+Gyða Áskelsdóttir 1933-2014

Gyða ÁskelsdóttirÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

+Gyða Áskelsdóttir

1933-2014

Mánatúni 4, Reykjavík

 

Útför frá Neskirkju fimmtudaginn 10. júlí 2014 kl. 13

Jarðsett í Fossvogskirkjugarði

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningarlestrar og sálmaskrá eru neðanmáls.

Við kistulagningu Gyðu í gær sungum við fallegan sálm, Kallið er komið (Sb 271).

Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.

 

Gyða Áskelsdóttir hefur verið burtkölluð af þessu jarðlífi. Senn líður að ögurstund okkar allra. Við verðum öll kölluð af þessu lífi í fyllingu tímans. Það er lífsins saga. Að vera til er mikið þakkarefni. Lífið er gjöf og það varir tiltekinn tíma. Enginn veit hversu lengi. En til hvers lifir maður? Við lifum vegna þess að Guð hefur gefið okkur þetta eina líf og hann setur okkur fyrir verkefni í orði sínu. Jesús dró verkefnið saman í nokkur orð: Elskaðu Guð af öllu hjarta, sálu, huga og mætti og náunga þinn eins og sjálfa/n þig. Þetta er einföld uppskrift að góðu lífi sem bætir heiminn og þar eru verkefnin vissulega óþrjótandi.

 

Þegar ég heyrði fólkið hennar Gyðu tala um hana, kosti hennar og lífshlaup, þá fór það ekki á milli mála að hún hefur reynt að lifa í anda orða Jesú. Hún var væn manneskja, hreinlynd og talaði vel um fólk. Bjössi sagði við hana þegar halla tók undan fæti: „Gyða mín, þú ferð ekki með þungan bagga af þessu lífi.“ Gott er að geta lifað þannig að samviskan sé heil og tær. Hún var orðvör og fremur fámál en þegar hún talaði þá var það af viti og innsæi. Hún hitti oft naglann á höfuðið, sögðu þau. Hún sá jafnan jákvæðu hliðarnar á fólki og var stolt af sinni fjölskyldu. Hún lifði án alvlarlegra árekstra og vandi sig og sína á að gera upp daginn fyrir svefninn og sættast ef eitthvað hafði skapað spennu og óánægju. Þess vegna á næsta vers sálmsins vel við:

Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.

Til gæfu telst að eiga góðar minningar um gott fólk. Við grátum vegna þess að við elskum. Þannig er nú lífið, það hefur á sér tvær hliðar og hvorug getur verið án hinnar. Engin ást, engin sorg, stór ást, mikill söknuður.

Gyða fæddist í Hrísey í Eyjafirði 10. maí 1933. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 28. júní 2014 nýorðin 81 árs.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Lovísa Jónsdóttir, f. á Kálfsskinni, Árskógshreppi 2.8. 1890, d. 24.7. 1985 og Áskell Þorkelsson, útgerðarmaður, f. á Ytri-Másstöðum, Svarfaðardalshreppi 4.11. 1883, d. 5.8. 1961.

Systkini Gyðu voru 11 en þessi komust á legg:

Sigríður Kristín, f. 1913, d. 1958,

Jón Þórir, f. 1916, d. 1989,

Ásgeir, f. 1920, d. 2002,

Agnar f. 1924 d. 2011 og

Zophonías, f. 1928, d. 2011.

Gyða var yngst þeirra og eru þau nú öll fallin frá.

„Um leið og ég sá hana Gyðu hugsaði ég aldrei um aðrar konur,“ segir Bjössi með söknuð í hjarta. Hún var ástin hans allt frá því  þau voru ung og lífið blasti við þeim.

Þann 16. júní 1951 gengu þau í hjónaband Gyða og Jón Þorbjörn Einarsson, málarameistar f. 30.8.1926. Hann var þá tæplega 25 ára og hún nýorðin 18 ára. Þau voru glæsileg hjón og eignuðust 4 börn en misstu frumburðinn á fyrsta ári sem var auðvitað erfið reynsla. Gyða verður jarðsett við hlið stúlkunnar litlu í Fossvogskirkjugarði í  dag:

  1. Guðbjörg Jónsdóttir f. 1950 d. 1951.
  2. Guðmundur Jónsson f. 1952. Eiginkona hans er Lilja Guðrún Halldórsdóttir f. 1954. Börn þeirra eru Jón Halldór f. 1971 og Lilja f. 1976. Jón Halldór er kvæntur Kolbrúnu Eddu Gísladóttur f. 1978. Sonur þeirra er Aron Fannar. Dóttir Kolbrúnar Eddu er Hafdís Hera. Dætur Jóns Halldórs eru Alexandra Dís, sambýlismaður hennar er Arnar Imsland, og Bergrós Lilja. Lilja er gift Haraldi Kolka Leifssyni f. 1976. Synir þeirra eru Leifur Kolka og Guðmundur Kolka.
  3. Guðbjörg Jónsdóttir f. 1954. Eiginmaður hennar var Magnús Magnússon f. 1952 Dóttir þeirra er Gyða f. 1976. Sambýlismaður Gyðu er Jan Arentoft Nielsen. Þau eiga nýfæddan son. Samfeðra Gyðu er Inga Dóra Magnúsdóttir f. 1985. Síðari eiginmaður Guðbjargar og fósturfaðir Gyðu er Einar Karlsson f. 1953. Þau skildu.
  4. Sigríður Kristín Jónsdóttir f. 1962. Eiginmaður hennar er Oddur Hallgrímsson f. 1960. Börn þeirra eru: Matthea f. 1983, gift Halldóri Oddssyni f. 1983. Börn þeirra eru Skarphéðinn og Silfá Helga. Hallgrímur f. 1987, er kvæntur Ásdísi Ólafsdóttur f. 1989, og Guðbjörg f. 1990. Sambýlismaður hennar er Þorsteinn Helgi Valsson f. 1991.

Gyða Áskelsdóttir ólst upp í Hrísey. Fyrir tvítugt flutti hún suður og dvaldi hjá systur sinni í Hveragerði.

Árið 1950 hófu Gyða og Jón Þorbjörn búskap að Vesturvallagötu 7 í Reykjavík en þar bjuggu foreldrar hans. Árið 1959 fluttu þau í nýbyggt hús sitt að Selbrekku 6 í Kópavogi, þar sem þau bjuggu allt til ársins 1985, þegar þau fluttu að Laugateigi 7 í Reykjavík. Að síðustu fluttu þau í íbúð sína að Mánatúni 4 í Reykjavík árið 2002.

Gyða helgaði sig fjölskyldunni og vann sem húsmóðir þar til yngsta barn þeirra hjóna var við 14 ára aldur. Þá hóf hún störf utan heimilisins hluta úr degi og starfaði um árabil sem saumakona hjá Saumastofunni Sportveri og Saumastofunni Fasa.

Hún var frábær handavinnukona sem sneið og saumaði vönduð föt á bóndann og börnin og eftir því var tekið hvað fötin þeirra voru fín og skv. nýjustu tísku. Húsmóðirin hafði í nógu að snúast með stórt heimili og oft malaði saumavélin á nóttinni þegar hún hafði besta næðið til að klára nýja flík.

Bjössi starfaði sem málaremeistari og hafði alla tíð nóg að gera en Gyða sá um allt og hélt heimilinu skínandi fögru og hreinu eða Spic ’n Span svo vitnað sé í gamalt, amerískt vörumerki.

Hún kenndi börnunum góða siði, vandi þau á að borða hollan mat og vera góðar manneskjur. Í því sambandi kenndi hún þeim bænir og vers.

Börnin uxu úr grasi og urðu ástfangin og byrjuðu að búa heima hjá mömmu og pabba. Lilja tengdadóttir minnist þess hvað Gyða tók henni vel og af nærfærni, virðingu og ást þegar hún kom aðeins 16 ára á heimilið og bjó þar næstu 5 árin. Sonur hennar og Guðmundar leit dagsins ljós og Gyða kenndi henni að vera mamma en tók aldrei fram fyrir hendur hennar. Það er list að eiga góð samskipti þar sem virðing er borin fyrir fólki. Tengdasynir hennar bera henni sömu söguna um elskulegt viðmót og hlýju.

Vinir barnanna voru ætíð velkomnir og stelpurnar minnast þess að oft fengu vinkonurnar að gista og þá hvarf kleinudunkurinn og mjólkin inn í herbergi þar sem ástin og lífsmálin voru brotin til mergjar. Og alltaf tók Gyða því með brosi á vör. að hafa unga fólkið heima. Og Guðmundur kom með sína vini heim sem fengu sömu móttökur og elskusemi af hendi Gyðu.

Gyða var ekki bara móðir barna sinna, hún var líka þeirra besti vinur. Oft var setið á eldhússbekknum í Selbrekkunni og rætt um lífið og tilveruna. Gyða var hreinskiptin og orðheppin en tjáði sig hávaðalaust á margan máta. Þau sáu það t.d. ætíð á svip hennar ef henni mislíkaði eitthvað.

Barnabörnin elskuðu að fá að gista hjá ömmu og afa. „Leyfið þeim að vera því sá tími kemur að þau vilja ekki vera hjá ömmu og afa“, sagði Gyða við börnin sín og bætti því við að muna að venja börnin sín við holla fæðu. Hún passaði öll barnabörnin sín og naut þess að hafa afkomendur á heimilinu. Þau voru hennar fjársjóður.

Börnin minnast góðu daganna á Vestuvallagötunni þegar mamma var heimavinnandi og svo sumardaganna sem þau dvöldu með henni í Hrísey. Það voru Paradísardagar.

Þegar Guðbjörg bjó í Danmörku fékk hún mörg bréf frá mömmu, stundum 2 x í viku. Gyða hélt vel utan um fókið sitt.

Guðmundur var í sveit sem strákur og Jón rifjaði það upp að þau voru alltaf að kaupa nýjar gallabuxur á strákinn í sveitinn. Þau undruðust þessi miklu slit en komust svo að raun um að hinar höfðu bara ekki verið þvegnar. Hann átti því margar gallabuxur um haustið!

Sjálf elskaði hún fín föt og hafði yndi af að punta sig. Eftir að hún veiktist kom Bjössi stundum við í búðinni Hjá Hrafnhildi og kom heim með falleg föt handa henni sem hún gat valið úr.

Að hafa í sig og á er mikilvægt öllu fólki og að eiga eitthvað fallegt og fínt skiptir okkur mörg miklu máli. Við erum fyrir hluti og skraut, tól og tæki, glingur og græjur en ekkert af þessu fer með okkur yfir móðuna miklu. Þar með er ekki verið að amast við þessari hegðun okkar mannfólksins. Meira að segja svonefndir villimenn eru glysgjarnir og hrafninn safnar glingri og skrauti. Segja má að lífið sé leikur til að njóta og það er mikilvægt að hafa jákvæða afstöðu til lífsins því í bland við leikinn er streð og strit eins og segir á fyrstu síðum hinnar helgu bókar þegar Guð ávarpar Adam fyrir brottför hans og Evu úr Paradís:

„Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því alla þína ævidaga.

Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar.

Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn.Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.“ (1. Mós 2.17b-19)

Í ljósi þessar orða er mikilvægt að halda í lífsgleðina. Lífið færir okkur nóg af mótlæti og sorgum og þess vegna þarf að jafna það út með gleði, gæsku og gamni.

Gyða átti góða daga og naut lífsins. Hún fékk hjartaáfall sextug að aldri og upp úr því hófst röð tilvika og einn sjúkdómurinn tók við af öðrum og því varð hún að hætta að vinna. Ung glímdi hún við brjósklos í baki og fór í aðgerðir þess vegna en vann þó alla tíð heima og utan heimilis til sextugs. Hún greindist með krabbamein í brisi í apríl s.l. og það dró hana til dauða á nokkrum vikum. Hún dvaldi á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi og hlaut þar frábæra umönnun sem hér er þakkað fyrir. Jón, börnin og barnabörnin voru hjá henni öllum stundum. Áður hafði hún verið veik heima og Bjössi og fjölskyldan hugsað um hana af elskusemi og natni ásamt frábæru starfsfólki Heimahlynningar. Hafi þau öll þökk fyrir sem hjúkruðu Gyðu og léttu henni síðustu skrefin á lífsveginum.

Gyða nafna ömmu sinnar var hér í 5 vikur í vor og sumar og studdi afa og ömmu en varð að hverfa aftur til Danmörku þar sem hún fæddi nýjasta meðlim fjölskyldunnar í heiminn í liðinni viku. Svona heldur nú lífið áfram og við fáum að njóta blessunar og barnaláns.

Gyða hafði alla tíð yndi af að feraðast. Hún fór oft norður á æskuslóðir sínar og svo fóru þau hjónin í ferðir til útlanda, í borgarferðir og sólarlandaferðir. Þau fóru einnig árlega í Hreiðrið við Laugavatn sem er í eigu systurbarna Gyðu. Seinasta ferðin utan var farin til Danmerkur að heimsækja barnabörnin Lilju og Gyðu.

Kveðjur hafa borist frá ástvinum, Guðu og Jan í Óðinsvéum í Danmörku og Hallgrími og Ásdísi í New York í Bandaríkjunum til fjölskyldunnar og með þökk til ömmu.

Margs er að minnast.

Kæra fjölskylda, þið hafið misst mikið og söknuðurinn er sár. En með tíð og tíma sefast það sem sárast er og þakklætið eitt mun ríkja í hjörtum ykkar. Ástvinamissir er ætíð erfiður en við lifum það af eins og gengnar kynslóðir hafa þurft að gera um aldir og árþúsund. Við kveðjum mæta konu, fagra mannesku yst sem innst.

Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

 

Lífið heldur áfram. Jón er bænamaður og biður áfram fyrir sínu fólki að því megi öllu farnast vel. Hann er þakklátur fyrir tímann með Gyðu og sama þökk er í hugum barnanna og fjölskyldna þeirra.

Gyða dó hjóðlega og fallega, án verkja og þjáningar. Svo er læknifræðinni fyrir að þakka og hjúkrun fagfólks.

 

Grátnir til grafar
göngum vér nú héðan,
fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.
Guð oss það gefi,
glaðir vér megum
þér síðar fylgja’ í friðarskaut.

Sb. 1886 – Valdimar Briem

Lokaversið er bæn um að mega fylgja henni inn í birtu himinsins þegar göngunni á lífsveginum lýkur.

Guð gefi að sú bæn rætist hjá okkur öllum, að lífið sem hér er lifað verði aðeins upphaf af ferli sem er í raun eilíft í kærleiksríki Guðs.

Blessuð sé minning Gyðu Áskelsdóttur og Guð blessi okkur sem enn erum á lífsveginum. Amen.

Sálmaskrá Gyða Áskelsdóttir

Ritningarlestrar

Rómverjabréfið 8:31b-39

Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? 32Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? 33Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. 34Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. 35Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? 36Það er eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.
37Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. 38Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, 39hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Jóhannesarguðspjall 14.1-6

Vegurinn, sannleikurinn, lífið
1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.

 

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.