Syndarinn

Syndarinn e Ólaf GunnarssonÉg hef fylgst með Ólafi Gunnarssyni rithöfundi í gegnum árin og notið verka hans þar sem hann oftar en ekki glímir við hin stóru stef tilverunnar. Greinilegt er að hann þekkir til «hugsanafljótsins» mikla sem Páll heitinn Skúlason, heimspekiprófessor og fv. háskólarektor, nefndi svo, er hann ritaði grein í tilefni afmælis læriföður míns, Þóris Kr. Þórðarsonar, prófessors í gamlatestamentisfræðum, fyrir um 20 árum og sagði meðal annarra orða:

«Þórir er sannur miðill tveggja höfðustrauma í hugsanafljóti vestrænnar menningar . . . Andlegu straumarnir tveir eiga sér alkunnar uppsprettur, aðra hebreska, hina gríska. Annars vegar er hinn gyðinglegi-kristni straumur, hins vegar hinn gríski-fílósófíski straumur. Af samruna þeirra sprettur evrópsk menning sem nú teygir anga sína um víða veröld, ekki síst í nafni alþjóðlegra vísinda og kristinnar trúar.»

Ólafur lifir og hrærist í straumi þessa fljóts í verkum sínum. Hann tekst óhikað á við tilvist mannsins í viðsjárverðum heimi í glímunni við sjálfan sig og hið stóra samhengi – og við sjálfan Guð.

Syndarinn er magnað verk, flókið og afar hugvitsamlega saman sett. Í bókinni er fjallað um stóra sigra aðalpersónunnar en einnig um fall hans og grimm örlög. Ólafi tekst að gera það á sannfærandi hátt og fellur að mínu mati aldrei í gryfju grunnra eða ódýrra lausna. Honum tekst að halda spennunni á milli upphefðar og lægingar í fari höfuðpersónunnar, snilldar og brjálsemi.

Syndin er merkilegt fyrirbrigði í gyðing/kristinni hugsun. Í Nýja testamentinu er gríska hugtakið um synd «hamartia» sem merkir að missa marks, brenna af, ná ekki settu marki. Hugtakið fjallar um brotalöm mannsins og breyskleika og einkennist ekki af þeim móralisma sem greina má í túlkun margra guðfræðinga á vissum tímabilum sögunnar. Brotalömin er í okkur öllum. Nýlega heyrði ég erlendan fræðimann segja í viðtali að alla ævina hefði hann glímt við það að verða ekki brjálsemi að bráð. Lífið er eins og ganga á hvassri fjallsbrún með snarbratta kletta á báða vegu. Að feta hinn rétta veg er í senn áskorun og vandasöm glíma.

Ólafur leitar í hugsanafljótið mikla en þar er að finna túlkunarlykla að skilningi á tilvist mannsins í föllnum heimi. Þeim fækkar nú sem bera skynbragð á viskuna í þessu fljóti. Í samtíðinni stíga fram margir ungir og óreyndir einstaklingar í fjölmiðlum og félagsmiðlum og tala eins og alvitrir væru um að best sé að kasta þessum arfi vestrænnar menningar og taka upp eitthvað nýtt sem enginn veit hvert leiðir. Grunnhyggnin í fari allt of margra sjálfskipaðra vitringa samtímans virðist ekki ríða við einteyming. Að kasta fimmþúsund ára gamalli túlkunarhefð og visku – ef ekki eldri – á glæ, er auðvitað bara barnaskapur.

Táknfræðingurinn Joseph Campell fjallar um grunnstef allra góðra sagna í bók sinni Ferð höfundarins. Hann kemst að því að flestar ef ekki allar góðar sögur, í hvaða menningarsamhengi sem er, glími í raun við þrjú meginstef. Reyndar setur hann fram flólknari greiningu en ég leyfi mér til einföldunar að draga hana saman í þrjá þætti. Í fyrsta lagi: Sagan byrjar vel. Í öðrum þætti gerist eitthvað sem setur allt úr skorðum. Í þriðja og síðasta þætti nær sagan jafnvægi, niðurstaða fæst.

Biblían, sem er heilt bókasafn og inniheldur 66 bækur, sem urðu til á löngum tíma við ólíkar aðstæður, fjallar um þessi þrjú stef í sögu manns og heims: Sköpun, fall og endurlausn. Allt var gott í upphafi. Lífið fór út af sporinu. Lausnarinn kom. Bók bókanna fylgir þessu sniðmáti enda þótt höfundar hennar hafi ekki haft neitt innbyrðis samráð eða hafi vitað hver af öðrum. Það er í sjálfu sér afar merkilegt.

Því má halda fram að allar góðar sögur einkennist af glímunni við þessi þrjú stef. Flestar Hollywood-myndir sem ég hef séð snúast um þau. Góð saga verður að hafa gott upphaf, millikafla þar sem óvissan ræður för og svo kemur niðurstaðan. Söguhetjan finnur gralinn. Góður brandari fellur að sama sniðmáti og þá skiptir höfuð máli að hnykkurinn (punch-line) komi á réttu augnabliki.

Nú vil ég ekki upplýsa lesendur um söguþráð Syndarans og alls ekki niðurlagið. Lesendur verða að standast þá feistingu að kíkja í lokakaflann. Ég byrjaði að lesa hana í rólegheitum þ.e. fyrstu 50-60 síðurnar en svo réðst ég á bókina og kláraði hana á einum degi. Þegar ég lagði hana frá mér varð mér ljóst að þarna hafði höfundurinn sýnt sína bestu takta allt frá upphafi og til seinustu blaðsíðu.

Syndarinn er stórbrotið verk og líklega besta skáldsaga Ólafs Gunnarssonar, sem hefur í verkum sínum verið trúr klassískum skáldskap og sótt eins og sannur lærisveinn í smiðju stórra og dramatískra meistara heimsbókmenntanna.

Til hamingju, Ólafur, með þetta stórbrotna verk!

 

Ólafur Gunnarsson
Syndarinn
JPV útgáfa, 2015

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.