+Selma Samúelsdóttir 1933-2015

Selma SamúelsdóttirÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Selma Samúelsdóttir

1933-2015

húsmóðir, ritari og píanókennari

Kleppsvegi 86

Útför frá Neskirkju föstudaginn 14. ágúst 2015 kl. 13

Jarðsett í Fossvogskirkjugarði

Þú getur lesið ræðuna og einnig hlustað á hana hér fyrir neðan. Sálmaskráin er birt neðanmáls.

Spyrja má í framtíð: Hvenær mun dauðinn vitja okkar? Við vitum ekki svarið sem betur fer. En svo má líka spyrja í fortíð og segja: Hvenær vitjaði dauðinn okkar? Og svarið er: Hann hóf sitt ferli þegar við vorum getin í móðurkviði. Þá hófst ferli lífs og þroska en um leið hrörnunar og dauða.

Líf og dauði.

Engu máti muna að við yrðum ekki til. Fruman sem synti að egginu hefði getað farið framhjá og í annað egg eða án þess að ná sínu marki. Og þá hefðir þú aldrei orði til, ekki heldur ég. Aldrei. Aldrei í milljarða-ára-sögu alheimsins. Við eigum bara þetta tækifæri til að lifa og skulum því lifa því af áhuga og gleði meðan dagur er. Lífið er yndislegt en það er þó ekki aðeins auðvelt og létt. Ég hlustaði nýverið á vitran mann í viðtali á vefnum sem sagði eitthvað á þá leið að lífið væri stöðug barátta við að verða ekki vitfirringu að bráð. Það kann að hljóma nöturlega en í raun snýst lífið um það á hverjum degi að taka réttar ákvarðanir, velja lífið og hamingjuna í stað þess sem eyðir og grandar andartakinu, deginum, lífinu.

Selma kunni að lifa lífinu. Hún var geislandi fögur, greind og glaðvær, vel lesin og væn manneskja.

Daníela Selma Samúelsdóttir hét hún fullu nafni. Hún fæddist á Ísafirði 26. nóvember 1933. Hún lést á Landspítalanum að morgni 31. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Ragnhildur Helgadóttir, f. 1911 d. 1987 og Samúel Jónsson, f. 1910 d. 1983, sem kennd voru við Bjarg á Ísafirði. Systkini Selmu eru, Lára Kristín, f. 1935, d. 2014, Brynjólfur, f. 1936, Friðgerður, f. 1945, og Samúel Jón f. 1949.  

Ég leyfi mér að skjóta því hér inn að skyldleiki er með okkur en Selma og Salóme móðir mín voru fjórmenningar en hér áður fyrr var fólk í fjórða lið talið til frændfólks og til forna gat fólk vænst gistingar á heimilum fjórmenninga á ferðum sínu um landið. [Innskot á hljóðupptöku]

Faðir Selmu var músikalskur og smíðaði t.a.m. hljóðfæri, fiðlu, banjó og fleira. Afi hennar, Jón, spilaði listavel á harmonikku og svo fimur var hann stundum og fjörugur á böllum að hann lengdi í axlarólunum, tók dömu í fangið og dansaði við hana um leið og hann teygði dargspilið á baki hennar.

Selma átti góðar minningar frá bernsku sinni á Ísafirði, bjartar og fagrar minningar. Þegar Lára systir hennar lést í fyrra skrifaði hún hugleiðingar sínar. Þar segir m.a.:

«Tíðrætt varð okkur um dásamlegu sumrin í sumarbústaðnum okkar, Lynghóli, inni í skógi. Það voru dýrðardagar! [. . .] Svo kom berjatíminn, við Lára hlökkuðum alltaf til að tína aðalbláberin og vorum duglegar og kappsamar við tínsluna, ekki eitt ber villtist upp í okkur. Í skóginum var hver dagur ævintýri.

Þegar elsti sonur minn var 12 ára hafði hann gaman af að setja saman hugleiðingar um ýmislegt sem hann hafði lesið eða séð. Hann kom mér á óvart þegar ég las eftirfarandi stemningu hans um skóginn heima, hann hafði aldrei dvalið þar, en oft farið með ömmu og afa á Bjargi, þegar hann var í heimsókn hjá þeim, í bíltúra inn í skóg og heimsóknir til Rutar og Adda. En hann var svo ungur!

SKÓGURINN

Um sumarnótt, inn í skógi

Inn í botni í Skutulsfirði,

hanga berin á lyngi

    eins og þrúgur á vínviðargrein.

En hærra í hlíðinni

seytla lækir niður gráan mosastein.

Þar ríkir kyrrðin og er einvaldakonungur,

sem er rofin af þrastasöng

        og þá líkist skógurinn

himnaríki enn betur,

[Innskot á hljóðupptöku]

En oftast töluðum við þó um uppvaxtarárin á Bjargi. Þar er af svo mörgu að taka, að ég verð að kunna mér hóf og stikla mjög á stóru. Stærsti viðburður í lífi okkar systkinanna þriggja, varð 26. febrúar 1945, þegar við vorum 11, 9 og 8 ára,, en þá fæddist barn á Bjargi. (Fríða systir.) Á meðan á fæðingunni stóð, biðum við yfir okkur spennt í næsta húsi hjá Bjarna frænda og Hellu. Tíminn hægði ótrúlega á sér, en loksins, loksins birtist pabbi ofarlega í stiganum, með stríðnisbros á vör, dró okkur svolítið á svarinu, en svo kom: „það var stelpa“.  Við stóru systur, sem höðum fengið ósk okkar uppfyllta, stigum villtan dans með tilheyrandi sigurópum – en Bonsi, sem hafði óskað sér bróður, sagði spekingslega: „Eins og maður sé ekki ánægður þegar þetta er réttskapað og heilbrigt“!

Móðurforeldrar okkar fluttu til okkar og yngsta systkynið okkar, hann Sammi bróðir fæddist degi fyrir 16. afmæli mitt, eða hinn 25. nóvember 1949. Bjarg var alvöru fjölskylduhús. Við stóru krakkarnir elskuðum litlu systkynin okkar ofar öllu og vorum montin af þeim, svo sumum jafnöldrum þótti nóg um!

Það var yndislegt að alast upp í menningar- og athafnabænum Ísafirði á þessum árum. Alls konar félags- og menningarstarfsemi blómstraði á vetrum og íþróttir að sumarlagi. Foreldrar okkar tóku þátt í flestu og við börnin líka eftir getu og aldri. Allir gerðu allt sem sjálfboðaliðar. Launin voru ánægjan af að veita og þakklæti þeirra er nutu. Í handbolta var Lára með þeim allra bestu og var í liði Ísafjarðar eitt árið þegar það varð Íslandsmeistarar. Oft var hún fengin til leika í „skrautsýningum“ sem voru vinsælar á þeim tímum og mér er sérstaklega minnisstætt þegar hún, lítil stelpa, hún var svo sæt, færði Erling Blöndal Bengtsyni blóm, þegar hann heimsótti fæðingarbæ móður sinnar í fyrsta sinn, þá sem undrabarn sem sellóleikari. Það var stórkostlegt að hlusta á hann fannst okkur öllum sem á hlýddu og bæjarbúar urðu stoltir og fannst að þeir ættu svolítið í honum. Á sumrum flykktust í bæinn alls kyns listafólk, leikhópar, einsöngvarar, hljóðfæraleikara, upplesarar, auk (loddara)! af ýmsu tagi, svo sem búktalarar, dáleiðarar, töfrabragðasýnarar, kraftakarlar (Úrsus). Allt þetta sáum við og heyrðum-stop! [. . .]»

Stop, sagði hún því hún varð að hemja sig í frásagnargleðinni.

Selmu var margt til lista lagt. Hún var söngelsk og músíkölsk, spilaði á gítar og vann til verðlauna í píanóleik í tónlistarskólanum á Ísafirði. Selma var alla tíð mjög félagslynd, var skáti, tók þátt í sýningum leikfélagsins á Ísafirði. Árið 1955 fór hún til Ítalíu til söngnáms. Þar kynntist hún Katli Jenssyni, sem einnig var í námi. Ketill var f. 24. september 1925 d. 12. júní 1994. Hann var frá Vogi í Skerjafirði og þau gengu í hjónaband á Ísafirði 9. nóvember 1956.

Þau eignuðust þrjá syni,

Ragnar Samúel, f. 20. desember 1957, d. 15. júlí 1977,

Kolbein Jón, f. 8. febrúar 1962, kvæntur Unni Astrid Wilhelmsen, f. 14. desember 1964, og

Ólaf Brján, f. 30. júní 1972, kvæntur Brynhildi Ástu Harðardóttur, f. 31. október 1984,  börn þeirra eru Katla Mist f. 29. ágúst 2007 og Ottó Loki f. 1. september 2008. Dætur Ketils af fyrra hjónabandi eru Ásthildur, f. 1952, d. 2013 og Sigríður, f. 1955.

Um áraraðir var Selma í Söngsveitinni Fílharmóníu; áskrifandi að tónleikum sinfóníuhljómsveitar Íslands og stryktaraðili Íslensku óperunnar. Komin yfir sjötugt naut hún sín með konum á sínu reki í Senjorítunum undir stjórn Margrétar Pálmadóttur.

Snemma á áttunda áratugnum var hún greind með MS sjúkdóminn, sem hún hafði að öllum líkindum verið með frá unglingsárum.

Þau Ketill byggðu sér hús á Álftanesi í Bessastaðahreppi árið 1967, sem var mun strjálbýlla þá en nú er. Þar undi hún sér vel, gekk í kvenfélagið, kenndi tónmennt um skeið í barnaskólanum og sá um heimilið af miklum myndarbrag og smekkvísi. Hún hafði oft á orði hvað hún saknaði tímans á Álftanesinu, útsýnisins frá húsi þeirra þar sem Snæfellsjökullinn blasti við í norðri í óteljandi tilbrigðum sem og Snæfellsnesið allt, hafsýn út Faxaflóann í vestur og Reykjanes og bláfjöll í suðri.

Hún naut þess að ferðast meðan heilsan leyfði, fór oft til að hlusta á Kolbein syngja við hin ýmsu óperuhús og fylgdist af áhuga og gleði með framgangi söngferils hans. Ekki var hún minna stolt af námi og árangri Ólafs Brjáns, sem lauk fyrst forritunarnámi og síðar tölvunarfræðinámi. Og síðast en ekki síst gladdist hún ósegjanlega yfir barnabörnunum, Kötlu Mist Ólafsdóttur f. 2007 og Ottó Loka Ólafssyni f. 2008. Þau voru englarnir hennar og hún naut þess þegar þau komu í heimsókn og léku sér, hlaupandi og kallandi um allt húsið, þá var hún hamingjusöm. Sérstaklega þótti henni vænt um þegar börnin fengu að gista, þá sváfu þau inni í svefnherbergi hjá henni og þá var rætt lengi og vandlega um heima og geima!

Hún var mjög vel lesin, hafði sérstaklega gott minni og var dugleg að tileinka sér nýungar, réði krossgátur, aflaði sér upplýsinga í gegnum tölvur og nýjustu tækni, og mjög ljóðelsk. Hún las ljóð eftir marga íslenska höfunda. Ætli Jónas Hallgrímsson hafi ekki verið efstur á blaði. Hún naut þess einnig að lesa ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur sem hún kynntist er hún var ritari á lögmannsskrifstofu í Vonarstræti en þar í nágrenni bjó skáldið. Hér kemur eitt ljóð sem hún hafði gaman að og heitir

Leiðinda uppákoma:

Meðan auglýsingarnar voru

notaði ég tímann

og skaust út með ruslið

Sat þá ekki Amor litli grátandi

á sorptunnulokinu!

Örvamælirinn fullur af brotnum örvum

Kveinstafir hans

gengu mér í hjarta

en hvað gat ég – gömul konan

Og Derrick að byrja í sjónvarpinu

Bókmenntirnar styrktu málkennd hennar og hún gat verið smámunasöm þegar kom að því að leiðrétta ambögur hjá fólki. Hún var hrein og bein, heiðarleg, skipulögð og með allt á hreinu, eins og sagt er. Hún var stálminnug og vel að sér um marga hluti.

Hún hugsaði mikið um lífið í glímu sinni við sjúkdóminn sem smátt og smátt herti tökin. En hún var ávalt jákvæð gagnvart lífinu og því sem það færði henni, lífsglöð og æðrulaus. Í vor sagði hún t.a.m.: «Mér finnst ég svo hamingjusöm, ég get lesið, hlustað, unnið með tölvunni og margt fleira.» Svo bætti hún við: «Ég sé ekki eftir neinu, hefði ekki viljað lifa lífinu á annan hátt.» Hún var jafnan hrókur alls fagnaðar, stjórnaði gjarnan fjöldasöng og kvaddi sér hljóðs á mannamótum til að halda ræðu. Hún hafði yndi af að tala við ættingja og vini og sumir hafa af því reynslu að oft hafi verið á tali hjá henni. Hún hafði yndi af ferðalögum og notað ætíð hið gamla orðtak um að ferðast til útlanda en það heitir «að fara í siglingu» þótt flogið sé. Hún var náttúruunnandi, hafði yndi af garðrækt og blómum.

Hún kom sér vel fyrir í húsinu sínu að Kleppsvegi 86 og þar hafði hún bækur við rúmið og allt sem hún vildi hafa og gat teygt sig í. Þar voru ljóðabækurnar og þegar konurnar í heimahlynningu og heimahjúkrun kom í heimsókn dældi hún yfir þær ljóðum og las upphátt meðan þær sinntu sínum verkum.

Í minningartextanum um Láru skrifaði hún þetta:

Við áttum langt símtal í desember síðastliðnum skömmu eftir áttræðisafmæli mitt, m.a. um tímann, það óræða og skrýtna fyrirbæri og aldur, rifjuðum upp eftirmæli listaskáldsins góða um sr. Stefán Pálsson, hvar hann yrkir svo snilldarlega um „skammlífi og langlífi“. Hvað við værum orðnar gamlar, Lára var 16 mánuðum yngri en ég, en okkur fundumst við ekki gamlar, við bara vissum það.

Það er við hæfi að vitna í ljóð í minningu ljóðelskrar komu og hér kemur ljóð Jónasar:

Séra Stefán Pálsson

„Móðir og faðir

mjúk og ástríkur

yfirgáfu þig

á æskuskeiði“,

en guð þín geymdi

og gæðafjöld,

lán og lífsfögnuð

ljúflega veitti.

Treystir þú og fólst þig

hans tryggri hönd,

ungur þjónn

hans orða heilagra;

nú ertu leiddur

lífsbraut hreina

alla að morgni

eilífðardags.

Hvað er skammlífi?

skortur lífsnautnar,

svartrar svefnhettu

síruglað mók;

oft dó áttræður

og aldrei hafði

tvítugs manns

fyrir tær stigið.

Hvað er langlífi?

lífsnautnin frjóvga,

alefling andans

og athöfn þörf;

margoft tvítugur

meir hefir lifað

svefnugum segg

er sjötugur hjarði.

Vel sé þér, vinur,

þótt vikirðu skjótt

Frónbúum frá

í fegri heima.

Ljós var leið þín

og lífsfögnuður;

æðra eilífan

þú öðlast nú.

Oft kvaðstu áður

óskarómi

heimfýsnar ljóðin

hugumþekku;

vertu nú sjálfur

á sælli stund

farinn í friði

til föðurhúsa.

Þetta kunni Selma að meta, ljóð yfirfljótandi af lífsvisku, þar sem mótsagnir og andstæður kallast á og meginstefið er að njóta lífsins meðan dagur er og trúa á eilífðina. Jónas var snillingur og án efa eitt allra besta ljóðskáld Evrópu á sinni tíð, skáld og lífsnautnamaður, vísindamaður og trúmaður.

Hún var þakklát fyrir lífið og fólkið sitt. Hún naut þess að alast upp á menningarheimili og eiga góð systkin. Um þau sagði hún þetta:

Við systkinin 5 á Bjargi, við Lára, Brynjólfur, Friðgerður og Samúel, áttum því láni að fagna að alast upp á Ísafirði, á góðu heimili góðra foreldra og í framhaldi, á fullorðinsárum, að hafa alltaf komið vel saman, aldrei rifist eins og óvitar um dauða hluti, tekið þátt í gleði og sorg hvert annars og átt ótal ánægjulegar samverustundir með fjölskyldum okkar.

Ég hóf minningarorðin á tveimur spurningum: Hvenær mun dauðinn vitja okkar? Hvenær vitjaði dauðinn okkar?

Víst er að dauðinn bíður okkar allra. «Allrar veraldar vegur, víkur að sama punkt», kvað séra Hallgrímur og Vilborg Dagbjartsdóttir orti:

Gráttu ekki af því að ég er dáin

Gráttu ekki af því að ég er dáin

ég er innra með þér alltaf

Þú hefur röddina

hún er í þér

hana getur þú heyrt

þegar þú vilt

Þú hefur andlitið

líkamann

Ég er í þér

Þú getur séð mig fyrir þér

þegar þú vilt

Allt sem er eftir

af mér

er innra með þér

Þannig erum við alltaf saman.

Ástvinir lifa innra með okkur þótt horfnir séu og svo lifa þeir í huga Guðs sem engu gleymir. Ein af sterkustu líkingum um þetta er að finna hjá Jesaja spámanni þegar hann svarar þeim sem telja sig yfirgefna af Drottni:

«En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig,

Guð hefur gleymt mér.“

15Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu

að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?

Og þó að þær gætu gleymt

þá gleymi ég þér samt ekki.

16Ég hef rist þig í lófa mér,

múra þína hef ég sífellt fyrir augum.»

(Jes 49.14-16)

Guð geymir allt sem hann elskar og Guð elskar alla menn, karla og konur, börn og fullorðna, af öllum trúarbrögðum og þjóðflokkum. Guð er allstaðar. Hann er sem hafið og við sem fiskarnir í hafinu. Hafið streymir um tálknin, inn í okkur og um okkur. Við erum umlukin hafinu og getum hvergi þrifist nema þar. Við erum hans og hann er okkar. Gott að geta treyst þessu þegar við kveðjum ástvin.

Blessuð sé minning Daníelu Selmu Samúelsdóttur og Guð geymi þig. Amen.

Innilegar samúðarkveðjur frá skólasystur Selmu, Geirþrúði Charlesdóttur, á Ísafirði með þakklæti fyrir allt gott.

Jarðsett í Fossvogi.

Kistan borin fram í forkirkju.

Erfi.

Farið í garðinn á eftir.

Postulleg blessun:

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.

Sálmaskrá Selma Samúelsdóttir

P.S. Þykir leitt að hafa misfarið með nafn skálkonunnar góðu, Vilborgar Dagbjartsdóttur, í tvígang. Biðst tvisvar sinnum fyrirgefningar!

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.