+Sigurður Haraldsson 1948-2014

Sigurður HaraldssonÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

Sigurður Haraldsson

viðskiptafræðingur og saltfiskútflytjandi

Skógarseli 41, R

1948-2014

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningarlestrar og sálmaskráin eru neðanmáls.

Æðruleysi, hugrekki, þakklæti og reisn. Þetta eru orð sem mér eru efst í huga þegar ég mæli yfir moldum Sigurðar Haraldssonar.

Ég kynntist honum fyrst er ég kom á heimili hans og Þorsteins skólabróður míns og vinar. Við Steini vorum í Veszló en Siggi og Ömmi vinur hans í MR og okkur fannst þeir dálítið alvarlegir í lopapeysunum við hlið okkar í jakkafötunum. Siggi, Steini, Ingibjörg og Ástráður höfðu áður búið á Miklubrautinni. Þetta eru öflug systkini, Sigurður viðskiptafræðingur, Þorsteinn löggiltur endurskoðandi, Ingibjörg löggiltur bókari og Ástráður hæstaréttarlögmaður.

[Innskot á hljóðupptökunni]

Frumburðurinn naut sinna forréttinda en varð líka að bera þær byrðar sem slíkri stöðu fylgja. Þannig er lífð. Það ber í sér í senn virðingu og vanda. Og nú er hann horfinn frá okkur þessi einbeitti strákur, afkomandi baráttufólks úr Reykjavík með rætur sem ná út fyrir borgarmörkin.

Foreldrar Sigurðar voru Aðalheiður Sigurðardóttir og Haraldur Þorsteinsson.

Foreldrar Aðalheiðar voru hjónin, Sigríður Jóhannesdóttir, húsfreyja, fædd í Brekku’holti  í Vesturbænum og Sigurður Sigurðsson, verkstjóri, fæddur á Fossi á Skaga.

Foreldrar Haraldar voru Þorsteinn Guðlaugsson, sjómaður, (f. 30.3. 1886 d. 6.8. 1968) og austurbæingur, fæddur í Bergstaðastræti, og kona hans, Ástríður Oddsdóttir húsfreyja, (f. 12.11 1888 d. 13.7. 1961) fædd í Brautarholti í Reykjavík.

Um Aðalheiði var m.a. sagt í minningarorðum:

Góðvildin var henni í blóð borin og hún rétti jafnan hlut þeirra sem hallað var á. Hún sá gott í öllum mönnum. Uppvaxtarárin við kröpp kjör mótuðu hugsun hennar. Hún vissi að margur sem lifði í basli og sárri fátækt, geymdi göfuga sál og hlýtt hjarta, sem barðist í breysku brjósti.

Um Harald var þetta sagt m.a.o:

Hann tók þétt og fast í hönd mína þegar við hittumst og svo tók hann jafnvel með vinstri hönd um úlnliðinn á mér eða um framhandlegginn og hélt mér þétt að sér, horfði í augu mér og spurði frétta. Það var ekkert hálfkák í þeim samskiptum. Handtakið sterkt, augun skörp og brosið blítt. Allt gaf það til kynna að traustur maður væri á ferð.

Siggi var gæfumaður og eignaðist góða konu og börn.

Sigurður kvæntist 30. október 1971 eftirlifandi eiginkonu sinni Jónu Guðjónsdóttur skrifstofumanni sem fæddist  í Reykjavík 27. júlí 1949. Foreldrar hennar voru Guðjón Guðmundsson bifreiðasmiður í Reykjavík f. 11. júlí 1910 d. 24. maí 2001 og Ólöf Bjarnadóttir húsmóðir f. 8. október 1907 d. 15. apríl 1983. Siggi mat tengdforeldra sína mikils og átti við þau góð samskipti meðan þau lifðu.

Sigurður og Jóna bjuggu bjuggu alla tíð á höfuðborgarsvæðinu, á Teigunum í Reykjavík og síðar á Bakkaflöt í Garðabæ. Eftir að börnin fóru að heiman minnkuðu þau við og bjuggu nú síðast í Skógarseli 41.

Börn þeirra hjóna eru:

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson, lögmaður, f. 9. maí 1971, kvæntur Kristínu Björg Eysteinsdóttur viðskiptafræðingur, f. 9. mars 1972. Dætur þeirra eru: Karólína f. 1997, Lovísa f. 2002 og Elísabet f. 2007.

Aðalheiður Sigurðardóttir, verkefnastjóri (MPM), f. 1. nóvember 1975. Sambýlismaður hennar er Ingvar Tryggvason, flugstjóri, 12. júlí 1972.

Sigurður var fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1969 og prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1973. Að námi loknu hóf Sigurður störf hjá fjármálaráðuneytinu. Lengst af starfaði Sigurður við útflutning á saltfiski. Hann starfaði hjá Sölusambandi Íslenskra Fiskframleiðenda frá 1978-1992. Síðastliðin 22 ár starfaði Sigurður sjálfstætt með öðrum, við útflutning á saltfiski, einkum til Spánar.

[Innskot á hljóðupptöku]

Siggi var stoltur af uppruna sínum og minnti börn sín og barnabörn á að vera það líka og gleyma ekki rótum sínum, fólkinu sem á undan gekk og lagði sitt af mörkum til að bæta þetta þjóðfélag.

Þann 1. maí 1963 birtist í Alþýðublaðinu viðtal við Sigurð Sigurðsson móðurafa Sigga. Þar var rætt um baráttu fyrir réttlæti og mannsæmandi kjörum, en hann hafði verið fánaberi í fyrstu kröfugöngu verkalýðsins í Reykjavík 40 árum fyrr, 1. maí 1923. Viðtalinu lýkur á þessum orðum:

„Við kvéðjum [sic] fyrsta fánabera reykvískrar alþýðu, sem vildi, að hann gæti gengið með fánann í dag, og höldum út í rigninguna á Vesturgötunni, minnugir þess, að merkið stendur, þótt maðurinn falli.“

Orðstír góðra manna lifir meðan gott fólk sem á eftir kemur minnist þeirra í þökk.

Fyrstu misserin eftir að Siggi fæddist var hann með Distu mömmu sinni hjá afa og nafna meðan Halli var að byggja yfir þau og eftir að Siggi lærði að lesa þá las hann fyrir afa sinn sem var orðinn blindur.

Siggi var af einörðu fóki kominn og þegar hann var strákur og lék fótbolta með Val þá var allt lagt í leikinn og það var rifjað upp í minningargrein æskuvinar hans, Bjarna Bjarnasonar, að eitt sinn í 5. flokki skoraði Siggi 10 mörk í fyrri hálfleik og þá fannst þjálfara anstæðinganna nóg komið og lét flauta leikinn af.

Það fer vel á því að jarða Valsmann frá Neskirkju við Hagatorg. Fyrstu vellir Vals stóðu við Hagatorg. Fyrstu 3 vellir á svæðinu milli Hótels Sögu og Þjóðarbókhlöðunnar. Sá 4. við Loftskeytastöðina á Melum.

Rauði liturinn á altarinu í dag [innskot á hljóðupptöku] fer vel en hann er ekki vegna Vals heldur vísar hann til elds og ákafa hinnar fyrstu kristnu hvítasunnu. Stundum stendur KR á altarinu með grísku letri og sumir hér í hverfinu halda að það vísi til knattspyrnufélags Vesturbæinga en er nú reyndar tilvísun í XRISTOS sem þetta hús er helgað.

Séra Friðrik lagði línur við vígslu fyrsta vallar Vals, 6. ágúst 1911. Hann hélt þar erindi sem hann nefnir Fair Play. Hann lagði áherslu á að í Val væri knattspyrnan í öðru sæti. Í fyrsta sæti væri ávallt þjónustan við Guð. Ræðuna hóf hann á tilvísun í Fyrra Korintubréf Páls postula:

„Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir, verið styrkir. Allt hjá yður sé í kærleika gjört.“ (I. Kor 16.13-14)

Og svo lagði hann áherslu á þetta:

„Valur er ég og þú og allir hinir.“

Þannig hugsar sá sem mótaður er af kristnum viðhorfum.

Þeir bræður Siggi og Þorsteinn voru báðir Valsmenn.

Siggi kvaddi jarðlífið sem sannur Valsmaður, karlmannlegur, styrkur – og sáttfús.

Siggi mætti mér ætíð eins og góð blanda af Distu og Halla, handtakið þétt, brosið blítt og augun skörp og spyrjandi. Við umgengumst lítið á lífsleiðinni, en hittumst af og til. Siggi var svo mikið á ferð og flugi að hann missti af mörgu hér heima m.a. endurfundum MR-inga og fleiru. En þegar ég fór til hans á Landsspítalann fyrir nokkrum vikum þá heilsaði hann mér klökkur af gleði og innileika.

Æðruleysi, hugrekki, þakklæti og reisn. Ég hóf minningarorðin með þessum fjórum orðum. Oft kem ég að rúmi sjúkra og deyjandi og það er æði misjöfn upplifun. Siggi mætti örlögum sínum af fádæma kjarki og reisn. Hann hafði barist í nokkur ár við vágest sem náði að lokum yfirhöndinni. En þegar hann vissi að ekki yrði aftur snúið þá horfðist hann í augu við það með reisn sem hann hélt til hinstu stundar. Hann hafði myndað traust tengsl við menn í Þýskalandi og á Spáni vegna viðskipta sinna. Þeir urðu nánir vinir Sigga því þeir skynjuðu í honum heilindi og heiðarleika. Þeir lögðu leið sína hingað norður bara til að kveðja hann. Vinir og ættingjar komu til Sigga og hann gladdist mjög að fá æskuvin sinn, Ögmund, í heimsókn. Í Orðskviðum Salómons segir: „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir. (Ok 17.17)

Spænsku vinirnir eru komnir hingað aftur til að fylgja Sigga til grafar, þeir Manolo Rocha og Alex Lleonard.

[Innskot á spænsku – er á hlóðupptökunni]

Antonio sem var Sigga sem fóstbróðir lést úr kabba árið 2007. Þeir kenndu hvor öðrum tungumál en Sigg var sleipur á því sviði. Hann kenndi Antonio ensku og fékk spænskuna í vöruskiptum. Latínugrunnurinn var góður og Siggi var fljótur að ná þessu rómanska máli.

Siggi rifjaði það upp að sölumennskan var með allt öðrum blæ hér áður fyrr þegar engir farsímar voru til – og þegar þeir komu fyrst til sögunnar voru þeir á stærð við harðar og köntóttar skjalatöskur. Siggi rifjaði það líka upp að þegar menn í SÍF, sem var stórveldi í útflutningi, þurftu að hugsa sig um í marga mánuði að kaupa faxvél enda kostaði vélin á við nýjan bíl. Nú eru ígildi þessara tækja og heilu tölvuherbergja fortíðarinnar í einum litlum farsíma í vasa jafnt barna og unglinga sem saltfiskspekúlanta.

Siggi var heiðarlegur maður með sterka réttlætiskennd eins og hann hafði rætur til. Hann var duglegur og harður af sér og var jafnan allur í því sem hann tók sér fyrir hendur. Vinnan var honum mikilvæg og stundum tók hún full mikinn tíma. Hann var löngum fjarverandi en Jóna og hann voru ætíð í sambandi og hún kunni meira að segja runur af símanúrerum hótela í Evrópu utanbókar svo að börnin gætu hringt í pabba áður en þau fóru í skólann að morgni og hún rætt við hann um daglegt líf. Jóna sá um allt heima og oft var hún búina að breyta heimilinu á meðan Siggi var ytra, hafði látið brjóta niður veggi og setja upp nýtt eldhús svo dæmi séu nefnd. En þegar Siggi kom heim þá var borðað af sparistellinu í stofunni og fagnað yfir samfundum og ástríki fjölskyldunnar.

Siggi var ekki gallalaus maður frekar en við en hann hafði marga góða kosti. Hann var mikill fjölskyldumaður og elskaði fólkið sitt. Börnin kunna að meta þá visku sem hann lauk upp fyrir þeim. Hann brýndi fyrir þeim að standa á eigin fótum og skoða heiminn af traustum sjónarhóli. Hann hvatti þau til að kynnast lífinu í landi, kjörum fólks og aðstæðum með því að vinna almenn störf og mennta sig. Samband Sigga og Jónu var sterkt og heilt. Þau studdu hvort annað í gegnum súrt og sætt. Afastelpurnar voru honum mjög dýrmætar og kærar og leitun að stoltari afa. Hann hefði svo sannarlega viljað hafa meira þrek síðustu misserin og fá lengri tíma með þeim – en eigi má sköpum renna

Siggi gekk alla tíð mikið sér til heislubótar og lífsfyllingar. Hann var vel á sig kominn og bjó að íþróttaiðkun yngri ára og svo var hann farinn að leika golf sem er kristilegasta íþrótt sem ég þekki enda sú eina sem er með sérstakt kerfi til að fyrirgefa klaufaskap og geigun. Kerfið er bara óvart rangnefnt forgjöf á íslensku en ætti auðvitað að heita fyrirgefning. Og því spyr ég þig sem ert kylfingur: Hvað ert þú með í fyrirgefningu? Og svo er stóra spurningin til okkar allra: Hvað fáum við mikið í fyrirgefningu á lífsvellinum?

Siggi var ræktunarmaður og sló hvergi af sér í þeim efnum. Þau eignuðust land í Eilífsdal í Kjós með foreldrum Jónu og þar breyttu þau örfokamel í gróðurvin. Seinna tóku þau Siggi og Jóna skika í fóstur í landi Hests og þar bærast nú laufin í sumarsólinni. Þriðji bústaðurinn er svo á Flúðum í landi Efra-Sels þar sem tún breyttist í skóg. Siggi var kominn á ættarslóðir því langalangafi hans, Þorsteinn, var fæddur á Flúðum og var Hreppamaður í marga ættliði.

Fyrr í athöfninni var 1. Davíðssálmur lesinn. Þar er rætt um farsælan lífsferil, um að lifa í réttu samhengi. Mér finnst Siggi hafa gert það. Við áttum saman einlægt samtal um trú og eilífð. Ég ræddi við hann um hjartað, ekki það sem dælir blóðinu, heldur hitt sem skilur það sem rökhugsunin ræður ekki við. Við skiljum með hjartanu eins og sagt er. Hjartað getur skilið eilífð og óendanleika, mótsagnir trúar og lífs, en mannsheilinn ekki, því hann er takmarkaður þótt hann sé talinn flóknasta og flottasta fyrirbrigði veraldar. Hjartað, þessi innri helgidómur, sem íslenskir menn á 12. öld kölluðu brjóstkirkjuna, er kjarni sérhverrar manneskju. Þar getur andi Guðs búið, heilagur andi sem úthellt var á hvítasunnu. Til að lifa í réttu samhengi þurfum við að messa í brjóstkirkjunni og þegar við gerum það þá erum við sem maðurinn sem fær þessa umsöng: „Hann er sem tré gróðursett hjá lindum, það ber ávöxt sinn á réttum tíma og blöð þess visna ekki. Allt, sem hann gerir, lánast honum.“

En þá er spurningin þessi. En er hægt að segja þetta um mann sem er fallinn frá 66 ára að aldri eftir erfiða baráttu við skæðan sjúkdóm? Já, vissulega. Lífslánið er og verður ekki í árum talið. Lífslánið verður líka til í glímunni við samferðafólkið. Það er mælt með öðrum hætti. Gæði lífsins skipta máli og úrvinnslan sömuleiðis. Við mætum öll mótlæti í lífinu, verðum jafnvel fyrir því að menn bregaðst okkur illilega. Okkur mætir stundum „heimsins ráð sem brugga vondir menn“ en stöndum keik ef við vinnum úr áföllu með lögmálum brjóstkirkjunnar og fyrir mátt upprisunnar sem er sem betur fer að verki víðar í lífinu en margur heldur.

Þegar ég ræddi við Sigga um útförina og hafði áður átt með honum dýrmæta bænastund þá dró hann upp nokkra punkta um sálma og tónlist og svo þetta vers úr Síraksbók: „Sá sem óttast Drottin vandar val vina, hann heldur sér að slíkum sem honum sjálfum líkjast. (Sír 6.17)

Þetta fannst honum góður texti. Speki aldanna er mikil og djúp og tízkustraumar samtímans ekki þær töfralausnir sem margur heldur. Kristinn trúararfur og kristin guðfræði er að ég tel stærsta elfur hugmyndafræði um mann og heim sem þessi veröld á. Engin önnur lífsskoðun í heiminum á sér annað eins bakland í pælingum heimspekinga, guðfræðinga og annarra fræðimanna að ógleymdum skáldum, í fræðitextum, skáldskap, ljóðum, leikritum, tónlist og söng. Við öðlumst aldrei skilning á menningararfi Vesturlanda nema með því að setja okkur inn í hinn kristna arf.

Siggi var með það á hreinu sem hann nam mið móðurkné. Hann vissi að hverju stefndi og mætti því að fádæma æðruleysi, hugrekki, þakklæti og reisn. Hann var æðrulaus sem merkir að vera óttalaus. Hjarta hans vissi að samhengið er stærra en það sem blasir við veraldarhyggjunni. Hann var hugrakkur og þorði að ræða dauðann sem allt of margir afneita til hinstu stundar. Hann var þakklátur fyrir lífið, fyrir konuna og börnin, tengdabörnin, barnabörnin, foreldra og systkini, fjölskyldur þeirra og síðast en ekki síst þakklátur fyrir vináttuna þar sem hún birtist honum fölskvalsus, sönn og tær. Hann dó með reisn eftir að hafa rætt við samferðafólk sitt, gert upp það sem þurfti að ræða og kvaddi sáttur og laus við biturleika í garð nokkurs manns, búinn að fyrirgefa þeim sem gerðu á hluta hans og með óskir þeim til handa um farsæld og frið.

Er hægt að deyja með fegurri hætti? Er hægt að deyja á merkingarbæran hátt í öðru samhengi en þessu?

Þegar ég kom að dánarbeði hans þótti mér við hæfi að raula þennan sálm yfir honum látnum:

Herra, mig heiman bú
í hendur þínar,
leið mig í lífsins trú
um lífstíð mína.

Allt hvað minn góði Guð
gaf mér í heimi
einn taki aftur við
annist og geymi.

Ég á mig ekki hér
í veröldinni,
Drottinn, ég eign þín er
af miskunn þinni.

Höfuð mitt seka sé
sem kjöltu móður
lagt í þitt líknarkné,
lausnarinn góður. (HP, Sálmabók 429)

 

Blessuð sé minning Sigurðar Haraldssonar og Guð blessi þig.

Amen.

 

 

Ritningarlestrar:

 

Sálmarnir 1:1-6

Fyrsta bók
1Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra,
eigi gengur götur syndara
og eigi situr meðal háðgjarnra
2heldur hefur yndi af leiðsögn Drottins
og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3Hann er sem tré gróðursett hjá lindum,
það ber ávöxt sinn á réttum tíma
og blöð þess visna ekki.
Allt, sem hann gerir, lánast honum.
4Óguðlegum farnast á annan veg,
þeir hrekjast sem hismi í stormi.
5Því hvorki standast óguðlegir fyrir dómi
né syndarar í söfnuði réttlátra.
6Drottinn vakir yfir vegi réttlátra
en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Matteusarguðspjall 5:1-10 og 13-16

Fjallræðan
1Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. 2Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
3„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
4Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
5Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
6Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
7Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
8Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
9Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
10Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.
[. . . ]

Salt og ljós
13Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
14Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 15Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. 16Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

 Sálmaskrá Sigurður Haraldsson 3 brot copy

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.