+Trúmann Kristiansen 1928-2014

Trumann KristiansenÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

Trúmann Kristiansen

1928-2014

fv. kennari og skólastjóri

á Hvolsvelli

Útför frá Kópavogskirkju

mánudaginn 16. júní 2014 kl. 15

Jarðsett í Kópavogskirkjugarði

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningarlestrar og sálmaskráin eru neðanmáls.

 

 

 

Hann ólst upp á Seyðisfirði og fjaran var stór hluti leikvallar hans og barnanna. Alla tíð var fjörðurinn honum hugleikinn, fjaran, lognið, fjöllin, fiskurinn og fuglinn. Sömu kenndir upplifði hann á sæludögum sínum við Þingvallavatn.

Það er eitthvað sérstakt við það að standa á strönd og horfa yfir haf eða stórt vatn. Vísindamenn sem könnuðu líðan göngufólks í Englandi, að mig minnir, tók eftir því að fólki leið mun betur sem gekk við sjó eða vatn en þeim sem gengu í skóglendi eða úti á víðavangi. Er það litur vatnsins, djúpið leyndardómsfulla, eða hafflöturinn og sjóndeildarhringurinn, sem skiptir mestu? Því gátu vísindamenn ekki svarað. En ganga meðfram sjó eða vatni gaf meir í aðra hönd hamingjunnar en aðrar gönguleiðir.

Lífið er í vissum skilningi dvöl við strönd. Hvað tekur við? Hvað er bak við ystu sjónarrönd? Hvað býr í handanverunni?

Lífið er leit að svörum.

Trúmann var kennari af Guðs náð. Hann fór í Kennaraskólann og tók þar m.a. námskeið í smíðakennslu sem gaf honum mikla gleði. Hann kenndi allar greinar en var handverksmaður fyrst og síðast. Hann naut þess að breyta óhefluðu efni í nytjahlut með því að tálga hann til og hefla, pússa og lakka. Að smíða er að skapa og Guð hefur verið kallaður höfuðsmiður himins og jarðar. Hann hefur líka verið nefndur frumarkitekt tilverunnar. Fyrsta hlutverk Adams skv. sköpunarsögunni var að nefna dýrin. Hann flokkaði þar með tilverunar eins og vísindamenn gera. Hann var fyrsti vísindamaðurinn og kennarinn um leið. Og Trúmanni kippti í kynið við þennan fyrsta mann skv. táknsögu Biblíunnar. En sú saga er í raun ekki saga fyrstu manna, að mínu viti, heldur saga okkar allra. Sagan um sköpun mannsins og fall er saga mín og þín. Þess vegna lifir hún sem sannleikur, skáldsaga sem segir sannleikann um manninn sem tegund. Hin helga bók er tilraun til að túlka tilvist mannsins í heimi sem tengdur er í eitt stórt samhengi sem við nefnum Guð og skilgreindur hefur verið t.a.m. þessum með þessum orðum: „Guð er hringur, hvers miðja er allsstaðar og ystu mörk hvergi.“ Og postulinn Páll hugsaði á áþekkum nótum er hann ræddi við spekingana á Aresarhæð í Aþenu: „Í honum lifum, hrærumst og erum við.“

Trúmann var fæddur á Seyðisfirði á nýársdag árið 1928. Hann andaðist á hjúkrunardeild Hrafnistu í Hafnarfirði 31. maí síðastliðinn. Trúmann var yngsta barn hjónanna Mattíu Þóru Þórðardóttur, f. 1883, d. 1967, frá Haga í Holtum í Rangárþingi, og Jentofts Kornelíusar Kristiansen, f. 1879, d. 1943, frá Narvík í Noregi. Systkini Trúmanns voru þau Klara hárgreiðslumeistari, f. 1910, d. 1987, Gústaf Rolf pípulagningameistari, f. 1915, d. 1991, kvæntur Bergþóru Pálsdóttur, d. 1979, Selma leikfimikennari, f. 1917, d. 2004, gift Jóni A. Jóhannessyni, d. 1995 og Baldur Ingolf, pípulagningameistari, f. 1919, d. 1975, kvæntur Steinunni Kristiansen, d. 2013.

Mattía Þóra flutti til Reykjavíkur eftir að Jentoft lést en þá var Trúmann 15 ára og bjó enn í foreldrahúsum.

Trúmann kvæntist í maí 1950 eftirlifandi eiginkonu sinni Birnu Frímannsdóttur, f. 4. janúar 1931, en þau luku bæði kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands það sama vor. Þau eignuðust fjögur börn. Elstur er

Matthías Már kennari og þýðandi, f. 18.11.50. Kona hans er Heidi Strand myndlistarmaður, f. 6.3.53. Þau eiga Önnu Lindu, Atla Þór og Braga Má. Eiginkona Braga Más er Kristín Vala Breiðfjörð og eiga þau tvær dætur, Heklu Himinbjörgu og Kötlu Bergþóru.

Ragnheiður vinnumarkaðsfræðingur er fædd 16.2.52. Eldri dóttir hennar er Guðrún Kristinsdóttir, gift Philippe Urfalino og eiga þau tvíburadætur, Freyju og Bryndísi. Yngri dóttirin er Camilla Mirja Björnsdóttir, gift Pontusi Degsell, og eiga þau tvö börn, Simon og Emmy.

Málfríður Klara arkitekt er fædd 11.6.56, gift Sigurði Reyni Gíslasyni, doktor í jarðefnafræði og eiga þau tvíburana Önnu Diljá og Birni Jón.

Yngst er svo

Kolbrún hjúkrunarfræðingur, f. 3.3.67 og á hún tvö börn, Trúmann og Auði Ýr Harðarbörn.

Trúmann og Birna réðu sig til starfa við Hvolsskóla sem þá var barnaskóli Hvolhrepps í Rangárvallasýslu, hann sem skólastjóri og hún sem kennari. Þar störfuðu þau við góðan orðstír fram til ársins 1972 og byggðu á þeim tíma upp heildstæðan grunnskóla með barna- og unglingadeild sem margir hreppar í Rangárvallasýslu áttu hlutdeild í. Árið 1972 fluttu þau hjónin til Hveragerðis þar sem Trúmann varð skólastjóri barnaskólans en Birna kenndi við þann sama skóla, allt til þess að hann fór á eftirlaun 1991. Á Hvolsvelli hafði Trúmann unnið við og byggt upp gott héraðsbókasafn, hann tók þráðinn upp að nýju í Hveragerði og vann á bókasafni bæjarins um tíu ára skeið í hlutastarfi.

Árið 2001 fluttu þau Trúmann og Birna sig um set á ný, að þessu sinni til Kópavogs, ekki síst til þess að geta verið nær börnum sínum og barnabörnum sem þá bjuggu flest á höfuðborgarsvæðinu. Heilsan var farin að gefa sig 2011 þegar þau fluttu á hjúkrunar- og dvalarheimilið Hrafnistu, fyrsta árið við Brúnaveg í Reykjavík en síðan 2012 bjuggu þau hjón í íbúð á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Þau áttu góða daga saman, voru samhent í kennslunni og í lífi og leik. Að lifa er að leika sér og þau kunnu það svo sannarlega með nemendum og börnum sínum. Þau voru gamansöm í daglegu lífi og nálguðust allt með gleði og glettni. Þegar ég spurði um það sem væri eftirminnilegast í fari Trúmanns þá létu svörin ekki á sér standa. hann var stríðinn, ákveðinn og uppáfinningasamur. Þetta kom sér allt vel í kennara- og skólastjórastarfinu og stríðninni og ákveðninni varð þó ætíð að beita af visku og næmni. Hann var hugmyndaríkur í skólastarfinu og reif starfið upp og efldi. Hann lagði sig allan fram um að rækta unga fólkið sem hann bar ábyrgð á og gat stoltur litið yfir farinn veg og glaðst yfir því að hafa kveikt áhuga fjölda nemenda til að mennta sig sem allra mest og best. Árangur hans sem skólastjóra í Hvolsskóla var mikill og mælanlegur.

Hann var almennur kennar og líka smíðakennari og naut sín vel í því hlutverki, opnaði fyrir nemendum heima sjálfstæðrar sköpunar og verkvits þar sem þau lærðu að hugsa í þrívídd og formum.

Hann sem búið hafði við sjó og fjöll varði lífsstarfi sínu í að kenna börnum í fjarlægri sveit frá sínum heimahögum þar sem enginn er sjór eða fjöll, nema í fjarska, og snjór þekktist varla í samanburði við snjókistur fjarðanna fyrir austan. Þetta eru ólíkir heimar, víðáttur Suðurlands og firðirnir eystra með sínum háum hamrabeltum sem skýla en skyggja um leið á sól en gefa logn sem er einstakt og óviðjafnanlegt.

Þau voru vinsæl hjón á Hvolsvelli, Birna og Trúmann, enda settu þau mark sitt á samfélagið með hæfileikum sínum og gáfum. Þau höfðu áhrif á marga einstaklinga til góðs, efldu fólk og hvöttu til dáða. Félagslífið í skólanum var fjörugt og þau tóku fullan þátt í því ásamt börnum sínum. Skólahljómsveit var starfrækt og smíðaði Trúmann flesti hljóðfærin sjálfur. Kona nokkur sagði: „Hún Birna kenndi mér vinnukonugripin á gítar og Trúmann kenndi mér að dansa.“ Og ég spyr: Hvað þarf ung kona frekar að læra en þetta til að njóta lífsins.

Unaðsstundir þeirra hjóna og barna voru ekki hvað síst lifaðar í Bakkaseli í Hagavík við Þingvallavatn. Þar gat Trúmann gleymt sér algjörlega á vatnsbakkanum við að undirbúa veiðar, gera klár veiðarfæri og bát. Svo var lagt út á djúpið í kyrrðinni og logninu og eins og vitur skipstjóri vissi hann ætíð hvar best var að kasta og egna fyrir silung og murtu, stórbleikju og urriða. Einu sinni náði hann einum afar stórum á 5-punda línu. Til að ná honum þurfti langan tíma og mikla lagni til að slíta ekki og missa þann stóra. Og fiskarnir komu til hans eins og í leiðslu og bitu á hjá honum án þess að vita að þeirra beið fátt annað en pannan í bústaðnum. Svona er nú lífið. Eins dauði er annars brauð. Við erum af jörðu komin og hverfum þangað aftur. Við lifum ekki án vatnsins sem jörðin gefur, jurta og dýra sem við snæðum. Við erum mold og hverfum aftur til moldar. Hold er mold sama hverju það klæðist, sagði séra Hallgrímur. Það er hollt fyrir ungu kynslóðina að hugsa á þessum nótum og vita að mjólkin og kjötið, fiskurinn og ávextirnir verða ekki til í stórmörkuðum. Við erum hluti af stórri keðju. Náttúran er ekki einhversstaða utan við okkur, ekki uppi á hálendi eða í útlöndum. Við erum náttúran, ég og þú.

Í anda svonefndra Bakkaselslausna sem oft komu á óvart þá er lífið einfalt ef grannt er skoðað. Það er í einu stóru samhengi og við erum eins og fiskar í vatni og komumst ekki út úr því. Og vatnið er Guð.

Hópur skólasystkina úr KÍ keypti Bakkasel saman og þar var oft þröng á þingi, gleði og gaman, þrátt fyrir 3 þrjóska og ákveðna skólastjóra og þeirra konur og fjörug börn sem hvert voru með sínu sniði. En skólafólkið vissi að lífið snýst um samfélag og samskipti, lausnir og lífsleikni. Barnabörnin elskuðu afa og nutu þess að læra af honum og leika við hann, átta sig á stríðninni og galsanum. „Afi veit allt“, sagði eitt þeirra andaktugt. Kveðja hefur borist frá afastrák, Atla Þór Matthíassyni sem er í Danmörku en með okkur í huganum.

Þau hjónin bjuggu lengst af í embættisbústað á Hvolsvelli og líka í Hveragerði en byggðu sér síðar hús að Borgarheiði í Hveragerði og áttu þar mörg handtökin í innréttingasmíði og gróðurvinnu.

Með skólastjórastarfinu vann Trúmann ýmis störf á sumrin svo sem að aka mjólkurbílnum og Birna var á skirfstofu kaufélagsins. Matthías minnist þess er honum gafst tækifæri til að fara í sína fyrstu utanferð til Álandseyja á vegum Rotary-hreyfingarinnar ásamt öðrum strák íslenskum. En sá böggull fylgdi skammrifi að Matthías var búinn að ráða sig til í vinnu í grasmjölsverksmiðjunni. Þá bauðst Trúmann til að taka vaktirnar fyrir hann í eina 16 daga og út fór Matti.

Trúmann gekk alla tíð mikið og stundaði sund sér til heilsubótar og svo fór hann um á hjólhesti eins og það var einu sinni kallað. Eftir að þau fluttu í Kópavog fór hann víða um og á sunnudögum gekk hann gjarnan til kirkju og heimsótti söfnuðina þrjá hér í Kópavogi og jafnvel víðar. Hann var félagslega þenkjandi í stjórnmálum, sögðu systkinin mér, vinstrisinnaður, sjálfstæður í hugsun og þar af leiðandi sjaldan sammála síðasta ræðumanni. Um tíma kaus hann Kvennalistann enda faðir þriggja dætra. Hann var vanur að ganga í öll heimilisstörf, var listakokkur og lummurnar hans þóttu taka lummum annarra fram. Hann tíndi grös á sumrin í te og krydd og fann upp uppskritir og prófaði á Birnu og börnum en þessi sem hann gerði úr kryddjurtum og léttosti náði nú aldrei vinsældum enda var þriðja efnið í henni hakkaður hákarl. Osta- og smjörsalan keypti ekki þessa uppskrif af honum! Hann saumaði líka og í raun lék allt í höndum hans.

Hann orti vísur um allt og ekkert, margar gamansamar og fullar af húmor og stríðni en líka vísur eins og þessa um hana Birnu:

Mér drottinn ljúfa léði

að leiða um ævistig.

Þú ert mín gæfa og gleði,

ó, guð minn blessi þig.

 

Orðið -ævistig- er að sögn Matthíasar líklega sótt í einn hans uppáhalds sálm, Í bljúgri bæn en þar segir:

Ég leita þín, Guð leiddu mig

og lýstu mér um ævistig.

 

Við þurfum ljós til að geta lifað. Stundum dimmir í sálu okkar og það þekkti Trúmann. Hann mundi dimma daga í Seyðisfirði sem barn og unglingur, skammdegið sem er lengi að hopa fyrir rísandi sól. Menning, handverk, tónlist, óperur og önnur holl iðja gefa okkur úthald á dimmum vetrum.

[Innskot á hljóðupptöku um Simfóníuhljómsveit Íslands og Heklugos]

Þannig hefur það verið um aldir í þessu kalda og dimma landi á vetrum að fólk þreyði þorran og góuna með kvöldvökum og skemmtan en þegar sumarsólin skein og öll náttúran lifnaði og lofaði sinn Guð þá var gott að lifa. Og þannig er það enn. Um síðustu helgi skein sólin glöð í tvo daga og maður nokkur sagði við mig: Þessir tveir dagar hafa bjargað sumrinu í fyrra.

Og nú nærist rjúpan og gæsin á sumargróðri sem Trúmann leitaði uppi á haustdögum. Lífið er allt í blóma en hann er horfinn, saddur lífdaga, hefur fengið sína hvíld og bíður nú hér á ströndinni, bíður þess að halda í sína hinstu för. Kirkjunni er oft líkt við skip. Við erum stödd í kirkjuskipi og ástvinur er hér kvaddur með virðingu og þökk. Djúpið bíður með sínum leyndardómum en um borð er hann sem forðum kyrrði vind og sjó. Hann geymir alla sem honum eru helgaðir, fráteknir og merktir sigurtákni upprisunnar á enni og brjósti. Við erum í honum og hann í okkur, eins og urriðinn í Þingvallavatni sem þekkir sitt samhengi og hefur lifað þar um aldir og árþúsund. Hann er hluti hins stóra samhengis eins og við. Við og fiskurinn og fiskurinn og við, lífið og leikurinn, sorgin og treginn, ástin og hamingjan. Allt í einu samhengi, innan sama hrings.

Gott er að kveðja í þessu samhengi og Guð blessi minningu Trúmanns Kristiansen og Guð blessi þig. Amen.

Ritningarlestrar:

Síraksbólk 4. 11-19

Spekin sem kennari
11Spekin hefur börn sín til vegs
og tekur þau að sér sem hennar leita.
12Sá sem elskar hana elskar lífið,
árrisulir hennar vegna hljóta ómældan fögnuð.
13Sá sem spekina höndlar auðnast vegsemd
og blessun Drottins fylgir henni.
14Þeir þjóna Hinum heilaga sem þjóna spekinni
og Drottinn elskar þá sem unna henni.
15Sá sem hlýðir spekinni mun dæma lýði,
sá er henni fylgir mun óhultur búa.
16Treysti hann spekinni mun hún verða eign hans
og ganga í arf til niðja hans.
17Fyrst mun hún leiða hann um torfæra stigu
og vekja honum ótta og skelfingu.
Spekin agar hann með þjáningum
uns hann ber fullt traust til hennar.
Hún reynir hann með kröfum sínum.
18Hún kemur síðan rakleitt til hans á ný,
gleður hann og birtir honum sína leyndu dóma.
19Ef hann leiðist afvega yfirgefur hún hann
og ofurselur hann glötun.

 

Guðspjallið

Matteusarguðspjall 5:1-10 og 13-16

Fjallræðan
1Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. 2Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
3„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
4Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
5Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
6Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
7Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
8Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
9Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
10Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.
[. . . ]

Salt og ljós
13Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
14Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 15Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. 16Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

 

Sálmaskrá Trúmann Kristiansen copy

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.