+Sverrir Einarsson 1927-2015

Sverrir EinarssonÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Sverrir Einarsson

1927-2015

tannlæknir og kylfingur

Útför (bálför) frá Hallgrímskirkju föstudaginn 16. janúar 2015 kl. 15.

Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á ræðuna og lesa. Sálmaskrána/grafskrift er hægt að skoða neðanmáls.

Friður Guðs sé með ykkur.

Sverrir hefur leikið sinn síðasta hring og er kominn heim.

Lífið er vegferð eins og segir í þekktum jólasálmi:

Kynslóðir koma, kynslóðir fara allar sömu ævigöng.

Nú hafið þið börnin hans kvatt báða foreldra ykkar og þið þar með komin í nýja stöðu í tilverunni. Þið eruð fremst í göngunni miklu sem færist nær þeim skilum sem verða í tilveru allra manna, karla og kvenna, hvar í heimi sem er.

Lífið er gjöf og dagarnir eru taldir eins og segir í 139. sálmi Davíðs:

Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni,

ævidagar mínir voru ákveðnir

og allir skráðir í bók þína

áður en nokkur þeirra var til orðinn.

Sverrir fæddist í Reykjavík 20. nóvember 1927. Hann lést 7. janúar 2015 á Landspítalanum við Hringbraut.

Foreldrar hans voru Guðrún Sigríður Guðlaugsdóttir f. 1893, d. 1967, borgarfulltrúi og Einar Björgvin Kristjánsson f. 1892, d. 1966, húsasmíðameistari.

Sverrir var 5. í röð 7 systkina sem öll eru látin, en þau voru:

Guðlaugur Maggi Einarsson f. 1921, d. 1977, lögfræðingur;

Kristján Ingi Einarsson f. 1922, d. 1977, verkfræðingur;

Axel Wilhelm Einarsson f. 1923, d. 2003, bókari;

Einar Gunnar Einarsson f. 1926, d. 1972, lögfræðingur;

Ingibjörg Einarsdóttir f. 1934, d. 1999, skrifstofukona;

Kristinn Einarsson f. 1938, d. 1992, lögfræðingur.

Sverrir fæddist að Freyjugötu 37, rétt sunnan við Hallgrímskirkju. Móðir hans lét til sín taka í safnaðarstafi kirkjunnar og faðir hans byggði fyrsta hluta hennar. Sverrir vann hjá honum í skólafríum, skóf mótatimbrið og nagldróg. Ein af orgelpípunum hér var gefin af fjölskyldunni í nafni foreldra Sverris.

Hann sleit barnsskónum á Skólavörðuholtinu og sá Reykjavík breytast úr bæ í borg. Bræðurnir á Freyjugötunni þóttu dálítið baldnir. Þórbergur Þórðarson bjó í næsta húsi, kynlegur kvistur sem lá vel við höggi og fyrir kom að þeir stríddu karli. Einhverju sinni hafði Sverrir egnt hann og karlinn elti strák inn í þvottahús og þegar þangað kom stóð Sverrir undir pilsfaldi mömmu sinnar sem tók á móti skáldinu með þvottaprikið að vopni. Skáldið borgaði fyrir sig síðar með því að nefna í einni bóka sinna „hrekkjusvínin á Freyjugötunni“. Strákarnir voru hins vegar bestu skinn inn við beinið en nokkuð fyrirferðarmiklir í bernsku.

Einar faðir Sverris byggði mörg hús í Reykjavík ásamt meðeiganda sínum að verktakafyrirtækinu Stoð. Fyrr var minnst á fyrsta hluta Hallgrímskirkju. Þá má nefna Austurbæjarskólann, Háskólann og fyrstu blokkirnar við Hringbraut. Sverrir vann í byggingarvinnu öll sumur meðan hann var unglingur en ætlaði þó ekki að leggja fyrir sig húsasmíðar eða steypuviðgerðir enda hefði hann ekki haft margar holur að fylla í veggjunum sem pabbi hans steypti því engar voru alkalískemmdirnar í húsum á þeim árum. Um tíma reyndi hann fyrir sér sem þjónn á Hótel Borg og eitt sinn bar hann matarbakkanna á annarri hönd við öxl, hnarreistur og flottur, en missti kjúklingaréttinn yfir aðmirálinn í salnum og borðdömur hans. Kjúklingar voru fágætir á þeim árum og því var farið með allt inn í eldhús, skolað, hitað og borið fram aftur. Hann hætti að bera mat í munn en fann þó sinn vettvang síðar og var með hendur í munni fólks eftir það.

Fyrri kona Sverris var Ingibjörg Albertsdóttir f. 1929, d. 1980. Þau skildu. For.: Albert Ólafsson f. 1899, d. 1959, og k.h. Guðrún Guðmundsdóttir f. 1890, d. 1948.

Börn þeirra:

1) Ingibjörg Hrefna f. 24. mars 1947, ferðafræðingur.

2) Einar Albert f. 27. okt. 1958, rafmagnstæknifræðingur. Maki: Ásthildur Dóra Kristjánsdóttir, f. 27. maí 1958, tannfræðingur. Börn: Sverrir f.  7. nóv. 1978, hann á 3 börn; Sigrún f. 20. des. 1984, hún á 1 barn. 

3) Jónas Sturla f. 24. jan. 1963, tölvuvísindamaður. Maki: Margrét Hafsteinsdóttir Hansen f. 12. júní 1963, fjármálastjóri. Börn: Þóra f.22. ág. 1983, Berglind f. 16. ág. 1987 og Níels Ingi f. 3. júl. 1997.

Seinni kona Sverris er Margrét Þóroddsdóttir, f. 24. jan. 1937, fv. bankafulltrúi. For.: Þóroddur Guðmundsson, síldarsaltandi og alþingismaður á Siglufirði, f. 1903, d. 1970, og k.h. Halldóra Elísabet Eiríksdóttir f. 1913, d. 1992.

Stjúpdætur Sverris (dætur Margrétar):

1) Sigríður Vilhjálmsdóttir, f. 23. maí 1958, tannfræðingur og matsveinn. Sonur hennar er Halldór f. 27. maí 1980 og á hann 1 barn.

2) Pia Elizabeth Hansson f. 9. feb. 1964, M.A. í alþjóðasamskiptum. Maki: Þór Ingólfsson, f. 21. okt. 1964, grafískur hönnuður. Börn: Ingólfur f. 3. mars 1991, Margrét f. 10. feb. 1998 og Þórhildur f. 17. ág. 1999.

Já, Sverrir fór af Borginni í Menntaskólann og tók stúdentspróf 1949. Hann hafði tafist í námi vegna fótbrots en notaði tímann vel meðan hann var í gipsi og prjónaði sokka og önnur plögg heima enda engin göngugipsi til á þeim árum. Hann útskrifaðist sem Cand. odont. frá Háskóla Íslands 1955. Hann nam einnig við Kaupmannahafnarháskóla og heyjaði sér þekkingu á fleiri stöðum á lífsleiðinni. Hann kom víða við í félagsmálum, var vinsæll félagi og góður tækifærisræðumaður.

Hann fékk tannlæknaleyfi 1955 og hóf störf í Vestmannaeyjum, fyrst í afleysingu en svo settist hann þar að og var fram að gosinu 1973.

Hann fyllti ekki bara í tannholur heldur tók hann að miða á aðrar holur út um víðan völl er hann hóf að leika golf í Eyjum og sú íþrótt tók hug hans allan upp frá því.

Hann rak stofu í Reykjavík eftir gos og vann einnig á Heilsuverndarstöðinni sem skólatannlæknir. Nánari upplýsingar um störf hans, félagsmál og fleira er að finna í formála minningargreina um hann í Morgunblaðinu og allt of langt mál að telja það allt upp hér. Sá texti verður birtur með þessari ræðu á vefsíðu minni.

Sverris er minnst fyrir marga góða kosti sem prýddu hann. Hann var glaðsinna, greiðvikinn, skemmtilegur, sagnamaður góður og vinsæll.

Foreldrar hans voru duglegt og heiðarlegt fólk. Móðir hans var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í 12 ár og beitt sér mjög í félagsmálum og lét sig sérstaklega varða kjör lítilmagnans. Hún kom að rekstir Sólheima og var Hringskona með meiru. Hún var vel máli farin og góður ræðumaður, prestsdóttir frá Stað í Steingrímsfirði.

Sverrir hafði ríka réttlætiskennd og enda þótt hann teldi sig hægrimann í pólitík þá bendir áttaviti réttlætiskenndarinnar ætíð inn að miðju stjórnmálanna. Hann var stálheiðarlegur og átti oft erfitt með að rukka fyrir sína vinnu.

Þau Margrét áttu saman góða daga í 31 ár, voru samrýmd og elsk að hvort öðru. Þau gengu í hjónaband í júlí 1983. Þau unnu saman á tannlæknastofunni um árabil og hún fylgdi honum í golfinu enda þótt hún spilaði ekki mikið sjálf. Þau komu oft við á Kaffivagninum eftir golfhring á Nesinu og þá benti Sverrir gjarnan á verbúðirnar á Grandanum og sagði: „Þetta byggðum við pabbi.“ Hann lærði ungur að vinna fyrir sér og oft rifjaði hann það upp er hann 12 ára var sendur til Ásmundar myndhöggvara til að aðstoða hann. Ein af myndunum í sálmaskránni sýnir Sverri við styttuna af þvottakonunni en hann sat dögum saman og strauk henni um allan kroppinn og pússaði hana fína forðum daga.

Sverrir var ágætur söngmaður og þegar hann var strákur seldi Einar Gunnar bróðir inn á Sverri sem hóf upp raust sína fyrir fólk sem vildi hlusta. Hann hafði auga fyrir myndlist og málaði dálítið sjálfur. Hann orti og skrifaði öðrum til gleði og sjálfum sér til ánægju. Hann var góður skákmaður og eitt sinn er hann var í Danmörku mátaði hann mann nokkurn óvart, að eigin sögn, og frétti svo eftir á um var að ræða stórmeistarann Bent Larsen.

Hann fór í margar skotveiðiferðir upp á land meðan hann bjó í Eyjum og til eru margar sögur úr þeim ferðum.

Sverrir hafði yndi af músík og þá sérstaklega góðum jazz.

Ég kynntist honum á golfvellinum á Nesinu þar sem hann var fastagestur. Hann lék golf fram yfir áttrætt og var afar flinkur spilari, sló beint og af öryggi og kunni að leysa boltann úr margvíslegum álögum á vellinum af sinni næmni og lagni. Sum ykkar hafið áður heyrt mig fjalla um golf sem kristilegustu íþrótt sem til er, en sú kenning mín er fólgin í þeirri staðreynd að golf fyrirgefur manni klaufaskap eða syndir – en orðið synd á grísku merkir geigun – með því sem kallað er forgjöf en ætti auðvitað að heita fyrirgefning. Golfið gerir alla jafna og er afar flott íþrótt þar sem eldri og yngri, byrjendur og lengra komnir, geta leikið sér til gamans og keppt til verðlauna á jafnréttisgrundvelli. Auðvitað er til urmull af góðum golfsögum og bröndurum eins og t.d. þessi:

Ástríðukylfingur spyr spákonu að því hvort ekki séu golfvellir á himnum. „Ég er með góða og slæmar fréttir fyrir þig!“ sagði spákonan. „Góða fréttin er sú að golfvellirnir á himnum eru algjörlega himneskir; slæma fréttin er sú að þú átt rástíma þar, kl. 8:30 í fyrramálið!!!“

Börnin eiga föður sínum mikla þökk að gjalda og stjúpdæturnar einnig, barnabörnin og fjölskyldan öll. Margrét kveður nú skemmtilegan lífsförunaut og þakkar allt það góða sem þau gerðu saman og nutu hér heima og á ferðum um víða veröld. Góðir daga líða og hverfa og við tekur ný tíð. Þannig er lífið. Það heldur áfram með sínum hringjum, áföngum og krossgötum.

Og nú er hringnum lokað. Lífsferðinni sem hófst hér sunnan við kirkjuvegginn lýkur hér í þessum háa helgidómi sem faðir Sverris lagði grunninn að hér á klöppinni.

Kirkjan sem hreyfing á sér reyndar annan grunn, andlegan, eins og Kristur sagði sjálfur við einn lærisveina sinna:

Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.

Kirkjan mun lifa sem andleg hreyfing og halda áfram að bæta þennan heim í anda réttlætis, miskunnar og sannleika.

Með Sverri er genginn eftirminnilegur heiðursmaður, skemmtilegur og réttsýnn. Þannig menn þurfum við í framtíðinni – marga slíka, bæði karla og konur – ef okkur á að takast að komast út úr því brimróti sem íslenskt þjóðfélag er í um þessar mundir. Við þurfum heiðarlegt og einart fólk, með ríka réttlætiskennd  og kærleika í hjarta – og síðast en ekki síst – góðan húmor.

Við kveðjum Sverri Einarsson með virðingu og þökk. Blessuð sé minning hans.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Tilkynningar:

Sérstakar kveðjur hafa borist frá bróðurdóttur, Sverris, Hrund Kristinsdóttur og manni hennar Jónasi Einarssyni og fjölskyldu í Svíþjóð og frá Golfklúbbnum í Vestmannaeyjum en þar minnast menn góðs félaga.

Kveðjur frá börnum Sverrirs sem búa eða stödd eru í útlöndum eða út á landi. Þau eru:

Einar Ben sem býr í Florida,

Ellen Kristjánsdóttir sem er stödd erlendis og

Pétur Kristjánsson á Seyðisfirði.

Þau senda innilegar kveðjur og minnast Sverrirs frænda fyrir húmorinn og væntumþykjuna.

Kistan borin út – signt yfir úti á kirkjuhlaði.

Jarðsett verður síðar að bálför lokinni.

Aðstandendur þakka innilega auðsýnda samúð og hlýhug og bjóða kirkjugestum að þiggja veitingar í Akóges salnum í Lágmúla að lokinni athöfn.

Postuleg kveðja: Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og frið í trúnni. Svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.

Nám og störf

Sverrir útskrifaðist frá MR 1949. Cand. odont. frá Háskóla Íslands 1955. Hann nam við Kaupmannahafnarháskóla 1966-67. Hann hlaut Nato-styrk til kynnisdvalar vegna flúorblöndunar drykkjarvatns við University of Alabama 1968. Hann var tannlæknir í Vestmannaeyjum frá 1955-73. Tannlæknir í Reykjavík frá 1973-2006 og hjá Skólatannlæknadeild Reykjavíkurborgar. Hafði forgöngu um að koma á flúorblöndun

drykkjarvatns í Vestmannaeyjum 1971, en sá tækjabúnaður eyðilagðist í eldgosinu 1973. Hann var formaður stjórnar Félags ísl. tannlæknanema 1954. Formaður stjórnar TFÍ 1976-78 og meðstj. 1984-86. Í samninganefnd TFÍ við TR 1974-86, í taxtanefnd TFÍ 1978-81, í samninganefnd við tannsmiði og aðstoðarfólk 1978-86. Í stjórn Dentalíu hf. 1973-93 og í stjórn Félags skólatannlækna í Reykjavík frá 1985 til 1991.

Í stjórn Golfklúbbs Vestmannaeyja 1955-71, formaður í 5 ár. Í stjórn Golfsambands Íslands 1973-1982.

Í stjórn Golfklúbbs Ness 1980. Formaður Landssambands eldri kylfinga 1986-88, í stjórn þess frá 1988. Hann hlaut gullmerki Golfklúbbs Vestmannaeyja, gullmerki ÍBV, gullmerki og gullkross GSÍ, silfurmerki Nesklúbbsins og gullmerki Landssambands eldri kylfinga. Hann var formaður og varaformaður í félaginu Akóges í Vestmannaeyjum og hefur sinnt ýmsum nefndarstörfum fyrir félagið bæði í Eyjum og í Reykjavík. Hann var heiðursfélagi í Akóges.

Sverrir Einarsson-Grafskrift

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.