+Steinunn Marinósdóttir 1958-2014

Steinunn MarinosdottirÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Steinunn Marinósdóttir

1958-2014

Útför (bálför) í kyrrþey frá Neskirkju þriðjudaginn 23. september 2014 kl. 11. Jarðsett verður í Hólavallakirkjugarði við Suðurgötu.

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan.

Á vef Þjóðminjasafnsins segir um merkan grip:

Útskorin kirkjuhurð frá Valþjófsstað í Fljótsdal frá um 1200. Hurðin, sem er með miklum útskurði í rómönskum stíl, er skorin út á Íslandi. Talið er að hún hafi upphaflega verið um þriðjungi hærri og hringirnir þá þrír.

Á hurðinni er silfursleginn járnhringur með innlögðu rósamunstri. Í efri hringnum er þekkt miðaldasaga í þremur þáttum. Neðst sést riddari á hesti sínum og flýgur veiðihaukur með. Riddarinn leggur sverði gegnum dreka sem vafið hefur halanum um ljón. Í næsta þætti, efst til vinstri, sést þakklátt ljónið fylgja lífgjafa sínum en veiðihaukurinn situr á makka hestsins. Í síðasta þætti, efst til hægri, liggur ljónið á gröf riddarans og syrgir hann. Í baksýn er lítil stafkirkja og á gröfinni er rúnaletur: „Sjá inn ríkja konung hér grafinn er vá dreka þenna.“ Í neðri hringnum eru fjórir drekar sem vefjast saman í hnút.

Margar íslenskar miðaldakirkjur voru skreyttar útskurði. Búnaður þeirra og íburður bera vitni um auðlegð og völd eigendanna og sýna jafnframt tengsl Íslendinga við nágrannaþjóðir sínar. Valþjófsstaðahurðin er eina útskorna hurðin sem varðveist hefur. Hún var fyrir kirkjum á Valþjófsstað allt til 1851 þegar hún var flutt til Kaupmannahafnar. Árið 1930 skiluðu Danir hurðinni til baka ásamt fjölda annarra ómetanlegra gripa.

Merkileg frásögn um merkan dýrgrip. Sagan sem sögð er í myndmáli á tréfleti er djúp og sterk. Hún er um baráttuna í heiminu, um drekana sem sækja að mannlífinu og öllu lífi í raun, eyðandi öflum í þessum jarðneska heimi, sem birtast t.a.m. í sjúkdómum og kvillum á sálu og líkama manna. Lífið er ekki bara auðvelt ferli heldur glíma. Samt er lífið dásamleg gjöf.

Við kveðjum hér hæfileikaríka konu, góðum gáfum gædda, listfenga og væna. Hún er horfin frá okkur langt um aldur fram en skilur eftir sig minningar, tvær dætur og tvö barnabörn auk systkinahóps. Hún er syrgð af sínu fólki og falin Guði í trú og bæn. Sjálf átti hún sterka trú á Krist en það er hann sem sigrað hefur alla dreka þessarar tilveru, lagt þá að velli með lensu sinni, afli og visku. Hann er riddarinn eini og sanni sem sigrað hefur allt illt í þessum heimi og vald hans er vald kærleika, miskunnar og fyrirgefningar.

Steinunn var fædd 13. júní 1958 á Valþjófsstað í Fljótsdal.Froreldrar hennar voru séra Marinó Kristinsson, sóknarprestur þar og kona hans Þórhalla Gísladóttir, ljósmóðir. Steinunn var 6. í aldursröð 9 systkina sem eru:

1. Dagný,

2. Hrefna,

3. Ágúst ,

4. Gísli,

5. Rósa Kristín,

6. Steinunn,

7. Kolbeinn,

8. Úlfur Heiðar og

9. andvana fædd tvíbursystir Rósu Kristínar. Hún hvílir hjá foreldrum sínum í Valþjófstaðakirkjugarði.

Þegar Steinunn var tveggja ára flutti fjölskyldan á prestsetrið Vallanes í næstu sveit og þar ólst hún upp til 8 ára aldurs en þá flutti fjölskyldan að Sauðanesi á Langanesi.

Sem lítið barn var Steinunn bráðger og fljót til máls og þroska, fluglæs mjög ung og alltaf með bók að lesa. Þegar hún óx upp kom í ljós að hún var listræn, teiknaði mikið, heilu teiknimyndasögurnar og hestamyndirnar voru ótrúlega góðar. Hún orti líka ljóð og skrifaði sögur. Hún hafði fagra rithönd, gekk vel í námi og fékk yfirleitt háar einkunnir í skóla.

Hún var mikið nátturubarn og vildi vera úti í hvaða veðri sem var, dugleg og hörð af sér. Hún var rösk við öll útiverk, var natin og lagin við skepnur, dugleg á hestbaki og elskaði hesta. Hún var pabbastelpa. Alla tíð var mjög sterkt samband á milli þeirra feðgina. Hún var ábyrg gagnvart yngri bræðrum sínum, gætti þeirra og leiðbeindi – og stjórnaði þeim til góðra verka.

Steinunn var engin hávaðamanneskja en glaðvær og mikill húmorsiti og sá gjarnan spaugilegar hliðar mála. Hún var snjöll að herma eftir fólki og gat brugðið fyrir sig beittum húmor ef í það fór.

Steinunni þótti afskaplega vænt um systkini sín. Hún og Kolbeinn bróðir hennar voru mjög náin og góðir vinir alla tíð og seinustu ár höfðu þær Hrefna og Steinunn verið í góðu sambandi. Hrefnu þótti afskaplega vænt um Steinunni, þær systur náðu vel saman. Hrefna minnist hennar sem skemmtilegrar og umhyggjusamrar systur. Húmorinn var aldrei lagt undan sama hvað á bjátaði, alltaf virtist Steinunn taka lífinu á léttu nótunum, enda kraftmikil baráttukona. Steinunn leit upp til Dagnýjar og treysi henni vel enda stóra systir hennar.

Steinunn lauk grunnskólanámi á Þórshöfn, tók landspróf á Eiðum og síðan verslunarpróf í Verslunarskóla Íslands. Seinna fór hún til náms í Bandaríkjunum og lærði markaðsetningu á tísku og hönnun (Fashion Merchandising) hjá Studio Seven Fashion Carreer College Los Angeles.

Steinunn var hörkudugleg í vinnu og vel liðin og var með mikin mettnað fyrir starfi sínu sama hvað hún tók sér fyrir hendur. Hún vann ýmis skrifstofu- og verslunarstörf um ævina og var t.d. um árabil hjá Lánassjóði íslenskra námsmanna. Hún rak einnig eigið fyrirtæki um tíma. Á tímabili vann hún við tískusýningar hjá Karonsamtökunum, tók sjálf þátt í að sýna og vann sem fyrirsæta þegar hún dvaldi í Bandaríkjunum enda glæsilega kona, hávaxin og grönn og bar sig vel. Hún vann sem stílisti fyrir tískuvöruverslanir um árabil í Reykjavík og víðar. Steinunn vann sem ráðgjafi hjá meðferðarstofnunum og sinnti skrifstofustörfum.

Um tíma vann hún sem blómaskreytir og átti 2 fyrirtæki, annað hét Blómakastalinn ehf og hitt Rauð lilja ehf. Hún stundaði myndlist alla tíð og málaði hundruð verka. Hún hélt nokkrar sýningar í Bandaríkjunum og seldi verk sín og svo prýða þau veggi hjá ýmsum aðilum mest hjá dætrum hennar.

Árið 1979 hóf Steinunn sambúð með Jóhanni Ó. Jósefssyni. Þau bjuggu í Reykjavík og skildu 1985. Þau eignuðust 2 dætur

Rebekku f. 18. júní 1981 og

Ágústu f. 16. apríl 1985,

báðar fæddar í Reykjavík.

Sonur Rebekku er Jósef Hafsteinn Daníelsson f. 5. janúar 2000 og sonur Ágústu er Örlygur Máni Elvarsson.

Í Reykjavík var Berþórugata 27 fastur punktur í tilveru hennar en þar bjuggu foreldrar hennar eftir að þau fluttu suður. Þar átti hún góðar stundir með þeim og dætrunum og var sérstaklega hænd að föður sínum. Steinunn var hlý, kærleiksrík og umhyggjusöm móðir. Hún tengdist dætrum sínum sterkum og djúpum böndum, hvatti þær til að láta drauma sína ganga upp, að gefast aldrei upp og vera þær sjálfar.

Á jólunum komu móðursystur Steinunnar oft í heimsókn, þær Olla og Bergþóra og þá var glatt á hjalla. Steinunn, móðir hennar og þær frænkur höfðu svipaðan húmor og geð og var lengið setið frameftir og spjallað um lífið og tilveruna og mikið hlegið. Ollu og Bergþóru þóttu afskaplega vænt um Steinunni og héldu mikið uppá hana og voru þær miklar vinkonur.

Steinunn var listræn og skapandi og málaði og teiknaði mikið með dætrunum þegar þær voru litlar og las mikið fyrir þær. Þær hafa báðar leitað í listnám og hönnun.

Henni þótti afsakplega vænt um barnabörnin sín og átti þau Örlygur náið samband frá því að hann fæddist. Hún hugsaði hún mikið um hann og gætti hans hvenær sem um var beðið. Þeim kom mjög vel saman, honum fannst amma afar skemmtileg og fyndin. Það var best þegar amma svæfði hann og las fyrir hann sögu. Þau spjölluðu um heima og geima og svo föndruðu þau og máluðu.

Hún iðkaði trú sína og var gjarnan með Biblíuna nálægt og vitnaði oft í hana við ýmis tækifæri og leitaðist við að laga líf sitt að orði Guðs. Hún var heiðarleg og samviskusöm og með mikla samkend með þeim sem minna mega sín. Hún hafði sterka réttlætiskennd. Hún var ekki ánægð með ástandið á Íslandi í dag, vildi breytingar og aðrar áherslur, aðra forgangröðun og meiri umhyggju fyrir fólkinu í landinu.

Draumur hennar var að halda áfram á myndlistarbrautinni og koma verkum sínum á framfæri og halda sýningar. Hún hafði mjög sterkan persónulegan stíl og verk hennar bera í sér frumleika og dýpt. Hún hafði áhuga á tungumálum og hugðist fara í spænsku nám í Háskóla Íslands og langaði að ferðast meira um heiminn.

Lífið er ævintýri þrátt fyrir mótbyr og klungur sem oft verður á vegi okkar manna. Steinunn glímdi við sína dreka allt frá unglingsárum og til hinsta dags. Lífið er glíma og við töpum líklega öll í þeirri baráttu. En Kristur, sem við vorum helguð í heilagri skírn og merkt með sigurtákni upprisunnar, krossinum, á enni og brjóst, hefur sigrað drekann og alla dreka þessa lífs. Hann leysir okkur úr fjötrum þessa lífs og leiðir okkur inn í himinn sinn, til nýrrar tilveru þar sem böl og þjáning eru að baki og fegurðin ein ríkir.

Minning um góða, hlýja, umhyggjusama og örláta móður og ömmu, systur, frænku og vinkonu mun lifa meðal ykkar og í huga Guðs verður hún ætíð til.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Kveðja frá mági hennar, Vífli Þorfinnsyni með kæru þakklæti fyrir góð kynni.

Ásdís Sólrún Arnljóstsdóttir biður fyrir kveðju til ykkar. Hún saknar góðrar vinkonu og þakkar fyrir vinskapinn öll árin.

Tilkynningar:

Jarðsetning.

Erfi.

Ræðan á vefnum.

Postulleg kveðja.

Ein athugasemd við “+Steinunn Marinósdóttir 1958-2014

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.