+Salóme Margrét Guðmundsdóttir 1923-2015


Salóme -2011aMinningarorð

Salóme Margrét Guðmundsdóttir

1923-2015

Útför frá Neskirkju þriðjudaginn 13. janúar 2015 kl. 13

Jarðsett í Görðum á Álftanesi.

Hægt er að lesa ræðuna hér fyrir neðan og hlusta á upptöku.

Ef væri ég söngvari syngi ég ljóð

um sólina, vorið og land mitt og þjóð.

En mömmu ég gæfi mín ljúfustu ljóð,

hún leiðir mig, verndar og er mér svo góð.

Hún mamma söng mikið fyrir okkur í bernsku og þennan texta sungum við bræður við dánarbeð hennar, hrærðir og þakklátir fyrir allt sem hún gaf okkur.

Það er mikið undur að fá að vera til. Um leið er eiginlega ekki hægt að gera sér það í hugarlund hvernig það undur varð allt að veruleika. Enda þótt ég hafi verið barn og eigi börn og barnabörn og hafi verið viðstaddur fæðingu barna, þá get ég ekki skilið hvernig ég var eitt sinn fóstur sem þurfti að fara um fæðingarveginn til að fá að líta ljósið.

Það er svo margt í lífinu sem við getum ekki skilið til fulls enda þótt við vitum að það hafi gerst eða eigi eftir að gerast.

Ég hef staðið yfir moldum mörghundruð manna, karla og kvenna- yngri og eldri – og verið margoft við dánarbeð, en get samt ekki gert mér í hugarlund hvernig það verður að deyja. En allir sem fæðast verða þó að fara í gegnum þessi tvö stig, hina fyrri og síðar fæðingu. Það er svo margt í lífinu sem við skiljum ekki með okkar takmarkaða heila en innra með okkur er þó önnur stöð sem skilur það sem í raun er óskiljanlegt og það er hjartað, þessi innri  rödd, sem skilur hið óræða, skilur hið ótrúlega, skilur hið stóra samhengi, skilur hið óendanlega, hið eilífa, hið stærsta og mesta – skilur heim og handanveru – transendence.

Hugtakið trú er ekki skilgreint í hinni miklu trúarbók, Biblíunni, nema á einum stað og það er í bréfinu til Hebrea, í upphafsorðum 11. kafla:

Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.

Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð.

Fyrir trú skiljum vér, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð.

Og einmitt þetta eru vísindamenn nú að viðurkenna.

Salóme Margrét fæddist í Hnífsdal 1. ágúst 1923 en ólst upp á Ísafirði frá unga aldri. Foreldrar hennar voru Guðbjörg Margrét Friðriksdóttir, húsmóðir, frá Dvergasteini í Álftafirði og Guðmundur Halldórsson, fæddur á Eyri í Ísafirði, innst í Ísafjarðardjúpi, en alinn upp hjá móðurbróður sínum og konu hans í Engidal og síðar að Seljalandi í Skutulsfirði en þar er Eyri þar sem Ísafjarðarkaupstaður stendur. Ömmu mína, Guðbjörgu Margréti, sá ég því miður aldrei, því hún lést úr hjartaáfali árið 1945, tæplega 49 ára, öllum harmdauði, en afa Guðmundar naut ég alla mína daga þar til hann lést 92 ára. Hann var frábær afi, heil og væn manneskja. Friðgerður ömmusystir varð okkur bræðrum, sem besta amma, ættfróð, greind, væn og yndisleg kona.

Systkini Salóme voru:

Friðrik Lúðvík Guðmundsson, bifreiðastjóri í Reykjavík 1917-1998;

Jóhannes Guðmundsson, lést í frumbernsku 1920-1920;

Guðmundur Lúðvík Þorsteinn Guðmundsson, húsgagnasmíðameistari og verzlunarstjóri í Trésmiðjunni Víði í Reykjavík 1921-2008;

Guðrún Guðmundsdóttir, húsmóðir, umboðsmaður og skirfstofukona í Keflavík 1930-2005

og

Þórdís Halla Guðmundsdóttir lést í frumbernsku 1934-1934.

Þau komust 4 á legg og eru öll látin.

Salóme kveður nú síðust systkina sinna og varð elst þeirra, 91 árs og 5 mánuðum betur. Alla tíð var mjög kært með þeim systkinum.

Það var ævintýri fyrir Salóme að vera ung stúlka á Ísafirði í 3. áratugi liðinnar aldar. Bærinn var eins og smækkuð mynd af borg á meginlandi Evrópu. Konur fylgdust með nýjustu tízku frá París og öðrum borgum á meiginlandinu, skip sigldu reglulega milli bæjarins og höfuðborgarinnar í Danmörku með fólk og varning. Ávextir og nýlenduvörur voru á borðum fólks og nýjustu straumar í tækni bárust fljótt til landsins. Fyrsti fiskibáturinn með vél á Íslandi var sjósettur 25. nóvember 1902 við Hnífsdal.

Þegar ég var drengur voru á Ísafirði tvær skipasmíðastöðvar, fjögur bakarí, tvö skósmíðaverkstæði, margar vélsmiðjur, tveir úrsmiðir, gullsmiður, fjöldi iðnaðarmanna af öllu tagi, tvö klæðskeraverkstæði, fjöldi verslana að ógleymdum frystihúsum, fiskverkunarhúsum og útgerðum. Bærinn var iðandi af mannlífi og menningu. Ísafjörður var og er ægifagur ævintýraheimur með háum hamraveggjum sem veita skjól fyrir vindum en takmarka sólarljós um miðjan vetur.

Foreldrar Salóme bjuggu að Hrannargötu 9 en áttu lóð sem lá að Sólgötu 8 og þar byggðu þau sér 2ja hæða, 4 íbúða hús, ásamt 4 börnum sínum. Það var byggt á innan við einu ári upp úr 1940, steypan hrærð í höndum og nær allt unnið af fjölskyldunni. Húsið þótti myndarlegt og gamansamur nágranni, Kristján Gíslason, öðru nafni Kitti ljúfur, kallaði það Höllina! Allt er afstætt í þessu lífi og vissulega mátti kalla það höll í samanburði við sum litlu húsin vestra en í samanburði við mörg önnur og einkum síðari tíma hýbýli er það ósköp hógvært hús og yfirætislaust.

Ung eignaðist Salóme sinn fyrsta son, Grétar Guðmund Steinsson árið 1941 og gekk að eiga barnsföður sinn, Stein Ágúst Vilhelmsson Steinsson, (1919-1975). Þau skildu. Grétar hefur starfað sem verzlunarmaður og við ýmis störf hér heima og í Svíþjóð þar sem hann hefur verið bústettur nær óslitið frá 1977. Hann kvæntist Valgerði Karlsdóttur, frá Fáskrúðsfirði. Þau skildu.

Börn þeirra: Steinn Ólafur, Agnes Ásta og Vala Margrét.

Steinn, húsamálari, á Ólaf Örn, Ruth Smith og Inga Sigurð; Agnes, nemi og ræstitæknir á Heiðar Stein og Vala, verzlunarmaður, á Sigurbjörn Finn og Magnús Grétar.

Dóttir Grétars og Sólveigar Jónsdóttur frá Selfossi er Kristín Jóna Grétarsdóttir, hárgreiðslumeistari gift Baldvini Bjarnasyni, rafvirkja. Börn þeirra: Steinunn Anna, Lilja Björt og Þórður Bjarni. Sambýliskona Grétars í Svíþjóð var Elsa Hänninen, finnsk að uppruna. Hún lést þennan dag árið 2013. Hún skilur eftir sig 6 börn og fjölda afkomenda.

Síðari maður Salóme var Jón Örnólfur Bárðarson, f. í Bolungarvík 1918, d. í Garðabæ 1989, kaupmaður og útibússtjóri ÁTVR á Ísafirði og síðar í Keflavík og iðnrekandi í Garðabæ.

Foreldrar hans voru hjónin Sigrún Katrín Guðmundsdóttir frá Botni í Mjóafirði í Djúpi (1885-1956) og Bárður Guðmundur Jónsson, frá Bolungavík (1884-1954).

Jón og Salóme bjuggu Sólgötunni sem dregur nafn sitt af því að þann 25. janúar ár hvert eftir að sólin hefur komið niður Eyrarfjallið í mörgum hænufetum og skinið yfir kirkjugarðinn og kirkjuna. Þegar hún hefur lýst yfir lifendur og dauða skín hún í Sólgötu og þá fagna Ísfirðingar heima og að heiman með kaffi og rjómapönnukökum.

Á Ísafirði fæddust þeim Salóme og Jóni 3 synir: Bárður Guðmundur, Örn Bárður og Friðrik Ragnar.

Bárður Guðmundur, f. 3. júní 1948 d. 20. október 1949 úr heilahimnubólgu en þess má geta að Salóme átti eftir mánuð í fæðingu næsta sonar.

Örn Bárðu, f. 1949, sóknarprestur hér í Neskirkju.

Dóttir Arnar og Ragnheiðar Jónasdóttur, fltr. í Menntamálaráðuneytinu, er Hrafnhildur Arnardóttir, myndlistarmaður í New York, gift Michael Jurewicz, frkv.stjóra., MytekDigital, börn þeirra Máni Lucjan og Úrsúla Miliona.

Örn, er kvæntur Bjarnfríði Jóhannsdóttur, sjúkraliða á Líknardeildinni í Kópavogi, börn þeirra eru: Jóhann Freyr Aðalsteinsson, Aðalbjörg Drífa Aðalsteinsdóttir, Svala Björk Arnardóttir og Örn Bárður Arnarson.

Jóhann Freyr er fv. starfsmaður EFTA í Genf, tollvörður á Seyðisfirði og nú í Reykjavík, er kvæntur Maríu Gaskell, börn þeirra: Orri Freyr, Bárður Jökull, Freyja María og Tómas Freyr.

Börn Drífu, sem er skrifstofu- og verzlunarmaður, eru Eva María, gift Anthony Davis og Haukur Már.

Svala Björk, fv. flugfreyja og nú húsmóðir í Lúxemborg, er gift Þorsteini Gunnari Ólafssyni, framkvæmdastjóra Arena-fjármálaþjónustu, dætur þeirra: Ástrós Ynja, Arnfríður og Katrín.

Örn Bárður Arnarson er nemandi í hugbúnaðarverkfræði við HR.

Yngstur okkar bræðra er Friðrik Ragnar f. 1956, flugvélaverkfræðingur og iðnrekandi á Íslandi og í Kanada, kvæntur Kesara Anamthawat Jónsson, prófessor í plöntulíffræði við HÍ, dóttir þeirra er Salóme Sirapat Friðriksdóttir.

Við bræðurnir þrír sem komumst á legg unnum allir við fyrirtæki foreldra okkar í lengri eða skemmri tíma og lærðum að þjóna almenningi, sýna stundvísi og vinnusemi og líta alla jöfnum augum.

Á Ísafirði áttum við góðu nágrannaláni að fagna. Það er mikil blessun eins og Lúther minnti á.

Hlé og tónlist: Steingrímur leikur spuna sem byrjar og endar á Ef væri ég söngvari með 2-3 stefjum úr sálmum og lögum Vísnabókarinnar á milli.

Kveðja frá Sigfríði Lárusdóttur.

Foreldrar okkar fluttu suður 1967 og byggðu sér hús að Blikanesi 1, Garðabæ og þar fékk Jón áfram útrás fyrir handverk sitt og lagni en hann var hagur á tré og margt fleir og frístundamálari á fullorðinsárum. Þau nutu þess að rækta garðinn saman og fegra heimili og umhvefi. Þar eins og á Ísafirði áttu þau góða nágranna og bundust mörgum þeirra vináttuböndum.

Jón hannaði vélar, tól og tæki á lífsleiðinni og hafði þor til að rífa í sundur flest tæki sem gera þurfti við. Hún eldaði og bakaði af kunnáttu. Í æsku lét Jón systur sína standa á handsnúnum grammófóni í Bolungavík og sneri henni í hringi og þau hlógu sig máttlaus. Hann var alla tíð heillaður af tækni og framförum.

Salóme sá um heimilshald af miklum dugnaði og vandvirkni en hún hafði alist upp við það að húsmóðurhlutverkið væri göfugt starf sem vanda bæri til í alla staði. Margar húsmæður á Ísafirði sóttu námskeið í lengri eða skemmri tíma við Húsmæðraskólann Ósk.

Mamma tók þátt í rekstri kjörbúðarinnar á Ísafirði með ýmsu móti en þegar við vorum komnir á legg vann hún í verzluninni París sem þau áttu og höndluðu með í hannyrðavörur og fatnað. Síðar starfaði hún með Jóni í ÁTVR í Keflavík um árabil. Kjörbúðin á Ísafirði var opnuð 1959 og var fyrsta kjörbúð í eigu einstaklings utan Reykjavíkur og rekin af miklum þrótti en verzlunarrekstur í landinu tók miklum breytingum á þessum árum. [Innskot]

Við bræðurnir nutum mikils öryggis í uppvexti og elsku í alla staði og fengum þau skilaboð að okkur stæðu allar dyr opnar ef við ynnum vel úr okkar hæfileikum. Heimilið var griðarstaður og þar var ekki hávaði eða fyrirgangur, hófsemi í öllu og mikil varkárni í orðavali einkum í umræðu um fólk og daglegt líf. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt fólki hallmælt heima. Gildin sem við numum voru klassísk, kristin gildi, um réttlæti, jöfnuð og tækifæri til athafna og sköpunar. Þannig hugsuðu þau. Þau kusu Sjálfstæðisflokkinn en voru aldrei hjartalaust frjálshyggjufólk.

Mamma var falleg kona, með fagurt bros, sem náði til augnanna. Hún var fagurkeri og hafði næmt auga fyrir fatnaði og tízku, skarti og skrauti og naut þess að hafa sig til og vera fín og punta heimilið.

Við minnumst margra góðra vinafunda er gesti bar að garði á bernskuheimili okkar vestra. Systkini mömmu og börn þeirra komu oft vestur til vitja Ísafjarðar. Hér syðra voru oft góðir gestir í Blikanesinu. Mamma og pabbi voru bæði virk í félagslíf í Garðabænum, Keflavík og Reykjavík. Pabbi var virkur Frímúrari um árabil, Lionsfélagi og stjórnarmaður í Bræðrafélagi Garðakirkju svo fátt eitt sé nefnt. Hún gekk í Kór Garðakirkju og það var henni uppspretta ómældrar gleði en hana hafði lengi langað að syngja í kór allt frá því hún fékk örlitla tilsögn í söng sem barn á Ísafirði. Hún eignaðist góða vini innan kirkjunnar í Garðabæ og urðu foreldrar mínir bæði virk þar undir styrkri leiðsögn prestshjónanan, séra Braga heitins Friðrikssonar og Katrínar Eyjólfsdóttur. Síðar söng hún í kór eldriborgara hér í Neskirkju og naut félagslífs.

Við munum líka að hún tók undir sálmasönginn í útvarpsmessunni á Ísafirði meðan lambasteikin kraumaði í ofninum. Enda þótt við byggjum steinsnar frá Ísafjarðarkirkju fórum við ekki oft til helgihalds sem fjölskylda en við strákarnir fórum einir ásamt fjölda annarra barna í barnaguðsþjónustur hjá sr. Sigurði Kristjánssyni, föður Agnesar biskups, sem stóð við altarið undir bláum kórhimni með gylltum stjörnum, hár og virðulegur, en á altarinu var hin undurfagra stytta af Kristi eftir Thorvaldsen með áletruninni: „Komið til mín“. Þá fórum við stundum í Salem hvítasunnumanna eftir hádegi á sunnudögum þar sem hjónin Sigfús og Guðbjörg frænka okkar stýrðu starfi – en Guðbjörg og mamma voru bræðradætur – og svo gjarnan í bíó í Alþýðuhúsinu kl. 3 að sjá Roy Rogers og fleiri kappa. Í miðri viku stóðum við svo í þvögunni fyrir utan Hjálpræðisherinn til að komast á samkomur þar sem sýndar voru kvikmyndir frá fjarlægum löndum og sungið af hjartans lyst. Herfólkið þandi dragspil og lék á gítarara og tambúrínur. Ég leyfi mér að nefna það hér út frá umræðu samtímans að við bræður telju okkur ekki hafa beðið alvarlegt tjón af öllu þessu kristilega starfi!

Auk þessara tækifæra til félagslífs var öflugt íþróttalíf í bænum, tvö knattspyrnufélög, skíðafélag, skátafélag, tónlistarskóli, góðir grunnskólar og margt fleira. Náttúran var þó aðalleikvangurinn, fjörur og fjöll, garðar og götur. Í þessu góða umhverfi lærðum við bræður þau grunngildi sem íslenskt samfélag hefur byggt tilveru sína á hingað til.

Það eru jafnan mikil skil í lífi fólks þegar báðir foreldrar hafa hvatt þetta jarðlíf. Þá verður manni ljóst að maður tilheyrir kynslóðinni sem komin er fremst í göngunni miklu. Við sem erum afkomendur systkinanna frá Sólgötu 8 erum nú elsta kynslóðin. Á eftir okkur koma börnin okkar og svo barnabörn. Svona er lífið. Í kvæði sínu Hótel jörð, segir skáldið Tómas Guðmundsson:

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við erum gestir og hótel okkar er jörðin. Einir fara og aðrir koma í dag því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

Tómas hafði oft kómíska sýn á lífið eins og þegar hann sá undufagra konu stíga upp úr Adríahafinu og ganga um sólbakaða strönd, þá orti hann:

Og það er á slíkum stundum, að maður getur gert sér

eins grein fyrir því og vert ert,

að kynslóð vor hin eina kynslóð er,

sem nýtur þeirra hamingju að hafa ekki dáið.

Svo hjartanlega náið

er lífið okkur enn, sem betur fer.

Ég held mikið upp á þessa hendingu úr ljóði Tómasar. Við erum eina kynslóð veraldarsögunnar sem hefur ekki dáið. Allar hinar eru horfnar af þessu jarðlífi. Þess vegna skulum við fagna og gleðjast yfir því að eiga þetta líf sem NB! kemur aldrei aftur. Lífið er gjöf, ein-stök gjöf!

Á þessari stundu er mér og okkur bræðrum og fjölskyldum efst í huga þakklæti til móður okkar, fyrir umhyggju hennar, áhuga hennar á verkefnum okkar, hvatningu hennar um að við skyldum ætíð þora að takast á við eitthvað nýtt, þökk fyrir gott veganesti og heilbrigða hugsun sem hún vildi miðla.

Við erum þakklátir ykkur öllum sem heiðrið minningu hennar hér í dag.

Útför er auðvitað stund sorgar og saknaðar en hún er líka þakkarhátíð fyrir gott líf sem lifað var, langt og gott líf.

Mamma sá um sig sjálf sem ekkja í rúm 25 ár, fór reglulega í gönguferðir, annaðist innkaup, matseld og þrif fram undir s.l. jól. Hún þurfti litla aðstoð en fékk þó heimsókn daglega frá félagsþjónustunni síðustu misserin til að líta eftir lyfjatöku o.þ.h.

Hún naut þess að spóka sig á Laugaveginum og heimsótti margar búðir til að skoða og kaupa eitthvað fallegt. Starfsfólkið í Landsbankanum að Laugavegi 77 tók henni jafnan opnum örmum og hún naut þess að spjalla og brosa framan í lífið. Þegar útibúinu var lokað fannst henni mikið vanta í nærumhverfið. Hún naut þess að sitja í sólinni fyrir utan Skúlagötu 20. Hún var alla tíð sóldýrkandi – enda úr Sólgötunni – og ef henni fannst hún ekki verða nógu brún þá bætti hún sér það upp með vænum skammti af brúnkukremi! Og stundum fannst okkur bræðrum hún nota aðeins of mikið!

Hún hafði fengið blóðtappa fyrir um 30 árum sem lamaði kynginguna en hún kom að hluta til til baka en nú undir það síðasta átti hún orðið í erfiðleikum með að matast. Það tók að fjara undan lífi hennar.

Hún fékk lungnabólgu og var lögð inn á sjúkrahús í nokkur skipti í örfáa daga undanfarna 4 mánuði og síðast lagðist hún inn á jóladag en hún fór þangað upprétt enda ótrúlega seig og dugleg kona. Hún gekk sjálf út í bíl Friðriks sem ók henni á sjúkrahúsið í Fossvoginum.

Hún var ein af þessum manneskjum sem vildi bjarga sér sjálf og gat ekki hugsað sér að verða baggi á samfélaginu. Hún lagði lífinu til krafta sína og hæfileika án þess að krefjast mikils í staðinn.

Á sjúkrahúsinu naut hún góðrar umönnunar hjúkrunarfólks og lækna þrátt fyrir erfitt starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna um þessar mundir í þjóðfélagi þar sem auðæfum þjóðarinnar er undarlega skipt. Fyrir alla þá góðu þjónustu er hér þakkað af alhug. Hún lést að morgni miðvikudags 7. janúar, fékk hægt og friðsælt andlát.

Þetta var Geand Exit!

Blessuð sé minning hennar.

Friðrik og Kesara voru mikið hjá henni síðustu vikurnar og hún Fríða mín líka og svo systurdætur hennar frá Keflavík og barnabörnin hennar sem búa hér á landi.  Fyrir allt þetta ber að þakka. Sjálfur er ég þakklátur fyrir að hafa náð heim og hitt hana með meðvitund og verið hjá henni er hún skildi við en ég hef þjónað sem prestur í Noregi í vetur. Íbúum að Skúlagötu 20 er þakkað allt gott og þeim sem veita þjónustu í miðstöðinni við Vitatorg. 

Lífið er ferðalag sem hefst með fæðingu og lýkur með annarri.

„Nakinn kom ég af móðurskauti og nakinn mun ég aftur þangað fara. Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.“

Svo mælti Job í bókinni sem kennd er við hann og talin meðal mestu bókmentaperla veraldar og fjallar um böl og þjáningu þessa heims. Job skildi hið stóra samhengi lífsins.

Klæði, skart og skraut fylgir okkur hvorki í gegnum hinn fyrri né síðari fæðingarveg en hið innra skart og velgjörðir fylgja okkur ætíð. Það dugar þó ekki sem aðgöngumiði því nýja lífið er svo dýrt að enginn mannlegur máttur getur keypt það. Eilífa lífið er og verður ætíð óverðskulduð gjöf hins hæsta.

Og nú geri ég það sem ég minnist ekki að hafa gert áður við útför. Ég ávarpa hina látnu og segi fyri hönd okkar bræðra, fjölskyldna, frændgarðs og vina:

Elsku mamma, tengdamamma, amma og langamma, frænka, vinkona, samferðakona:

Takk fyrir allt.

Guð geymi þig og varðveiti í himni sínum.

Í hug og hjarta geymum við minninguna um þig.

Ef væri ég söngvari syngi ég ljóð

um sólina, vorið og land mitt og þjóð.

En mömmu ég gæfi mín ljúfustu ljóð,

hún leiðir mig, verndar og er mér svo góð.

(Texti: Páll J. Árdal)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Tilkynningar . . .

2 athugasemdir við “+Salóme Margrét Guðmundsdóttir 1923-2015

  1. Kæri Örn Bárður! Það var gott að lesa þessi orð um móður þína og fjölskyldur ykkar. Samhryggist þér móðurmissinn. Óska þér alls góðs. Hjartans þakklæti fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig þegar Elías minn féll frá.
    Regína Stefnisdóttir.

  2. Falleg orð um móður þína kæri Örn. Og þú lýsir henni réttilega. Salla frænka eins og við kölluðum hana var glæsileg kona og elskuleg, alltaf gaman að hitta hana. Síðast var það í Ísfirðingamessu að ég held í Áskirkju ? það er svolítið síðan og tíminn líður með ógnarhraða. Ég minnist mömmu þinnar með hlýju og sendi þér og fjölskyldunni innilegar kveðjur
    Fríða Sam

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.