Minningarorð
Björg Þorsteinsdóttir
1920-2014
húsmóðir og kennari
Útför frá Neskirkju miðvikudaginn 2. júlí 2014 kl. 13
Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningarlestrar og sálmaskráin eru neðanmáls.
Ef ég væri kvikmyndagerðarmaður og gæti sett þessi minningarorð á filmu og farið sjálfur aftur í tímann þá mundi ég hefja tökur í Grjótaþorpinu og sýna fólk í þögulli mynd og þar á meðal stelpuhnátu sem kölluð er Badda en heitir Björg með langar fléttur í pilsi og jakka í matrósastíl, í háum sokkum með tíglamynstri efst, í glansandi skóm með öklabandi. Brosið er ögn varfærið. Og kvikmyndin er svarthvít. Einn eða í mesta lagi tveir bílar í miðborginni. Konur í peysufötum eða kápum. Sumar með mjólkurbrúsa aðrar með skotthúfu og veski. Karlar í vinnufötum með yfirvaraskegg og aðrir spariklæddir í ullarfötum með vesti og vasaúr í keðju. Sumir með handvagna, aðrir með staf. Fólk í litlum bæ en samt höfuðborg þessa lands sem er hluti danaveldis. Þar eru vinkonur Bjargar, Sólveig Hjörvar eða Lobba. Um hana skrifar Jón Múli í minningargrein undir lok liðinnar aldar: „Þegar Helgi Hjörvar fann upp nýja forskriftabók með einfaldri stafagerð fyrir alþýðufólk, kennslubók sem ætlað var að leysa af höfðinglega dráttlist Jóns Þórarinssonar fræðslustjóra og Mortens Hansens á þriðja tug aldarinnar, vakti frumkvæði barnakennarans mikla athygli. Fögnuðu margir stílhreinum einfaldleikanum, en hinir voru ekki færri sem töldu eftirsjá að flúrletrinu og sökuðu Helga Hjörvar um skemmdarverk. Einn var þó sá hópur óskriftlærðra sem þóttist nú hafa eignast kennslubók við sitt hæfi, það voru krakkarnir í Bröttugötu og Bíókrakkarnir í Fjalakettinum og leikfélagar þeirra í Grjótaþorpi. Gripu þessi landsins börn feginshendi almúgaletur Helga og æfðu sig stíft á forskriftinni, einkum á blaðsíðunni með efstu línu á þessa leið: Lobba kom með loðna skó úr Lundúnaveldi. Lobba var nefnilega leiksystir og uppáhalds vinkona þeirra sem útskrifast höfðu úr tímakennslu, og hafið æðra nám í Miðbæjarbarnaskólanum við Tjörnina. Þar að auki var Lobba dóttir höfundar forsskriftanna [sic] . . . Þegar Gamla bíó fluttist upp í Ingólfsstræti var kvikmyndasalurinn brúkaður til fundahalda, þar æfðu kommúnistar sig í að ganga í takt, og báru þá rauða fána á litlum sætum stöngum sem fóru vel í hendi, eins og axarsköft. Svo voru kommúnistarnir líka í hnefaleikum, en vildu aldrei leyfa manni að vera með, grefils beinin. Við íhaldsbörnin hefndum okkar í kórsöng á göngum og gluggum með útúrsnúningi úr baráttusöngnum Rauða fánanum: Fram allir fjósamenn með skóflublaðið, því hrossataðið vort merki er. Lobba söng sópran í kórnum í einkar áhrifamiklum sólóum upp í opið geðið á óvininum. Hún var djörfust allra í leik og hrekk ef svo bar undir, en stúlkna hugljúfust á barnalesstofunni í stóra kvisthúsinu við gamla kirkjugarðinn undir gafli Landsímahússins, og gaf engum eftir í skautahlaupi á Tjarnarsvellinu.“ (Jón Múli, Minningargrein í Mbl 18.7.1995) Lobba deyr undir lok aldarinnar árið 1995. Þarna er líka Ásgerður Búadóttir, síðar veflistarkona sem lifir þúsaldamótin og kveður þetta líf á vordögum 2014. Unnur vinkona er þarna líka í kjól og sportsokkun en hún hverfur yfir móðuna miklu á unga aldri. Ég tek mynd af torfbæ þar sem afi stúlkunnar fæddist og filma í höfninni, sýni árabáta og vélbáta þessi tækniundur, sjálfróandi skip. Á Austurvelli er fimleikaflokkur að sýna listir sínar. Seinna, því myndin er mörg ár í vinnslu, fer ég austur fyrir fjall á hestum til að mynda í Hraungerði þar sem Badda er ung kona og kynnist unga og glæsilega skólastjóranum í Þingborg. Við sýningu myndarinnar leikur aðalsöguhetjan á píanó í Gamla bíó í Aðalstræti 8 þar sem filmann fer í gegnum stóru kvikmyndasýningavélina. Og það er klappað í lokin.
Ævintýraheimur Bjargar var Grjótaþorpið og þegar hún kom þangað öldruð þá ljómaði hún af gleði. Hún mundi tímana tvenna. Ísland var land vonar þegar hún fæddist. Fullveldið 2ja ára og framtíðin björt. Svo kom kreppan 1929 og svo stríð eftir hana og hermenn urðu fleiri í Reykjavík en allir íbúarnir. En í þessu landi vonarinnar þraukaði fólk og vænti betri tíðar og kjara í víðum skilningi. Og lífið hélt áfram og breyttist smátt og smátt en þegar litið er til baka þá líkjast breytingarnar því að margar gjörbyltingar hafi átt sér stað. Engin kynslóð Íslandssögunnar hefur séð annað eins á sinni tíð. „ . . allt er að breytast, en aldrei þú“, (Sb 6.2) segir sálmaskáldið í lofgjörð sinni og trú á Guð. Lífið er á hverfanda hveli en Guð breytist aldrei. Þess vegna getum við lifað dag í senn, áhyggju- og æðrulaus, látið hverjum degi nægja sína þjáningu, eins og Frelsarinn segir í Fjallræðu sinni.
Björg Þorsteinsdóttir fæddist 16. júní 1920 í Reykjavík. Hún ólst upp í Reykjavík, lengst af að Mjóstræti 4, fyrir utan árin 1921 til 1930 þegar fjölskylda hennar bjó í Mjóafirði og Seyðisfirði. Á uppvaxtarárunum í Grjótaþorpinu eignaðist hún vini fyrir lífstíð og síðar á ævinni sagðist hún gjarnan vera komin heim þegar hún gekk um gamla miðbæinn. Á yngri árum tók hún virkan þátt í fjölbreyttu starfi hjá KR. Var í fimleikaflokki, stundaði skauta, skíði og sund og keppti meðal annars á fyrsta sundmótinu sem haldið var í Sundhöll Reykjavíkur. Björg stundaði píanónám hjá Katrínu Viðar og eignaðist vandað píanó sem var henni mjög kært. Hún spilaði alla tíð mikið og var Chopin í miklu uppáhaldi. Björgu gekk afbragðs vel í skóla en varð að hætta námi snemma vegna veikinda. Hún vann síðar á starfsferlinum mikið með Jóakim, eiginmanni sínum, í þeim skólum sem hann stjórnaði. Þeir eru ófáir nemendurnir sem lærðu að lesa hjá Björgu, sérstaklega náði hún góðum árangri með að kenna þeim krökkum sem áttu erfitt með nám. Björg hjálpaði mikið til við kennslu og annað skólastarf í gegnum tíðina, alltaf án þess að fá laun fyrir þá vinnu.
Foreldrar Bjargar voru Þorsteinn Tómasson og Björg Magnúsdóttir. Þorsteinn var skipasmiður, fæddur í Vestur Landeyjum.4.6.1884, d.1.5.1958. Björg fæddist í Ánanaustum í Reykjavík 8.2.1879, d. 24.2.1954. Systkini Bjargar: Magnús Marinó f. 14.2.1910, d.2.10.1980 og Aðalheiður f. 9.5.1912, d.17.10.2005.
Björg giftist 17.10.1953 Jóakim Pálssyni kennara og skólastjóra, f. í Hnífsdal f. 20.11.1913, d. 21.9.2001. Björg og Jóakim hófu búskap 1953 að Þingborg þar sem Jóakim var skólastjóri. Þau fluttu til Reykjavíkur 1960 og bjuggu þar um skeið en síðan í Borgarfirði, Árskógi í Eyjafirði, Hólmavík og Þykkvabæ áður en þau fluttu aftur til Reykjavíkur 1971 og bjuggu þá lengst af að Háaleitisbraut 24. Björg og Jóakim eignuðust vini til lífstíðar á öllum þeim stöðum sem þau bjuggu á úti á landi en þó líklega hvergi fleri en í Eyjafirðinum. Árskógsströndin var þeim alla tíð ákaflega kær og vinatengslin við fólkið þar héldust alla tíð. Á Háaleitisbraut 24 bjuggu fjölskyldur sem hófu þar búskap þegar hverfið byggðist upp úr 1960 og átti Björg þar ákaflega gott vinafólk. Þegar Björg og Jóakim fluttu aftur til Reykjavíkur tóku þau virkan þátt í íþróttastarfi með sonum sínum hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur og störfuðu ötullega í áratugi fyrir ÍR og Frjálsíþróttasamband Íslands. Voru þau hjón tímaverðir á flestum mótum um langt árabil. Fengu þau viðurkenningar fyrir störf sín frá ÍR, ÍBR og FRÍ. Meðan heilsan leyfði fór Björg á völlinn til að fylgjast með frjálsíþróttamótum og fylgdist með öllum stórmótum í sjónvarpinu í öllum íþróttagreinum. Björg náði ekki að fylgjast með heimsmeistaramótinu í fótbolta að þessu sinni vegna heilsubrests en áður keypti hún oft áskrift að sýningum til að geta fylgst sem best með og að hennar mati var Frakkinn Platini alltaf sá besti.
Synir Bjargar og Jóakims:
Gunnar Páll f. 21.8.1954, maki Oddný Friðrikka Árnadóttir f. 27.8.1957 og eiga þau tvö börn, Arnar f. 25.4.1991 og Björgu f. 28.4.1994.
Birgir Þorsteinn f. 24.5.1962, maki Unnur Jensdóttir f. 17.5.1964 og eiga þau tvær dætur, Sólborgu f. 22.9.1997 og Bjargeyju f. 11.12.2000. Barnabörnin hafa verið miklir sólargeislar í lífi Bjargar og nú á allra síðustu árum þegar lífsgæðin minnkuðu voru það þau sem gáfu lífinu gildi. Það var nær sama hveru illa henni leið, hún ljómaði í hvert sinn sem þau birtust.
Þegar Jóakim veiktist á efri árum fluttu hjónin að Norðurbrún 1 þar sem þau bjuggu við gott atlæti, og Björg í áratug eftir að Jóakim féll frá. Síðustu æviárin hefur Björg búið að Droplaugastöðum og hlotið þar góða umönnum frábærs starfsfólks. Henni þótti vænt um starfsfólkið og það var ljóst í veikindum hennar síðustu vikurnar að það var gagnkvæmt. Þakkað er fyrir alla góða þjónustu og elskusemi í hennar garð.
Hún unni tónlist og naut hennar alla tíð og einnig helgistunda.
Um árabil var hugvekja á sunnudögum í sjónvarpinu sem þau Biggi horðu á saman og svo kom Húsið á sléttunni sem hreyfði við öllum. Hugvekjan sem oftast var flutt af presti hófst með gítarstefinu fagra, Cacatina úr kvikmyndinn Deer Hunter sem Biggi segir hafa tengst þessari heilögu stund með mömmu órjúfanlegum böndum. Hann lærði á klassískan gítar í nokkur ár og spilaði oft fyrir mömmu sína sem sparað aldrei hrósið og var hans dyggasti áðdáandi. Biggi sótti gítartíma hjá Hannesi Guðrúnarsyni sem flytur okkur nú þetta fallega lag.
CAVATINA
Hvernig minnast synir hennar og þeirra fjölskyldur Bjargar?
Orðin sem þeim koma fyrst í hug eru: Hún var mild og góð manneskja. Kraftarnir voru farnir en hlýjan og brosið ætíð til staðar. Hún var hógvær og hávaðalaus, glettin húmoristi. Þegar hún datt á hjúkrunarheimilinu og fékk stóra kúlu á höfuðið sýndi hún filippísku starfsstúlkunni kúluna og þær skellihlógu. Hún valdi sér ávallt hlý og þægileg föt en ekki neitt skart eða skraut. Hún var hæfileikarík kona, listhneigð. Eitt sinn vann hún við ljósmyndum hjá Lofti og lærði mikið. Hún lærði líka á píanó og dáði Chopin. Hún stundaði íþróttir og hefði gjarnan viljað vera virk í þeim efnum lengur. Hún hefði án efa farið í háskólanám ef hún hefði fæðst síðar á liðinni öld en hún bætti það upp með miklum bóklestri. Hún var stálminnug og vildi að strákarnir menntuðu sig. Hún vann lengst af í skólastarfi með manni sínum, gekk í hvað sem var og kunni allt en hafði engin próf og fékk engin laun en vann fyrir gleðina eina. Launin hennar hafa safnast upp á öðrum stað og nú styttist í útborgun.
Hún var ekki alltaf heilsuhraust þrátt fyrir íþróttaiðkun og dugnað. Hún var oft með höfuðverk á sínum yngri árum, fann til svima og leitaði sér lækninga m.a. með því að fara á heilsuhæli í Danmörku en faðir hennar var meðal frumkvöðla hér á landi í náttúrulækningum. Hún borðaði hráfæði löngu áður en slíkt var nefnt í matarbloggi og glanstímaritum. Hún var alla tíð meðvituð um hollustu en samt hvarf ekki kvillinn sem kom helst fram í kvíða. Hún var viðkvæm manneskja en samt voru í henni miklar töggur. Hún var greind á mörgum sviðum, sá t.a.m. um bókhald heimilisins og var fjárglögg í þeim efnum. Hún unni skipulagi og var natin við að halda öllu í röð og reglu. Samband hennar og Magnúsar bróður hennar var náið og gott og hann fór oft með hana á skíði. Og þegar Alla systir hennar eignaðist börn hændist Björg mjög að henni og börnunum og þau að henni eins og reyndar öll systkinabörn hennar. Anna Ingólfsdóttir, systurdóttir Bjargar sem býr í Flórída í Bandaríkjunum sendir kveðju sína til ástvina og þökk til frænku.
Þegar þau bjuggu á Árskógsströnd söng Jóakim í kirkjukórnum og strákarnir vöndust því að fara í messu og nú syngur Biggi í þessari kirkju. Fyrir norðan þjónaði þá séra Kári Valsson, tékki að uppruna og lærður í gúmmífræðum, kom hingað til lands sem sérfræðingur í að sóla hjólbarða en fór síðan í guðfræði sem er sko engin gúmmígrein þótt sumir haldi það. Ísland væri betur á vegi statt ef fleiri lærðu guðfræði en raun ber vitni. T.d. mættu fræðimenn á ýmsum sviðum kíkja ögn í þau fræði sér til uppbyggingar og betrunar til að skilkja betur hið stóra samhengi tilverunnar. Þau fóru líka reglulega í kirkju í Þykkvabænum og sungu Guði lof þar fyrir opnu hafi. Ung var Björg í Hraungerði hjá séra Sigurði Pálssyni, síðar vígslubiskupi og frú Stefaníu konu hans. Það þótti gott starf að fá að vera í vist á menningarheimili og prestssetri. Og þar kynntist hún ástinni því ungi skólastjórinn í Þingborg kom auðvitað heim til prestshjónanna og kannski kom hann ekki til að ræða skólamál heldur til að hitta ungu stúlkuna sem þar var í vist.
Björg var alla tíð trúuð og eins og algengt var á liðinni öld þá fannst henni spíritismi forvitnilegur. Hún gaf öllum skoðunum tækifæri, var opin en samt efahyggjumanneskja. Hún bað sínar bænir og fór með Faðir vor bænina með syni sínum upphátt þremur dögum fyrir andlátið. Glettnin hvarf aldrei og þegar Biggi spurði hvort hún væri hrædd þá kom blik í augun og hún svaraði: Já, við þig!
Uggur og ótti, kvíði og óöryggi. Þetta eru tilfinningar sem allir þekkja í einhverjum mæli. Tilvist okkar er háð óvissu og þess vegna er oft stutt í ugg og kvíða. Trúin er líklega eitt besta meðal þegar þannig viðrar í sálinni, trúin sem gefur von og minnir á að allt líf er í hendi Guðs.
Horfið til fugla himinsins, lilja vallarins. Fuglar og blóm njóta sín en lífið er samt aldrei dans á rósum. Ég horfði á æðarfuglinn synda stoltan inn víkina fyrir utan stofugluggann minn um daginn með átta unga. Þeir eru nú fjórir. Lífið er töff en það tommar þó áfram og tekst í flestum tilfellum.
Davíðssálmar eru uppspretta mikillar visku og lífsreynslu. Þar má greina flest stef mannlegrar tilvistar. Þar segir skáldið m.a. um óttann og Guð (Sl 27.1):
Drottinn er ljós mitt og fulltingi,
hvern ætti ég að óttast?
Drottinn er vígi lífs míns,
hvern ætti ég að hræðast?
Með því að lesa hughreystandi orð í helgri bók getum við styrkt okkur á lífsveginum. Orð Guðs eru fyrirheit, loforð eins og besta trygging. Tryggjum hjá honum og munum að þar eins og í heiminum tryggjum við ekki eftirá.
Lífið heldur áfram. Kvikmyndavélin malar og nú er engin filma í henni heldur bara stafrænt minni en allt í lit. Tæknin breytist en mannlífið lítið sem ekkert. Áfram lifum við í ótryggum heimi sem breytist ört en Guð er ætíð hinn sami. Heyrum orð sem staðhæfa þetta (Sl 102:25-28)
Ég segi: „Guð minn, sviptu mér ekki burt á miðri ævi
því að ár þín vara frá kyni til kyns.“
Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina
og himinninn er verk handa þinna;
þau munu líða undir lok en þú varir,
þau munu fyrnast sem fat,
þú leggur þau frá þér sem klæði og þau hverfa
en þú ert hinn sami og ár þín fá engan enda.
Við lifum í þessari spennu milli efa og trúar, óvissu og vonar.
Áfram höldum við gangandi eða hlaupandi eftir lífsveginum, sauðskinnskórnir eru horfnir og háþróaðir hlaupaskór komnir í staðinn en þrátt fyrir það kjósa sumir að hlaupa hvorki í sauðaskinnskóm né háþróuðum hlaupaskóm heldur bara berfættir. Gunni Palli og Biggi eru landsþekktir hlauparar og með þeim hlaupa bæði hlaupadrottningar og kóngar. Svona er lífið á lífsveginum. Það er undursamlegt ævintýri sem sífellt kemur okkur á óvart með nýjum verkefnum hvort sem það er á þröngum götum Grjótaþorps eða öðrum guðsvegum. Kvikmyndavélin malar áfram. Enn er saga skráð, saga fólks, saga einstaklinga, saga okkar.
Við kveðjum Björgu Þorsteinsdóttur sem átti merkilega sögu á liðinni öld og inna á þá tuggugustu og fyrstu en er nú geymd í eilífðinni. Blessuð sé minning hennar og Guð blessi þig. Amen.