+Matthías Örlygsson 1962-2014

Matthías ÖrlygssonÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

Matthías Örlygsson

1962-2014

húsasmiður

Útför frá Neskirkju föstudaginn 4. júlí, kl. 13.00.

Jarðsett verður í Sóllandi að lokinni bálför.

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningarlestrar og sálmaskráin eru neðanmáls.

 

 

Hver er tilgangur lífsins? Þessi spurning og aðrar skyldar leita á hugann þegar samferðamaður er kvaddur í blóma lífsins. Hver er tilgangur lífsins?

Ég ætla að leyfa mér að koma með eina fullyrðingu sem svar og hún er að minu viti í anda Matthíasar Örlygssonar:

Tilgangur lífsins er að leika sér.

Stundum finnst mér lífið allt of alvarlegt og yfirþyrmandi í öllum sínum kröfum og skyldum. En þegar dýpst er skyggnst þá er leikurinn mikilvægastur, lífsleikurinn sjálfur.

Á dögunum hlýddi ég á erlendan fræðimann sem hefur rannsakað leik barna og komist að því að leikur og ærsl eru mun mikilvægari en oft hefur verið álitið. Börn leika sér. Þau tuskast og veltast um, hlægja og gráta, slást og faðmast. Leikur er ein mikilvægasta menntun sem maðurinn getur öðlast. Skólaganga hefst ekki þegar barnið byrjar í skóla. Hún byrjar þegar börn hefja að leika sér. Sjáðu ungabörn sem eru rétt byrjuð að skríða eða taka fyrstu skrefin. Þau leita strax hvers annars, klípa í kinn, klappa, faðma. Þau vilja leika sér.

Eitt vakti sérstaka athygli mína í viðtalinu við þennan fræðimann og lækni sem rannsakað hefur fólk á öllum aldri með tilliti til leiks í bernsku og það var að hann sagðist hafa átt viðtöl við morðingja í fangelsum og þeir hafi flestir ef ekki allir átt það sameiginlegt að hafa farið á mis við það í bernsku að leika sér ærlega. Leikur barnsins er mikilvægur til þess að þroska félagsfærni og ótalmargt annað sem skiptir svo miklu máli síðar á lífsleiðinni.

Hver er tilgangurinn með þessu öllu? Um aldir og árþúsund hefur fólk leitað svara við þeirri spurningu. Ein sérkennilegasta bók Biblíunnar heitir Prédikarinn og þar spyr höfundur margra spurninga og pælir í lífinu á mjög svo frumlegan hátt. Ég hvet ykkur til að lesa hana. Þar segir m.a.:

10Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á. 11Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur. 12Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. 13En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.

14Ég komst að raun um að allt sem Guð gerir stendur að eilífu, við það er engu að bæta og af því verður ekkert tekið. Guð hefur hagað því svo til þess að menn virtu hann. 15Það sem er, var fyrir löngu, og það sem verður, hefur verið fyrir löngu og Guð leitar aftur hins liðna. (Préd 3.10-15)

 

Prédikarinn fyrir þrjú þúsund árum eða svo leikur á sömu strengi og læknirinn segir um leikinn. Lífsgleðin og leikurinn skipta mestu.

Matthías Örlygsson skorti ekki gleðina og léttleikann yfir tilverunni. Sjaldan vitna ég í minninargreina í líkræðum mínum en það sem hér er sagt verður vart orðað betur:

Matthías bróðir minn var borinn í þennan heim með bros á vör og sól í sinni og þeir eiginleikar auðkenndu hann allt þar til yfir lauk. Hann var athafnasamur og orkumikill sem barn og unglingur, leitandi, þurfti stöðugt að finna orku sinni farveg og fór þá ekki alltaf troðnar slóðir. Hann var gamansamur, geislandi af lífsgleði og kæti, léttur í lund og prakkari í eðli sínu en það var auðvelt að fyrirgefa honum prakkarastrikin enda bjó alltaf saklaust grín og græskuleysi að baki. Í eðli sínu var hann ljúflingur sem öllum vildi gott gera og hafði góða návist.

 

Þessi orð Þorgeirs bróður hans lýsa honum á myndrænan hátt. Allir sem ég hef talað við lýsa honum með sama hætti en hver með sínum orðum.

Hver er tilgangur lífsins? Þannig er gjarnan spurt þegar dauðinn leggur að velli fólk á besta aldri, gott fólk. Hver er tilgangurinn? Prédikarinn talar um að njóta lífsins, eta og drekka og umfram allt að vera glaður. Að hafa í sig og á og rækta með sér lífsgleði, það skiptir mestu. En lífsgleðin verður aldrei einleikur heldur ætíð með öðrum. Við lifum ekki án náunga okkar, án vina og samferðafólks. Maðurinn er félagsvera og þeim mun meir sem hann gefur náunga sínum af elsku og gleði því meir fær hann til baka. Þetta er hagfræði himinsins og hún ber ætíð háa vexti og gengisfellur aldrei.

 

Matthías fæddist í Reykjavík 6. október 1962. Hann lést á Droplaugarstöðum 20. júní 2014. Foreldrar hans eru hjónin Þóra Þorgeirsdóttir, fædd 1933, og Örlygur Hálfdanarson, fæddur 1929. Bræður Matthíasar eru Þorgeir, Hálfdan og Arnþór Örlygssynir. Matthías var í sambúð með Kolbrúnu Ólafsdóttur og átti með henni dæturnar Matthildi, fædda 1982, og Magneu Rut, fædda 1986. Matthías og Kolbrún slitu samvistir. Árið 1998 gekk Matthías í hjónaband með Elvu Sigtryggsdóttur, fæddri 1965. Börn þeirra eru Jóhanna, fædd 1993, Thelma Ósk, fædd 1998 og Matthías Máni, fæddur 2003. Matthías og Elva voru skilin. Barnabörn Matthíasar eru Birgitta Nótt og Nadia Líf, börn Matthildar; Ágúst og Alda Björt, börn Magneu Rutar; og Mikael Kristall sonur Jóhönnu. Gott samband var milli Matthíasar og foreldra Elvu. Hann smíðaði fyrir þau fallegan pall í Þjórsárdal þar sem þau dvöldu oft meðan bæði lifðu en þau létust 2012.

Matthías var lærður húsasmiður og starfaði sem slíkur um árabil en eftir það við bókaútgáfu meðan starfskraftar leyfðu.

Matthías hafði ríka sköpunargáfu. Hann hafði gott formskyn og sá í huga sér hvernig skapa mætti verk með hamri og höndum. Hann var ljúfur maður, kátur og geislandi glaður. Það eru góðir eiginleikar að geta lýst upp tilveruna og varpað birtu og ljóma á umhverfi sitt. Í veikindum sínum í 19 ár, næstum helming ævi sinnar, var hann ætíð bjartsýnn og æðrulaus en orðið merkir óttalaus. Börn hændust að þessu öðlingi enda skynja börn hreint hjarta og góðmennsku.

Matthías hafði ótal áhugamál. Þegar ég spurði hvaðan hann hefði þetta þá fékk ég þau svör að hann líktist á margan hátt föðurbróður sínum og nafna sem var siglingamaður og góður smiður og svo Þorgeiri afa í Gufunesi sem var atorkumaður, rammur að afli og þekktur fyrir alls kyns uppátæki og þrekvirki og ekki síst fyrir að fara frjálslega með góðar sögur. Eftirminnilegt er þegar hann seldi kýrnar norður í land og flutti þær með strætó sem kaupandinn Gunnar Bjarnason kom með. Vagninn stóð uppi á hæð og þegar bílstjórinn stók af stað og yfir hrygginn þá runnu kýrnar aftast í bílinn svo að hann sporðreistist. Þá tók Þorgeir til sinna ráða og setti planka á milli sæta og bjó til bása og þannig komust kýrnar norðu í land með strætó en hann gaf nú einar tvær kýr á leiðinni til að létta bílinn þar sem hann kom að of bröttum brekkum.

Matti var líkur honum á margan hátt.

Hann hafði gaman af að far til afa í Gufunesi og í sveit fyrir norðan. Hann var á Flugumýri og svo í Kjeldudal þar sem hann tengdist fólkinu til frambúðar.

Hann var ekki bara skapandi smiður heldur var hann líka ævintýramaður þegar kom að öflugum ökutækjum af hvaða tagi sem eru, bílum, mótorhjólum, vélsleðum, fjallajeppum. Hann þótti ótrúlegur á á fjöllum þar sem hann sat við stýrið og þræddi slóða yfir klungur og beljandi ár. Hann var e.t.v. ekki á best útbúna eða flottasta jeppanum en hann komst allt og oft lengra en aðrir með ökuleiknin sinni og útsjónarsemi.

Hann lét sér ekki nægja að æða upp um fjöll og fyrnindi heldur þurfti hann líka á reyna fyrir sér á sjó. Hann hafði alla tíð áhuga á sjómennsku og fiskveiðum og átti einn og með föður sínum nokkra báta. Eitt sinn sigldi hann frá Ísafirði í stjörnuvitlausu veðri og komst vestur- og suður fyrir, til Patreksfjarðar. Þar tók hann eldsneyti og karlarnir á Patró tóku mikið í nefið og klóruðu sér í höfðinu og sögðu það hreint með ólíkingum að Matta hefði tekist að sigla fyrrgreinda leið í þessu veðri.

Matti hafði í sér eðlisgreind hvað varðar smíðar og umhverfi, form og snið, veður og vinda.

Hann helgaði Viðey krafta sína síðustu árin og var stöðugt að skapa eitthvað nýtt. Okkur býðst að sjá verkin hans í Viðey í erfinu síðdegis. Uppbygging á vegum félags Viðeyinga var hans verk að miklu leyti. Hann dreymdi um að fara út í Viðey í sumar og vinna.

Hann ólst upp á Seltjarnarnesi og þar eignaðist hann æskuvini og hélst vinátta þeirra til æviloka. Nánustu vinir hans bera honum vel söguna og eiga um hann skemmtilegar og hressilgar minningar. Aldrei var lognmolla í kringum Matta og uppátækin eftirminnileg. Hann var vinsæll í sínum aldurshópi og vinirnir segja að stelpurnar hafi ekki hvað síst haft sérstakt auga á honum og hann á þeim!

Hann kom víða við og trommaði t.d. í hljómsveit um tíma.

Hann lifði fyrir líðandi stund, var þakklátur og nægjusamur og mætti öllu hiklaus og djarfur.

Og nú er hann horfinn af þessu jarðlífi en minningarnar um hann lifa og gleðja ykkur ástvini hans.

Ég flyt ykkur sérstakar kveðjur. Óttar Sveinsson, bróðursonur Örlygs, er staddur á Ítalíu við útskrift og sendi ykkur kveðju sín og Matthíasi þökk.

Guðný Björg Þorgeirsdóttir, systir Þóur, og maður hennar, Þór Sigþórsson, sem búsett eru í Noregi send ykkur kveðju sína og Matthíasi þökk.

Matthías tók veikindum sínum af miklu æðruleysi og reisn og einnig með húmor og áhyggjuleysi. Hann var þakklátur fyrir lífið og það sem það færði honum. Hann þurfti að glíma við lífið og hafi sigur í mörgum tilfellum en krabbann gat enginn mannlegur máttur sigrað og því fór sem fór.

Við skiljum ekki hvers vegna gott fólk hverfur af þessu lífi meðan aðrir sem ekki þykja jafn vel gerðir verða gamlir eða enn aðrir sem eru orðnir gamlir og löngu komnir út úr heiminum geta ekki dáið. Gátur lífsins eru margar og við sumum þeirra engin svör. En svarið við spurningunni um tilgang lífsins sem varpað var fram hér í upphafi stendur sem tilgáta og jafnvel óhögguð sem kenning. Svarið liggur í því að leika sér.

Matthías var lífs- og leikglaður maður. Fyrir honum skipti andartakið ekki hvað minnstu máli. Að lifa einn dag í einu og að leika sér er lífsins list.

Við kveðjum mann sem kunni að vera glaður, bæði í leik og störfum. Árafjöldinn segir ekki allt um lífsgæðin heldur hvernig lifað var.

Mér finnst að fólk eigi ekki að þurfa að horfa á eftir börnum sínum í gröfina. Það er sárt þegar fólk gengur í gengum þá raun. Móðir hans sagði við mig um Matthías:

Að hafa fengið að eiga þennan dásamlega dreng, er mikið þakkarefni, dreng sem faðmaði mig og endurgalt elsku mína.

Skömmu fyrir andlátið kom hún til hans og sagði: Sæll Matti minn.

Hann gat ekki svarað með orðum en tók í hönd hennar, kyssti á hana, brosti og kvaddi mömmu sem ól hann og annaðist ásamt pabba af mikilli elsku.

Hann naut elsku og umhyggju foreldra sinna, bjó á heimili þeirra síðustu misserin og alltaf lagði hann eitthvað gott til, málaði t.d. alla íbúðina fyrir ári. Þau voru hjá honum í veikindum hans ásamt börnum hans sem ég hitti við dánarbeðið þar sem við báðum öll fyrir Matthíasi, héldumst í hendur og tengdum hann inn í keðjuna. Nú er hann horfinn en við erum áfram hlekkir í keðjunni hér í þessu lífi. Við munum öll kveðja í fyllingu tímans. Það er gangur lífsins. Sumir lifa lengi aðrir skemur. Mestu skiptir að njóta lífsins og að leika sér meðan dagur er.

Matthías lést í faðmi dætra sinna umvafinn elsku.

Marteinn Lúther lagði áherslu á að allir skírðir menn væru prestar, karlar og konur, fullorðnir og börn. Hann sagði hvern mann inna sína guðsþjónustu af hendi með því að vinna störf sín af heilindum, hver sem þau væru. Allir taka þátt í því að þjóna Guði hvort sem menn gegna háum embættum eða öðrum störfum sem þykja kannski lítilvæg á veraldlegan mælikvarða. Allir þjóna Guði með heilbrigðum störfum sínum, sagði siðbótarmaðurinn og barnið þjónar Guði með því að leika sér.

Leikurinn heldur áfram á lífsveginum. Við erum þátttekandur í lífsleiknum. Leikum hann af gleði og njótum hans meðan dagur er.

Blessuð sé minning Matthíasar Örlygssonar og Guð blessi þig. Amen.

Tilkynningar.

 

Ritningarlestrar:

Sálmarnir 126:5

5Þeir sem sá með tárum
munu uppskera með gleðisöng.

Rómverjabréfið 8: 31b-34, 38-39
Kærleikur Guðs í Kristi Jesú

31 . . .  Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? 32Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? 33Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. 34Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur.

[. . . ]  

38Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, 39hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Matteusarguðspjall 6:25-34
25Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? 26Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? 27Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

28Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. 29En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. 30Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!
31Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? 32Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. 33En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. 34Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.