Minningarorð
Indriði Pálsson
1927-2015
fv. forstjóri Skeljungs og fv. stórmeistari Frímúrarareglunnar.
Útför frá Neskirkju þriðjudaginn 26. maí 2015 kl. 13
Ræðuna er hægt að lesa og einnig hlýða á hljóðupptöku hér fyrir neðan.
Sálmaskráin er einnig birt neðanmáls.
Efni og andi.
Við lifum í veröld sem iðar af lífi, veröld sem varð til af andlegum orsökum. Sköpunarsaga Biblíunnar er merkilegt ljóð, lofsöngur um að að baki öllu sé hugur, höfuðsmiður, himnasmiður eins og skáldið Kolbeinn Tumason kallar hann í elsta sálmi sem til er á norrænni tugu, ortur 1208. Skáldið sem færði sköpunarsöguna í letur sá fyrir sér að allt hafi byrjað með ljósinu. Guð sagði: «„Verði ljós.“ Og það varð ljós.» Öldum og árþúsundum síðar eru margir vísindamenn á sama máli og telja jafnvel að að baki tilverunni sé hönnuður, hugur, himnasmiður. En skáldið sá þetta án þessa að þekkja til geimferða eða vísinda. Hugur þess, sem horfir og sér í hjarta sínu út fyrir rammann, getur skynjað hið stóra samhengi. Það undur gerist e.t.v. ekki í mannsheilanum, sem þó er sagður flóknasta og flottasta fyrirbrigði veraldar, heldur í hjartanu, í «brjóstkirkjunni» eins og helgidómur hjartans er nefndur í íslenskri prédikun sem birtist í Homilíubókinni frá því um 1200 og er safn af fornum stólræðum og elsta bók íslensk sem varðveist hefur. Hún var týnd í fimm aldir en fannst í Stokkhólmi. Margir höfundar hafa tjáð sig um tungumálið í Hómilíubók og þótt mikið til þess koma. Sigurbjörn Einarsson, biskup, sagði í formála þegar hún kom út 1993:
«Frá bókinni má kenna ilminn frá gróanda íslenskrar frumkristni. Og um leið er sem maður fái að skyggnast inn í smiðjuna hjá þeim mönnum, sem fengu þjóðinni tygin til stórra afreka í bókmenntum.»
Jón Helgason prófessor komst þannig að orði í Handritaspjalli um Hómilíubók.
«Óvíða flóa lindir íslenzk máls tærari en í þessari gömlu bók, og er sá íslenzkur rithöfundur sem ekki hefur þaullesið hana, litlu betur undir starf sitt búin en sá prestur sem enn á ólesna fjallræðuna.»
Nú í hvítasunnuvikunni erum við minnt á verk andans í sköpunarverkinu. Kirkjan varð til á hvítasunnudag á fyrstu öld eins og Kristur hafði lofað. Þá fékk fólk með skerta von nýjan kraft til að lifa daginn og horfa fram á veginn í trú og von. Kirkjan varð til. Hún er merkileg fjöldahreyfing sem hefur haft gríðarleg áhrif á heiminn. Heimspekiprófessor og fv. háskólarektor, Páll Skúlason, sem lést nýlega, minntist læriföður míns, Þóris Kr. Þórðarsonar, fyrir 20 árum, og sagði meðal annarra orða um hann:
«Þórir er sannur miðill tveggja höfðustrauma í hugsanafljóti vestrænnar menningar….Andlegu straumarnir tveir eiga sér alkunnar uppsprettur, aðra hebreska, hina gríska. Annars vegar er hinn gyðinglegi-kristni straumur, hins vegar hinn gríski-fílósófíski straumur. Af samruna þeirra sprettur evrópsk menning sem nú teygir anga sína um víða veröld, ekki síst í nafni alþjóðlegra vísinda og kristinnar trúar.»
Hér er mælt af viti og visku og á allt öðrum nótum en í mörgum þeim þunnildum sem víða heyrast í dag um kirkju og kristni í álfunni og ekki síst hér á landi. Þunnildi.
Indriði Pálsson bar skyn á þetta «hugsanafljót». Hann hafði bergt af því hjá móður sinni og föður, ömmu og afa. Indriði var laugaður í þessu fljóti, í «laug endurfæðingarinnar» eins og postulinn nefnir skírnina.
Faðir Indriða var trúaður og vel hagmæltur. Hann ritaði systur sinni í desember 1963:
«Það fer svona stundum á annan veg en hugurinn horfir. Það er eins og æðri öfl stjórni og leiði mann þann veg sem fara skal þó stundum sé lykkja á leiðinni. En aldrei má kjarkinn bresta, það er uppgjöf, og þá tekur straumurinn fleyið sem þá flýtur að feigðarósi. Já, altaf skal áfram halda, með kærleik í hug og hjarta, kærleikurinn er okkar æðsta afl. Hann er guðsandinn í manninum. Hann gefur lífinu gildi og leiðir okkur á lífs vegi, leiðina að hinsta degi. Þegar ég nú lít til baka, má ég vera glaður þó vegurinn yrði annar en ég óskaði í upphafi og ekki hafi brautin altaf verið slétt og bein jafnvel sundur skorin, en yfir hef ég komist með æðri hjálp og samfylgd . . .»
Indriði var mótaður af hinni kristnu lífssýn og félagsstarfið sem hann helgaði krafta sína í áratugi, Frímúrarastarfið, efldi í honum þá sýn og lét klukkurnar óma í brjóstkirkju hans. Í trúnni hlaut hann afl og styrk til að lifa og takast á við mótlæti. Stærst var höggið er hann missti móður sína, þá á 8. ári. Slíkum missi má líkja við tilvistarlegar hamfarir. Ég get ekki hugsað mér neitt verran en það að barn missi foreldri eða foreldrar barn. Það er svo óréttlátt. Ein af erfiðustu spurningum innan hinna svonefndu abrahamísku trúarbragða, guðingdóms, kristni og islam, er spurningin um böl og þjáningu í heimi sem skapaður er af almáttugum, kærleiksríkum Guði. Hvers vegna þjáist gott fólk og saklaus börn? Guðfræði krossins, föstudagsins langa og páska, veitir svör. Sjálfur Guðs sonur leið og dó. En hann reis upp á ný! Föstudagur heitir líka frjádagur á íslensku, dagur elskunnar. Um hann orti norðlenska skáldið Davíð Stefánsson og sagði:
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.
Mótsagnir trúarinnar eru margar og áhugaverðar og þær er hægt að sætta í brjóstkirkjunni, í hjartanu, sem skilur allt sem heilinn ekki ræður við. Bænin er lykill að skilningi og innsæi í dýpstu og erfiðustu spurningar lífsins. Skilur heilinn ást? Skilur heilinn fyrirgefningu? Miskunn? Náð? Óendanleika? Eilífð? Nei, en hjartað megnar að skilja mótsagnir lífsins.
Gátur lífsins eru margar og víst er að í Frímúrarareglunni eru margar gátur og þrautir sem mæta mönnum. Hún er miklvægur strengur í «hugsanafljótinu». Reglan er mörgum mikill leyndardómur og einkum þeim sem standa utan hennar. Hún er ekki leynifélag því lög hennar og tilgangur er öllum aðgengilegur á bók og félagatalið einnig. Reglan er mannræktarfélag á kristnum grundvelli, meitluð og mótuð af visku aldanna, á siglingu manna um «hugsanafljót vestrænnar menningar.» Leyndin í Reglunni er til þess að eyðleggja ekki upplifun bræðra. Leyndinni má líkja við það að ég segi ekki vini mínum nákvæmlega frá stórkostlegu bíómyndinni sem ég sá eða bókinni sem ég las, því þá fer hann á mis við að upplifa ferðalagið sem söguþræðinum er ætlað að leiða hann í gegnum.
Nú stöndum við á krossgötum og kveðjum mann sem hefur lokið sinni ferð. Eða eigum við að segja að skil hafi orði á vegferð hans? Hann er horfinn til nýrrar víddar en við erum hér við krossgöturnar miklu og íhugum tilvist okkar og vegferð. Við verðum einnig að kveðja þetta líf í fyllingu tímans.
Indriði fæddist 15. desember 1927 á Siglufirði þar sem hann ólst upp. Foreldrar hans voru Páll Ásgrímsson, verkamaður og síðar verslunarmaður á Siglufirði, og María Sigríður Indriðadóttir, húsfreyja á Siglufirði. Albræður Indriða voru Einar og Ásgrímur, sem báðir eru látnir. Systkini Indriða frá seinna hjónabandi föður hans eru Magnús, Sigríður og Lilja Kristín.
Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1948, lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1954 og öðlaðist réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 1958.
Indriði kvæntist hinn 15. janúar 1955 Elísabetu Guðnýju Hermannsdóttur (f. 1928) frá Seyðisfirði. Það var gæfuspor. Börn Indriða og Elísabetar eru Sigríður, gift Margeiri Péturssyni, og Einar Páll, kvæntur Höllu Halldórsdóttur. Barnabörnin eru fjögur: Elísabet Margeirsdóttir, Indriði Einarsson, Halldór Einarsson og Ingibjörg Einarsdóttir.
Að loknu námi gerðist Indriði fulltrúi hjá Sameinuðum verktökum á Keflavíkurflugvelli 1955-57. Síðan starfrækti hann lögfræðistofu í Reykjavík á árunum 1957-59 og var jafnframt framkvæmdastjóri Félags löggiltra rafvirkjameistara 1957-58 og Meistarasambands byggingarmanna 1958-59.
Á árunum 1959-71 var hann fulltrúi forstjóra hjá Olíufélaginu Skeljungi hf. en var síðan ráðinn forstjóri Skeljungs árið 1971. Því starfi gegndi hann til ársins 1990 og var síðan stjórnarformaður Skeljungs frá 1990-99. Indriði sat í stjórn Hf. Eimskipafélags Íslands á árunum 1976-99, sem varaformaður stjórnar 1984-92 og stjórnarformaður frá 1992-99. Kveðja frá stjórn Eimskipafélagsins.
Auk þessa gegndi Indriði fjölmörgum trúnaðarstörfum í atvinnulífinu, m.a. sat hann í stjórn Flugleiða hf. frá 1988-2001 og í stjórn Ferðaskrifstofunnar Úrvals-Útsýnar hf. 1987-92. Þá var hann í framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands 1972-78 og í stjórn Verslunarráðs Íslands 1982-1990.
Indriði var formaður Stúdentafélags HÍ 1949-50. Hann var félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur og sinnti þar stjórnarstörfum á árunum 1984-87, þar af sem forseti 1985-86. Indriði var stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi á árunum 1988-99.
Indriði var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1988 og stórriddarakrossi 1993.
Hlé – Kveðulag frímúrara leikið á selló og orgel.
Móðurlausi drengurinn, sem hóf vinnuferlið sem sendill, varð gæfumaður í alla staði. Hann átti gott líf. Hann hafði sterkar tilfinningar, var nákvæmur og bar hag fjöskyldu sinnar ætið mjög fyrir bjósti. „Hvað get ég gert fyrir ykkur?“ spurði hann oft. Hann átti góðar góðar bernskuminningar. «Ein fyrsta minning mín er þegar Indriði afi minn gaf mér þríhjól í afmælisgjöf þegar ég var fjögurra ára. . . Ég man líka vel þegar afi móðurafi minn lést í júlí 1932. Fóstursystir móður minnar kom heim til okkar og sagði við hana: «Mamma bað mig að segja þér að pabbi væri að deyja.» Þessum orðum gleymi ég aldrei og ég held að ég hafi þá skilið hvað þau þýddu.» Svo mundi hann vígslu Siglufjarðarkirkju 1932.
Dýrmætt leikfang, dauðinn og hátíð í kirkju, voru elstu minningarnar – og Siglufjörður, öflugur bær í fögru umhverfi, var ætíð ofarlega í huga hans.
Hann átti góða að og fann það fljótt að hann var traustins verður, fékk góð störf sem drengur og unglingur og sinnti öllu af alúð og ábyrgð. Hann var góðviljaður maður að eðlisfari og vildi greiða götu allra. Hann var tilfinningavera, trúaður maður sem bað bænir sínar og miðlaði því til barna sinna, bað fyrir þeim og fjölskyldunni. Hann var mannlegur og einlægur en bar þó ekki tilfinningar sínar á torg. Börnin segja að hann hafi viljað tryggja þeim gott uppeldi og að þau fengju allt sem hann ekki naut í æsku. Hann aðstoðaði þau og hjálpaði þeim mikið.
Þau minnast daganna þegar hann var forstjóri Skeljungs og fór með þau í sunnudagsbíltúr. Þá var farið á eina bensínstöð hverja helgi. Lífið hafði kennt honum og ekki síst bernskubærinn hans, Siglufjörður, að allir hefðu hlutverki að gegna og væru mikilvægt tannhjól í vél atvinnulífsins. Forstjórinn fylgdist vel með og lét sjá sig á plani, talaði við karlana og spurði um lífið og tilveruna. Þessi samtöl og biðin eftir pabbar var kannski ekki heimsins besta sunnudgsskemmtun í augum systkinanna en þau fengu ís á Dairy Queen! – og nú eru þessar minningar dýrmætar.
Þegar Einar Páll vann sem sendill hjá Skeljungi sá hann pabba í nýju ljósi. Þegar Indriði birtist á ganginum á skrifstofunni reyndu allir að líta út fyrir að vera mjög «busy». Fólk bar virðingu fyrir forstjóranum og vissi að hann var góður stjórnandi og réttsýnn. Starfsmönnum Skeljungs var hlýtt til lndriða enda vitum við það sem honum kynntumst að hann var vænn maður og drengur góður. Hann hafði gott lag á að vera alþýðlegur.
Hann lærði að lifa í öldugangi daganna og margir leituðu til hans í gegnum árin. Hann var raungóður og ráðhollur. Börnin minnast þess að oft sagði hann eitthvað sem þau voru ekki sammála en síðar kom oftar en ekki í ljós að hann hafði haft rétt fyrir sér.
Indriði tók öllum áföllum af æðruleysi. Hann þekkti ástvinamissi úr bernsku og þegar hann missti albræður sína með sviplegum hætti sýndi hann karlmennsku og styrk og var ástvinum þeirra til styrktar og hjálpar á alla lund.
Hans stærstu áhugamál voru effin tvö eða «frímin» tvö: Frímúrarareglan og frímerkjasöfnunin. Hann var á heimavelli í báðum deildum. Margir leituðu til hans í þeim efnum og fundu að ætíð vissi hann sínu viti.
Hann var gæfumaður í einkalífi, eignaðist góða konu, börn, tengdabörn og barnabörn. Elísabet sá um heimilið þeirra sem bar ætíð smekkvísi beggja vitni.
Indriði var fagurkeri, safnaði málverkum og naut þess að hafa fagra hluti í kringum sig.
Elísabet stjanaði jafnan við bónda sinn og hann naut þess er hún dansaði í kringum hann.
Þau voru nægjusöm og fagurt heimili þeirra var ekki yfirdrifið eða ofurstórt en það var fágað. Þau fóru í fyrsta skipti í sumarfrí árið 1972 og þá til Spánar. Fjölskyldan var saman í þeirri ferð og allir nutu lífsins. Eftir það fóru þau hjónin árlega til í útlanda og í ein 20 ár til Flórída. Indriði var ekki nýjungagjarn. Ef honum líkaði vel á einum stað þá vildi hann þangað aftur.
Þau eignuðust sumarbúðstað á Þingvöllum og nutu náttúru og fegurðar þar í nokkur ár og gerðu gróðri og náttúru vel til, en seldu hann þegar þau voru hætt að gista þar.
Indriði var vanafastur. Honum líkaði regla og ritúal, festa og fyrirhyggja. Hann fór árum saman að morgni dags í sundlaugina í Laugardalnum og þar eignaðist hann góða vini. Indrið var fremur sparsamur hvað varðaði suma hlut í það minnsta. Sundfélagarnir splæstu í íþróttatösku handa honum og höfðu hengt á hana merki olíufélaganna, líklega þó bara keppinautanna! Hann hafði notað plastpoka árum saman og börnin hans halda að hann hafi jafnvel ekki notað töskuna neitt að ráði eða jafnvel alls ekki! Pokinn dugði.
Þegar hann kom heim að kvöldi og hafði fylgst með fréttum fór hann gjarnan að sinna frímerkjum sínum. Um helgar var oft farið á málverkasýningar og í bíltúr. Hann sá til þess að þegar hann fékk nýjan bíl á 5 ára fresti eða svo að nýi bíllinn væri í sama lit og sá gamli og með sama númeri: R715. Ætíð var bíllinn tandurhreinn og bónaður.
Indriði vildi standa á eigin fótum og vera ekki uppá aðra kominn. Lífið hafði kennt honum að standa sig. Samband hans og hálfsystkina hans óx með árunum og þau sýndu honum og fjölskyldu hans mikla ræktarsemi. Þau komu til hans reglulega. Í hverri viku fékk hann heimsókn. Elísabet hefur verið heilsulítil síðustu árin en getað verið heima vegna umhyggju og elsku Indriða.
Hann gerði mörgum greiða um ævina en lét sín ekki við getið þegar hann vann sín góðverk.
Við kveðjum hér í dag, gæfumann og öðling. Gæfan er kannski ekki það sem menn fá í fangið heldur það sem menn leiða fram með eigin hugsun og verki. «Hver er sinnar gæfu smiður» segir í máltækinu. Gæfan er andleg afurð.
Páll faðir hans orti:
Ég er nú glaður á gengnum degi
guði sé lof ég kvarta eigi
því hamingjan hefur hossað mér
á höndum sem máski enginn sér.
Efni og andi.
Lífið er ekki bara dautt efni heldur lifandi púls, hjartsláttur himins-elsku í brjósti manns. Þú finnur það þegar þú hittir fólk hvernig hjarta þeirra er, hvort brjóstkirkjan er lifandi eða ekki. Indriði hafði útgeislun góðs manns. Hann var heillyndur og trúr í sínum verkum, ekki fullkominn frekar en við, en vænn maður og drengur góður. Hin síðari misserin og árin kom hann oft hingað í Neskirkju. Hér er hann kvaddur með virðingu og þökk, undir tákni krossins og vatnsmerki skírnarinnar, sem skilar þeim heim sem Drottinn hefur helgað sér. Tákn krossin og vatnsmerki skírnarinnar, það er frímerkið á lífi okkar.
Útför er sorgarathöfn en á móti vegur að hún er í tilfelli eins og þessu, þakkarhátíð, fyrir það líf sem hvatt er.
Indriði er horfin af þessu heimi efnis og anda. En andinn eða sálin lifir uns hún sameinast aftur í upprisunni á efsta degi. Séra Hallgrímur orti og bað:
Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér,
vaka láttu mig eins í þér.
Sálin vaki, þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf.
Megi hinn hæsti höfuðsmiður himins og jarðar, gæta hans og geyma um alla eilífð í þeirri vídd tilverunnar, sem við nú beinum vonum okkar til, þar sem ástvinir mætast og móðir og faðir, faðma á ný kæran son og brjóstkirkjan sameinast helgidómi himinsins.
Blessuð sé minning Indriða Pálssonar.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldri alda.
Amen.
Tilkynningar.
Takið postullegri blessun:
Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni. Svo að þér séuð auðug af voninni í krafti heilags anda. Amen.
Komst ekki við jarðarför hans en þakka fyrir, að geta lesið ræðuna þína hér á netinu.
Takk fyrir kæri br.
Kær þökk, kær minning.