Úr kvíum

Mér verður hugsað til bernskudaga minna á Ísafirði. Þar voru oft vetrarhörkur, snjóalög og veður vond og við öll innilokuð. Vestfirðir voru þá án vegasambands við aðra landshluta. Tek það fram að ég er ekki að tala um fornöld. Frá Ísafirði var fyrir árið 1959 hvorki unnt að aka um Djúpið til að komast norður eða suður né eftir kjálkanum vestanverðum, um Breiðafjörð og þaðan suður. 

Við vorum innilokuð vetur, sumar, vor og haust og án vegasambands við stærstan hluta landsins.

Ég man þegar mamma og pabbi komust í fyrsta bíltúr vorsins. Hann var hátíðlegur. Ekið var inn í fjarðarbotn og kannski út með Erninum í átt að Arnarnesi þar sem fögur sýn opnast út Djúpkjaftinn móti norðvestri. Þangað ók fólk gjarnan um Jónsmessuleytið til að sjá sólarlagið og svo aftur í fyrsta bíltúr ársins þegar búið var að moka og sólin hafði brætt snjóalög.

Vestfirðingar voru innesperret, innilokaðir, í ófærð, árið um kring.

Og hvað gerði fólk þá? Á Ísafirði var mennignarstarf með blóma, öflugt tónlistarlíf, leiklistarstarf, félagsstarf af ýmsu tagi og svo var þar bókasafn. Menningarlíf var víða með blóma á Vestfjörðum. Í dreifbýli, á sveitabæjum, var líka víða blómlegt menningarlíf. Og svo má ekki gleyma útvarpinu sem reyndar sendi bar út dagskrá örfáa tíma daglega.

Hvað vanhagaði fólk um? Ekkert! Enginn fór reglulega til útlanda, enginn í innkaupaferðir til Glasgow, London eða Köben, enginn í helgarferð til útlanda til að horfa á fótbolta. Netið var ekki til, nema í formi fiskineta og trolla. Afi sat í kjallaranum á vetrarkvöldum og hnýtti troll og við barnabörnin, Gugga heitin og ég, undum upp á nálar og það okkar, sem var á undan hinu, fékk kannski í nefið! Þá var hnerrað duglega í netheimum.

Innilokuð? Er ófærð hjá okkur? Er kvíalífið að kæfa okkur? Í slíku samhengi ræður hugarfarið ef til vill mestu. Við erum eins innilokið og við viljum vera. Kvíalífið kennir okkur nýja siði, opnar nýjar dyr og víddir og við getum ferðast um óravegu hugans, frjáls og fim, fljúgandi eins og fuglinn í heimi sem er í stöðugri breytingu.  

Einn merkasti spámaður Gamla testamentisins var Jesaja. Hann boðaði von er hann talaði til fólks sem fann sig innilokað, í ófærð félagslegra aðstæðna og lífskjara. Hann boðaði lausn og sagði m.a.: 

„Rennið eigi huga til hins umliðna og gefið eigi gætur að því er áður var. Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því – sjáið þér það ekki? Ég gjöri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin.“ (Jes 43.18-19).

Jesaja sá hið ómögulega. Hann sá lausnir og hann átti von í hjarta sér.

Smátt og smátt losnar heimurinn úr kvíun, ófærðinni lýkur. Veikindin víkja fyrir heilsu, lífið færist aftur í fyrra horf. En vonandi ekki í öllum myndum, því við sem mannkyn vorum komin í ógöngur á mörgum sviðum. Við vorum nefnilega innilokuð á margvíslegan hátt, áður en veiran herjaði á heiminn. 

Við vonum á betri heim, án Covid-19, heim með betri loftgæðum og minni mengun. Nú blasir það við okkur úr kvíunum að við eigum sjálf mikla sök þegar kemur að hlýnun loftslags. Við höfum lengi verið í ófærð hugans í þeim efnum, innisnjóuð og blind.

En nú hefur verið mokað, opnað fyrir nýja hugsun, nýja nálgun, fyrir nýrri framtíð.

Horfum út úr kvíunum! Ófærðinni er að ljúka!

Sjáum við það ekki?

Ein lítil æfing að morgni dags. Horft úr Örfirisey og út á Nesið þar sem kirkjan blasir við.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.