+Edda Þórarinsdóttir 1936-2014

Edda ThorarinsdottirÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

Edda Þórarinsdóttir

1936-2014

húsmóðir og fv. starfsmaður Pósts og síma

 

Útför (bálför) frá Hallgrímskirkju þriðjudaginn 1. júlí 2014 kl. 15

Ræðuan er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningarlestrar og sálmaskrá eru neðanmáls.

 

Jesús sagði: „Ég lifir og þér munuð lifa.“

Þegar ástvinur deyr hverfur margt en minningarnar lifa áfram. Edda er horfin með sinn góða húmor og skemmtilegu nærveru. Börnin hennar og tengdabörn sakna mömmu og barnabörnin ömmu sem var þeim svo mikils virði.

Það er mikið undur að vera til. Mér verður svo oft hugsað um þau forréttindi sem felast í því að fá að vera til. Það mátti engu muna að ég yrði ekki til og sama á við um þig. Fruman sem náði egginu svo úr varst þú hefði getað fundið annað egg og þá hefðir þú ekki orðið til, aldrei – aldrei í allri eilífðinni. Við erum einstök, hvert og eitt, og aldrei verður til neinn annar, þú, nein önnur, þú! Lífið er dásamlegt og það er undursamlegt tækifæri til sköpunar og þjónustu við Guð og menn. Lífið er gjöf og það varir tiltekinn tíma hér í heimi en lifir að eilífu í himni Guðs. En lífið er samt aldrei eintómur dans á rósum. Það færir okkur verkefni til að glíma við og þroskast af. Hvernig væri lífið ef við þyrftum aldrei að hafa fyrir því? Ef við þyrftum bara að rétta út höndina og fengjum þar með allt sem við þráðum? Ef við gætum bara farið með einfaldar bænir og allar óskir uppfylltust? Væri það líf einhvers virði að lifa því? Lífið er jafnvægi gleði og sorgar, kærleika og söknuðar. Það er einhverskonar ying og yang í lífinu svo vísað sé til austurlenskrar speki. Það er fagnaðarerindi og lögmál skv. gyðing/kristnum hugmyndaheimi, frelsi og ábyrgð.

Og innan þessa ramma, á milli tveggja póla, fer lífsleikurinn fram. Hann er í vissum skilningi eins og knattspyrnuleikur sem á sér stað innan markalína þar sem reglur gilda og dómari og línuverðir gæta leiksins. Menn hafa frelsi til að leika sér innan línanna, innan marka, undir vökulum augum þeirra þriggja sem gæta leiksins.

Lífið er leikur innan marka og þríeinn Guð hefur gætur á öllu. Jafnvægið skiptir öllu, ying og yang, fagnaðarerindi og lömál, frelsi og ábyrgð.

 

Edda fæddist í Reykjavík 14. ágúst 1936. Hún andaðist á Landspítala Vífilsstöðum hinn 21. júní 2014. Foreldrar Eddu voru hjónin Þórarinn Björnsson, póstfulltrúi frá Borgarfirði, f. 8.október 1900, d. 24. júlí 1959 og Ingiveig  Eyjólfsdóttir, húsfreyja frá Keflavík, f. 31. júlí 1902, d. 12. febrúar 1985.  Líffræðilegir foreldrar hennar voru Ólafur Pálsson Ólafsson veitingamaður frá Akranesi, f. 1897, d. 1965 og Helga Pálína Sigurðardóttir húsfreyja frá Ísafjarðadjúpi, f. 1901, d. 1987

Börn Ólafs og Helgu og systkini Eddu voru: Elín f.1923, d. 2009,  Magnús f. 1925, d. 2011, Þórdís  f. 1926, d. 1995, Þorgeir f. 1927, d. 2010, Sigurður Ingvi f. 1929, Jensína f. 1931, d. 2006, Guðrún f. 1932, d. 1997 og  Soffía f. 1934, d. 2013. Öll látin nema Sigurður Ingvi. Hún þekkti ekki til uppruna síns fyrr en liðið var á ævi hennar en kynntist systkininum sínum fullorðin og hafði mesti samband við Þorgeir og Ingva.

Edda ólst upp í Reykjavík og bjó lengst af á Karlagötu 11 í húsi sem foreldrar hennar byggðu árið 1937. Hún ólst upp við ástríki foreldra sinna á miklu menningarheimili þar sem klassísk tónlist og listir voru í hávegum hafðar. Þórarinn, faðir hennar, var einn af stofnendum Tónlistarfélagsins í Reykjavík og spilaði jafnframt á fiðlu í hljómsveit Reykjavíkur. Hún var elsk að foreldrum sínum og naut samvista við frændfólk sitt, ekki síst systkini Ingiveigar en mikill samgangur var á milli þeirra. Hún fann sig ætíð umvafða umhyggju og ástríki.

Edda gekk í Austurbæjarskólann og lauk framhaldsnámi við Gagnfræðaskóla Verknáms árið 1953 en þessi skóli tók til starfa árið 1950, var fyrst um sinn í húsnæði undir risi í Austurbæjarskóla og Edda var í fyrsta útskriftahóp skólans árið 1953 þá 17 ára. Hún var frábær námsmaður og bekkurinn hennar var nefndur „gáfumannabekkurinn“. Hún bjó frá eins árs aldri á Njálsgötunni og síðar í Karlagötu í Norðurmýrinni.

Stríðið var að baki og Skólavörðuholtið annað en þegar þar var allt krökkt af hermönnum á æskuárum hennar. Hallgrímsprestakall hafði verið stofnað 1940 og byrjað var að framkvæma volduga hugmynd um háa kirkju á Holtinu sem nú er risin og þykir meðal fegurstu kirkna í heimi ef marka má álit ferðamanna sem hingað streyma daglega.

Framtíðin blasti við þjóðinni sem öðlast hafði sjálfstæði og stefndi að því að marka spor í sögu heimsins sem frjáls og fullvalda þjóð með merka sögu. Lífið breyttist á stríðsárunum, atvinnulíf efldist og fólk fór í vaxandi mæli að fá greidd laun í peningum. Þau sem lifað hafa lungann úr liðinn öld hafa reynt gríðarlegar breytingar á lífsháttum.

Ástin vitjaði fólks þá eins og nú og Edda hitti sinn lífsförunaut eins og vera ber.

Hinn 4. júní 1960 giftist Edda Gunnari Friðjónssyni  framreiðslumanni frá Reykjavík, f. 11. júní 1937. Þau slitu samvistir 1992.  [Foreldrar Gunnars Friðjónssonar voru Friðjón Steinsson verkamaður frá Húnavatnssýslu f.1904, d. 1941 og Guðrún Hjörleifsdóttir húsfreyja frá Eyrarbakka, f. 1908, d. 1986.]

Börn þeirra eru

  1. Ingiveig, ferðamálafræðingur og leiðsögumaður, f.  9. nóvember 1960.
  2. Þórarinn, tölvutæknimaður,  f. 17. september 1964 giftur Álfhildi Sylvíu Jóhannsdóttur, dagforeldri,  f. 26. ágúst 1964. Börn þeirra eru: Jóhann Gunnar, lögfræðingur,  f. 18. september 1987, í sambúð með Guðrúnu Ástríðardóttur nema; börn þeirra eru Írena Rún og Ásta Sylvía; Daníel Ingi f. 15. mars 1989,verslunarmaður,  í sambúð með Elsu Einarsdóttur, skrifstofumanni.; Edda Þórunn , f. 20. september 1996, nemi.
  3. Friðjón Björgvin, framkvæmdastjóri, f. 2. október 1976 giftur Hörpu Hlynsdóttur,  matvælafræðingi, f. 4. ágúst 1977. Börn þeirra eru:  Arna Björg , f. 10. desember 2004; Bríet María , f. 19. ágúst 2008 og Agnes Inga, f. 24.ágúst 2013.

 

Edda starfaði lengst af hjá Pósti og síma, fyrst á Póstmálaskrifstofunni í gamla Landsímahúsinu og síðar við afhendingu ábyrgðabréfa og flokkun á pósthúsinu í Pósthússtræti. Hún var meðlimur í Póstmannafélaginu.

Edda lagði stund á píanónám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og þótti efnileg. Hún hafði yndi af tónlist og söng  t.d. í nokkrum kórum í gegnum tíðina og alltaf var gítarinn með í för er hún brá sér í ferðalag með vinkvennahópnum. Tónlistin hér í dag tekur mið af hennar áhuga og smekk.

Hún las mikið og var ætíð með bók í hönd, ýmist einhverja skáldsögu eða ljóðabók en hún las og talaði bæði ensku og dönsku ágætlega en ung dvaldi hún í Danmörku og náði góðum tökum á dönsku. Hún las sakamálasögur eftir Agötu Christie og fleiri höfunda og horfið á sjónarpsþætti um sakamál og lifði sig svo inn í þættina að stjörnur þeirra voru orðnar heimilisvinir eins og t.d. Jessica Fletcher, Matlock, Poirot, Derrick og Barnaby sem leystu allar gátur. Hún var klók í að ráða krossgátur enda með ríka málkennd, átti t.a.m. auðvelt með að læra tungumál og svo var hún góður penni og tækifærisræðumaður. Hún orti og skrifaði ljóð en hún var ekki hannyrðakona skv. hefðbundinni merkingu þess orðs.

Hún var góður hlustandi og börnin átti í henni ekki bara góða móður heldur líka hollráðan vin. Þau minnast þess að hún las yfir allar ritgerðir þeirra og gaf góð ráð varðandi efnistök og málfar. En hún var líka stríðin og stundum dálíið hrekkjótt en aldrei á meinlegan hátt. Hún hafði ríkan húmor og gat auðveldlega gert grín að sjálfri sér sem er nauðsynlegur fylgifiskur allra góðra húmorista.

Hún var mikil stemmningsmanneskja, naut þess að hafa það huggulegt. Ad hygge sig – var hennar motto enda hafði hún dvalið langdvölum í Kaupmannahöfn og hafði hrifist mjög af dönskum kúltúr. Ingiveig man notalegu stundirnar í stofunni hennar ömmu á efri hæðinni á Karlagötu 11, með mömmu og ömmu. Þar var ilmur af kaffi, sherry og konfekti og falleg tónlist á fóninum. Mæðgurnar nutu þess í seinni tíð að punta sig upp og fara saman á kaffihús og út að borða.

Afar minnistæð var Eddu fyrsta utanlandsferðin, Evrópureisan, sem hún fór í með foreldrum sínum árið 1955. Þetta var ein fyrsta hópferð sem Ingólfur Guðbrandsson, ferðafrömuður, skipulagði til London, Brighton og Parísar. Hún ferðaðist mikið um landið, fór hringferð með Esjunni og sigldi utan með Gullfossi. Hún dvaldi um skeið á Ítalíu þar sem dóttir hennar starfaði og ferðast á seinni árum m.a. til Madeira, Möltu og sigldi um Karíbahafið.

Í maí 1959 fetaði Edda í fótspor móður sinnar, Ingiveigar Eyjólfsdóttur og gekk  í Oddfellowregluna í Rebekkustúku nr.1 Bergþóru.

Hún var virk í Oddfellow starfinu og færði það henni mikla gleði og lífsfyllingu. Hún naut þess að sækja fundi, taka þátt í föndri og fjáröflunarstarfi og ætíð hlakkaði hún til jólaballa innan reglunnar. Systur hennar standa vörðu hér í dag henni til heiðurs og í þökk fyrir framlag hennar til stúkustarfs og góðra málefna en Oddfellowreglan er kunn af sínum velgjörðum í þágu lands og þjóðar.

Edda var alla tíð félagslynd og átti góðan og traustan vinkvennahóp. Oft var gestkvæmt á heimilinu enda var hún vinamörg og góð heim að sækja.

Börnin segja hana hafa verið einstaka móður sem mátti ekkert aum sjá. Hún var einstök amma og langamma, elskaði barnabörnin sín út af lífinu og þreyttist aldrei á að hrósa þeim. Hún var ætíð til staðar og þau voru í reglulegu sambandi við hana alla tíð.

Hún var sælkeri og átti alltaf eitthvað góðgæti uppi í skáp alveg fram á síðasta dag. Hún var dugleg að baka og þegar börnin voru lítil bakaði hún á laugardögum ýmist skúffuköku, sjónvarpsköku eða hjónabandssælu. Hún var líka mjög góður kokkur hvort sem um var að ræða venjulegan heimilismat eða veislumat. Jólin eru þeim ofarlega í huga en þá var allt tekið í gegn, hvort sem um var að ræða þvott á gardínum eða ljósakrónum, bakaðar voru tugir tegunda af smákökum og öðru góðgæti og síðast en ekki síst þá urðu allir að fá ný náttföt.

 

Hún var einnig góð vinkona tengdadætra sinna. Hún hafði hlotið kærleiksríkt uppeldi foreldra sinna á menningarheimili í Norðurmýrinni og tengst Hallgrímskirkju frá því í bernsku. Faðir hennar var mjög trúaður og hélt því fram að Biblían gæfi svör við flestu ef ekki öllu sem máli skipti. Hann sagið gjarnan: „Horfðu á björtu hliðarnar.“ Frænkur hennar, Margrét og María eða Magga og Massa voru virkar í barnastarfi kirkjunnar og héldu uppi sunnudagaskólastarfi í Austurbæjarskóla og síðar hér í Hallgrímskirkju. Þær voru fastar á meiningunni og lásu Biblíuna af kostgæfni og áhuga en stundum fannst nú Þórarni pabba trú þeirra of ákveðin og ströng.

Lífið þarf að vera í jafnvægi og í trúnni þarf línudansinn að fara fram á miðjunni milli fagnaðarerindis og lögmáls, milli frelsis og ábyrgðar. Þar á glíman sér stað við það sem mætir manni í lífinu.

Edda mætti ýmsu mótlæti. Hún greindist með iktsýki, erfiðan gigtarsjúkdóm 29 ára að aldri og glímdi við hann eftir það. Edda var meðlimur í Gigtarfélagi Íslands og fylgdist vel með rannsóknum og þróun gigtarsjúkdóma alla sína tíð. En aldrei barmaði hún sér eða kvartaði. Árið 2011 greindist hún með krabbamein sem hún barðist gegn af hetjuskap og æðruleys til hinstu stundar. Hún var börnum sínum og ástvinum góð og sterk fyrirmynd.

Hún mætti því sem að höndum bar af æðruleysi og hafði gjarnan yfir orð Páls postula sem var lífsreyndur maður sem glímdi við margt og sagði:

„Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“  (Fil 4.13)

Hún átti einlæga trú á frelsarann Jesú Krist og líf eftir dauðann. Börnin muna orð hennar í lok dags: „Guð gefi þér góða nótt.“ Hún bað með þeim og kenndi þeim bænir og vers og lagði þeim hollar lífsreglur. Hún var stolt af þeim og sínum ástvinum.

„Kynslóðir koma, kynslóðir fara, allar sömu ævigöng“, segir í fögrum jólasálmi. Það eru orð að sönnu. Við eigum lífið aðeins stutta stund hér á jörð og svo hverfum við öll í fyllingu tímans. Lífið er dásamlegt í öllum sínum margbreytileika og það er undursamlegt ævintýri að fá að vera til og mesta þakkarefnið er að lífið er í hendi Guðs. Allt er í einu stóru samhengi og það sem við skiljum ekki nú mun ljúkast upp þegar Guð afhjúpar alla leyndardóm og allar erfiðustu krossgátur lífsins ganga upp. Krossgátur. Já, lífið er krossgáta með krossinn sem lausn í miðju þess. Í krossi Krists, þjáningu hans, dauða og upprisu gengur allt upp og fær nýjan tilgang.

„Ég lifir“, sagði Jesús „og þér munuð lifa.“

Í þeirr trú kveðjum við góða konu og þökkum fyrir lífið hennar. Blessuð sé minning Eddu Þórarinsdóttur og Guð blessi þig. Amen.

Tilkyningar og postulleg blessun.

Ritningarlestrar:

Rómverjabréfið 8.31b-39

Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? 32Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? 33Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. 34Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. 35Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? 36Það er eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé. 

37Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. 38Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, 39hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Jóhannesarguðspjall 14.1-6

1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.