Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
Guðmundur Guðmundsson
1916-2015
skipstjóri og útgerðarmaður frá Ísafirði
Minningarathöfn í Neskirkju Reykjavík mán. 23. nóv. kl. 13 og
útför frá Ísafjarðarkirkju lau. 28. nóv. kl. 14.
Unnt er að lesa ræðuna hér fyrir neðan og einnig hlusta með því að smella á þríhyrninginn:
Friður Guðs sé með okkur.
«Ég horfði niður í djúpið, í dimmuna,
sá svo ljósið langt í burtu
– og ég synti upp í ljósið.»
Guðmundur var 17 ára, nýkominn vestur frá Laugavatni þar sem hann hafði verið tvo vetur. Hann sat við vinnu sína á dekkinu um borð í vélbátnum Vini þegar aldan skall á honum og skolaði fyrir borð. Hann sökk í djúpið. „En þetta var afar einkennileg tilfinning, eins og maður missti alla viðmiðun og fjarlægðarskyn . . . Ég var orðinn flugsyndur eftir dvölina á Laugavatni. Það bjargaði mér.» Atvikið hafði mikil áhrif á hann og hann ætlaði ekki að segja foreldrum sínum frá enda tapaði hann splunkunýjum klofstígvélum í Djúpið. Faðir hans vildi reyndar ekki að hann yrði sjómaður enda hafði hann misst Þorgeir son sinn í hafið 9 árum áður. (Áhrifafamenn s. 98 og hljóðupptaka mín)
Þetta var árið 1933.
Í blaðaviðtali 1981 var Guðmundur spurður:
«Varðstu aldrei fyrir neinum óhöppum í skipstjóratíð þinni?»
«Nei, ekki svo heitið geti.»
«Misstirðu aldrei mann?»
«Nei, ég missti aldrei mann. Það held ég hljóti að vera eitt það þungbærasta sem hent getur einn skipstjóra. En í sjómannstíð minni komst ég tvívegis í lífsháska. Mig tók út, en náðist um borð í bæði skiptin.»
«Hvað hugsaðirðu á meðan þú varst í sjónum?»
«Bara um eitt, það var bara eitt sem komst að – það var að komast af.»
«Trúirðu á æðri forsjón?»
«Já, það geri ég.» (Mbl 16. apríl 1981)
Guðmundur fæddist í Hnífsdal 11. apríl 1916 og ólst þar upp. Hann lést á Landspítalanum 13. nóvember 2015.
Foreldrar hans voru Guðmundur Stefán Guðmundsson, formaður í Hnífsdal, f. 7.12. 1877, d. 22.02. 1936, og Jóna Salómonsdóttir, húsmóðir, f. 5.5. 1885, d. 22.11. 1952. Þegar faðir hans lést tók Guðmundur að sér að sjá fyrir móður sinni og yngri bróður, aðeins tvítugur að aldri.
Systkini:
Þorgeir (f. 4.7. 1904, d. 12.12. 1924), sem fórst tvítugur í sjóslysi 1924;
Ingibjörg (f. 27.10. 1912, d. 7.8. 2009), lést á 97. aldursári 2009 og
Marías Þórarinn (f. 13.4. 1922, d. 17.3. 2010) sem lést 2010 tæplega 88 ára.
Alla tíð var kært með þeim systkinum og þess má geta að Guðmundur bjargaði Maríasi eitt sinn er hann féll fyrir borð á unglingsaldri með því að grípa í hálsmál hans áður en hann hvarf undir bátinn. Eitt sinn horfði hann í lófa sér og sagði við mann nokkurn: Þetta var mikilvægasta hantak mitt á ævinni.
Eiginkona Guðmundar var Guðrún Jónsdóttir, húsmóðir, f. á Langeyri í Álftafirði 12.12.1916, d. 15.11.1981. Þau voru bæði úr Hnífsdal og skólasystkin. Þau gengu í hjónaband árið 1942. Hjónaband þeirra var afar farsælt. Foreldrar Guðrúnar voru Jón Bjarnason, trésmiður, f. 2.1. 1881, d. 3.6. 1929 og Daníela Jóna Samúelsdóttir, húsmóðir, f. 17.9. 1888, d. 17.6. 1940. Fósturforeldrar Guðrúnar: Ólafur Andrésson, húsasmíðameistari, f. 27.8. 1891, d. 6.8. 1968 og Margrét Þórarinsdóttir, húsmóðir, f. 7.8. 1888, d. 16.10. 1971.
Börn Guðmundar og Guðrúnar eru: 1) Bryndís, kennari og námsráðgjafi, f. 22.6. 1943, maki Kristján Ólafsson. Þau skildu. Þeirra synir eru Ólafur Helgi f. 1968 og Hrafnkell f. 1975, d. 2009, 2) Jóna Margrét, skólaritari og bókavörður, f. 12.7. 1945, maki Valdimar Óskar Jónsson d. 2008. Þeirra börn eru Guðmundur Stefán f. 1966, Ragnheiður f. 1967, Katrín f. 1970, d. 1970, Davíð Þór f. 1973 og Margrét f. 1974, 3) Ingibjörg, þjóðfélagsfræðingur og leiðsögumaður, f. 3.7. 1950, maki Snorri Sigurjónsson.
Guðmundur var síðar í sambúð með Margréti Helgu Gísladóttur frá Höfn í Hornafirði, f. 3.4. 1924, d. 28.6. 2009.
Barnabörnin öll sem upptalin voru og langafabörnin sautján voru Guðmundi afar kær sem og börn og barnabörn Margrétar.
Ævistarf Guðmundar var alla tíð bundið sjósókn og útgerð. Hann fór ungur til náms í Héraðskólann á Laugarvatni. Hann aflaði sér vélstjóraréttinda á Ísafirði og skipstjórnarréttinda frá Sjómannaskólanum í Reykjavík. Hann varð kornungur skipstjóri fyrst á Bryndísi ÍS og síðar Hafdísi ÍS. Guðmundur var hafnsögumaður á Ísafirði um nokkurra ára skeið. Árið 1954 sneri hann sér að útgerð og fiskvinnslu og stofnaði í framhaldi af því Hrönn hf. ásamt Ásgeiri Guðbjartssyni, skipstjóra og fleirum. Guðmundur var lengi í forsvari fyrir útgerð Guðbjargar ÍS en Hrönn hf. átti og gerði út mörg skip með því nafni. Hann starfaði við útgerðina fram á níræðisaldur. Hann var formaður Útvegsmannafélags Vestfjarða frá 1963 til 1987 og sat lengi í stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna. Guðmundur átti um langt skeið sæti í stjórn Kaupfélags Ísfirðinga, Íshúsfélags Ísfirðinga hf., Olíufélags útvegsmanna og Vélbátaábyrgðarfélags Ísfirðinga. Hann starfaði mikið að slysavarna- og björgunarmálum og gegndi lengi formennsku í karladeild SVFÍ á Ísafirði. Guðmundur var mikill áhugamaður um menningar-, atvinnu- og stjórnmálasögu og las mikið um þau efni og hann var virkur þáttakandi í tónlistarlífi Ísafjarðar. Hann var gerður að heiðursfélaga í Sjómannafélagi Ísfirðinga sem er kannski merkilegt í jósi þess að hann var yfirleitt hinu megin við borðið í samningamálum sem formaður Útvegsmannafélags Vestfjarða. Hann tók virkan þátt í starfi Frímúrarareglunnar á Ísafirði og í Reykjavík frá því á 6. áragugi liðnnar aldar og var sæmdur heiðursmerki hennar.
Í dag heiðra hann bræður og bera kistu hans úr kirkju. Guðmundur var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín við sjávarútveg.
Guðmundur varð allra karla elstur og átti farsæla ævi og viðburðarríka. Hugur hans stóð ætíð til þess að efla atvinnu- og menningarlíf á Ísafirð. Hann barst aldrei á í einkalífi. Skrifstofa einnar öflugustu útgerðar Íslands var heima hjá honum þar sem þau Guðrún, sem var Samvinnuskólagengin, færðu bókhald og hann sá um snúninga í landi á sínum einkabíl, því ekki átti útgerðin eigin bifreið þá. Fyrsta bílinn, Simca, eignaðist hann 42 ára og tók þá bílpróf. Þetta var á tímum hugsjóna og siðferðisgilda sem nú virðast ekki eiga upp á pallborð landsmanna á sama hátt og forðum þegar orð stóðu eins og stafur á bók og handtak sem þinglýst skjal. Þegar Guðbjörgin stærsta og yngsta var komin til lands og rekstrargrundvöllur reyndist ekki eins tryggur og oft hafði áður verið – meðal annars vegna ákvarðana stjórnvalda og breytinga á fiskveiðistjórnun – gerðu eigendur samkomulag um sameiningu við norðlenska útgerð. Sú gjörð átti að verða beggja hagur og útgerð Guggunnar gulu tryggður áfram á Ísafirði. Við þekkjum öll hvernig fór fyrir norðlenskum handtökum og undirskriftum. Þetta varð Guðmundi þungt og varð það allt til æviloka. Samviska hans var óró en hvað annað átti að gera í þeim aðstæðum sem uppi voru þegar samið var? Ísfirðingar vissu hug og heilindi Guðmundar og ég held að þeir hafi ekki dæmt hann hart fyrir þennan afdrifaríka samning undir lok starfsævi hans, heldur miklu fremur þakkað fyrir framlag hans til byggðar og mannlífs um áratuga skeið.
Lífið er ekki kyrrstætt. Rekstur fyrirtækja er eins og skip á sjó. Stundum er siglt í ísfirsku logni en svo klífur skipið upp öldufald og svo niður í öldudal, upp og niður og með veltingi á bæði borð. Ákvarðanataka á hverjum tímapunkti var ætíð gerð í óvissu. Þannig er lífið. Við reynum að velja hið rétta og sem betur fer náum við oft settu marki, en ekki alltaf.
Við sátum saman frændurnir á heimili Guðmundar í Kópavogi 2. sd. í aðventu 2013 og hann sagði mér frá lífshlaupi sínu og ég tók upp. Bárður Guðmundur Jónsson, föðurafi minn og Guðmundur Stefán faðir Guðmundar voru hálfbræður, sammæðra. Afi þeirra var Guðmundur Þorláksson. Hann tengist báðum ættum mínum, bæði föður og móðurætt, því hann barnaði báðar langömmur mínar, langömmu mína í móðurætt, Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Eyrardal, dóttur Guðmuindar ríka í Eyrardal í Álftafirði og Rannveigu Engilbertsdóttur, langömmu mína í föðurætt. Þær voru kornungar en giftust reyndar báðar síðar og eignuðust börn. Guðmundur frændi var ekki alveg sáttur við framferði afa síns því tvíburarnir, Guðmundur Stefán, faðir hans og Þorlákur – kallaður Hrefnu-Láki, voru teknir af henni við fæðingu. Það þótti honum grimm örlög ungrar konu. Guðmundur Stefán ólst upp í Folafæti en Þorlákur á Saurum. Ég sagði við Guðmund að þessi erfiða reynsla Rannveigar, ömmu hans og langömmu minnar, hefði orðið til þess að hún kynntist Jóni Örnólfssyni, langafa mínum. Ef það hefði ekki gerst hefði faðir minn aldrei orðið til, ekki systkin hans og afkomendur þeirra – og þar með ekki ég heldur. Þá hló Guðmundur og sagði: «Ég hef aldrei séð þetta í þessu ljósi!» Ég held að frændi hafi tekið afa sinn í sátt við að heyra þetta! [innskot). Lífið er fullt af tilviljunum – eða eigum við að segja handleiðslu æðri forsjónar?
Lífið er vegferð. Við siglum um lífsins haf í ölduróti og stundum logni, sem betur fer, en undir okkur er ómælisdjúp. Djúpið er áberandi hugtak í hebresk/kristinni hugsun. Í GT er djúpið tákn þess sem ógnar mannlífinu. Vatnsflóðið þekkjum við af einni þekktustu táknsögu heimsbókmentanna, sögunni af Nóa og Örkinni. Hún er tákn fyrir kirkjuna og skírnina. Við erum hér í Á íslensku er talað um kirkjuskip. Við erum hér í kirkjuskipi eins og lærisveinarnir forðum í bátnum með Jesú. Þeir urður óttaslegnir en hann svaf rólegur þegar gaf á bátinn. Þeir vöktu hann og hann kyrrði vind og sjó. Þessi máttuga saga er öðrum þræði táknsaga um lífssiglingu okkar. Við vorum munstruð um borð í kirkju Krists við heilaga skírn og þar erum við örugg. Krosstáknið yfir skírnarbarninu er sem innsigli um öruggt skipsrúm. Kristur er um borð, hann gengur á vatninu og hann er í öldunum og í djúpinu. Þau sem týnst hafa í djúpi hafsins, og hlotið vota gröf, björguðust af honum sem sigraði ógnir djúps og heims með dauða sínum á krossi og upprisu. Það er okkur huggun sem misst höfum ástvini i hafið.
Ísafjarðarkirkja er fagurt hús, tákn um skip, og í formi þaks hennar er vísað til öldufalda.
Gamla kirkjan hafði brunnið og Ísfirðingar því kirkjulausir um nokkurra ára skeið. Óeining ríkti í bænum um hvað gera ætti. Á aðalsafnaðarfundi á þessum árum mætti Guðmundur með skrifaða ræðu sem hann flutti. Hann brýndi Ísfirðinga til að taka höndum saman um að byggja nýja kirkju á lóð hinnar eldri. Ræða hans og framganga olli þáttaskilum í kirkjumálum á Ísafirði. Ný kirkja reis, fögur og vel hönnuð til allra athafna.
Ísafjarðarkirkja, eins og aðrar kirkjur, er sem Örkin, hún er skip sem bjargar, hún er «Guð-björg» – og meira að segja í gulum lit! Guggan gula úr stáli er farin og siglir um höfin þar til mölur og ryð granda henni. En kirkja Krists, hin andlega kirkja í veröldinni, er byggð á bjargi. Hún starfar áfram og sinnir sínum veiðum og björgunarhlutverki í ölduróti hverrar tíðar og Drottinn hefur gefið okkur þetta fyrirheit um kirkjuna: «máttur heljar mun ekki á henni sigrast.» (Mt 16.18). Hún mun aldrei á grunn ganga.
Kirkjan er mikið aflaskip í sögu þessa heims. Það er að vísu búið að setja á hana kvóta og loka fyrir henni mikilvægum veiðsvæðumen hún heldur áfram og lifir á fyrirheitum Drottins. Það er nýu reyndar búið að setja á hana kvóta og loka fyrir henni veiðisvæðum en hún heldur áfram og lifir á fyrirheitum Drottins.
Jesús setti fram nokkrar líkingar um himnaríki og sagði meðal annars:
«Enn er himnaríki líkt neti sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski.»
Og kirkjan er enn að vieðum að fanga fólk fyrir himininn.
Minnast ber samstarfs Guðmundar og Ásgeirs Guðbjartssonar sem var farsælt gott, enda báðir afar góðir menn. Í viðtalinu við Guðmund sagði ég að Ásgeir hljóti að hafa verið afar glúrinn skipstjóri. Guðmundur svaraði: «Hann var ekki bara glúrinn, hann Geiri, hann var gæddur yfirnáttúrulegum hæfileikum, sem skipstjóri. Hann fann alltaf fisk og sat ekki bara einn að aflanum, heldur lét aðra skipstjóra vita.» Þeir drógust að Gugguni eins og járn að segli. Þá réri Geiri á önnu mið og fann nýjar torfur. Samstarf þeirra var eitt samfellt ævintýri, en öll ævintýri taka enda,og ný verða til.
Hvert stefnir Ísland, á hvaða mið róum við nú sem þjóð? Við lifum nú tíma þegar margt ungt fólk vill kasta trúararfinum, skrúfa fyrir mesta hugsanafljót heimsins, þar sem saman hafa runnið hebresk/kristin hugsun og grísk heimspeki. Af þessu hugsanafljóti er vestræn menning mótuð. Yfir fimmþúsund ára viska hefur safnast saman í þessu fljóti, viska um skilning á hinu stóra samhengi alls sem er; viska um eðli mannsins, bjarta möguleika hans en einnig dimma breyskleika; viska um viðbrögð við áföllum og harmi; viska sem gefur ekki upp von og trú á hið góða, fagra og fullkomna.
Eigum við að gera ráð fyrir því að rótleysi samtímans geti komið með betri lausnir varðandi hið stóra samhengi tilverunnar, en þessi mörg þúsund ára gamli arfur? Vestrænn menningararfur á undir högg að sækja, aðallega vegna vanrækslu og skilningsleysis. Vegið er að honum úr mörgum áttum, og ekki bara með hryðjuverkum, heldur líka og ekki síður, með doða og andvaraleysi almennings innan hinnar kristnu álfu. Við verður að halda kirkjunni lifandi með hjálp Drottins.
Frændi þekkti þennan arf og vissi að hann var öruggur um borð í kirkjunni. Hann bað bænir sínar hvert kvöld, sagði hann mér, og lagði sig og sína í hendur Drottins. Hann var gæfumaður, heilsteyptur, heiðarlegur, grandvar, traustur, maður orða sinna, höfðingi sem vildi öllum gott og engum illt. Hann var sanngjarn, glaðsinna, góður húmoristi, en orðvar. Hann var maður framkvæmda, áræðinn og fylginn sér. Að gera samfélaginu vel, var hans æðsta mark og mið, gefa af sér efnis- og andlega. Han hlustaði á sína innri rödd [Innskot] Hann ólst upp við það að móðir hans sendi þau systkinin með mat og fatnað til fátækra. Hann var félagshyggjumaður, krati í besta skilningi þess orðs. Í kringum Guðmund var ætíð eitthvað að gerast. Ef slys bar að höndum varð heimili þeirra hjóna, miðstöð björgunaraðgerða, því Slysavarnarfélagið átti ekki eigið hús. Síðar var hann gerður að heiðursfélaga SVFÍ fyrir störf sín að slysavarna- og björgunarmálum.
Hann dásamaði alla tíð dæturnar sem voru honum afar kærar og hann þeim. Þær muna vel árin öll og ofarlega er þeim í huga er hann var hafnsögumaður og þurfti að fara út í öllum veðrum og á öllum tímum sólahringsins til móts við skip, klifra upp margra metra kaðalstiga í veltingi til að komast um borð og stýra til hafnar. Þá kúrðu þær heima í dimmunni og báðu Guð að vernda pabba. Þær eru þakklátar fyrir ástríki hans, öryggið sem hann veitti þeim og öll góðu árin. Þær áttu hann lengi. Það er gæfa að fá að hafa ástvini sína lengi og við góða heilsu. En í þeim efnum er aldrei róið á örugg mið. Móðir þeirra fór allt of fljótt. Enginn ræður sínum næturstað. Ekkert okkar veit hvort morgundagurinn rennur upp til að varpa ljósi á veginn. Hvenær tekur vegurinn enda? Hvenær gleypir djúpið okkur? Við vitum það ekki sem betur fer. Sú viska býr í huga Drottins.
«Ég synti upp í ljósið».
Guðmundur leitaði ætíð ljóss og sannleika. Í Frímúrarareglunni fékk hann einstakt tækifæri til að þroska sig sem mann á grundvelli kristinnar trúar og visku aldanna. Hann lagði Reglunni mikið til með kröftum sínum og fjármunum, einkum hér á Ísafirði, til Njálu. Kominn langt að tíræðisaldri mætti hann reglulega á fundi í landsstúkunni í Reykjavík og stóð þar keikur og hress – og jafnan með góðan bróður að vestan sem fylgdarmann. Ætíð var gaman að hitta hann og hann heilsaði mér ætíð glaður með orðunum: «Sæll, elsku frændi» – og kyssti mig á kinn. Minni hans var ótrúlega gott og frásögn jafnan yfirveguð og í samhengi.
Og nú hér í þessu kirkuskipi, siglir hann «upp í ljósið» og við kveðjum þennan heiðursmann og öldung með djúpri virðingu og einlægri þökk. Ísland þarfnast nú sem fyrr manna á borð við hann sem standa við orð sitt og handtak. Hann vildi hafa með sér í kistuna mynd af Bryndísi ÍS 69 – og honum varð að ósk sinni.
Hann er lagður upp í sína hinstu för og siglir «upp í ljósið». Kristur er um borð, hann er líka í djúpinu og hann er á öldunum stóru og í brotunum ógurlegu. Í honum eigum við von um að komast í örugga höfn, í himni Guðs. Eina skipið sem skilar okkur þangað er kristin kirkja.
Þessi trú sem síaðist inn í mig og kynslóð mína hér fyrir vestan, hér á Ísafirði, í gömlu kirkjunni, í Salem, á Hernum, í Skátafélaginu og heima við rúmstokkinn. Kristin trú gefur lífinu tilgang og setur það í samhengi hins æðsta og stærsta í tiverunni. Hún er, túi ég, eina mótvægið við rótleysi samtímans, heilsteypt trú byggð á sýn Krists á heim og himinn. Tómarúmið sem myndast í álfu okkar þegar fólk hættir að iðka trúna leiðir til þess að inn í tómarúmið flæða aðrar hugmyndir sem vart standast samanburð við hinn dýra arf.
Við fögnum yfir farsælu lífi og störfum Guðmundar og biðjum honum blessunar um alla eilífð. Guð geymi minningu mæts heiðursmanns og blessi ástvin hans og samferðafólk. Guð blessi hann og Guð blessi þig.
Amen.
Kveðjur
Erfidrykkja
Ræðan á vefnum
Postulleg kveðja