+Hrafn Tulinius 1931-2015

Hrafn TuliniusÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Hrafn Tulinius

yfirlæknir krabbameinsskrár og prófessor

1931-2015

Útför frá Dómkirkjunni í Rvk

miðvikudgainn 12. ágúst 2015 kl. 13

Jarðsett í Gufunesi

Þú getur lesið ræðun hér fyrir neðan og jafnframt hlustað á hana.

Sálmaskráin er birt neðanmáls.

Undrun og innlifum, hrifnæmi og lotning.

«Þegar ég horfi á himininn . . .» sagði skáldið í 8. Davíðssálmi sem lýsir hrifningu sinni yfir sköpunarverkinu.

Hæfileikinn til að undrast er forsenda vísinda og framfara. Augu sem horfa rannsakandi í spurn leita svara.

Hrafn unni bókmenntum og listum og táraðist gjarnan þegar hrifningin náði tökum á hans annars stilltu og hógværu sál. Skáldskapargáfan – hæfileikinn til að sjá út fyrir rammann – er forsenda allrar leitar, allra vísinda og þess vegna virða sannir vísindamenn menningu og listir. Adam var fyrsti vísindamaðurinn skv. 1. Mósebók en þar segir: «Og maðurinn gaf öllu búfénu nafn ásamt fuglum loftsins og dýrum merkurinnar.» Fyrsta skilgreining og flokkun fyrirbrigða í heiminum.

Mannssálin visnar ef hún nýtur ekki lista og menningar. Samstarfsmaður Hrafns á erlendri grund og vinur í 50 ár, Nick Day, ritaði minningarorð um Hrafn og þakkar honum samstarfið á sviði vísinda og nefnir sérstaklega að hann hafi kynnt sér íslenskan bókmenntaarf og leiðsagt sér um lendur hans. Hann segir: «Fyrir Hrafni voru bókmenntir og vísindi hluti stærra samhengis. Sá sem menntaður er í Englandi drekkur það í sig að enskar bókmenntir eigi sér rætur í klassískum grískum og latneskum bókmenntaarfi. Hrafn sýndi mér fram á að margt af því sem er í eðli enskrar ljóðlistar á sér rætur í íslenskum skáldskap.»

Sviðið var stórt og skörp augu vísindamannsins köfuðu í djúp hvaða viðfangsefnis sem var. Hrafnar Óðins fóru daglega um allan heim segir í fornum textum og tóku vel eftir öllu, komu til baka og krunkuðu í eyru hans. «Þannig vissi Óðinn um hvaðeina, sem gerðist.»

Þau skipti sem við Hrafn hittumst í lok messugjörðar eða útfarar, hér eða í öðrum kirkjum, horfði hann á mig með sínum eftirminnilegu og rannsakandi augum, þakkaði fyrir sig með traustu handtaki, en sagði annars fátt. Þannig var hann. En hann var hlýr maður og glaður í sál og sinni, þakklátur fyrir lífið og það sem það færði honum.

Að honum stóðu sterkir stofnar  athafna- og menntamanna en um leið kynntist hann því í ætt sinni að hárfín egg er oft á milli gæfu og gjörvileika. Hann var fremur fámáll um uppvöxt sinn en vann þess meir með sínar tilfinningar hið innra. Hugsunin var ætíð skýr og einbeitnin skörp. Hann varð að komast áfram af eigin rammleik og atorku og náði langt á sínu fræðasviði en miklaðist aldrei af verkum sínum. Hann var hógvær maður og stilltur, eins og klettur er ekkert haggar.

Faðir Hrafns var Hallgrímur Axel Tulinius (1896-1963). Nafnið Tulinius barst til Danmerkur frá Póllandi rétt fyrir aldamótin 1800 en mun eigi að síður vera danskt og sænskt að uppruna þegar leitað er enn lengra aftur. Hrafn er þiðja kynslóð með nafnið á Íslandi. Axel afi Hrafns var stúdent frá MR en nam lögfræði í Kaupmannahöfn. Hann var sýslumaður Suður-Múlasýslu en síðar fyrsti forstjóri Sjóvátryggingafélags Íslands. Bræður Axels voru þekktir af verslunarstörfum sínum og útgerð, einkum Þórarinn, sem stofnaði fyrsta íslenska skipafélagið, Thorefélagið. Guðrún kona Axels átti líka ættir að rekja til Danmerkur, en í móðurætt. Í föðurætt var hún dóttir Hallgríms Sveinssonar, biskups Íslands. Hallgrímur Axel var elsti sonur þeirra og nam verslunarfræði í Danmörku. Frami hans var skjótur í íslensku viðskiptalífi og um þrítugt hafði hann stofnað innflutningsverslunina H.Ben með Hallgrími Benediktssyni ásamt mörgum öðrum fyrirtækjum á uppgangstímum milli tveggja heimsstyrjalda. Hann var giftur Hrefnu Lárusdóttur sem lést í bílslysi 1928. Þau áttu þrjú börn, Axel, f. 1918, Guðrúnu, f. 1919 og Málfríði, f. 1926. Þau voru eldri hálfsystkini Hrafns.

Móðir Hrafns var Margrét Jóhannsdóttir Tulinius (1904-1971). Hún var dóttir hjónanna Jóhanns Lúthers Sveinbjarnarsonar og Guðrúnar Torfadóttur. Jóhann Lúther var Breiðfirðingur, fæddur í Skáleyjum, og kominn af vestfirskum höfðingjum að langfeðgatali. Jóhann Lúther gekk menntaveginn, lærði til prests og var prófastur að Hólmum í Reyðarfirði þegar hann lést langt fyrir aldur fram frá fjórum litlum börnum. Eiginkona hans, Guðrún, var fædd á Flateyri, dóttir Torfa Halldórssonar, skipherra og verslunarmanns, og Maríu Össurardóttur eiginkonu hans. Torfi og María voru stóreignafólk um skeið og bræður Guðrúnar þekktir menn í útgerð og verslun, einkum Páll og Ásgeir. Þegar sr. Jóhann Lúther lést, flutti Guðrún með börnin til Flateyrar þar sem hún átti heimili með systur sinni og börnum sínum. Hún var símstöðvarstjóri þar.

Löng vinátta var milli móðurættar og föðurættar Hrafns frá því þegar Jóhann Lúther var prestur að Hólmum en Axel sýslumaður á Eskifirði. Sennilega var það þess vegna sem Margrét fór sem ung kona til að aðstoða unga ekkjumanninn Hallgrím, eftir sviplegt fráfall konu hans Hrefnu. Brátt tókust ástir með þeim Margréti og Hallgrími. Þau giftust og ári síðar fæddist Hrafn sem var skírður í höfuðið á fyrri eiginkonu föður síns.

Hallgrímur og Margrét voru glæsilegt par og Hallgrími hafði vegnað vel í viðskiptum. Sönnun þess að vel gekk um tíma er að fjölskyldan bjó í Gimli við Lækjargötu þegar Hrafn fæddist 1931. Hrafn er því dæmi um mann úr yfirstétt á íslenska vísu ef svo má orða það, en sem fékk þó lítinn arf í eignum talið úr föðurgarði, vegna áfalla í viðskiptum föðurins. Allt sem Hrafn átti varð hann að vinna fyrir sjálfur.

Athvarf Hrafns í æsku var Flateyri þar sem amma hans og ömmusystir bjuggu, en einnig móðursystir hans, María, og maður hennar, Kristján Ebenesersson, meðan hann lifði. Þar dvaldi Hrafn flest ef ekki öll sumur meðan hann var barn og fram á unglingsár. Þar átti hann bestu æskuminningarnar og honum þótti mjög vænt um ömmu Guðrúnu, töntu Ástu og Maju frænku. Ekki síður talaði hann af virðingu og væntumþykju um Kristján mann hennar sem reyndist honum góður félagi og fyrirmynd meðan hann lifði. Hann var alla tíð heillaður af fjöllunum í Önundarfirði og líkti þeim við súlur í musteri.

Hann varð ungur stúdent og virðist hafa ákveðið fljótlega að læra til læknis. Hrafni vegnaði vel í námi en hann var á fyrsta eða öðru ári í læknanáminu þegar hann kynnist Helgu. Þau giftust aðeins tvítug, í desemberlok 1951 og stofnuðu heimili. 

Þau eignuðust Má eftir tæplega tveggja ára sambúð. Torfi og Þór fæðast fimm og sex árum síðar en Guðný og Sif með þriggja ára millibili töluvert síðar, þegar Hrafn og Helga eru farin að halla í fertugt.

Öll þessi ár voru viðburðarík. Hrafn lauk námi í læknadeild, kláraði kandídatsárið, m.a. í héraði á Ísafirði og Neskaupstað. (Innskot á hljóðupptöku). Hann komst að þeirri niðurstöðu að hann vildi vera meinafræðingur og helga sig vísindum, líkast til að hluta til vegna kynna af fjarskyldum frænda, Níelsi Dungal, en Hrafn vann undir hans stjórn á Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg. 1960 hófst fimmtán ára tímabil þar sem fjölskyldan bjó að mestu leyti erlendis. Fyrst var dvalið í átta mánuði í Sandey í Færeyjum þar sem Hrafn var héraðslæknir. Tilgangurinn var að safna peningum fyrir framhaldsnámi. Síðan fékk hann styrk til að læra meinafræði við háskólann í Freiburg í Þýskalandi. Eftir ár þar bauðst honum að nema við M.D. Anderson háskólasjúkrahúsið í Houston, Texas. Þar bjó fjölskyldan í þrjú ár þar til Hrafn var búinn að afla sér sérleyfis sem meinafræðingur. Þá var flutt til Albany New York, þar sem hann kenndi við læknaskóla. Það var þar sem Guðný Helga fæddist 1967. Seint á því ári var flutt til Íslands þar sem fjölskyldan bjó á Háaleitisbraut í eitt og hálft ár. Þá bauðst Hrafni starf við Alþjóða Krabbameinsstofnunina í Lyon og þau Helga fluttu þangað 1969.

Við tóku sex ár í Frakklandi sem voru afar gjöful ár í starfi Hrafns og þar sem kúrsinn var settur fyrir feril hans eftir það, því það var þá sem hann byrjaði að fást við faraldsfræðilegar krabbameinsrannsóknir sem hann hélt áfram eftir að hann flutti heim. Yngsta barnið, Sif, fæddist 1970 í Frakklandi.

1975 fluttu Hrafn og Helga aftur til Íslands með dæturnar tvær en Már hafði orðið eftir á Íslandi 1969, Torfi var sendur heim í skóla 1973 og Þór ári síðar.

Síðan hafa þau búið á Íslandi þó Hrafn hafi ferðast mikið vegna starfs síns.

Frá 1998 hafa þau dvalið langdvölum á hverju ári í húsi sínu í Fitou skammt frá Miðjarðarhafsströnd Frakklands.

Mesti harmur í lífi þeirra hjóna er án efa hvarf Guðnýjar í júní 1986 þegar hún var 19 ára og í sumarvinnu í Noregi. Hún var nýorðin stúdent, greind og glæsileg og átti framtíðina fyrir sér, en hún hafði líka þjást um árabil en með hléum af þunglyndi og kvíða. Hún fannst aldrei en flest bendir til þess að hún hafi svipt sig lífi, þótt full vissa fyrir því fáist aldrei. Árin eftir það voru þeim mjög erfið en það birti á ný yfir Hrafni eftir hvarfið og sorgin eftir Guðnýju varð honum og þeim hjónum léttbærari. 

Hvernig maður var Hrafn í augum barnanna?

Hann var áhugasamur um margt eins og fyrr hefur komið fram en hann hafði litla þolinmæði gagnvart stjórnmálalífinu, fannst skorta á rökvísi og siðferði meðal flestra stjórnmálamanna. Einkum var honum í nöp við flokka og flokksræði, taldi að þá væri illa komið fyrir mönnum siðferðislega ef þeir létu hagsmuni flokkana ganga fyrir hagsmunum umbjóðenda sinna. Flokksagi var honum ekki að skapi. Þess vegna studdi hann einmenningskjördæmi og hafði áhuga á hugmyndum Guðmundar Hannessonar, læknis, um að endurvekja goðakerfið gamla.

Hann var lífsnautnamaður, vildi borða góðan mat og njóta lista. Helga bjó honum og börnum fagurt heimili – a.m.k. fimm stjörnu heimili – og töfraði fram fína rétti með sinni glaðværð og jákvæðni.

Honum þótti skemmtilegt að ferðast og þurfti að gera það mikið í tengslum við störf sín. „Hrafninn er farfugl,“ var stundum sagt hjá Krabbameinsfélaginu.

Hann æfði börnin gjarnan í talnaleikjum og hvatti þau til mennta. Þau hjónin héldu að börnum sínum menningu og listum sem borið hefur sýnilegan ávöxt. Hrafn ræktaði árum saman sitt eigið grænmeti og eina blómategund sem fyllti alla glugga, Sankti Pálíu. Þar runnu saman áhugi á erfðafræði og fegurð. Svo hafði hann áhuga á tækni og tækjum, einkum tölvuvæðingu í þágu vísindanna og svo almennum samgöngum. Hann fór flestra sinna ferða gangandi og tók strætó árum saman enda gagnrýninn á offjölgun bíla í borginni.

Vísindavinnan og fjölskyldan skiptu hann meira máli en allt annað og það má segja að líf hans hafi snúist fyrst og fremst um þetta tvennt. Einkum var hann elskur að konu sinni og kom það sífellt betur í ljós eftir því sem árin liðu. Hún bjó honum fallegt heimili og hann naut mikilla lífsgæða, þökk sé henni, ekki síst eftir að heilsunni fór að hraka.

Hvernig faðir var hann?

Hann lagði mikið upp úr háttvísi og fágaðri hegðun, sýndi væntumþykju og hlýju en talaði ekki mikið um sjálfan sig eða tilfinningar sínar. En nærveran var ætíð sterk. Hann var klettur í lífi barnanna. Það var hægt að treysta honum, og hann hlustaði ef þeim lá eitthvað á hjarta. Það var einkar gott að leita til hans um læknisfræðileg efni. Helsta hlutverk hans var að vera góð fyrirmynd og það var hann svo sannarlega, segja þau.

Systkinin fundu það ætíð að hann var stoltur af þeim og því sem þau höfðum áorkað, hvert á sínu sviði og það var þeim mikilvægt að skynja slíkt.

Barnabörnin elskuðu afa og muna hans glettni og góða skap. Síðasta starfið þeirra hjóna var þegar þau voru au-pair i Berlín hjá Sif og fjölskyldu en þá voru þau samtals tíu sinum eldri en hefðbundnar au-pair stúlkur eða 164 ára samtals. Hann var einkar natinn við barnabörnin, hjálpaði þeim í próflestri, ók þeim á milli staða og rak um tíma svonefndan «Siggustrætó» fyrir afastelpu.

Hér verða ekki rakin störf hans og rannsóknir. Um það má lesa í fjölmiðlum. Hann var ekki fyrir það að hreykja sér og hefði kannski bara viljað að ég flytti hér örstutt æviágrip  í upphafi athafnar og biði ykkur svo að hlusta á músík og þakkaði ykkur svo fyrir komuna. En hógværð hans heftir þó ekki þakklæti ástvina og samferðafólks og því er þessi athöfn öðrum þræði þakkarhátíð fyrir frábæran mann, eiginmann, föður, tengdaföður, afa, vísindamann. Hann á einnig þakkir skilið fyrir störf sín í þágu þjóðar og mannkyns á sviði læknisfræðinnar.

Hann var heiðarlegur maður. Heilindi einkenndu framgöngu hans, segja börnin. Þau hjón áttu saman góð ár, voru samrýmd og elsk að hvort öðru. Þau kynntust á dansleik í Verzlunarskólanum og fyrsta stefnumótið áttu þau þegar Hrafn bauð henni á tónleika Simfóníuhlómsveitarinnar. Snemma beygist krókur.

Síðustu árin eftir að hann greindist með alzheimer á byrjunarstigi vildi hann aldrei sjá af henni Helgu sinni, fór með henni í hárgreiðslu og snyrtingu og víðar. Hann hafði tekið mörg próf um ævina og staðið sig vel en nú biðu hans ný próf, minnisprófin. Hvernig býr maður sig undir minnispróf, jú, með því að lesa og læra og hefur einhvern til að hjálpa sér. Helga hlýddi honum yfir og spurði: Hrafn minn, hvaða ár er núna? Hvenær ertu fæddur? Og auðvitað náði hann oft ágætum árangri í prófunum með slíkan leiðbeinanda sem Helga er.

Þau sóttu námskeið um Egilssögu í vetur sem leið og ekki spillti fyrir að þar kom bók Torfa Skáldið í skriftinni við sögu. Árum saman skiptust þau á um að lesa upp úr bókum fyrir hvort annað. Það er góður siður. Þau mynduðu saman svo gott jafnvægi, voru i einskonar ying/yang sambandi alla tíð. Uppfylltu hvort annað. Þau fóru víða og tókust margoft á við ný verkefni og áskoranir. «Við þorðum alltaf. Lögðum ætíð upp með fulla poka af kjarki», sagði Helga við mig.

Þau höfðu ávallt fingur á púlsi fjölskyldunnar og fylgdust stolt með hópnum sínum. Í uppeldinu var lögð áhersla á sameignlegar máltíðir og samtöl. Heimsmenning og hlýja einkenndu samskipti þeirra. Þau voru dugleg að ganga saman og eitt sinn gengu þau 120 km eftir Jakobsveginum á 5 dögum en vegurinn liggur til Santiago de Compostella og voru þá komin á áttræðisaldur en voru þó yngst í hópnum.

Og nú er vegur Hrafns á enda runninn. Hann dó inn í morgunsárið 31. júlí s.l., gaf upp andann um leið og sólin reis upp á ný þennan undurfagra sumarmorgunn. Lífið er undur. Lífið er gjöf. Engu mátti muna að ég og þú hefðum ekki orðið til. Ef þessi eina fruma sem sótti að egginu hefði synt framhjá hefðir þú aldrei orðið til og ég ekki heldur. Aldrei. Aldrei í milljarða-ára-langri sögu alheimsins. Aldrei. Við höfum öll þegið af hendi lífsins þetta eina tækifæri til að lifa á þessum bláa hnetti sem NB er sá eini sem þekktur er þar sem hljóð berst innan hvolfsins, eini staðurinn í öllum alheiminum sem vitað er um að tónlist heyrist, ef marka má vísindagrein sem ég las nýverið.

Við erum hamingjunnar fólk. Og ofan á það allt bætist það við að okkur er boðuð von um að lífið sé meira en það sem við augum blasir í önnum daganna. Stundum er spurt: Trúir þú á Guð? Sú spurning er leiðandi og skapar ekki umræðu um hið stóra samhengi. Hún skiptir fólki upp í tvo hópa, með og á móti, trúaða og guðlausa. Vænlegra er að spyrja: Er til MEIRA en það sem við getum vitað eða vísindin geta fært okkur heim sanninn um? Er til MEIRA en það sem mannsheilinn ræður við? Og ef svo er hefur þá þetta MEIRA einhvern vilja sem varðar okkur mannfólkið? Er MEIRA til – MEIRA með stórum stöfum.

Hrafn lifði ríku, innra lífi og fékkst við að rýna í rúnir lífsins alla ævi. Hann skynjaði hið stóra samhengi í læknisfræðinni en einnig og ekki síður í menningu, listum og trú. Hann bar virðingu fyrir því sem vel var gert á öllum sviðum mannsandans og þar voru trú og kirkja ekki undanskilin.

Vegurinn er á enda, hinn jarðneski vegur. Heldur vegurinn áfram í annarri vídd? Er til eitthvað MEIRA.

Skáldið Hannes Pétursson kallast meðvitað eða ómeðvitað á við 8. Davíðssálm sem fyrr var vitnað til í ljóði sínu Umhverfi.

Hve lengi get ég lofsungið þessi fjöll

lofsungið þetta haf, þessar eyjar og strendur

já menn og alla hluti sem huga minn gleðja

hve lengi, án þeirrar vissu að eitthvað sé til

ofar sérhverjum stað, hverri reynslu og hugsun

sem teflir þessum fjöllum fram, þessu hafi

fjarlægð og nálægð, öllu — lífi og dauða

leikur því fram fyrir augum mér öruggri hendi?

Hversu lengi munum við velkjast í vafa um hið stóra samhengi? Hversu lengi?

«Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar, hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,og mannsins barn að þú vitjir þess?»

Svo kvað skáldið hebreska.

Þegar ég horfi á himinninn, horfi á sólina koma upp, sé ástvin gefa upp öndina, barn fæðast, sé lífið í allri sinni fjölbreytni og fegurð, hver er ég þá mitt í öllu þessu undri?

«Þegar ég horfi á himinninn».

Amen

Tilkynningar:

Kveðjur frá kollegum við krabbameinsskráningu í Finnlandi og á Færeyjum og krans frá samtökum norrænna krabbameinsskráa.

Jarðsett verður í Gufunesi. Kistan borin út.

Erfidrykkja í Iðnó.

Farið í garðinn eftir erfi.

Ræðan á vefnum.

Postulleg kveðja:

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.

Sálmaskrá Hrafn Tulinius

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.