóðin sem velur nýtt þing og það verður einmitt nú, með dyggri hjálp manna eins og þín og þinna flokkssystkina, að stjórnarskrármálið verður efst á baugi í komandi kosningum.
Þakka ykkur fyrir ofsann, frasana, sektaríönsku tilburðina, sértrúarhyggjuna og ofbeldið gegn þeim sem krotuðu á vegg þjóðarinnar, sem þið teljið auðvitað vera ykkar vegg. Gætið þess bara að verða ekki undir veggnum þegar hann hrynur yfir spillingaröflin í landinu.

