+Birgir H Þórisson 1951-2014

Birgir ÞórissonÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Birgir Þórisson

1951-2014

Fáfnisnesi 5, Reykjavík

Útför frá Neskirkju föstudaginn 15. ágúst 2014 kl. 13

Jarðsett í Görðum

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Einhver innskot eru í ræðunni sem ekki eru í textanum.

Ritningarlestrar eru neðanmáls.

Friður Guðs sé með ykkur.

Þegar ég var drengur uppi á Seljalandsdal á Ísafirði og menn voru búnir að leggja svigbrautina og þjappa með skíðum sínum, því enginn var snjótroðarinn, þá fór undanfarinn niður brautina til að prófa hana. Svo hófst keppnin. Svk. orðabók er undanfari íþróttamaður sem reynir svigbraut fyrir keppni en er ekki meðal keppenda. En orðið vísar líka til þess sem fer fyrstur, almennt talað, fer á undan og einnig til þess sem boðar eitthvað, er boðberi tíðinda, segir frá, segir sögu.

Saga.

Sögur.

Við lifum í sögu og lifum fyrir sögur.

Líf okkar er saga með upphafi, framvindu og endi. Fræðimenn sem rannsakað hafa sögur á ólíkum tímum og menningarsvæðum greina munstur eða snið sem á einfaldan hátt má greina í þrjú stig: upphaf, ævintýri og endahnútur.

Þetta einfalda form einkennir allar góðar sögur, alla brandara líka. Hin mikla bók og grunnur Vestrænnar menningar sem prýðir altarið hér og allra kirkna fellur að þessu sama sniðmáti. Það er merkilegt því hún er ekki rituð af einum og sama höfundi heldur er hún safn margra tuga rita. Hún er bókasafn – bibliotek. En þrátt fyrir það geymir hún þetta snið sem um er rætt. Ætli það sé vegna þess að að baki henni er æðri hugur sem í raun ritstýrði verkinu? Eða, býr í henni sammannleg þrá, von og trú, söguþráður, vonarsaga sem býr í brjósti allra manna á öllu tímum? Sniðmát Biblíunnar má með einföldum hætti lýsa með þremur orðum: sköpun – fall – endurlausn. Guð skapaði mann og heim – maðurinn hélt út á lífsveginn – og maðurinn brást sjálfum sér og Guði.

Hann féll.

Þess vegna kom Kristur til að leiða hann aftur inn á hinn rétta veg.

Bók bókanna er eins og allar aðrar góðar sögur sem byrja vel, svo kemur flækjustigið og loks sigrar söguhetjan í lokin. Flestar kvikmyndir heimsins hafa þetta sama sniðmát hvort sem þær eru framleiddar í Hollywood, Bollywood og eða öðrum vúddum heimsins.

Við komu hér saman til að minnast góðs drengs, segja sögu hans, taka sögu hans út í stuttu máli og líka til að finna þráðinn til að halda áfram að lifa, íhuga tilvist okkar, sorgir og gleði, finna söguþráðinn sem leiðir til góðrar niðurstöðu.

Líf okkar á sér upphaf, svo kemur ævintýrið, flækjustigið og loks lausnin.

Þið kunnið að undarast þetta tal og hugsið e.t.v. með ykkur að sögulokin í þessu tilfelli hafi nú ekki haft góðan endi og því skjöplist presti hrapalega. En því er til að svara að ég trúi því að sagan sé alls ekki búin. Besti hlutinn er eftir. Þetta skynjaði skáldið Einar Benediktsson er hann orti sálm sem hefst á þessum orðum:

Hvað bindur vorn hug við heimsins glaum,
sem himnaarf skulum taka?
Oss dreymir í leiðslu lífsins draum,
en látumst þó allir vaka,
og hryllir við dauðans dökkum straum,
þó dauðinn oss megi’ ei saka.

Sama hugsun kemur fram í upphafssálmi þessarar athafnar eftir forföður Önnu Laufeyjar.

Sagan góða – sem við vorum tekinn inn í sem leikarar á sviði lífsins með vígslu skírnarinnar, leiðir til farsæls endis þrátt fyrir erfiðleika í miðkafla ævintýrisins og flækjustig – sagan mun enda vel þrátt fyrir allt.

Ósk mín er að þið íhugið einmitt þetta á sorgarstund þegar við kveðjum Birgi Þórisson, að sögulokin sjálf eru eftir, sigurinn kemur.

Útför er sorgarathöfn en hún er um leið þakkarhátíð þar sem við minnumst góðs drengs sem horfinn er allt of snemma.

Birgir Hannes hét hann og fæddist í Reykjavík 13. janúar 1951. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalsins 3. ágúst 2014. Foreldrar hans eru Hanna Björk Felixdóttir, f. 1929, og Þórir Jónsson, f. 1926. Seinni kona Þóris er Lára Lárusdóttir. Börn Hönnu og Þóris eru Sigríður Jóna, maki Sigurjón Sighvatsson, Guðmunda Helena, maki Sigurður Gísli Pálmason, og Heba, maki Shepherd Stevenson. Hanna á Grétar Felixson, maki Guðlaug Ingvadóttir. Þórir á Sigfríði.

Birgir kvæntist Önnu Laufeyju Sigurðardóttur 1992. Foreldrar hennar voru Sigurður H. Egilsson og Sigríður Þ. Bjarnar sem bæði eru látin. Börn þeirra eru:

Hanna Kristín, f. 1989,

Sigurður Helgi, f. 1991 og

Egill Snær, f. 1997.

Maki Hönnu er Árni Geir Úlfarsson og dóttir þeirra er Örk, f. 2011.

Unnusta Sigurðar er Sólveig Ásta Einarsdóttir.

Fyrir á Birgir

Jórunni Öglu, f. 1974, með Ingunni Egilsdóttur, og

Andra Má, f. 1988, með Jónu Þórdísi Magnúsdóttur.

Maki Öglu er Egbert van Rappard og sonur þeirra er Noah Birgir Semijns (frb. Semæns), f. 2013.

Maki Andra er Ingveldur Dís Heiðarsdóttir.

Birgir gekk í Hlíðaskóla og lauk gagnfræðaprófi frá Ármúlaskóla. Hann lauk framhaldsnámi frá Iðnskólanum í Reykjavík í véltækni. Að námi loknu starfaði hann um árabil hjá Þ. Jónssyni & Co og Sveini Egilssyni. Hann starfrækti verslun í Kópavogi og síðar framköllunarstofu í Ármúla. Síðar var Birgir forstöðumaður og meðeigandi fasteignafélagsins Heimiliskaupa og fleiri tengdra félaga til dánardags.

Birgir var alla tíð mikill íþróttamaður og íþróttaunn- andi. Hann keppti til margra ára á skíðum fyrir skíðadeild KR og var einn af hörðustu stuðningsmönnum KR. Uppbygging skíðasvæðis KR-inga í Skálafelli var honum hugleikin. Birgir var einnig virkur í fé- lagsstörfum, hann var í Lions- klúbbi Reykjavíkur og virkur félagi í AA-samtökunum í 30 ár. Hann stundaði sund á hverjum degi og var kylfingur í frístundum. Það er gott að leika golf. Hver er forgjöfin okkar í lífinu, hvað þurfum við mikla fyrirgefning?

Öll eigum við okkar sögu, lífssögu þar sem margt gerist og á vonandi eftir að gerast. Og svo kemur lausnin.

Fjölskylda og vinir rifjuðu upp ævi Birgis í mín eyru og þar var margt gott sem bar á góma, aðeins gott og fagurt, skemmtilegt og einlægt.

Hann var æðrulaus. Hann var mannvinur. Hann var vandvirkur, hógvær og yfirvegaður. Alltaf var gott að hitta Birgi. Hann geislaði frá sér rólyndi og friði, fór aldrei óðslega að fólki, talaði rólega og af viti.

Anna Laufey og börnin hafa misst mikið. Hann var einstakur eiginmaður og faðir, hugulsamur og elskuríkur, vakinn og sofinn yfir velferð þeirra. „Hann leyfði mér að vera eins og ég er“, segir Anna. Hann sýndi öllum hlýju, virðingu og prúðmennsku. Hann var varkár í tali en þegar hann hóf upp raust sína þá tólk fólk eftir því sem hann sagði. Hann fór snemma á fætur og vissi að morgunstund gefur gull í mund. Hann geymdi t.d. vasaljós í náttborðskúffunni til að geta læðst framúr snemma án þess að vekja Önnu. Svona var umhyggja hans. Um tíma stóð hann og blés hártopp dóttur sinnar hvern morgun áður en hún fór í skólann enda varð það að takast fullkomlega.

Hann leyfði börnum sínum að fara eigin leiðir en fylgdi þeim fast eftir sem stoltur faðir. Hann var þeim frábær fyrirmynd, reglumaður, heill og sannur.

Hann bar skyn á vélar, tól og tæki og bílar voru eitt af hans mörgu áhugamálum. Hann skildi eðli og gangverk flestra hluta.

Hann þekkti landið eins og lófana á sér og fræddi börnin um örnefni og sögur á ferðum með þeim um landið. Svo var stanzað og farið út í mó og þá dró hann fram prímusinn og lagaði ilmandi kaffi handa Önnu og dró fram gott nesti handa öllum, mat og drykk.

Hann var jafnan á undan öðrum og búinn að plana hlutina vel enda vaknaður fyrir allar aldir og búinn að fara í sund þegar aðrir voru enn með stýrurnar í augunum.

Hann var mjög virkur í félagslífi og kom víða við. Hann var öflugur og ákafur stuðningsmaður KR og svo voru það klúbbarnir bæði rennblautir og svo skraufþurrir, Potturinn, Arnarklúbburinn, B-kúbburinn og Helgarhópurinn svo nokkrir séu nefndir og svo AA. Þá fylgdist hann með enska boltanum og íþróttum yfirleitt.

Hann lifði reglusömu lífi og var AA-maður af lífi og sál og stundaði það starfa í þrjá áratugi. Tólfsporakerfið með sinni visku er mikill og góður skóli og þar lærði Birgir margt um lífið og um sjálfan sig. Hann var á margan hátt vitur maður.

Hann var frábær kokkur og mikill grillmeistari og ef hann ætlaði að hafa hrygg eða læri um helgina þá var búið að kaupa hráefnið á þriðjudegi til að láta það vera nákvæmlega rétt þroskað fyrir steikingu á neysludegi.

Hann kunni að skapa stemmingu, raða fólki rétt saman og efla samfélag þess.

Svo varð hann afi og þá hófst alveg nýr kafli í sögu hans. Hann opnaðist allur og fann barnið í sjálfum sér. Litla afastelpan, Örk, bræddi hjarta hans og fékk hann til að gera hvað sem var eins og t.d. þegar hún setti á hann varalit! Þá var Biggi glaður og litríkur! Svo fæddist afastrákur og nafni sem verður skírður n.k. sunnudag. Hann var stoltur af þeim og þráði að lifa og fylgjast með börnum sínum, barnabörnum og ástvinum og lífssögu þeirra.

Hann reyndist tengdaforeldrum sínum afar vel og lét ekki sitt eftir liggja þegar unnið var við bústað þeirra í Hvítársíðu. Hann var þeim yndislegur tengdasonur og systkinum Önnu góður mágur. Systkinum sínum reyndist hann vel og reyndar öllum. Hann fór ekki í manngreinarálit. Hann leigði mörgum um ævina og flestir ef ekki allir urðu óðar vinir hans. Hann leigði t.d. mörgum einstæðum foreldrum og studdi fólk í lífsbaráttunni. Í fyrirtækjarekstri skulda menn hinum og þessum eins og gengur en hann lét einyrkjana ávallt vera í forgangi fremur en stöndugri fyrirtæki.

Margir kveðja hann hér í dag og þakka fyrir samfylgdina. Þegar ræðunni lýkur mun ég flyja ykkur sérstakar kveðjur fjarstaddra.

Birgir hafði næmt auga fyrir fegurð og listsköpun eins og heimili þeirra ber fagurt vitni um. Þau áttu yndislega daga saman og líf þeirra var á margan hátt sem ævintýri. „Við dönsuðum þó sjaldan saman“, segir Anna „en við fórum dansandi saman niður skíðabrekkur margra fjalla í mörgum löndum.“

Anna er formaður skíðadeildar KR og með fullum stuðningi Birgis sem ætíð var tilbúinn til allra góðra verka. Hann kunni því vel að vera í bakvarðarsveit og þurfti þess ekki að sér væri hampað eða þakkað en gladdist þegar aðrir fengu hrós. Í veikindunum lét hann sig hlakka til að fara með börnunum og barnabörnunm á skíði. Hann horfði til efri áranna með gleði og eftirvæntingu. Þau lögðu mikið á sig fyrir börnin, óku þeim upp í fjöll á skíði og litu á það sem gæðatíma með þeim að geta spjallað í bílnum á leiðinni.

Faðir hans lagði á það áherslu við mig hvað Anna Laufey og börnin sýndu honum mikla umhyggju í erfiðum veikindum hans, voru hjá honum daga og nætur. Í því birtist mikil fegurð og elska.

Þau hjónin lifðu fyrir börnin sín og nú er það fjölskyldu og vina að standa með Önnu og börnunum í sögukaflanum sem framundan er.

Birgir var maður stillingar og heiðarleika, prúður og siðvandur en líka grallari sem sagði skemmtisögur af sér og öðrum, bernskubrekum og ævintýrum æskunnar. Hann var hnittinn í tilsvörum og kunni að koma með athugasemdir á réttum tíma. Þannig eru sagnamenn, þeir kunna að reka endahnútinn, koma með punch-line á réttu augnabliki. Það var gaman að vera í návist hans, segja margir. Þegar ég hafði hlustað á fólkið hans tala um hann dró ég saman mína niðurstöðu í þrjú orð. Hann Birgar var: varkár – hógvær – töffari.

Undanfari. Hann er farinn á undan okkur en ekki sem undanfari í skíðabraut því slíkir taka ekki þátt í keppninni sjálfri. Hann tók fullan þátt í lífinu og lifði því af fegurð og heiðarleika. Hann var undanfari í þeim skilningi að hann var á margan hátt frábær fyrirmynd, börnum sínum og samferðafólki og svo er hann farinn á undan okkur sem hér erum saman komin.

Lífið er ævintýri með upphafi, millikafla og endalokum. Dauðinn er ekki endalok í hinni kristnu lífssýn. Hann er óumflýjanlegur en hann á ekki síðasta orðið.

Sálmaskáldið góða sagði:

Ég lifi’ í Jesú nafni,
í Jesú nafni’ eg dey,
þó heilsa’ og líf mér hafni,
hræðist ég dauðann ei.
Dauði, ég óttast eigi
afl þitt né valdið gilt,
í Kristí krafti’ eg segi:
Kom þú sæll, þá þú vilt.

Trúarskáldið boðar fullkomið æðruleysi en æðruleysi er óttaleysi andspænis óumflýjanlegm örlögum.

AA-bænin sem lútherski guðfræðingurinn Reinhold Niebuhr setti saman hljóðar svo í íslenskir þýðingu:

Guð – gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

Að lifa einn dag í einu,
njóta hvers andartaks fyrir sig,
viðurkenna mótlæti sem friðarveg,
með því að taka syndugum heimi eins og hann er,
eins og Jesús gerði en ekki eins og ég vil hafa hann.

Og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg
ef ég gef mig undir vilja þinn, svo að ég megi vera
hæfilega hamingjusamur í þessu lífi og yfirmáta
hamingjusamur með þér, þegar að eilífðinni kemur.

Þetta er góð bæn, bæn sem byggir á von og trú, bæn sem vonar í verstu aðstæðum, vonar og trúir á betri tíð, vonar og trúir á farsælan endi lífssögunnar. Saga allra endar vel með hinum upprisna sem breytti gangi veraldarsögunnar og þar með sögu þinni og minni.

Við kveðjum Birgi Hannes Þórisson í þeirri von og trú og felum hann himni Guðs. Blessuð sé minning hans og Guð blessi okkur öll sem enn erum á sviði sögunnar.

Amen.

Tilkynningar.

Kveðjur

frá Hafdísi Hannesdóttur, föðursystur Birgis, sem er á sjúkrahúsi og dætrum hennar, Ingu og Hönnu, sem eru í útlöndum;

frá Unni Gylfadóttur og fjölskyldu á Spáni;

frá Sigríði Dóru Birgisdóttur er á ferðalagi um heiminn og nú í Dubai.

frá Eyjólfi, Margréti og börnum sem eru í útlöndum.

Jarðsett verður í Görðum. Kistan borin út á hlað og þer er hægt að signa yfir.

Erfi í safnaðarheimilinu.

Ræðan birt.

Postulleg kveðja: Guð vonarinnar . . .

Amen.

 

Ritningarlestrar:

Kærleikur Guðs í Kristi Jesú – Rómverjabréfið 8. kafli:
31Hvað eigum við þá að segja við þessu? Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? 32Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? 33Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. 34Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. 35Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? 36Það er eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.
37Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. 38Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, 39hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Vegurinn, sannleikurinn, lífið – Jóhannesarguðspjall 14. kafli:

1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.