Svar við grein Sighvats Björgvinssonar í Kjarnanum 20. október 2020 https://kjarninn.is/skodun/2020-10-19-stjornarskrargjafinn-og-thu-sjalfur/
Hvatur þykir mér þú vera, sveitungi sæll, og bera nafn þitt með rentu, Sighvatur, hugrakkur til orrustu. En það er Bárður einnig því nafnið merki „sá sem ann orrustum“. Báðir höfum við vestfirskan anda í brjósti. En í bardaga er ekki gott að höggva í eigin fót. Það þykir mér þú nefnilega gera í grein þinni í Kjarnanum 20. október 2020 þegar 8 ár eru liðin frá því þjóðin sagði hugs sinn til tillagna Stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá.
Þjóðin hefur talað
Yfirgnæfandi meirihluti lýsti því yfir að leggja bæri tillögurnar fyrir Alþingi eða 67% kjósenda. Þar lýsti yfirgnæfandi meirihluti sig samþykkan ákvæðinu um auðlindir í almannaeigu eða 89%. Fylgjandi persónukjöri voru 78%. Ákvæði um þjóðaratkvæði samþykktu 73%, um jöfnun atkvæða í landinu 67%. Þjóðkirkju vildu 57%.
Þjóðin sagði sitt álit í þjóðaratkvæðagreiðslunni og hún kaus líka fólk til Stjórnlagaþings árið 2010 og valdi 25 einstaklinga, ekki af flokkslistum, nota bene, til að skrifa nýja stjórnarskrá. Það var Alþingi sem ýtti þessu stjórnskipi úr vör sem þú vilt ekki kannast við enda þótt þinn eigin flokkur hafi verið í forystu og verið mest áfram um að koma þessu lýðræðislega ferli í gang sem lofað er um veröld víða sem fordæmalaust fyrirbrigði í veraldarsögunni þegar um ritun grundvallarlaga fyrir sjálfstæða þjóð er að ræða. Ég hef þá skoðun sem einstaklingur í þessu landi mínu að lög Alþingis gildi og ég geti ekki af geðþótta valið hvaða lög mér líki og líki ekki hverju sinni. Sjá nánar hér: https://kjarninn.is/skodun/2020-10-16-gedthotti-og-gerraedi/
Hið lýðræðislega ferli
Árið 1814 fól konungur Norðmönnum að velja fólk til stjórnlagaþings. Kosið var í öllum höfuðkirkjum landsins, þar með Nes kirke þar sem ég þjónaði um tíma. Við kirkjugarðshliðið er emeleraður skjöldur til minninga um kjörið sem var fyrsta almenna kosning, þjóðkjör, í Noregi. Stjórnlagaþingið koma saman á Eiðsvelli og tillögur þess voru síðan samþykktar seinna sama ár. Stjórnarskrá Noregs er ein sú elsta í heiminum sem enn er í gildi en á henni hafa þó verið gerðar smávægilegar breytingar í tímans rás.

í Hringsakurspfrófastsdæmi, í Heiðmerkurfylki, Noregi.
Kirkjan er úr steini en elsti hluti hennar er frá um 1250.
Íslenska ferlið var enn lýðræðislegra vegna þess ríka samráðs sem Stjórnlagaráð hafði við þjóðina með því m.a. að nýta samskiptatækni nútímans til hins ítrasta.
Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn
Stjórnarskrárgjafinn er þjóðin sem kýs sér einstaklinga, ekki af flokkslistum, og felur þeim að rita stjórnarskrá. Þjóðin kýs fólk til Alþingis og veitir valdið hinum kjörnu fulltrúum. Stjórnskipun okkar, skv. þeirri „dönsku“ stjórnarskrá sem er í gildi, felur það í sér að Alþingi taki við tillögum þeirra sem þjóðin valdi til verksins og afgreiði tillögurnar. Þar hefur þú rétt fyrir þér er þú segir að Alþingi hafi mikið um málið að segja. En Alþingi verður að virða eigin gjörðir, virða að það fól öðrum en sjálfu sér að rita nýja stjórnarskrá. Sú skrá liggur fyrir og hana ber að taka til efnislegrar meðferðar. Þetta þing ræður ekki við verkið en von mín er sú, að næsta þing, eftir að þjóðin hefur heyrt brýningar þínar í niðurlagi greinar þinnar, verði kosið út frá þeim málum sem mest á ríður að koma böndum á og það eru einmitt þau atriði sem þjóðin lýsti sig samþykka í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Kjósi þjóðin út frá þeirri sannfæringu verður til nýtt Alþingi sem ég trúi að muni ráða við að samþykkja nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna Stjórlagaráðs. Um þennan möndul ættu næstu kosningar einmitt að snúast.
Lög sem bjaga
Veljum í næstu kosningum út frá málefnum og vonandi í seinasta skipti með núgildandi, gatslitnum kosningalögum, sem bjagað hafa vald þjóðarinnar í þessu landi um árabil.