Minningarorð
Ólöf Emma Kristjánsdóttir 1928-2014
frá Ísafirði
Útför frá Dómkirkjunni föstudaginn 17. október 2014 kl. 13
Jarðsett í Hafnarfirði
Þú getur hlustað á ræðuna og lesið hana hér fyrir neðan.
Friður Guðs sé með okkur.
„Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“ (Jesaja 41.10)
Þessi orð og fleiri úr hinni helgu bók hafa huggað og styrkt fólk um aldir og árþúsund. Við komum hér saman til að kveðja konu sem átti fjársjóð í hjarta sínu, trúna sem hún fékk í arf frá foreldrum sínum og samfélagi.
Með Ólöfu Emmu er gengin heil kynslóð. Hún kveður þetta líf seinust 8 systkina. Þau voru hvert öðru myndarlegra, vænt og gott fólk, trúað og vel af Guði gert.
Hún fæddist á Ísafirði 13. apríl 1928. Hún lést á Elli- og dvalarheimilinu Grund við Hringbraut í Reykjavík 11. október 2014.
Foreldrar hennar voru hjónin Margrét Jóhanna Magnúsdóttir, húsmóðir, frá Hjöllum í Skötufirði og Kristján Gíslason, sjómaður frá Hvammi Dýrafirði. Þau voru nágrannar fjölskyldu minnar í Sólgötunni á Ísafirði og í sömu götu bjó Hjörtur bróðir hennar um árabil eftir að foreldrar þeirra féllu frá.
Það var yndislegt að alast upp í Sólgötunni og kynnast Margréti og Kristjáni og fá að koma í harðfiskhjallinn hans og heyra húmorinn og skondin tilsvör hans, fá að smakka rikling og steinbýtinn óbarinn eftir að hafa tínt fyrir hann sprek í fjörunni í ofninn. Þá var ekki lítið spennandi að sjá hann verka hákarl sem Hjörtur færði í land á sínum togaraárum. Ég gleymi því ekki þegar hann svo gróf upp hákarlstunnuna eftir kæsingu og gaf mér að smakka skyrhákarl sem ég át af bestu lyst en ældi svo eins og múkki um nóttina því maginn í strák sem vart var meir en 6-8 ára þoldi ekki slíkar kræsingar enda veittar án vökvans sem oft fylgir hákarli!
Ég var sérstaklega beðinn um að rifja upp við þessa athöfn minningar mínar af þessum góðu hjónum en faðir minn og Margrét voru þremenningar og ég og Olla þ.a.l. fjórmenningar sem taldist til frændsemi forðum daga en mér hefur verið sagt að í gamla daga gat fólk á ferðum sínum um landið beiðst gistingar hjá frændfólki í 4. lið enda engin hótel á landinu þá heldur lengst af bara torfbæir og kot.
Börn Margrétar og Kristjáns voru:
Magnús, f. 1918, d. 2004;
Sveinbjörn, f. 1920, d. 1981;
Þóra Kristín, f. 1922, d. 2012;
Hjörtur, f. 1925, d. 1992;
Sveinbjörg f. 1927, d 2010;
Ólöf Emma f. 1928, d. 2014;
Svava Sigríður, f. 1929, d. 2001, og Guðmundur Ágúst, f. 1935, d. 2006.
Með þessari athöfn hef ég jarðsungið flest barna Margrétar og Kristjáns. Hvern hefði grunað það forðum daga þegar strákurinn hennar Söllu og Jóns í Sólgötu 8 – sem Kitti ljúfur kallaði Höllina á sinn íróníska hátt – ætti eftir að standa í þessum sporum? En svona er nú lífið. Reyndar sagði Svava Sigga að pabbi hennar hefði haldið því fram að þótt hann Öddi hefði kaupmannsblóð í æðum þá yrði hann prestur. Og það gekk eftir og hér stendur hann nú og jarðsyngur Ollu og hefur þá jarðsungið öll systkinin nema Sveinbjörn og Hjört, sex af átta.
Ég man þegar barnabörnin komu vestur og dvöldu hjá ömmu og afa í Sólgötunni þar sem ætíð var nóg pláss og hjartarýmið ómælanlegt. Þá var gaman að leika í Sólgötunni og fjörunni við hjallinn hans Kitta.
Þeim hjónum var ekki fisjað saman og sagt var að Kristján hafi verið svo duglegur til sjós að vart var hægt að greina hendur hans á línunni svo hratt dró hann færið.
Þegar Kristján missti móður sína 12 ára og var sendur fótgangandi frá æskuheimili sínu í Dýrafirði og yfir tvær heiðar til Ísafjarðar sagðist hann hafa beðið Guð um að hjálpa sér að rata rétta leið og heitið því að þjóna Guði og verða sterkur og duglegur ef hann kæmist lifandi á áfangastað. Hann var bænheyrður og stóð við orð sín. Hann þjónaði Guði sínum og lífinu sjálfu með því að vera duglegur og koma upp 8 myndarlegum börnum með sinni góðu konu. Hann sá hana barnunga en hún var 12 árum yngir en hann og sagði við hana: Ég ætla að giftast þér þegar þú verður eldri. Og það gekk eftir. Dætur þeirra þóttu stórglæsilegar og vöktu hvarvetna athygli, glaðlegar og greindar, listrænar með blik í augum og spriklandi húmor og tilsvör eins og pabbinn og bræðurnir gáfu stelpunum ekkert eftir.
Olla hlaut gott uppeldi á Ísafirði og naut almennrar skólagöngu. Hún var glæsileg og vel byggð, íþróttakona, sterk og dugleg og hefði gjarnan viljað komast í nám að Laugavatni en þá var slíkt álíka aðgengilegt og að fara um hálfan hnöttinn nú á tímum til að mennta sig og engir sjóðir eða styrkir til slíkra ævintýra. En annað átti fyrir henni að liggja. Hún vann almenn störf sem stúlka en allir sem vettlingi gátu valdið urðu auðvitað að vinna heima og utan heimilis. Svo fór hún að vinna hjá Símanum í Hrútafirði og lét sig ekki muna um að synda yfir fjörðinn. Hún vann líka hjá Símanum á Ísafirði og í Reykjavík. Hún lifði viðburðarríku lífi þar sem sviptivindar gengu yfir en alltaf stóð hún keik.
Þegar Olla steig á landi í Húsavík forðum daga (1953) klædd eins og kvikmyndastjarna frá Hollywood í kjól sem hæfði vexti hennar vel og eldrauðum háhæluðum skóm þá stóðu konurnar á öndinn og karlar urðu viðutan.
Hún eignaðist 5 börn með 4 mönnum. Sá fyrsti, Ingvar Einarsson var æskuástin hennar en svo kom Pálmi Héðinsson, loks Karl Hanson og þá Hjálmar Pétursson. Þettar voru stormasamir tímar en hún reis ætíð upp enda kraftmikil kona með listræna hæfileika sem tók nýrri og nýrri áskorun.
Besta tímann átti hún líklega í Bandaríkjunum með John Wheeler en hún flutti til hans árið 1979 ásamt yngsta syni sínum en þá var hún 51 árs, orðin þroskaðri og yfirvegaðri, en alltaf jafn glæsileg. En þar varð hún fyrir mestu sorginni þegar hún missti manninn sinn 2001 og svo næst yngsta son sinn og dóttur hans í bílslysi 2002.
Börnin hennar eru:
Ingvar Grétar Ingvarsson f. 15.10.1948,
Helgi Pálmason f. 24.2.1954,
Margrét Jóhanna Pálmadóttir, f. 28.4.1956,
Kristinn Þór Hjálmarsson (Hanson) f. 1.2. 1960 d. 23.5.2002 ásamt dóttur sinni Elínu Rut sem þá var 21 árs. Yngstur er:
Kristján Pétur Hjálmarsson f. 2.9.1967.
Hún var grandvör kona, trú sínum mönnum, ástrík móðir, elsk að börnum sínum og barnabörnum, einlæg og sönn í afstöðunni til lífsins og mjög trúuð. Hún var á margan hátt á undan sinni samtíð, trúði á frelsi einstaklingsins, frelsi konunnar, var hugrökk í stíl og framkomu. Í henni ólgaði líf og kraftar hæfileikaríkrar konu. Hún var eins og fugl sem varð að flúga með þeim fjöðrum sem lífið færði henni en hefði aldrei getað unað sér sem fugl í búri. Hún varð að fá að fljúga frjáls og það gerði hún á sinn hátt og ekki síst í myndlistinni. Hún naut þess að skapa með pensli í hönd og liti. Þá kom yfir hana stóísk ró og hún horfði í myndflötinn yfirveguð og lét litina tala. Hún hefði getað orðið góður myndlistarkennari, einkum meðað barna, því hún elskaði börn og naut sín ætíð vel í þeirra hópi. Hún gat föndrað með þeim, leikið við þau á gólfum, slegið á gítarstrengi og sungið. Seinna eignaðist hún píanó sem John gaf henni og hann keypti líka annað og sendi Elínu Rut á Íslandi með mikilli fyrirhöfn. Píanóið var frægt og lifði af eyðimerkurstorma og indíanaárásir. Olla safnaði fyrir því með því að hætta að reykja. Olla naut sín meðal barna og vissi að Jesús kenndi að maður ætti að vera einlægur eins og börnin og að það væri eina leiðin til að komast inn í ríki Guðs. Hún sá Jesú allstaðar. Hún og hann voru vinir. Hún elskaði Jesú eins og hún lærði af sínu fólki á Ísafirði, af Hjálpræðishernum sem starfaði af miklum þrótti fyrir vestan á hennar æskuárum þar sem hún lærði á gítar og af kirkjunni sem var nánast við húsvegginn heima. Hún var gjafmild og greiðvikin í anda kristinn lífsgilda, gaf fólki það sem það vanhagaði um eins og t.d. þegar hún gaf pottana sína og pönnur.
Hún bjó lengi í Arizona og þar var gott að vera í þurru og hlýju loftslagi og margir sóttu þau hjónin heim og oft komu þau hingað og hún ein að vitja ástvina sinna.
Hún flutti til Íslands 2009 eftir að hafa misst John og þótti gott að vera nærri sínu fólki. Ég hitti hana seinast að mig minnir við útför Stínu systur hennar og þegar við kvöddumst innilega í erfidrykkjunni með kossum á kinn, brosti hún og hló og sagði með þessum óborganlega húmor sem lá í genum hennar: „Ég verð að fá að kyssa þig aftur, ég hef nefnilega aldrei áður kysst prest!“
Svona var hún Olla Kitt eins og hún var kölluð fyrir vestan, stúlkan úr Sólgötunni, sem elskaði sól og sumar, gleði og gaman í samskiptum við fólk. Það er góður eiginleiki að geta glaðst og ekki veitir nú af í þessu lífi sem færir allt of mörgum miklar ágjafir. Þá er gott að eiga góðan húmor og létta lund, stórt hjarta og fyrirgefningu. Margt lífsglatt fólk glímir jafnframt við dimma daga og myrka í sálu sinni. Lífið er og verður eins og í Sólgötunni. Þar sér ekki til sólar í 3 mánuði ár hvert en svo skín hún og þá er haldin veisla og allt verður bjart þegar snjórinn endurvarpar birtunni milli fjalla og fjörðurinn er svo lygn að enginn sér mun veruleika og speglunar í Pollinum.
Og nú er mildur dagur og fagur, haustkyrrð í Reykjavík og Olla hefur hlotið hvíld og frið. Hún er hér kvödd af sínu fólki sem þakkar allt gott og felur Guði allt, bæði ljós og skugga. Hún lifði lífinu eins og hún taldi réttast hverju sinni, vann úr sínum erfiðleikum með trúna að vopni og komst áfram með hjálp Guðs og góðra manna. Oft var það erfitt. Lífið er ekki ætíð réttlátt og einfalt, slétt eða fellt. En hún elskaði ykkur, börnin sín, og barnabörn, frændfólk og vini og er nú falin Guði kærleikans, Guði miskunnar og fyrirgefningar.
Ég flyt ykkur kveðjur tveggja systurdætra hennar, Ólínu Kjartans Óladóttur Ermert (Ollýjar) sem er búsett í Kaliforníu og Lilju Steingrímsdóttur, sem nýlega er flutt til Danmerkur og barnabarns henanr, Gestar Ingvarssonar sem er í Noregi og Som tengdadóttur sem Thailandi.
Heil kynslóð er farin og nú eruð þið, börn systkinanna úr Sólgötunni, orðin að elstu kynslóðinni. Svona er lífið. Það er undursamlegt ævintýr en líka glíma við veður og vinda, dimma daga og éljagang. En í þeirri glímu skín við okkur ljósið eilífa sem er Kristur. Hann sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“
Guð blessi minningu Ólafar Emmu Kristjánsdóttur og Guð blessi lífsveginn þinn.
Guð er með okkur. Hann styrkir okkur og styður. Látum því aldrei hugfallast. Höldum áfram að lifa og njóta daganna því þeim fækkar. En þar með er lífið ekki búið. Það er í hendi Guðs frá getnaði til grafar og um alla eilífð.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Erfi í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar.
Líkfylgd – jarðsett í Hafnarfirði.
Ræðan birt, texti og hlóðupptaka.
Postulleg kveðja: Guð vonarinnar . . .