Minningarorð
Ásgeir Ólafsson
1928-2014
bifreiðastjóri
frá Grænumýri
á Seltjarnarnesi
Útför (bálför) frá Neskirkju föstudaginn 13. júní 2014 kl. 13
Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan.
Þegar ég kom akandi til kirkju í morgun ók ég framúr flutningabíl með sirkustæki á palli. Þau voru skrautleg og fögur þar sem þau lágu hreyfingarlaus. Þeim verður fundinn staður einhversstaðar og sett í gang og munu laða að börnin til leiks og skemmtunar. Steypubíllinn sem hann Geiri ók var með rauðu og hvítu sílói sem snerist eins og sirkustól og krakkarnir hlupu á eftir bílnum og skoppuðu kannski gjörð eða veifuðu með priki eða njóla til bílstjórans sem var vinur þeirra. Þau fengu far með honum á sunnudögum í sund og svo skutlaði hann fólki hvert sem var ef það vantaði far og ef hann var beðinn um lán þá rétti hann fram seðil og sagði: „Þú mátt hafa þennan, ég er hættur að nota hann.“
Greiðvikni, gamansemi og ljúfmennska voru honum í blóð borin. Það eru góðir eiginleikar eða náðargáfur sem gagnast mannlífinu vel. Hvernig væri lífið ef enginn hefði þessar gáfur til að glæða það og efla?
Börnum dugðu útileikir, sundferðir og steypubíll til að njóta lífsins forðum daga áður en sjónvarpið kom, myndböndin, tölvuleikirnir og farsímarnir. Lífið var einfaldara þá en nú en mannlífið er samt það sama. Þeim mun meir sem ég les og íhuga eldforna texta, tvöþúsund ára gamla og allt að þrjúþúsund ára, þá verður mér sífellt ljósara að mannlífið er eins og áður. Tæknin breytist en maðurinn lítið sem ekkert. Forðum heilluðust börn af hestum og hertólum og enn eru börn sem hrífast af stórum tækjum, trukkum og steypubílum. Og enn heillast fólk af hugsjónum og fegurð náttúrunnar – og af hvert öðru. Enn elskar fólk og missir, þráir, saknar og syrgir.
Hið innra líf fólks er eins og það hefur verið um aldir og árþúsund þrátt fyrir svonefndar framfarir í vísindum og tækni sem reyndar má í sumum tilfellum kalla fram-af-farir.
Steypubílar eru á ferð um borgina í dag og tromlurnar snúast en Geiri er ekki lengur á ferð með krakkana og þau verða að fara með öðrum bíl í sund á sunnudaginn.
Ásgeir Ólafsson fæddist 6. júlí 1928 að Grænumýri á Seltjarnarnesi. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 3. júní 2014.
Foreldrar hans voru hjónin Ingibjörg Eiríksdóttir húsfrú, f. á Króki á Miðnesi 30. mars 1894, d. 14. febrúar 1973 og Ólafur Jónsson, gjaldkeri hjá Kveldúlfi, f. í Eyjarkoti í Vindhælishreppi, A-Húnavatnssýslu f. 28. desember 1874, d. 12. nóvember 1949. Bjuggu þau að Grænumýri á Seltjarnarnesi frá 1925.
Systkini Ásgeirs eru Ingólfur f. 1916, d. 2012, Jón Jason f. 1918, d. 2011, Eiríkur, f. 1919, d. 1989, Ásta María, f. 1921, d. 1947, nafni hans, Ásgeir, f. 1923, d. 1927, Magnús, f. 1925, d. 1941 og Vilhjálmur f. 1930 sem einn lifir systkin sín.
Ásgeir kvæntist á Akureyri 24. desember 1951 Guðrúnu Lovísu Stefánsdóttur, f. að Hólakoti í Saurbæjarhrepp, Eyjafjarðarsýslu 15. júní 1929, d. 27. apríl 1970. Foreldrar hennar voru hjónin Guðmunda Eirný Sigurjónsdóttir og Friðrik Stefánsson. Börn Ásgeirs og Guðrúnar Lovísu eru:
- Ólafur f. 27. apríl 1953, var kvæntur Sigrúnu Guðleif Sigurðardóttur, f. 7. október 1958. Börn þeirra eru a) Guðrún Lovísa, f. 2. júní 1977, börn hennar eru: Sigurður Fanndal og Eva Bryndís, b) Ásgeir f. 4. maí 1979, c) Sigurður, f. 24. janúar 1990,
- Guðmunda Eirný f. 6. október 1955,
- Ingibjörg Sigrún Eyfjörð f. 13. desember 1956, var gift Jóhanni Ingvarssyni f. 20. Júlí 1951. Börn þeirra eru a) Birgir, f. 24. ágúst 1979, kvæntur Svanborgu Guðmundsdóttur, f. 11. ágúst 1974. Börn þeirra eru: Emma, Alex Þór og Snorri Páll, b) Gunnar Geir, sambýliskona hans er Jóna Svandís Þorvaldsdóttir f. 29. Júní 1986. Dóttir þeirra er Sara Lovísa, c) Ingibjörg f. 31. maí 1986, gift Jóni Inga Sveinbjörnsyni f. 8. september 1984. Börn þeirra eru: Jökull Freyr og Hekla Líf.
- Magnús f. 2. júní 1960 kvæntur Sigríði Jónu Jónsdóttur f. 31. mars 1966. Dætur þeirra eru: a) Þórdís Eirný f. 11. desember 1992, sambýlismaður hennar er Fannar Aron Hafsteinsson f. 14. ágúst 1991, og b) Guðrún Lovísa f. 15. júní 2002.
Ásgeir og Guðrún Lovísa hófu sinn búskap að Grænumýri á Seltjarnarnesi, en fluttu 1962 að Nýju-Klöpp í Lambastaðahverfi. Það var ekki auðvelt að missa konuna og standa uppi einn með börnin en hann kláraði það með sóma. Þau sátu í fangi hans og nutu huggunar. Áður en konan féll frá og meðan börnin voru ung lærði hann með þeim og virtist kunna allt þótt skólaganga hans væri ekki talin í áratugum en verkvitið og náttúrugreindin var til staðar og umfram allt, elskan og umhyggjan.
Eftir að Guðrún Lovísa féll frá hóf Ásgeir sambúð með Valdísi Samúelsdóttur, hennar börn eru: Valgerður Anna, Samúel Ingi, Gunnhildur og Hrafnhildur Jóna. Ásgeir og Valdís slitu samvistir.
Ásgeir bjó mest alla sína ævi á Seltjarnarnesi, hann bjó um tíma á Frakkastíg með Magnúsi syni sínum og endar svo ævi sína nærri sínum æskuslóðum, er hann flutti að Rekagranda, en þar höfðu hann og æskufélagar hans leikið sér á ísilagðri tjörn og skurðum sem þá voru á þeim slóðum. Þá var þeyst um á skautum sem bundnir voru neðan á skó og skrensað með tilþrifum í tunglsljósinu sem eitt lýsti upp umhverfið á vetrarkvöldum.
Ásgeir gekk í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Hann fór ungur að vinna fyrir sér. Hann og Vilhjálmur bróðir hans unnu við byggingarvinnu m.a. við byggingu sænsku húsanna svokölluðu í Vestubænum og einnig voru þeir vinnumenn á Bessastöðum. En lengst af var Ásgeir við stórnvöl bíla hjá Ísbirninum og síðar hjá fyrirtækinu Verk h/f og loks hjá steypustöðinni Breiðholt. Ásgeir lauk starfsævi sinni hjá Granda h/f.
Börnin hans og barnabörn, tengdabörn, frændfólk og vinir minnast hans með þökk og gleði. Hann var ljúfur og greiðvikinn og vildi allt fyrir alla gera. Allt lék í höndum hans og þegar hann heimsótti dóttur sína norður í landi var hann alltaf með verkfæri með sér og var snöggur að taka fram borvélina eins og kúreki tekur byssu sína úr slíðri þaulæfðum höndum og spurði: Hvað á ég að gera núna?
Hann var af þeirri kynslóð þar sem verkaskipting kynjanna var skýr og verkmenn voru virtir og enginn spurði: „Hvað er svona merkilegt við það að bora í vegg?“
Hann var barnagæla og hafði gaman af að leika við börn og vera vinur þeirra. Hann naut þess að spila á spil, spilað félagsvist og bridge hér áður fyrr. Að mæta á þorrablót og njóta góðs matar að þjóðlegum hætti var honum hin besta skemmtun og enn batnaði dagskráin ef hægt var að taka í spil. Hann var góður í stærðfræði og því léku spilin í höndum hans og svo hafði hann ríka rýmisskynjun og þrívíddarsýn, gat teiknað og smíðað. Hann horfði kannski um stund í kringum sig í íbúð einhvers barnanna og svo fór hann og sagaði til efni og eftir skamma stund var komin upp viðbót við innréttingu, skápur eða annað gagnlegt. Hann kláraði ætíð sín verk og nálgaðist verkefnin með jákvæðum huga og sagði gjarnan: „Þetta verður gott þegar það er búið.“
Eftir að hann hætti að vinna fór hann reglulega í sund og gönguferðir til að halda heilsunni við, fór í útilegur, í sumarbústaðinn og að veiða. Börnin buðu honum oft heim og þegar ákveða þurfti stað eða stund þá sagði hann gjarnan: „Það verður bara eins og hver vill hafa það.“ Í þeirri afstöðu kom fram visst æðruleysi og yfirvegun. Hann var ekkert að æsa sig yfir einhverju sem mátti ver með ýmsu móti. Okkur er svo gjarnt að ofrurskipuleggja lífið og hafa áhyggjur af verkefnum morgundagsins. Tilfellið er að fjölmargt sem við höfum áhyggjur af og erum kvíðin yfir og ætlum að skipuleggja í þaula gerist bara og leysist af sjálfu sér ef maður hefur ró og þolinmæði til að treysta líðandi stund og gangi lífsins.
Hann var hraustur alla tíð til líkama og sálar en hugurinn varð fyrir hrörnun og smátt og smátt skertist minnið og getan til að vera einn og sjá um sig sjálfur. Hann var heima lengur en hann gat í raun og naut umhyggju barna sinna. Eirný bjó og vann nærri honum og gat fylgst með honum og því gat hann verið lengur heima uns hann fór til dvalar í Skjóli í janúar 2013. Hann gat ekki lengur ekið bílnum sínum en var farinn að undirbúa það í huganum að fá sér hjól. Dásamlegt hvað mannshugurinn leitar sífellt lausna og sættir sig illa við kyrrstöðu. Að komast frá einum stað til annars er öllum mikilvægt. En svo kemur að því að við erum stödd á endastöð. Hvað verður þá? Hvað tekur við?
Við erum börn þessa heims, erum af jörðu komin, getum ekki lifað nema vegna þess að jörðin gefur okkur vatn, kjöt og fisk, grænmeti og ávexti. Við erum af jörðu. Náttúran er ekki einvhersstaðar fyrir utan okkur, einhversstaðar langt í burtu, hvað þá í útlöndum. Við erum náttúran. Við erum af mold og til moldar munum við aftur hverfa. Kristin trú og lífsskoðun neitar því að dauðinn sé endastöð alls. Hún rýfur vítahringinn og segir: Af jörðu skaltu aftur upp rísa. Lífið snýst ekki bara í hringi eins og tromla á steypubíl heldur snýst það eins og spírall sem nær út fyrir hið jarðneska og tengist handanverunni. Heilinn og rökhugsunin eiga erfitt með gátur trúar og tilvistar en hjartað skilur það allt. Hjartað ræður alveg við þá hugsun að lífið haldi áfram í annarri vídd og með einhverjum þeim hætti sem við skiljum ekki með reikningskúnstum veraldar. „Þetta er engin algebra“, sungu Pollarnir. Stóru stefin í tilvererunni lúta öðrum lögmálum en þeim sem setja okkur mörk í þessu lífi þar sem mannlífið breytist lítið frá öld til aldar því hjartað er hið sama, tilfinningarnar eins. Fólk sem grét ástvini sína forðum grætur með sama hætti nú á tímum. Sorg og söknuður fara ekki eftir tízkusveiflum. Í dag syrgjum við og söknum en höldum einnig þakkarhátíð fyrir líf góðs manns og kveðjum Ásgeir Ólafsson með virðingu og felum hann himni Guðs og hinu stóra samhengi.
Blessuð sé minning hans og Guð blessi þig. Amen.