Sameining sveitarfélag leiðir oftar en ekki til að nýtt nafn er tekið upp á nýju félagi. Mér virðist umræða í tengslum við slíkar breytingar oft byggjast á misskilningi eða að sumt fólk misskilji hvað gerist við nafnabreytingu sveitarfélags.
Nú stendur fyrir dyrum sameining sveitarfélaga á Austurlandi og komnar eru 62 tillögur að nýju nafni. En hvað merkir það að nýtt nafn verður tekið upp á nýju sveitarfélagi?
Sveitarfélag er bara rekstrareining, fyrirtæki, sem heldur utan um fjárhag og rekstur sveitarfélags.
Þegar sveitarfélagið Reykjanesbær var stofnað, hættu hvorki Keflavík né Njarðvík að vera til. Örnefni í landi haldast, en nýtt nafn rekstrarfélags er tekið upp. Fólk á Suðurnesjum heldur áfram að vera Keflvíkingar og Njarðvíkingar en tilheyrir nú sveitarfélaginu, fyrirtækinu, rekstrareiningunni, sem ber heitið Reykjanesbær.
Fyrir austan verða áfram til Seyðfirðingar o.s.frv., hvað svo sem nýja rekstrareiningin verður kölluð.
Ég legg til nafnið Austurbyggð á nýja félagið.
