Að brengla sjálfa þrenninguna

Líklega þættu það tíðindi til næsta bæjar, sem gætu jafnvel valdið kirkjuklofningi, leitt til styrjaldar og aðskilnaðar þjóða og menningaheilda, ef menn létu sér detta í huga að brengla sjálfa þrennninguna, Heilaga þrenningu.
 
Hvað er ég að fara með þessum inngangi? Lítum nánar á málið. Já, MÁLIÐ sjálft.
 
Eitt þekktasta ávarp úr starfi okkar presta er þetta:  
 
„Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda.“
 
Þetta lætur ekki mikið yfir sér og er sakleysislegt lítur einfalt út á bók en vandinn vaknar þegar mæla skal fram þessi orð. Allt of margir kollega minna, brengla nefnilega þrenninguna með röngum framburði.

 
Minn góði kennari í trúfæði, dr. Einar Sigurbjörnsson, blessuð sé minning hans, fór með okkur yfir þetta á sínum tíma og minnti á mikilvægi kommunnar sem fylgir Guði. Hún skiptir öllu og verður að heyrast í mæltu máli með örlítilli þögn. Já, þögnin segir svo mikið og vanti hana í ávarpinu er búið að brengla sjálfan guðdóminn, hvorki meira né minna.
Handbókin hefur kross í stað kommu milli Guðs og föður: „Í nafni Guðs + föður, sonar og heilags anda.“ Það ætti að vera áminning til að taka örlitla kúnstpásu.

Margir prestar segja: 
 
„Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.“ 
 
Fyrri komman er horfin úr ávarpinu. Hún hverfur í mæltu máli þar sem hún á í raun að vera og þar með hættir Guð að vera þríeinn og verður tvíeinn, sonur og heilagur andi. Faðirinn hverfur einhvern veginn og vöðlast inni í byrjunina og kemst aldrei út úr upphafinu. Það er engu líkara en að hann hafi bara hætti við sköpunina í miðjum klíðum og farið í laaaaanga pásu og með vestfirzkum framburði, Nota Bene.
 
Í ávarpinu er Guð frumlagið og hann skilgreindur nánar með þrefaldri einkunn, faðir og sonur og heilagur andi.
 
Til að setja þetta fram með skýrum hætti skrifa ég þetta svo:
 
Í nafni Guðs – (og hér kemur örstutt þögn)- 
föður
og 
sonar 
og
heilags anda, 
 
sem lesa skal eins og teknir séu þrír taktar í valsi (ég kann nú reyndar lítið fyrir mér í dansi) eða þrjár stuttar sveiflur.
 
Nýlega, heyrði ég unga konu (sem ég man því miður ekki nafnið á, og kannski sem betur fer, hennar vegna), flytja morgunbæn á Rás 1, sem hófst á umræddu ávarpi enl hljóðaði svo: 
 
„Í nafni Guðs, sonar og heilags anda.“ 
 
Ég spurði sjálfan mig: Datt faðirinn út vegna mistaka eða er þetta hennar skilgreining á Guði, að hann sé tvíeinn, eða vildi hún sameina hugsunina um Guð, sem bæði föður og móður, og þar af leiðandi sleppt að nota einkunnina faðir/móðir? Ef svo er þá hefur henni mistekist því í setningunni: „Í nafni Guðs, sonar og heilags anda“, er enginn faðir og engin móðir og þar af leiðandi bara sonur og heilagur andi. Guð er þá orðinn tvíeinn. Hafi henni orðið á orðfall, sem hent getur alla, þá er málið leyst, en ef þetta var ætluð meining, þá þarf nú heldur betur að ræða það í hópi guðfræðinga og allra kristinn manna, sem játa trú á þríeinan Guð. Slíkar breytingar verða ekki gerðar af neinum, sem bara finnst að þetta geti verið með öðrum hætti. Minna má á að kirkjan klofnaði út af einu orði, filioque, árið 1054. Vona að hér verði brengluð þrenning ekki til þess að úr verði brengluð og klofin kirkja!

 

 

 

 

 
Svo er það nafnið Jesús.
 
Það er svo einfalt á íslensku í föllunum fjórum:
Jesús
Jesú
Jesú 
Jesú.
 
Þetta er beygingin sem tók við af hinni eldri:
Jesús
Jesúm
Jesú
Jesú. 
 
Sjá fróoðleiksmola hér: https://bin.arnastofnun.is/korn/21
 
 
Mér þykir alltaf dálítið óþægilegt að heyra guðfræðinga og presta sem setið hafa yfir Jesú-fræðum í mörg ár og hafa jafnvel doktorsgráður, segja Jesú í nefnifalli. Ég veit að gamla ávarpsfallið var Jesú en það er nú horfið úr mæltu máli en finnst enn í gömlum kveðskap eins og t.d. „Ó, Jesú bróðir besti“ sem var breytt í Jesús í nýrri gerðum sálmabókarinnar til að mæta brottföllnu ávarpsfallinu.
 
Í 40 ár hef ég stritað við að reita málarfa úr mínu beði og er ekki enn kominn að verklokum því þeim lýkur ekki fyrr en með dauða mínum. Að tala góða íslensku er stöðug vinna og fyrir okkur sem stundum það að tala – og það í áheyrn almennings – er það gríðarlega mikilvægt að stunda málrækt og arfahreinsun.
 
Elskulegir kollegar sem af og til mættu í messu hjá mér eða voru viðstaddir útför, sögðu sumir við mig vingjarnlega: „Þú lest faðirvorið of hratt.“ Já, ég verð að viðurkenna að stundum liggur mér á og er stöðugt að reyna að bremsa mig af. 
 
Meðan ég var í Noregi messaði ég kl. 11 og þegar heim kom að messu lokinni hlustaði ég oft á útvarpsmessur að heiman sem voru að hefjast um kl. 13 að norskum tíma. Fyrir utan brenglaða þrenningu í upphafi messu áttu sumir í mesta basli með að beygja orðið Jesús og svo kom trúarjátningin og almenna bænin, ásamt faðirvori eins og presturinn væri að flaka fisk í akkorði. Ég var í messu hér heima nýlega og gat engan veginn fylgt prestinum í faðirvori eða trúarjátningu, svo mikið lá honum á. Kannski er ég bara orðinn gamall og heyri hægar en áður, en mér finnst reyndar svo ekki vera, því ég upplifi mig enn ungan og sprækan.
 
En í vetur heyrði ég messu í útvarpi frá Lindakirkju og þar fór hann séra Guðni Már Harðarson með bæn og það gerði hann af hreinni snilld hvað varðar framsetningu því hann las eins og enginn væri ritaður texti heldur bara bæn frá eigin brjósti. Hann bað svo hægt og fallega að maður fékk þá tilfinningu að hugur fylgdi máli, að trúarþel fylgdi orðum og inntaki. Hann var að biðja. Hann var að tala við Guð en ekki að keyra textarunu á færibandi. Það er vandi að flytja ritaðan texta svo að áheyrandanum finnist hann vera ávarpaður eða skynji að talað sé fyrir hans hönd í bæn til Guðs.
 
Hér áður fyrr þegar tekið var viðtal við fólk í útvarpi og það spurt, heyrði maður hvort svarandinn svaraði beint, eða hafði undirbúið sig fyrirfram og mætt með rituð svör og lesið.  Nú kemst enginn upp með að koma í viðtal í útvarpi með rituð svör við fyrframfengnum spurningum. 
 
Engan man ég fara betur með ritaða texta í útvarpi, en séra Bernharð Guðmundsson, sem oft stýrði þáttum á Rúv hér áður fyrr. Hann las texta eins og um mælt mál væri að ráða.
 
Að flytja mælt mál er vandasamt og í raun er það list að gera það vel. Tungumálið er tónlist, málið er músikk, og því skiptir hrynjandin miklu, hún skiptir í raun mestu.
 
Þessir þankar mínir leiða kannski til þess að ég taki fyrir annað mál, þ.e. nauðlendingar áráttuna, sem ríkir í ljósvakamiðlum um þessar mundir, en hún kemur fram í því að öllum setningum er nauðlent með hraptóni í lok hverrar setningar, sem virkar eins og allt mál endi á leiðindatóni. Tek það kannski fyrir seinna.
 
En munum að brengla ekki sjálfa þrenninguna. 
 
Tökum pásu á fyrstu kommunni! 
 
Munum þetta:
 
Anda inn – og anda út!

„Í nafni Guðs + föður, sonar og heilags anda.“
 
– – –
Myndina sem birt er hér að framan teiknaði ég fyrir nokkrum árum. Hún sýnir kunnuglega skýringu Ensku kirkjunnar – Church of England – á Heilagri þrenningu.

 

 

Ein athugasemd við “Að brengla sjálfa þrenninguna

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.