+Ólafur Hannibalsson 1935-2015

Olafur HannibalssonÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Ólafur Hannibalsson

1935-2015

Útför frá Dómkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 10. júlí 2015 kl. 13

Ritningarlestrar:

Amos 6.12 og 8.4-8

I Kor 1.18-25 

Matt 5.6

Ræðuna er unnt að hlýða á og lesa hér fyrir neðan. Sálmaskráin er birt neðanmáls.

Ræðan:

Réttlæti!

Þegar ég hóf að undirbúa útför Ólafs Hannibalssonar kom hugtakið réttlæti fljótt upp í hugann.

Réttlæti!

Hann átti viðburðaríka ævi og lagði gjörva hönd að mörgu góðu verki, var blaðamaður, bóndi og aktivisti. En umfram allt var hann vænn maður sem lagði ríka rækt við fjölskyldu sína, frændgarð og samfélag allt.

Hvar skal byrja? Mig langar fyrst að verja nokkrum orðum til íhugunar á réttlætinu sem var svo mótandi í lífi Ólafs.

Segja má að réttlæti hafi stýrt flestum gjörðum hans og hugsun. Honum var í blóð borin virðing fyrir fólki og lífsbaráttu þess. Hugmyndir okkar vestrænna manna um réttlætið eru úr hugsanafljótinu stóra þar sem hebresk/kristin elfur hefur runnið saman við gríska, fílósófíska elfi. «Af samruna þeirra sprettur evrópsk menning sem nú teygir anga sína um víða veröld, ekki síst í nafni alþjóðlegra vísinda og kristinnar trúar», sagið Páll heitinn Skúlason, heimspekingur. Hér mætti líka kalla arfinn djúp, hugsanadjúpið.

En hvaðan kemur réttlætið? Hvers vegna býr í okkur hugmyndin um réttlæti? Er hugmydin uppfinning manna eða eilíft og algilt fyrirbrigði? Vísar sú staðreynd að við höfum í okkur hugmyndina um fullkomið réttlæti til Guðs og hins stóra samhengis?

Platon hélt því fram að kenning hans um réttlætið væri sönn enda þótt ekki fyndust réttlát ríki í heiminum. Hún væri sönn á sama hátt og Pyþagórasarreglan um þríhyrninginn er sönn enda þótt fullkominn þríhyrningur fyrirfinnist hvergi í efnisheiminum. Á Vísindavefnum segir: «Hún [kenning Platons] fjallaði um réttlætið sem slíkt, eða frummynd réttlætisins, einhvers konar eilífan og óbreytilegan veruleika sem réttlát ríki og réttlátir einstaklingar líktu eftir á sinn ófullkomna hátt rétt eins og strik sem dregin eru í rykið á götunni geta með ófullkomnum hætti líkt eftir rétthyrndum þríhyrningi.» (Vísindavefurinn)

En ég get ekki skilið við hugtakið réttlæti án þess að fara ögn í GT. Já, hið misskilda GT sem allt of margir hafa fordóma gegn.

Það kom mér þægilega á óvart þegar ég las guðfræði að kynnast hinni hebresku hugsun um réttlæti. Líklega er fegurstu texta um réttlæti og miskunn, um empatískan mannskiling, sem mannkynið á, að finna þar. Í GT eru réttlæti og réttur hugtakapar, einnig réttlæti og friður. Réttlæti er í vissum skilningi ekki til nema sem gjörð. Sama hugsun kemur fram í NT um kærleikann. Hann er hvorki tilfinning né bara hugtak heldur ætíð verknaður, gjörð í garð náungans. Hugtakið réttlæti í GT er sedeq sem þýtt hefur verið á grísku með orðinu dikaiosynē. Hugtakið vísar ekki til abstrakt hugmyndar um réttlæti eða dyggð heldur vísar meir til réttrar afstöðu til samfélagsins og hegðunar innan þess. Réttlætið birtist skv. þessu í verkum manna.

Í Davíðssálmi 72 eru gerðar kröfur til konungsins um að «hann láti hina þjáðu meðal þjóðarinnar ná rétti sínum og veiti hinum snauðu hjálp». (v.4) Empatía hans gagnvart þeim sem höllum fæti standa mun leiða til þess að náttúran blómstri. «Gnóttir korns verði í landinu, bylgist það á fjallatindunum.» (v.14) Hér er félagslegt réttlæti og ábyrgð á náttúrunni spyrt saman og í 85. sálmi vegur friður salt við réttlætið: «Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast. Trúfesti sprettur úr jörðinni og réttlæti horfir niður af himni.» (v.11-12). Já, hugtökin eiga í ástarsambandi. Hugsið ykkur fegurð þeirrar hugsunar og skáldlegu framsetningar! Í 146. sálmi segir: «Drottinn verndar útlendinga, hann annast ekkjur og munaðarlausa en óguðlega lætur hann fara villa vegar.» (v.9) Og að lokum þessar tvær tilvitnarnir í Jesaja spámanni á 8. öld f. Kr: «Vei þeim sem setja ranglát lög og skjalfesta skaðleg ákvæði til að halda umkomulausum frá dómstólum og ræna þá snauðu meðal þjóðar minnar rétti sínum, til að féfletta ekkjur og ræna munaðarlausa.» (Jes 10.1-2)

Fyrir nær þrjúþúsund árum voru menn að glíma við hið sama og nú, félagslegt réttlæti og afstöðu til útlendinga. Hvað hefur breyst? Aðeins tækni og tól. Mannskepnan situr enn við sinn keip og þarf að fá að heyra um hin handanverandi, eilífu gildi, til að henni auðnist að ganga hinn rétta veg. Réttlætið er eilíft á sama hátt og kristnin segir kærleikann vera eilífan, innsta kjarna alls lífs.

Ólafur fæddist á Ísafirði 6. nóvember 1935, sonur Sólveigar Ólafsdóttur og Hannibals Valdimarssonar.

Systkini Ólafs eru Arnór, f. 1934, d. 2012, Elín, f. 1936, Guðríður, f. 1937 og Jón Baldvin, f. 1939. Hálfbræður Ólafs samfeðra voru Ísleifur Weinem, f. 1934, d.2011 og Ingjaldur, f. 1951, d. 2014.

Ólafur var mikill Vestfirðingur í sér, þótti vænt um Ísafjörð og Djúpið. Við erum fæddir nánast á sömu torfunni og einungis 50 metrar voru á milli bernskuheimila okkar, en ég kynntist honum þó ekki fyrr en fullorðinn því fjölskylda hans flutti frá Ísafirði fyrir mitt minni. En eldri bóðir minn, Grétar, 5 árum yngri en Ólafur, sagði þegar ég flutti honum andlátsfregnina: «Hann Olli var dásamlegur drengur.» Mér kemur sá vitnisburður ekki á óvart. Horfðu bara á myndirnar í sálmaskránni af hinum ljóshærða víkingi, með lýsandi augu af elsku og sólskinsbrosið hlýtt og einlægt. Börnin, «púkarnir» fyrir Vestan, léku sér saman í bíó-rústunum eftir brunann mikla, á milli Hrannargötu þar sem Ólafur bjó og Sólgötu, sem var gata okkar bræðra. Sól og hrönn. Bíó-rústirnar, fjara og fjall, götur, húsagarðar og bryggja. Þetta voru okkar Strawberry Fields og Penny Lane. Hrönn er alda eða bylgja en í kenningum er hún gull sbr. hrannarbál og hrannarblik. Sól og gull, birta og gæska, lýsa Ólafi vel.

Sem lítill snáði var Ólafur hjá ömmu sinni að Strandseljum í Ögurhreppi, en síðan öll sumur hjá móðursystur sinni, Guðrúnu og Helga manni hennar í Unaðsdal á Snæfjallaströnd. Þar var bæði fjölmennt og góðmennt – Guðrún og Helgi áttu sextán börn og munaði ekki um að taka nokkur til viðbótar í vist á sumrin. Þarna, í Unaðsdal, liggja rætur Ólafs líklega dýpst. «Römm er sú taug» og allt það. Hann hefur alla tíð verið eins og einn af Unaðsdalssystkinunum og afar kært með þeim öllum.

Sem ungur maður leitaði Ólafur mikið til föðurbróður síns, Finnboga Rúts, sem hafði mikil áhrif á skoðanir hans. Þetta voru magnaðir bræður, Hannibal með karismað og eldmóðinn, og Rútur með hina strategísku hugsun og dýpt. Þeir voru kannski eins og Móse og Aron sem sagan geymir dæmi um þar sem annar var hugmyndafræðingurinn og hinn talsmaðurinn. Segja má að hjá Finnboga hafi Ólafur fengið sitt pólitíska uppeldi, sína hugmyndafræði, sem skilaði sér í því að Ólafur vann mikið fyrir föður sinn í stjórnmálabaráttu hans á þessum árum.

Ólafur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni og stundaði nám við háskólann í Delaware í Bandaríkjunum og við hagfræðiháskólann í Prag í Tékklandi. Hann starfaði hjá Loftleiðum í New York, var ritstjóri Frjálsrar þjóðar og var skrifstofustjóri ASÍ á 8. áratugnum, – inn á milli vann hann eitt ár að rækjurannsóknum hjá Unni Skúladóttur á Hafrannsóknastofnun. Um tíu ára skeið til ársins 1987 var Ólafur bóndi í Selárdal og síðan blaðamaður, rithöfundur og ritstjóri. Eftir að hann kom að vestan tók hann aftur virkan þátt í stjórnmálum og varð varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Vestfjarðakjördæmi 1995-1999 – í hópi sterkra andstæðinga kvótakerfisins með Einar Odd í broddi fylkingar.

Árin í Selárdal voru dýrmæt reynsla. Sumun fannst Ólafur vera í útlegð á þeim árum, en hann valdi þetta vitandi vits. Hann var annálaður talent, blaðamaður, afar vel læs á pólitík, góður greinandi, hvass málafylgjumaður og annálaður penni. Kannski fann hann sig ekki alveg í því hlutverki á mölinni og sveitin heillaði. Var það kannski afturhvarf til bernskunnar, náttúrunnar í anda Roussau? Í sveitinni var e.t.v. meiri «súbstans», segir sonur hans, friður og tenging við náttúruna. Hann tók að sér ótal hlutverk í þágu sveitarinnar á þessum árum, var í flestum nefndum og ráðum í héraðinu. Vorin voru mikill annatími fyrir bónda með 400 fjár, refabú og gráslepputrillu. En svo lauk því ævintýri. Trilluna tók á haf út í óveðri og refirnir borguðu aldrei svo mikið sem húsaleigu. Einangrun oft alger svo vikum skipti á vetrum og Ólafur lýsti veginum fyrir skriðurnar heim í Selárdal þannig í bréfi til Vegagerðarinnar, að ef skrattinn kæmi að vegarspottanum og sæi fordæmda sál við hinn endann, myndi hann ekki nenna að sækja hana. Þá loks gerðu þeir við veginn! Já, meðhjálparinn í Selárdal kunni að beita fyrir sig trúarlegu myndmáli!

Það kom að því að Ólafur pakkaði saman og flutti í bæinn 1987 – og það var eimitt þá sem hann kynntist konu sinni Guðrúnu Pétursdóttur lífeðlisfræðingi. Þau tóku bæði þátt í baráttunni gegn byggingu ráðhússins í Tjörninni, það var fyrsta sameiginlega baráttumálið af mörgum í þeirra farsælu sambúð. Samband þeirra hefur einkennst af ást og jafnræði. Þar mættust tveir sterkir einstaklingar sem nutu hverrar stundar saman og lærðu stöðugt hvor af öðrum. 

Ólafur hafði gaman af kraftinum í þessari drífandi konu, með blóð Engeyjarættar og Thorsara í æðum. Hann fagnaði hverri hugmynd um ný ævintýri, hvort sem þau voru framboð til forseta, rannsóknarleyfi hinum megin á hnettinum, eða lautarferð út á Gróttu í 14 stiga frosti. Áhugamálin voru fjölbreytt, skemmtilegt fólk, ferðalög og saga en fyrst og síðast samfélagsmál. Ólafur var vel lesinn og stálminnugur – og þess vegna óhemju fróður, bæði um líðandi stund og liðna, innanlands og utan. Afburðaþekking hans gerði að verkum að hann gat sett hlutina í samhengi, og útskýrt flóknustu mál á einfaldan hátt. Það var ekki til í honum drýldni eða sjálfsánægja, heldur sagði hann frá af hógværð og yfirvegun án þess að viðmælandi fengi tilfinningu fyrir eigin fáfræði. Ólafur hafði ríka samkennd með fólki, var empatískur og góðviljaður, en miskunnarlaus gagnvart oflátungum og valdníðingum, eins og greinar hans vitna svo vel um.

Ólafur lét sig þjóðmál miklu varða alla tíð. Hann var annálaður penni, ritaði ótal greinar og hélt útvarpserindi um innlend og erlend málefni. Hann tók virkan þátt í aðgerðum, svo sem mótmælum Þjóðarhreyfingarinnar gegn fjölmiðlalögunum 2004, og gegn stuðningi Íslands við innrás Bandaríkjahers í Írak, m.a. með birtingu heilsíðuauglýsingar í New York Times í ársbyrjun 2005: «Ekki í okkar nafni». Við kynntumst í baráttunni fyrir síðastnefndu málunum tveim. Það voru forréttindi að fá að kynnast þessari vestfirsku kempu í miðri baráttunni fyrir réttlæti og friði, þessu mikilvæga hugtakapari sem sprottin eru af elskunni.

Ólafur var bráðfyndinn og sagði vel frá, lífsglaður og geðgóður, hrókur alls fagnaðar á mannamótum og höfðingi heim að sækja. Það endurspeglast vel í laginu sem öll börnin hans eru sammála um að hafi verið eina danslagið sem hann kunni: Come on-a my house sem Rosemary Clooney söng í Ameríku fyrir 60 árum. Þetta lag dugði Ólafi ævina út – enda ekki lítil sveifla!

Andrea Gylfasóttir syngur

Já, oft var banastuð þar sem Ólafur var.

Hann var gæfumaður eins og börnin hans fimm bera vitni um. Dætur þeirra Guðrúnar og Ólafs eru Ásdís og Marta, en börn Ólafs af fyrra hjónabandi með Önnu G. Kristjánsdóttur eru Hugi, Sólveig og Kristín. Öll eiga þau hlýjar minningar um föður sinn, væntumþykjan er mikil og það er stutt í hláturinn þegar tímarnir með pabba eru rifjaðir upp.

Börn löðuðust alltaf að Ólafi því hann kom fram við þau eins og jafningja og það fylgdi honum öryggiskennd. «Ólafur er svo góður FYRIR börn», sagði lítil frænka og hjúfraði sig upp við hlýja öxl, eins og svo margir á undan henni.

Eldri börnin minnast sumranna í Selárdal, ýmist með stórfjölskyldunni, Hannibal og Sólveigu og fjölda afkomenda þeirra og tengdabarna – eða með pabba sínum einum. Þarna urðu þau afar náin honum, því eftir skilnaðinn varð hann enginn helgarpabbi heldur voru þau hjá honum allt sumarið – 24/7, twenty-four-seven, eins og nú er sagt. Þau gengu í öll verk með honum, innanhúss og utan, á landi og sjó. En þess á milli lagði hann uppúr því við þau að lesa og lesa – lesa sögu, sögu Arnarfjarðar og Selárdals, þekkja sögu kirkjunnar og listamannsins Samúels. Þau lásu allt sem hönd á festi og þegar allt um þraut lúslásu þau snjáðar bækur Lestrarfélagsins sem stofnað hafði verið í dalnum í byrjun síðustu aldar. Tíminn í Selárdal mótaði systkinin fyrir lífstíð og nú sækja þau þangað aftur, því þar eru rætur þeirra.

Meðal verkefna Ólafs á síðari árum var að stofna félag til að bjarga listaverkum Samúels Jónssonar – listamannsins með barnshjartað, sem nærri lá að yrðu veðri og vindum að bráð. Það starf hefur borið tilætlaðan árangur og er sannarlega þakkarvert.

Ólafur hélt góðu sambandi við nágranna sína og spann sterkan þráð milli sín og frændgarðsins alls. Hann var formaður Djúpmannafélagsins um árabil og fór vestur á firði á hverju ári. Þannig lærðu yngri dæturnar líka að meta tengslin vestur, sem meðal annars leiddu til þess að þær Ásdís Ólafsdóttir og Þóra Arnórsdóttir gerðu röð fjögurra sjónvarpsþátta um síðustu ábúendur í Djúpinu. Ólafi líkaði það framtak vel og fylgdist með hverju skrefi, lagði til góð ráð og leiðbeindi, enda þekkti hann sögu Djúpsins eins og lófann á sér.

Dæturnar minnast þess hvað hann var natinn leiðbeinandi. Hann hjálpaði þeim við heimanámið og tók það engum vettlingatökum. Að hlýða yfir fyrir sögupróf í 9-ára bekk var full vinna í tvo daga – enda þurfti að leiðrétta margar villurnar í kennslubókinni í leiðinni – og kennararnir lærðu fljótt að á bak við undarleg og ítarleg svör þeirra systra var traust heimild sem óþarfi var að véfengja.

Ólafur var börnum sínum ómetanleg fyrirmynd – ekki aðeins þekking hans, hreinskiptni og hlýja, – heldur afstaða hans til manna og málefna, óbilandi réttlætiskennd og hugrekki. Gamla slagorðið „Gjör rétt – þol ei órétt“ var honum í blóð borið. Hann var aldrei hræddur um eigin hag – það var ekki hægt að gera honum sjálfum neitt, því hann langaði hvorki í völd, stöður né peninga – það sem svo oft er notað til að kúga menn. Hann var frjáls og þorði að fara gegn spillingu hvar sem var og tala gegn skoðunum og hagsmunum hvers sem var. Hann réðist ekki á manninn, heldur málefnið – með pennan og röddina hrjúfu að vopni.

Ólafur horfði ætíð til alþjóðasamfélagsins í viðmiðun sinni og einangraði sig ekki við Ísland. Hann var óhemju vel að sér um alþjóðamál, var áskrifandi að erlendum dagblöðum og tímaritum og las jafnt gamlar bækur og nýjar. Allar féllu upplýsingarnar á sinn stað á þessum magnaða harða diski með óendanlegt vinnsluminni. Síðustu árin varð Ólafur sífellt uppteknari af umhverfismálum og því hversu nærri menn hafa gengið náttúrunni – og ekkert lát á. Í samtölum við börnin sín síðustu vikurnar, sagðist hann hafa mestar áhyggjur af hvers konar samfélagi hans kynslóð skilaði til þeirrar næstu.

Það er við hæfi, að eitt það síðasta sem Ólafur horfði á í sjónvarpi var hin magnaða ræða sem Obama Bandaríkjaforseti hélt fyrir skömmu yfir moldum hins myrta sóknarprestst í Charleston, í Suður Karólínu. Ólafur naut þess að horfa á hann og kommenteraði að nú loks væri Obama að ná vopnum sínum. Þessi innblásna ræða um mannréttindi og bættan heim var gott veganesti okkar góða vini. (http://www.wsj.com/articles/obama-delivers-eulogy-at-clementa-pinckney-funeral-in-charleston-1435347261)

Ólafur lést skömmu fyrir miðnætti 30. júní, heima hjá sér, með hópinn sinn í kringum sig, umvafinn ást og þakklæti þeirra sem unnu honum mest.

Hugsjónamaðurinn, með sitt ótrúlega minni og þekkingu, varð að játa sig sigraðan af krabbameininu.

Og við sitjum eftir sorgmædd yfir því að missa slíkan mann en um leið erum við þakklát fyrir það sem hann stóð fyrir og gerði á lífsleiðinni.

Nú leiðir hann ekki lengur börnin eða barnabörnin með sinni stóru og öruggu hönd sem umvafði lítinn lófa.

Hver leiðir þau nú? Er til hönd sem leiðir okkur í aðstæðum sem þessum og öðrum enn sárari? Kynslóðirnar hafa í þúsund ár átt traust til slíkrar, andlegrar handar. Jesaja spámaður, Jesaja II, sagði á 6. öld. f. Krist:

«En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig,

Guð hefur gleymt mér.“

Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu

að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?

Og þó að þær gætu gleymt

þá gleymi ég þér samt ekki.

Ég hef rist þig í lófa mér,

múra þína hef ég sífellt fyrir augum.» (Jes 49.14-16)

«Ég hef rist þig í lófa mér».

Allt mannkyn, fólk af öllum kynþáttum og trúarbrögðum tilheyrir þessari hönd.

Og svo gripið sé til enn annars myndmáls þá erum við sem fiskurinn í hafinu og hafið er Guð og hafið streymir um tálknin og fiskurinn syndir í þessu hafi. Þar á hann heima – í djúpinu.

Hér er ég og hér ert þú. Fólk af einu mannkyni á einni jörð. Við erum af þessari jörð. Við erum náttúran. Hún er ekki þarna úti. Við erum mold og «hold er mold, sama hverju það klæðist» sagði séra Hallgrímur.

Við lifum og hrærumst í lífríki og í hinu stóra samhengi eins og Páll sagði við spekingana í Aþenu forðum og vitnaði um leið í þeirra eigin bókmenntaarf: «Í honum lifum, hrærumst og erum við. Svo hafa og sum skáld ykkar sagt: Því að við erum líka hans ættar.»

Réttlætið á uppruna sinn í hinu stóra samhengi – í djúpinu. Þaðan kemur allt hið besta sem maðurinn getur hugsað sér og þessu sama djúpi felum við nú látinn öðling og baráttujaxl.

Blessuð sé minning Ólafs Kritjáns Hannibalssonar og Guð blessi eiginkonu hans, börn, afkomendur, fjölskyldu alla, frændgarð og vini.

Amen.

Tilkynningar:

Líkfylgd

Erfi

Ræðan og vefurinn

Kveðja:

«Ísfirðingafélagið vottar aðstandendum Ólafs Hannibalssonar, fyrrum formanns félagsins, samúð sína með þökk fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.»

Postulleg kveðja:

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni. Svo að þér séuð auðug af voninni í krafti heilags anda. Amen.

– – –

Sálmaskrá – Ólafur Hannibalsson – LOK

Ein athugasemd við “+Ólafur Hannibalsson 1935-2015

  1. Takk fyrir að deila þessum góðu orðum um nafna minn Hannibalsson með okkur. Ég var trúlega fyrstur til að hitta hann þegar hann brá búi í Selárdal og átti þá ánægjulegt rabb við hann. Það er vissulega söknuður af svo litríkum manni en hann kveður þessa tilveru sáttur við Guð og menn.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.