+Steinn Ólafur Grétarsson 1962-2017

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð
Steinn Ólafur Grétarsson
8.8.1962-7.11.2017
Bálför í Fossvogskapellu
fimmtudaginn 23. nóvember 2017 kl. 13:00

Steini með börnum sínum, Inga Sigurði og Ruth Smith. Ólaf Örn vantar á myndina en Steini var afar stoltur af sínum glæsilegu og hæfileikaríku börnum.

 

 

 

Fagrir ágústdagar á Ísafirði árið 1962. Úti í hinum stóra heimi er maður að nafni Nelson Mandela handtekinn og látinn hefja 27 ára fangelsisvist. Leikkonan Marilyn Monroe tekur stóran lyfjaskammt og deyr í henni Ameríku. Ungir tónlistarmenn koma í fyrsta sinn í hlóðverið Abbey Road í London og taka upp lögin Love Me Do og PS I love you. Ríkisútvarpið er eina útvarp landsins og ungt fólk er ekki talið hafa gott af því að heyra dægurlög eða svonefnd Lög unga fólksins oftar en einu sinni viku, einn tíma í senn.

Lífið í Sólgötunni mótast ekki í stórum mæli af heimsfréttum. Afi Guðmundur er við störf hjá Íshúsfélaginu og þar er líka nágranni okkar, Kristján Gíslason, kallaður Ljúfur, sem brýnir hnífana fyrir flökunarfólkið. Svo rjátlar hann eitthvað í harðfiskhjallinum sínum, þurrkar fisk og verkar hákarl. Pabbi vinnur við sínar verslanir. Mamma er heimavinnandi og við borðum fisk 5 daga vikunnar og kjöt á miðvikudögum og sunnudögum. Það sem skiptir máli á Ísafirði er fiskafli og veðurfar og ástand vega á suðurleiðinni sem tengdi Vesfirði öðrum landshlutum fyrir þremur árum. Lífið gengur sinn vanagang.

Ég er tæplega 13 ára og Friðrik rúmlega 6 ára. Og þá gerast tíðindi. Það bætist við ný kynslóð í fjölskyldu okkar. Fyrsta barnabarn mömmu og pabba er komið í heiminn miðvikudaginn 8. ágúst. Drengur, ljós yfirlitum, fríður og vel skapaður og fær nafnið Steinn Ólafur í höfuðið á föðurafa sínum Steini Ágústi Vilhelmssyni Steinssyni og Ólafs nafnið í höfuðið á Ólöfu Vilhelmsdóttir, fósturmóður Gísla bróður Steins. En móðir drengsins, Valgerður Karlsdóttir, er komin til Ísafjarðar, alla leið frá Fáskrúðsfirði, til að læra hússtjórn og faðirinn heimamaður, nýútskrifaður úr Verzlunarskólanum, Grétar Guðmundur Steinsson.

Nokkrum misserum áður en Steinn Ólafur fæðist er veisla heima í Sólgötu 8. Vinafólk foreldra minna kemur saman og nýtur veitinga og veiga í stofunni og svo eru þau leidd inn í fagnaðinn, Gógó og Grétar, ung og falleg og þeim fagnað á trúlofnardaginn. Framtíðin blasir við með sínum tækifærum og verkefnum.

Litli frændi er af nýrri kynslóð og við Friðrik ekki nema nokkrum árum eldri. Hann er næstum sem litli bróðir okkar.

Handan götunnar, í Gúttó, er bókamarkaður og undirritaður gengur um salinn og skoðar titla. Hann leitar að góðri bók handa foreldrunum og finnur loks tilvalda bók. Sængurgjöfin handa Gógó er fundin, bók um uppeldi barna!

Steinn Ólafur sýnir það fljótt að hann er kröftugur og tápmikill og er þá vægt til orða tekið. Unga fjölskyldan flytur suður og býr í íbúð Steins afa við Bugðulæk og þangað kem ég oft í heimsókn á mínum fyrstu árum í Veszlunarskólanum. Steinn eldri kemur oft um helgar og fer í bíltúr með nafna sinn.
Steini eignast síðar 2 systur, Agnesi Ástu og Völu Margréti og loks bætist hálfsystir, Kristín Jóna, í hópinn.

Hjónaband Grétars og Gógóar endist ekki lengi og hún er ein með börnin eftir það og býr lengi í Torfufelli í Breiðholti.

Steini sækir mikið í Garðabæinn sem unglingur til ömmu og afa, Söllu og Jóns, og nýtur þess að vera þar og fá að spreyta sig á ýmsum verkefnum með afa. Hann er hændur að frændum sínum, mér og Friðriki og helst vinátta okkar alla tíð. Allt fram að andlátinu er hann reglulega í sambandi við Friðrik og vinnur fyrir hann ýmis verkefni heima á Öldugötunni og í húsi fjölskyldunnar á Eyrarbakka. Steini er laginn og listrænn. Hann er líka ævintýramaður sem þráir að skoða heiminn. Um tíma vinnur hann sem bakari og svo fer hann að mála. Hann málar inni og úti, þök og veggi og er orðinn stórtækur í verktöku um tíma, kaupir sportbíl og flýgur hátt. Já, hann flýgur stundum hátt. “Það er alltaf stormur í höfðinu á mér”, segir hann eitt sinn við Völu systur. Stormur í höfðinu. Kannski var hann Steini alltaf með þau einkennir sem nú kallast athyglisbrestur og ofvirkni?

Þar sem Steinn Ólafur fer um tekur fólk eftir háum manni og myndarlegum. Hann er fríður sýnum með fallegt bros. Algjör sjarmör en stormarnir gera það að verkum að hann festir ekki ráð. En hann eignast 3 börn sem gleðja hann og gera hann stoltan. Elstur er Ólafur Örn sem hann eignaðist með Agnesi Margréti Eiríksdóttur. Hann hefur alist upp hjá móður sinni og fóstra, Vilhjálmi, sem er farmaður og siglir með Eimskipum. Næst kemur Ruth dóttir Maríu Smith frá Færeyjum. Ruth býr með Jakobi í og þau eiga Felix Mark. Hún er sjúkraþjálfari og býr í Danmörku. Yngstur er Ingi Sigurður sem hann eignaðist með Laufeyju Ingadóttur sem lést er drengurinn var 2ja ára. Systir Laufeyjar, Daðey og maður hennar, Hilmir Bjarki, ólu hann upp og hann stundar nám í verkfræði.

Ruth og Ingi Sigurður eru hér í dag en Ólafur Örn komst ekki vegna starfa sinna á hafi úti. Steini var afar stoltur af þeim öllum og svo var hann mjög glaður yfir að hafa eignast barnabarn sem hann sá þó ekki nema á myndbandi sem hann horfði á aftur og aftur.

Rut og fjölskylda er hér en hún býr í Danmörku og vinnur þar sem sjúkraþálfari. Ég hringdi í hana á dögunum og hú sendi mér minningarbrot um föður sinn á dönsku sem ég þýddi lauslega. Gefum Ruth orðið:

Minningar um föður minn. Faðir minn var Íslendingur með stórum starf. Hann elskaði Ísland, Ísland er best, allir Íslendingar eru bestir í öllu. Á Íslandi er maturinn bestur, náttúran flottust og fegurst, fólkið fallegast og best, flottastur bílar og besta kaffið.
Faðir minn var mjög stoltur af því að vera Íslendingur og mjög bjartsýnn. Hann elskaði kaffi. Kaffi í morgunmat og svo gjarnan einn í eftirrétt og svo einn í viðbóð.
Faðir minn átti stórt hjarta og var mjög gjafmildur. Hann vildi að allir hefðu það sem allra best og sá það besta í hverjum og einum. Hann hafði yndi af að stríða mér . . . Hann var alltaf á fullri ferð og var ætíð með villtar áætlanir. Þegar ég kom í heimsókn . . . Var hann ávallt með 349374 áætlanir um það sem gera skyldi. Við náðum bara að klára 54 af þessum 349374.
Faðir minn var mikill aðdáandi Alice Cooper og ef hann setti plötu á fóninn þá var það Alice.
Ég á margar góðar minningar um um minn kæra föður. Takk fyrir þær. Hvíl í friði elskaði faðir, trengdafaðir og afi.

Og nú hefur storminn lægt. Steini hafði átt erfitt tímabil síðustu misserin og árin. Á milli átti hann góða daga og hafði mikil plön en storminn reyndi hann að lægja með efnum og áfengi. Heilsan varð verri og verri. Hann átti ætíð skjól hjá mömmu sinni sem elskaði drenginn sinn skilyrðislaust. Gógó er hetja.

Og svo kom pabbi heim frá Svíþjóð og þeir bjuggu á sama stigagangi. Væntingarnar voru miklar og ekki alltaf raunhæfar. Þeir hittust reglulega en það skiptust á skin og skúrir í samskiptum þeirra.

Steinn sótti mikið til Jóns afa síns, meðan hans naut við og svo til okkar Friðriks. Hann talaði lengi við Friðrik í síma laugardaginn fyrir andlátið.

Lífið er mun flóknara er við getum gert okkur í hugarlund. Hver er sinnar gæfu smiður, segir máltækið. Enginn getur kennt öðrum um sína líðan, hvorki föður í fjarska, heimahögum bernskunnar, samskiptum við systkini eða fjölskyldu. Hvert og eitt okkar verður að vinna úr sínum verkefnum og því sem ögrar á hverjum tíma. Steini vann úr sínu lífi á sinn hátt og það var ekki einfalt lífshlaup. En ég minnist hans með gleði og þökk. Við sem að honum stöndum elskuðum hann öll og eitt er víst að Guð elskaði hann og elskar um eilífð alla. Hann var og er barn Guðs eins og við erum öll hvernig sem við annars túlkum lífið og tilveruna, hvort sem við trúum eða ekki.

Steinn Ólafur lést á heimili sínu 7. nóvember s.l., á afmælisdegi Helgu Margrétar frænku sinnar, dánardegi Jóns Arasonar, Hólabiskups 1550 og 100 árum eftir byltinguna í Rússlandi 1917. Krufning hefur leitt í ljós að hann lést af völdum innri blæðingar í maga og vélinda, 55 ára að aldri. Og hann er jarðsunginn í dag á afmælisdegi mínum.

Hann er horfinn frá okkur langt fyrir aldur fram og við söknum hans en um leið er okkur ljós að hann hefur hlotið hvíld.

Stormurinn i höfðinu hefur breyst í blíða logn.

Við þökkum fyrir góðan dreng sem háði erfiða lífsbaráttu en átti marga glaða og góða daga.

Brosið hans mun ég muna, glæsileikann og kaldhæðna kímnina.

Hvíl í friði, elsku frændi og Guð blessi minningu þína.

Amen.

Kveðjur:

Frá Fríðu og börnum okkar, Jóhanni, Drífu, Hrafnhildi, Svölu og Erni.

Frá Ólafi Erni sem sendir samúðar og saknaðarkveðjur og þykir leitt að getra ekki verið viðstaddur í dag vegna vinnu sinnar á sjó. “Friðar og kærleikskveðja til þín, elsku pabbi.”

Kveðja frá Oddnýju og fjölskyldu. “Guð geymi þig, elsku frændi.”

Magga Alberts og synir senda “innilegar samúðarkveðjur og kærleikskveðju til þín, elsku Steini.”

Ásta og Leifur, Erla frænka í Austurríki, Elli Þór og fjölskylda og Gói frændi, senda kveðjur sínar.

Vinir og kunningar sem hafa verið í sambandi við Steina. “Góðar kveðjur til þín, elsku vinur.”

Hrönn og Rúnar, Matti og Ester, Hallur og fleiri góðir vinir: “Guð blessi þig.”

Astrid í Færeyjum sendir sínar bestu kveðjur.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.