Minningarorð
Hrefna Guðmundsdóttir
1928-2014
húsmóðir
Frostasjóli 13
Útför frá Neskirkju föstudaginn 6. júní 2014 kl. 11
Jarðsett í Gufunesi
Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningarlestrar og sálmaskráin eru neðanmáls.
Náð . . .
Lífið færir okku öllum í senn tækifæri og ógnanir.
Saga liðinnar aldar geymir marga viðburði í þjóðlífi Íslendinga. Öldin var viðburðarrík. Við fengum heimastjórn og fullveldi, lýðveldið var stofnað og sigrar voru unnir við stækkun landhelginnar. Háskóli Íslands var stofnaður og Ríkisútvarpið. Fleira mætti telja af sigrum. En það voru líka aðrir hlutir sem settu svip sinn á öldina. Frostaveturinn mikli 1918 og spænska veikin sama árið eru atburðir meitlaðir í sögu þjóðarinnar. Heimsstyrjaldirnar tvær höfðu sín áhrif og sú síðari beytti Íslandi félagslega og efnagahagslega fyrir utan það að taka mörg mannslíf úr hópi landsmanna. Kreppan hafði áhrif hér á 4. áratugi aldarinnar og ýmsir sjúkdómar herjuðu á fólk og oft var fátt til ráða áður en lyf urðu til sem dregið gátu verulega úr dauðsföllum. Ég nefni berklana sérstaklega sem lögðu marga að velli fyrir og eftir miðja öldina.
Ung kona í blóma lífsins er lögð inn á berklahælið á Vífilsstöðum. Hún er þar með mörgum sjúklingum. Þar er allt reynt til þess að lækna fólk, útivera, gönguferðir, uppskurðir, lyf. Meðan dagarnir líða gera sjúklingar sér ýmislegt til dægradvalar, spila á spil, spá í spil, lesa bækur, ræða saman. Og þeir hugsa flestir: Mun ég lifa þetta af? Af 16 stúlkum sem lágu inni um tíma dóu 12 en 4 lifðu. Hrefna lifði. Hún var 2 ár á Vífisstöðum um tvítugt og fór þangað aldrei aftur til dvalar en varð þó aldrei almennilega heilsuhraust.
Hrefna fæddist á Akranesi 3. janúar 1928. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 30. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Þórhildur Steinunn Kristjánsdóttir, f. 3. ágúst 1898, d. 17. október 1966 og Guðmundur Þórarinsson, f. 11. maí 1893, d. 28. september 1986, bæði Snæfellingar.
Systkini Hrefnu voru Lydía, f. 17. október 1920, d. 23 maí 1993, Jensína Þóra, f. 9. nóvember 1925, d. 20 maí 2007, Kristján f. 7. ágúst 1929, d. 29. júlí 2005. Öll látin.
Hún ólst upp á Akranesi fyrsta áratug ævi sinnar og minntist áranna þar ætíð með gleði. Langisandur var heillandi leikvöllur þar sem sjórinn var og er síkvikur í leik sínum við landið.
Ung fór hún Austur á land til að vinna í eldhúsi vegavinnuflokks en maður móðursystur hennar var þar verkstjóri. Þar voru ungir menn í vinnu og unnu flestir með höndum sínum. Vélar voru ekki eins algengar þá eins og nú en þó var þar eitt tæki sem gagnaðist vel við vegalagningu og það var veghefillinn. Honum stýrði Ólafur Einarsson, kallaður Óli hefill. Og ástin, þetta undarlega fyrirbrigði, kviknaði milli þeirra Hrefnu og hans. Þau gengu í hjónaband 28. nóvember 1953 hér í Vesturbænum, voru gefin saman af séra Jóni Thorarensen í stofunni á prestssetrinu á Ægisíðu.
Ólafur Einarson er f. 7. október 1927. Hann fæddist í Birgi í Kelduhverfi en alinn upp austur í Jökuldal. Ættir hans koma úr Þingeyjarsýslum. Foreldrar hans voru Einar Björn Davíðsson f. 25. maí 1892, d. 11. febrúar 1968 og Sigríður Jónsdóttir f.22. september 1898, d. 20. október 1987.
Þau eignuðust tvær dætur sem eru:
- Sigríður f. 22. apríl 1955, gift Jens Sigurðssyni f. 2. mars 1954. Dætur þeirra eru: a) Hólmfríður f. 13 október 1978, sambýlismaður hennar er Óli Halldór Konráðsson, þau eiga tvo syni, Viktor Kára og Atla Hrafn. Fyrir á Óli dótturina Helgu Björgu. b) Hrefna f. 13. október 1978 og c) Sigrún f. 10. júní 1984, sambýlismaður hennar er Gísli Viðar Oddsson.
- Þórhildur f. 27. september 1958, gift Þorsteini M. Gunnsteinssyni f. 20. ágúst 1960. Dætur þeirra eru: a) Hildur Hrönn f. 4. júní 1983, sambýlismaður hennar er Bragi Már Ottesen Valbjörnsson, f. 19. júní 1986, þau eiga tvö börn, Ólaf Hrafn og Steinunni Erlu. b) Bryndís f. 29. desember 1987, sonur hennar er Haukur Arnar.
Hrefna vann ýmis störf á sínum yngri árum. Hún vann við bókband og einnig á gullsmíðaverkstæði og langaði alla tíð að læra þá iðn.
Þau fluttu í Vesturbæinn 1965 eftir að hafa fest kaup á fokheldri íbúð að Frostaskjóli 13. Þar luku þau við framkvæmdir og hafa búið í sínu reisulega og snyrtilega húsi ásamt góðum sambýlingum. Ólafur kenndi í Melaskóla í 43 ár og þeim leið vel í Vesturbænum. Hann kenndi einnig á bíl og svo var hann í lögreglunni á sumrin. Hrefna vann heima og hugsaði vel um Óla og dæturnar, eldaði góðan mat, bakaði af sinni alkunnu snilld. Henni var jafnan í mun að fólk borðaði vel. Hún saumaði allar flíkur á stelpurnar og vann margt fagurt í höndunum. Ef saumurinn heppnaðist ekki fullkomlega í fyrstu tilraun var hann rakinn upp þar til hún varð ánægð.
Félags- og íþróttalíf var blómlegt á Akranesi á æskuárum Hrefnu og sigrar ÍA á liðinni öld voru margir og stórir. Hún var alla tíð mikil ÍA manneskja enda þótt hún hafi lengst af búið nánast á sjálfum KR-vellinum, höfuðvígi helstu andstæðinga Skagamanna, í það minnsta á árum áður.
Hrefna var leitandi manneskja og námsfús. Hún las alla tíð mikið, sótti námskeið af ýmsu tagi og þráði stöðugt að mennta sig. Hún var góðum gáfum gædd og mæt manneskja. Hún lagði mikið upp úr því að dæturnar og barnarbörnin menntuðu sig og lykju í það minnsta stúdentsprófi.
Hún fylgdist alla tíð vel með sínu fólki, hélt góðu sambandi við systkin sín og frændfólk. Hún hafði yndi af tónlist, bæði klassískri og dægurtónlist. Hún lærði á píanó í mörg ár og lék sér til yndisauka. Hún var mikill unnandi Evróvision keppninnar og fylgdist grannt með henni á hverju ári. Hún hafi mikinn áhuga á íþróttum. Fyrr var minnst á tryggð hennar við Skagamenn í þeim efnum. Hún horfði á margskonar leiki í sjónvarpi og svo ólíka sem fótbolta og frjálsar, golf og snóker.
Þau ferðuðust mikið á sumrin, fóru um landið og tjölduðu hér áður fyrr. Eitt sumarið fóru þau Ólafur tvö saman í eftirminnilega ferð og komu víða við fyrir vestan og norðan. Þau fóru gjarnan í bíltúr um helgar og oft lá leiðin um Þingvelli, Hveragerði og svo fóru þau oft um Eyjafjörð eftir að önnur dóttirin settist að á Akureyri. Stelpurnar rifja það upp að alltaf var nesti með í för sem mamma útbjó og ekki lifað á sjoppufæði á ferðum um landið.
Þau fóru margar ferðir til útlanda og oft í sólina á Spáni, Ítalíu og Kanarí. Hrefna fór í margar búðir á ferðum sínum til að skoða eitthvað fallegt handa dætrunum og barnabörnunum. Þá fór hún eftirminnilega og skemmtilega ferð til Ameríku með Jennu systur til að vera við brúðkaup í fjölskyldunni.
Hrefna las mikið alla tíð og hafði yndi af bókum. Hún var föst fyrir og ákveðin í skoðunum.
Hún lifði fyrir eiginmann sinn, dætur, tengdasyni og barnabörn og var vakin og sofin yfir velferð þeirra. Hún hafði áhuga á vinum dætranna og fylgdist alla tíð vel með þeim.
Hrefna stytti sér oft stundir við spil og að leggja kapal og svo skemmti hún sér og stelpunu og fleirum við að spá í spil og bolla. Það var leikur sem kallaði oft fram hlátur og undrun. Ef hjartagosinn birtist ekki í spilunum þá var bara stokkað upp og þau lögð aftur þangaði til hjartagosinn birtist!
Hún lagði stelpunum lífsreglurnar með sínum hógværa hætti, kenndi þeim bænir og vers og lagði upp úr við þær að vera kurteisar og að mennta sig. Í henni bjó rík réttlætiskennd og hjarta hennar sló með þeim sem minna mega sín. Hún fylgdi að málum þeim sem vilja jöfnuð og réttlæti, frið og miskunn.
Hrefnu er minnst með þakklæti af mörgu fólki og hingað hafa borist sérstakar kveðjur frá fjarstöddum ættingjum og vinum:
frá börnu Jensínu Þóru í Bandaríkjunum;
frá Ingu Ellertsdóttur sem er í útlöndum með þakklæti fyrir vináttu s.l. 30 ár og
frá Þórunni Benný Finnbogadóttur í Bolungavík, en þær kynntust á Vífilsstöðum og hafa haldið vinskap alla tíð, með þakklæti fyrir allt.
Lífið færir okku öllum í senn tækifæri og ógnanir. Berklarnir settu mark sitt á Hrefnu um miðja síðustu öld. Hún lifði af þá ógn en fleiri hindranir urðu á vegi hennar. Hún fékk krabbamen í tvígang en reis ávallt upp úr veikindum sínum. Með veikindunum var fylgifiskur í formi kvíða sem stundum náði sterkum tökum á henni. En þannig er það nú með okkur flest að við rísum upp vegna þess að upprisan er að verki í lífi allra manna á einn eða annan hátt. Í dag skín sólin og lognið fyrr í dag var yndislegt. Þetta er án efa einn bestu dagur ársins hingað til hér á höfuðborgarsvæðinu og það léttir okkur að kveðja þegar fegurðin umvefur okkur.
Lífið færir okku öllum í senn tækifæri og ógnanir. Stærsta ógnin er dauðinn sjálfur. Kristin trú lætur dauðann ekki eiga síðasta orðið. Sigurhljómur fagnaðarerindisins berst okkur í boðskap Krists sem sigraði dauðann og hel. Fáir hafa orðað það betur en séra Hallgrímur:
Ég veit, minn ljúfur lifir
lausnarinn himnum á,
hann ræður öllu yfir,
einn heitir Jesús sá,
sigrarinn dauðans sanni
sjálfur á krossi dó
og mér svo aumum manni
eilíft líf víst til bjó.
Með sínum dauða’ hann deyddi
dauðann og sigur vann,
makt hans og afli eyddi,
ekkert mig skaða kann,
þó leggist lík í jörðu,
lifir mín sála frí,
hún mætir aldrei hörðu
himneskri sælu í.
Þessi óbilandi trú hefur gefið fólki von í öllu veðrabrigðum liðinna alda og vonandi verður svo enn um ókomna tíð. Og ég spyr: Á hvað ætla þau að vona sem vilja kasta hinum gamla arfi á glæ? Hver bjargar frá ógnum tilverunnar, annar en hann sem gekk á hólm við þær og vann sigur?
Lífið er sterkt og sú staðreynd birtist í lífi Hrefnu sem reis upp aftur og aftur úr veikindum og sigraðist á ógnum þeim sem að henni steðjuðu. Nú bíður hennar að þiggja sigurinn stærsta.
Við kveðjum hana með virðingu og af djúpri þökk. Blessuð sé minning Hrefnu Guðmundsdóttur og Guð blessi þig.
Amen.
Erfi.
Jarðsett í Gufunesi.
Ræðan á vefnum.
Postulleg kveðja: Guð vonarinnar . . .
Ritningarlestrar:
Rómverjabréfið 8:31-39
Kærleikur Guðs í Kristi Jesú
31Hvað eigum við þá að segja við þessu? Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? 32Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? 33Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. 34Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. 35Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?36Það er eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.
37Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. 38Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, 39hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.
Matteusarguðspjall 5:1-10 og 13-16
Fjallræðan
1Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. 2Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
3„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
4Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
5Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
6Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
7Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
8Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
9Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
10Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.
[. . . ]
Salt og ljós
13Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
14Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 15Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. 16Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.