Minninarorð
Helga Guðrún Einarsdóttir
hárgreiðslukona og húsmóðir
1931-2014
Útför frá Garðakirkju þriðjudaginn 19. ágúst 2014 kl. 15:00.
Jarðsett í Görðum.
Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Einhver innskot eru í ræðunni sem ekki eru í textanum.
Friður Guðs sé með okkur.
Til að lifa góðu lífi þörfnumst við margs á lífsleiðinni og á meðal þess sem Marteinn Lúther taldi ekki hvað síst skipta miklu var að eiga góða nágranna. Um miðjan 8. áratug liðinnar aldar byggðum við hjónin hús í sömu götu og Gísli og Helga. Smátt og smátt risu húsin af grunni, urðu fokheld og þá var farið að vinna að hinu innra. Hver stund var notuð eftir hefðbundinn vinnudag og unnið langt fram á kvöld og um helgar. Einhverju sinni vanhagaði mig um eitthvað, sem ekki var hægt að hlaupa eftir út í búð því þær voru lokaðar, og rölti út í hús nágrannans sem ég hafði aldrei hitt. Þar kom til dyra ungur maður sem var að hjálpa föður sínum. Þeir urðu báðir ögn hissa á framhleypi verðandi nágranna en vildu samt greiða úr vanda hans en ekki áttu þeir þó það sem hann vantaði. Þetta var ekki í seinasta skiptið sem ég fór yfir að hitta Gísla og Einar. Síðar þegar við vorum flutt í húsin kom ég í heimsókn til að spjalla á fögru heimili þeirr hjóna, Gísla og Helgu, sem bar smekkvísi beggja fagurt vitni. Þau hjón voru bæði glaðsinna. Gísli féll frá langt um aldur fram en Helga náði góðum aldri en hún lifði þó sjálfa sig í vissum skilningi eins og gerist með sumt fólk sem þjáist af minnissjúkdómum. Það hlýtur að vera erfitt að finna minnið þverra og svo er það líka erfitt fyrir fjölskyldu að sjá ástvin hverfa inn í heim gleymsku og jafnvel ranghugmynda.
Eftir að Gísli féll frá hitti ég Helgu af og til á förnum vegi meðan hún hafði góða heilsu og ætíð var hún jafn brosmild og glaðleg á svip, elskuleg í viðmóti og uppörvandi. Hún var fríð kona með góða lund sem naut þess að vera til og ekki hvað síst hafði hún yndi af góðri tónlist og dansi.
Lífið er stutt,
listin löng,
tækifærið skammært,
reynslan viðsjárverð,
dómurinn erfiður.
Svo segir í þekktum texta og líklega er grunnmerking hans að tíminn takmarki allar okkar gjörðir.
Í GT segir um hið stutta líf:
„Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er. Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [. . . ]“
Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér. (Sl 39.6-8)
Lífið er stutt og tækifærin renna okkur úr greipum. Grípum því andartakið og njótum lífsins!
Helga fæddist í Vestmannaeyjum 15. febrúar 1931 og lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 10. ágúst 2014. Foreldrar hennar voru hjónin Ágústa Olga Þorkelsdóttir frá Vestmannaeyjum f. 26.8.1909 og d. 2003 og Einar Marinó Steingrímsson úr Eyjafirði f. 26.1.1903 d. 1970. Eftirlifandi systir Helgu er Laufey Hrefna f. 7.1.1938.
Hinn 13.6.1954 giftist Helga, Gísla Árnasyni úr Reykjavík f. 13.10.1928 en hann lést 1998. Sonur þeirra er Einar Olgeir Gíslason f. 7.2.1955 í Reykjavík, eiginkona hans er Hanna Ólafsdóttir f. í Reykjavík 17.3.1962. Synir þeirra eru 1) Gísli f. 1983. 2) Ásgeir f.1986 og 3) Helgi f. 1992. Sambýliskona Ásgeirs er Sandra Dís Dagbjartsdóttir f. 1986 og dóttir þeirra er María Sif f. 2014.
Helga fluttist til Reykjavíkur 1937, fyrst í Norðurmýri og síðan með foreldrum sínum í Reykjahlíð 10. Þar byggðu foreldrar Helgu og móðursystkini hennar 6 íbúða hús. Slíkt var algengara áðu en nú á dögum að stjórfjölskyldan byggi í sama húsi eða sömu götu.
Helga lærði hárgreiðslu og varð hárgreiðslumeistari. Helga og Gísli hófu sinn búskap í Hlíðunum, steinsnar frá húsi stórfjölskyldunnar. Einar Olgeir minnist þess að þegar hann bjó með foreldrum sínum þar að hann gat farið í heimsókn til frændfólks í hverri íbúð og fengið mjólk og pönsu í hverju eldhúsi!
Gísli sem starfaði við vélgæslu í landi og á sjó hóf störf í Þjóðleikhúsinu 1954 og vann þar til dauðadags. Hann var vel metinn starfsmaður, áreiðanlegur, útsjónarsamur og fjölhæfur verkmaður.
Árið 1961 fluttu fjölskyldan í íbúð í Stóragerði og loks í einbýlishús í Holtsbúð 75 í Garðabæ árið 1976 og voru þar í 15 áru unz þau fluttu að Garðatorgi 17 árið 1991. Helga vann löngum heima og hugsaði um heimilið af miklum myndarskap og næmu listrænu auga. Það gat nú tekið sinn tíma að „pena“ heimilið eins og hún nefndi það og hafa allt fínt og flott með myndum og munum. Hún tók konur heim í hárgreiðslu á árum áður og gerði þær svo fínar að þær svifu út á sínum háu hælum. Hún lærði á virðulegri stofu í Reykjavík þar sem dömur voru þéraðar og tala þurfti dönsku við sumar frúrnar. Meistarinn hennar fór reglulega til Köben til að fylgjast með tízkunni og kom heim með nýjustu strauma.
En þegar Einar var orðinn stálpaður hóf hún störf hjá SS í Austurveri og svo í Glæsibæ. Hún sá um sælgætisdeildina og þar kunni hún vel við sig. Þegar börnin komu að kaupa nammi í poka var það ekki skammtað naumt en þó ekki svo ríflega að kaupmaðurinn tapaði. Börnin elskuðu „súkkulaðidrottninguna“ og nammið sem hún sá um. Hún vann einnig við verslunarstörf á Garðatorgi um tíma.
Helga hafði sterkar taugar til Vestmannaeyja enda þótt hún hafi flutt þaðan barnung. Hún unni tónlistinni sem þar var sköpuð og sungin af heimamönnum og barst uppá fastalandið og er öllum kunn.
Helga var lífsglöð, kát og félagslynd. Hún tólk þátt í starfi Kvenfélags Garðabæjar um árabil og söng í kór eldri borgara í kirkjunni. Hún hafði gaman af að vera innan um fólk en hafði líka ríka þörf fyrir að vera ein og dunda sér við ýmislegt heima. Hún var gestrisin og átti alltaf til margar sortir af öllu ef gesti bar að garði. Ömmustrákunum þótti öllum gott að koma til hennar og njóta góðgerða. Þegar Gísli féll frá var Helgi 6 ára og þá sótti Helga hann í skólann og lærið með honum þangað til hann fór heim. Henni þótti gott að hafa verkefni og ábyrgð og það huggaði hana og styrkti. Svo náði hún því að verða langamma og það gladdi hana mjög og ætíð spurði hún um „litla engilinn.“
Helga var heima á Garðatorgi meðan hún gat en fyrir um 5 árum fór að bera á minnistruflunum. Hægt og bítandi hrakaði heilsu hennar þar til hún flutti á hjúkrunarheimilið Ísafold í apríl í fyrra. Þar naut hún góðrar umönnunnar þar til hún lést og þakkað er fyrir þá umhyggju. Hún þekkti sína nánustu lengst af en margt var horfið í gleymskunnar djúp.
En hún lifir í minningum okkar og svo lifir hún miklu lengur en okkar minningar ná því hún lifir í huga Guðs sem engu gleymir og allt geymir.
Hér kveðja hana ástvinir og samferðamenn af virðingu og þökk.
Sérstök kveðja hefur borist frá systursyni Helgu, Ingvari og fjölskyldu í Lúxemborg með þakklæti fyrir allt.
Fyrr var minnst á mikilvægi þess að eiga góða nágranna og samferðamenn. En mestu skiptir þó að eiga Guð að vini, eiga hann sem nágranna og samferðamann á lífsleiðinni. Kristin trú er ekki kenningakerfi, lög eða reglur. Hún er vináttusamband, ástarsamband Guðs og manns. Þessa dagana kenni ég um 80 ferminarbörnum að meta gildi þess að eiga Jesú Krist að fyrirmynd og vini. Það á við um okkur öll. Við þörfnumst hjálpar Guðs á vegi lífsins og við komumst ekki heil til hinstu hafnar nema með hjálp hans. Í Vestmannaeyjum er Friðarhöfn. Nafnið vísar til þess að þar komast menn í var og eiga frið og næði frá stormum lífsins. Himinn Guðs er friðarhöfn og þangað stefnum við. Í vitnisburði kynslóða aldanna ríkir þar gleði, söngur. Ætli þar sé ekki líka dans – og góðir nágrannar?
Þegar þau hjónin fóru út að dansa þá fór Gísli gjarnan að hlómsveitarpallinum undir lok dansleiks og bað strákana um að leika Tennesse Waltz og svo dönsuðu þau inn í nóttina.
Valsinn þeirra verður leikinn í lok athafnar meðan kistan verður borin út. Þannig kveðjum við Helgu og biðjum Guð að blessa minningu hennar og geyma hana að eilífu í gleði himinsins.
Guð blessi minningu Helgu Guðrúnar Einarsdótttur og Guð blessi þig. Amen.
Jarðsett í Görðum.
Erfi í Garðaholti.
Ræðan birt á ornbardur.com
Postulleg kveðja: Guð vonarinnar . . .