+Stefanía Ingibjörg Pétursdóttir – „Ebba“ – 1941-2014

Stefania Ingibjorg PetursdottirÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

Stefanía Ingibjörg Pétursdóttir 

„Ebba“ 

1941-2014

Blikanesi 6, Garðabæ

 

Útför frá Neskirkju miðvikudaginn 9. júlí 2014 kl. 13

Jarðsett í Görðum

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningarlestrar og sálmaskrá eru neðanmáls.

Þekktu sjálfan þig, sögðu forngrikkir, gnothi seauton. Leitaðu eftir því að þekkja rætur þínar, upphaf og eðli. Hvaðan ertu kominn? Þessi athöfn svarar því með einu lykilorði: Af jörðu ertu komin. Það fyrsta sem fjölskylda Stefaníu Ingibjargar sagði við mig, þegar ég spurði um hvað hefði einkennt hana öðru fremur, var: Hún var jarðbundin. Það var sagt í jakvæðri merkingu og vísar til þess að hún hafði tengsl við móður jörð og allt sem lifir. Hún var mikill dýravinur alla tíð og hafði yndi af að rækta garðinn sinn og það einnig í víðum skilningi. Hún var eftirminnileg kona, fáguð og hógvær í framkomu, en glettin og gamansöm í réttum aðstæðum.

Stefanía Ingibjörg hét hún, kölluð Ebba, fæddist í Reykjavík 3. desember 1941. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi  26. júní 2014.

Stefanía er fædd og uppalin að Þjórsárgötu 3 í Litla Skerjafirði en þar voru foreldrar hennar meðal frumbyggja. Hún lauk hefðbundinni skólagöngu og lauk síðar prófi sem snyrtifræðingur. Vann hefðbundin skrifstofustörf hjá ýmsum fyrirtækjum, til dæmis Glóbus, Vífilfelli og Pharmaco, starfaði við verslunarrekstur um tíma, var innkaupastjóri hjá Hagkaup og síðast fulltrúi á aðalskrifstofu Háskóla Íslands.

Foreldrar Stefaníu voru hjónin Pétur Jónsson úr Borgarfirði, f. 19.9. 1895, d. 24.9. 1973, og Jórunn Björnsdóttir úr Skagafirði, f. 14.12. 1904, d. 2.2. 1966. Systkini Stefaníu eru:  María, f. 1924, d. 2000, Björn, f. 1930, d. 1995, Ásthildur, f. 1934, d. 1997 sem eru látin og Jón Birgir f. 1938.

Hún situr í bílnum með pabba. Þau aka hægt frá einu húsi til annars og litla hnátan fer varlega með varninginn sem þau framleiða heima, eggin dýrmætu, sem kokkar á veitingahúsum og húsmæður í Reykjavík baka úr og elda úr annað góðgæti. Heima í Skerjafirði iðar allt af lífi því sem jörðin gefur af sér. Þar eru hænsni, kýr og kindur, kettir og hundar. Heyjað er í Vatnsmýrinni þar sem fuglinn flýgur yfir og innan um eru vélfuglar með drunum og bensínlykt. Heima eru líka ræktaðar kartöflur, rófur, radísur og fleira. Og í nágrenninu er Tívolí. Ebba er í Paradís. Hún tekur þátt í félagslífi, leikur handbolta með stelpunum og sem unglingur er hún orðin Íslandsmeistari.

Í næstu vikur verða liðin 47 ár frá því að Stefanía giftist, 15. júlí 1967, Páli Braga Kristjónssyni, f. 7.2. 1944. Foreldrar hans voru Kristjón Ingiberg Kristjánsson, f. 25.9. 1908, d. 18.10. 1981, og Ólína Þórey Stefánsdóttir, f. 10.9. 1927, d. 6.3. 2007. Börn Stefaníu og Páls Braga eru:

  1. Jórunn, f. 3.3. 1964, ættleidd af Páli Braga, gift Þórarni Stefánssyni, börn hennar eru: a) Páll Bragi f. 1986, b) Björn, f. 1990, c) Selma, f. 2004.
  2. Þórður, f. 8.1. 1968, kvæntur Kristínu Markúsdóttur, börn þeirra: a) Hjördís, f. 1995, fósturdóttir Þórðar, b) Markús, f. 2005, c) Kristjón, f. 2009.
  3. Rakel, f. 4.6. 1970, gift Óskari Sigurðssyni, börn þeirra: a) Stefanía Ósk f. 1990, b) Sigurður f. 1994 c) Saga f. 2002.
  4. Kristján Leifur, f. 9.12. 1977, í sambúð með Tinnu Guðmundsdóttur, börn þeirra: a) Ólína Ugla, f. 2009 b) Stefán og Trausti, f. 2011.
  5. Dóttir Páls Braga er Ynja Sigrún Ísey, f. 13.8. 1967, og á hún fjögur börn.

 

Stefanía og Páll Bragi bjuggu lengst á Fossagötu 8 í Litla Skerjafirði en húsið byggðu þau á lóð sem foreldrar Ebbu áttu og ráku búskað sinn á. Síðustu 12 árin hafa þau búið í Garðabæ.

Börnin eiga fagrar minningar um mömmu og þau lýsa henni á hnitmiðaðan hátt í fagurri minningargrein sinni og sama gera aðrir sem minnast hennar í dag. Þau þakka hlýju hennar og umhyggju, öryggið sem hún skapaði þeim, lífsreglurnar og viskuna sem hún kenndi þeim, gleðina sem einkenndi hana alla tíð og græskulausan húmorinn, birtuna sem bjó í sálu hennar.

Stefanía var lífsglöð, glæsileg og vel á sig komin alla tíð. Hún keppti í handbolta á sínu yngri árum allt þar til hún eignaðist yngsta barn sitt, fyrst með Þrótti, síðar með Fram og félagsliðum í Kaupmannahöfn og  Árósum. Allar götur síðan spilaði hún badminton og undanfarin ár léku þau hjónin sér í golfi.

Ég þreytist ekki á að boða mína golfguðfræði sem fólgin er í því að skilgreina golfið sem kristilegustu íþrótt sem ég þekki. Þeir sem þróuðu leikinn og reglurnar voru greinilega með háguðfræðilega afstöðu til leiksins því hann veitir fólki sérstaka umbun eða eftirgjöf vegna geigunar og klaufaskapar. Þetta er sett í kerfi sem kallast forgjöf á íslensku en ætti í raun að heita fyrirgefning. Og þá spyr ég þig sem ert kylfingur: Hvað ert þú með mörg högg í fyrrigefningu? Og almennt talað: Hvað þurfum við mikla fyrirgefningu í lífinu? Gott væri að hafa slíkar mælingar á hreinu en þær eru víst bara til í bókinni miklu í himni Guðs.

Hún tilheyrði Oddfellowreglunni í áratug og tók þátt í starfi Inner Wheel. Þar lét hún um sig muna og vann að góðum málefnum í þágu samferðafólksins nær og fjær.

Stefanía var listfeng og lagði stund á garðyrkju árum saman og svo skar hún út muni í tré hin síðari árin og því á vel við að sungið er yfir henni Kvæðið um fuglana.

Hún ólst upp með dýrum og ekki bara þeim sem hoppa og skoppa um grænar grundir heldur líka þeim sem lifa undir sverðinum. Hún tíndi maðka árum saman og seldi til veiðimanna eftir að hafa alið þá af fagmennsku og búviti. Hún var dýravinur og átti ætíð gæludýr. Árið 1995 hóf hún ræktun hundategundarinnar Bichon Frisé á Íslandi og er frá þeim kominn mikill ættbogi.

Ebba var mikill húmoristi og gantaðist oft við heimilisfólkið, stríddi þeim góðlátlega og gaf þeim gælunöfn: Laugi, Rebbi, Gaggalú, Geit og Ói. Svo hófst hundaræktunin og börnin urðu ögn afbrýðisöm – en í gamni, auðvitað – og göntuðust með það að nú væru komin 4 „börn“ í þeirra stað, tvær tíkur og tveir hundar.

Hún var vel lesin og orðhög og naut þess að ráða krossgátur. Sumar skáldsögur las hún á hverju ári. Hún horfði á alla söngleiki í sjónvarpi með börnunum og fór oft með þeim á leiksýningar og átti söngleiki á plötum. Síðustu árin hlustaði hún mikið á klassíska tónlist meðan hún skar út og skapaði fagra muni af listfengi.

Börnin fengu öll tækifæri til tónlistarnáms.

Hún var matargerðarkona par excellans og börnin lærðu margt af henni í þeim efnum. Hún hafði sjálf tekið þá list í arf og spann þráðinn áfram með börnumum. Þau muna þegar þau gátu farið út í garð og tekið upp kartöflur í pottinn og tínt jarðarber og séð eplatréð vaxa. Garðarnir hennar voru ætíð listilega skipulagðir og gróskumiklir. Þar voru blóm og runnar, matjurtir og eplatré. Lúther var eitt sinn spurður hvað hann myndi gera ef hann vissi að heimsendir yrði daginn eftir. Ég myndi gróðursetja eplatré, sagði hann. Það er góð afstaða til lífsins að vona ætíð á hið góða andspænis hverju sem er, líka stærstu ógnunum.

Ebba byrjaði snemma að tala við börnin um jörðina, um hið stóra samhengi alls lífs og heims. Hún var heilsteypt manneskja og örlát sem kunni að njóta lífsins. Börnin nutu þess oft að setja upp smá leikþætti heima, leika stef úr auglýsingum úr sjónvarpinu og færa í stílinn. Þau voru þjálfuð í því að máta sig við umhverfið og tilveruna og hafa gaman af því, hlæja og grínast. Þau máttu ætíð tala um allt og brjóta til mergjar.

Hún var heilsteypt manneskja með ríka réttlætiskennd og hélt þeim eiginleikum til hinstu stundar. Henni fannst lífið í heild sinni dásamlegt en henni sveið það hvernig óréttlætið fékk stundum að fara sínu fram og það þekktu þau á eigin skinni, Páll og hún.

Lífið færir okkur mörg verkefni til að þroskast af. Án viðnáms virkar lífsleikurinn ekki en honum má líkja má við handbolta- eða fótboltaleik sem nú er í hugum margra meðan heimsmeistarakeppnin í Brasilíu fer fram með tilþrifum eins og sannaðist í gær í 7:1 sigri Þjóðverja yfir Brasilíumönnum sem er sama hlutfall og við þurftum að þola í 14:2 tapi gegn dönum á sínum tíma. Nú skiljum við Brassana betur.

Lífið er leikur, dásamlegur leikur en eins og í íþróttunum þá vinnst sigur í sumum en aðrir leikir tapast.

Hefur lífsleikurinn tapast þegar dauðinn vitjar fólks? Sú spurning er mörgum ofarlega í huga þegar ástvinur er kvaddur í blóma lífsins. Svarið við henni er í senn já og nei. Það er nefnilega svo magnað með trúna að hún snýr tapinu í sigur. Krossinn, þetta hræðilega aftökutæki, er okkur kært sigurtákn, sem sett var á enni okkar og brjóst í heilagri skírn þegar við vorum frátekin handa Jesú Kristi og himni hans. Séra Hallgrímur orðar þetta vel er hann segir:

Með sínum dauða’ hann deyddi
dauðann og sigur vann,
makt hans og afli eyddi,
ekkert mig skaða kann,
þó leggist lík í jörðu,
lifir mín sála frí,
hún mætir aldrei hörðu
himneskri sælu í.

Lífið er í hendi Guðs og það er líka í höndum okkar og samferðafólksins meðan við göngum lífsveginn. Sú staðreynd minnir á ábyrgð okkar og köllu um að elska náungann. Trúin verður ætíð að taka ábyrgð á lífinu annars verður hún að innihaldslausu skýjaglápi án jarðtengingar.

Páll Bragi var hjá henni daga og nætur síðustu vikurnar og börnin komu oft á Líknardeildina, eftir því sem þau gátu. Þar hlaut hún frábæra umönnun eins og í öllu sjúkdómsferlinu sem hér er þakkað fyrir. Hún þakkaði fyrir góðu árin sjötíu sem hún hlaut með góðri heilsu og lífsgleði en tók síðustu þremur árunum af æðruleysi.

Þau nutu barnaláns. Síðustu orðin sem Páll Bragi sagði við hana voru um að hafa ekki áhyggjur af börnunum því þau væru ölli í góðum málum. Þau voru samrýmd hjón í áratugi. Barnabörnin voru þeim kær og nutu þess að heimsækja afa og ömmu og læra af þeim um lífið og tilveruna. Ebba hóf snemma að ræða við börnin sín og barnabörn um lífið og tilveruna, um fólk og land, um gróður og dýr, um samhengi alls sem lifir.

Þegar Ebba varð þrítug sendi Páll Bragi henni vísukorn eftir KN sem tjá ást hans til hennar sem aldrei brást:

Síðan fyrst ég sá þig hér,

sólskin þarf ég minna.

Gegnum lífið lýsir mér

ljósið augna þinna.

 

Ljós mininganna lifir áfram í hjörtum ykkar sem nú kveðjið góða og væna manneskju.

Stefanía Ingibjörg hefur lokið lífsleik sínum og sigrað með Kristi – og það með óendanlegri markatölu. Kristur elskar allt og blessar með orði sínu og nærveru heilags anda. Hann gefur mikla forgjöf í lífinu og fyrirgefur allt, náðar og blessar.

Hann er góði hirðirinn sem þekkir sína hjörð og heldur henni til haga.

Nú er hún sem lambið í faðmi hans eins og við þekkju af ótal myndum úr listaverkasögunni. „Guð er kærleikur“ segir postulinn Jóhannes og „Drottinn er minn hirðir“, segir í einu þekktasta ljóði veraldar í 23. sálmi Davíðs. Við erum í hendi Guðs eins og lífið allt, maðkur í mold, lömb og kýr, fugl og fólk, allt sem andardrátt hefur.

Af jörðu ertu kominn. Og svo kemur dómurinn í kjölfar þeirra orða: Að jörðu skaltu aftur verða. Við erum af jörðu og hverfum þangað aftur. En hin kristna von og trú ögrar þeim örlögum og segir: Af jörðu skaltu aftur upp rísa. Trúin sér lengra, hún skilur með hjartanu, en er ekki bundin takmarkaðri hugsun heilans og svonefndri skynsemi. Brjóstvitið, hjartað, skynjar hinar stóru víddir og sér gáturnar ganga upp, krossgátur lífsins, þar sem kross Krists er í miðju sem allsherjar lausn á því sem fjötrar manninn.

14:2, 7:1. Menn tapa og sigra, tapa stórt í lokin, en stóri sigurinn er samt unnin, því eilífa lífið hefur sigrað með óendanlegri markatölu: dauðinn eitt: lífið 70×7 – sem merkir takmarkalaust skv. orðum Jesú þegar hann ræddi fyrirgefninguna við fylgjendur sína (Matteus 18:22).

Þekktu sjálfan þig. Leitaðu að svörum við gátum lífsins. Reyndu að skilja hið stóra samhengi og gleymdu ekki innsæi hjartans sem sér lengra, dýpra og hærra en önnur skilningarvit mannsins.

Lífsleikur okkar heldur áfram meðan Stefanía Ingibjörg Pétursdóttir fagnar sigri. Guð blessi minningu hennar og blessi hann okkur öll á lífsveginum og gefi okkur góða daga, góða heimkomu og sigur í fyllingu tímans.

Amen.

 

Ritningarlestrar

Sálmarnir 8:1-10
1Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.
2Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.
Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.
3Af munni barna og brjóstmylkinga hefur þú gert þér vígi
til varnar gegn andstæðingum þínum,
til að stöðva fjandmenn og hefnigjarna.
4Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
5hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
6Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri,
7lést hann ríkja yfir handaverkum þínum,
lagðir allt að fótum hans:
8sauðfénað allan og uxa
og auk þess dýr merkurinnar,
9fugla himins og fiska hafsins,
allt sem fer hafsins vegu.
10Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.

 

Matteusarguðspjall 5:1-16
Fjallræðan

1Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. 2Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
3„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
4Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
5Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
6Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
7Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
8Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
9Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
10Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki. 

11Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. 12Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.

Salt og ljós

13Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
14Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 15Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. 16Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

 

Salmaskra Stefania Ingibjorg Petursdottir

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.