Minningarorð
Margrét Ólafsdóttir
húsmóðir
Ægisíðu 78
1929-2014
Útför (bálför) frá Neskirkju miðvikudaginn 4. júní 2014 kl. 13
Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Sálmaskrá og ritningarlestrar eru neðanmáls.
Hvað verður nú? var spurning sem brann á fylgjendum Jesú eftir að hann var horfinn frá þeim á uppstigningardag. Þeir höfðu átt með honum gleðidagana svonefndu allt frá páskum. Hvað verður nú? Hann hafði lofað að skilja þá ekki eftir munaðarlausa og sagðist mundu vitja þeirra.
Við mannfólkið erum oft í álíka aðstöðu þótt ólíku sé saman að jafna. Við spyrjum: Hvað verður nú? Breytingar verða í lífi allra og vissulega er það mikil breyting og umskipti þegar börn kveðja móður sína. Þið kvödduð föður ykkar fyrir 4 árum og nú er móðir ykkar farin af þessu jarðlífi. Sá atburður markar algjör skil. Kynslóð þeirra er farin og nú eruð þið næst. Já, það er ögrandi að horfast í augu við þá staðreynd að öll munum við deyja og hægt og sígandi færumst við nær því marki.
Hvað verður nú?
Lífið heldur áfram. Dagarnir koma áfram nýir úr hendi Drottins og við fáum að njóta þeirra enn um sinn. Þannig hefur þetta verið um aldir og árþúsund. „Kynslóðir koma, kynslóðir fara, allar sömi ævigöng.“
Hvað verður nú?
Lífið er breytt. Margrét er ekki lengur á meðal okkar. Hún hefur lokið sínu hlutverki og það með sóma. Hún átti langa og viðburðarríka ævi, ekki án mótlætis og rauna, en góða ævi samt og naut ávaxta iðju sinnar á efri árum og þess fjársjóðs sem börnin hennar eru, tengdabörn og afkomendur. Henni var alla tíð mjög í mun að halda fjölskyldunni saman og kann það að hafa hert hana í þeim ásetningi að frumfjölskylda hennar sundraðist þegar hún var barn.
Margrét fæddist á Akranesi 22. júlí 1929 og lést á heimili sínu þann 24. maí 2014, á 85. aldursári.
Foreldrar hennar voru Ólafína Ólafsdóttir frá Deild á Akranesi, f. 11. okt. 1902, d. 12. okt. 1995 og Ólafur Helgi Sigurðsson frá Fiskilæk í Melasveit, f. 25 okt. 1902, d. 3. des. 1984. Stjúpfaðir Margrétar var Ólafur Þorsteinsson, f. 1901, d. 1975.
Systkini Margrétar eru:
1) Hörður Ragnar, f. 1924, d. 2001,
2) Ólafur, f. 1926, d. 2013,
3) Guðrún Diljá, f. 1927, d. 1995,
4) Ingibjörg, f. 1932, d. 2006
5) Sigurður Hreinn, f. 1933, d. 1978,
6) Freymóður Heiðar, f. 1935, d. 1978,
7) Ása Sigríður, f. 1937 og
8) Jóna Kolbrún, f.1940, d.2006.
Öll látin nema Ása Sigríður sem sendir ykkur kveðju sína en hún dvelur á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi.
Hálfsystkini hennar sammæðra eru:
1) Jóhann Grétar Hinriksson, f.1922, d. 2006, sem er látinn.
2) Ólafína Sigrún Ólafsdóttir, f.1946.
Hálfsystir Margétar samfeðra er Svanhildur Ólafsdóttir, f. 1948.
Hún ólst upp á Akranesi og var alla tíð mikil Skagamanneskja. Jóhann hafði ekki síður taugar til Akraness enda þótt hann hafi aðeins búið þar stutta stund.
Þar var gott að vera sem barn enda þótt kreppan hafi gengið í garð árið sem Margrét fæddist. Tímarnir voru allt aðrir, atvinnuhættir öðruvísi og tækifæri fólks allt önnur en nú. En fólkið þá þekkti ekki framtíðina fremur en við sem nú lifum. Við þekkjum einungis það sem við höfum. En mikið hefur Ísland breyst á þeim árum sem Margrét lifði. Þvílíkar breytingar! Á hennar æskuárum urðu allir að vinna sem vettlingi gátu valdið, hjálpa til heima, vinna í fiski eða við önnur störf sem þurfti að leysa. Og þá eins og nú átti fólk sínar vonir og þrár um betri tíð og ungar stúlkur dreymdi um að verða eiginkonur og mæður, að gegna kalli lífsins og stuðla að framhaldi þess.
Ung kynntist hún lífsförunauti sínum á Akranesi og segir sagan að hún hafi boðið Jóa redd, eins og hann var stundum kallaður, merki til kaups og hann sagðist mundu kaupa ef hann mætti kyssa hana á kinnina. Kossinn fékk hann að gefa henni og með tíð og tíma urðu þeir fleiri og fleiri og innilegri.
Árið 1949 giftist Margrét Jóhanni Vilhjálmssyni, f. 4. ágúst 1927, d. 24. janúar 2010. Foreldrar hans voru Jóhann Ferdinant og Sveinína Jónsdóttir. Börn þeirra hjóna voru auk Jóhanns, Sveinn, Ottó og Jón Egill. Hálfsystkini Jóhanns, samfeðra eru Ólafur og Gunnþóra Freyja.
Jóhann var tekinn í fóstur og ættleiddur af hjónunum Vilhjálmi Svan Jóhannssyni og Ólöfu Þórðardóttur. Hann hlaut gott uppeldi og naut elsku og umhyggju í uppvextinum. Hann naut almennrar skólagöngu en fór síðan í iðnnám og lærði prentun.
Lífið blasti við ungu hjónunum og svo komu börnin eitt af öðru.
Vilhjálmur Svan f. 1. ágúst 1946 giftur Sesselju Henningsdóttur. Sonur þeirra er Vilhjálmur Svan sem komst ekki heim í tæka tíð vegna bilunar í flugvél í Berlín og sendir því kveðju sína. Sonur Vilhjálms Svans er Jóhann, barnsmóðir Bára Óskarsdóttir og fósturbörn Vilhjálms Svans eru Grétar og Sigríður Hostert. Barnabörn Vilhjálms Svans eru 7.
Valgerður Jóhannsdóttir f. 14. febrúar 1951, eiginmaður Jakob Magnússon. Börn þeirra eru: Hlynur Sölvi, Jakob Reynir og Ólöf. Barnabörn þeirra eru 4.
Ólafur f. 30. mars 1954, eiginkona Helga Sigurðardóttir. Börn þeirra eru Sigurður, Þórhallur, Hjörvar og Soffía Hjördís. Barnabörn þeirra eru 4.
Laufey Jóhannsdóttir f. 28. desember 1960, eiginmaður Jan Bernstorff Thomsen. Börn þeirra eru: Daniel, Camilla Margrét og Thomas Þór.
Þráinn Jóhannsson f. 21. nóvember 1962, eiginkona Erna Andreassen. Barn þeirra er: Karen. Fósturbörn Þráins eru: Bjarki og Ásta. Barnabörnin eru tvö.
Til viðbótar við kveðjur sem þegar hefur verið skilað eru hér þrjár til viðbótar: frá Rakel Sesselju, langömmustelpu Margrétar sem er í útlöndum og frá Sindra, barnabarni Svans sem er í Dammörku og frá foreldrum Jans og fjölskyldu í Danmörku.
Margrét var fædd og uppalin á Akranesi en fluttist til Reykjavíkur 1946 þar sem hún bjó til æviloka.
Þau hjónin byrjuðu að búa saman 1946 eftir fæðingu Svans og þá á Hörpugötu 13 í Skerjafirðri sem var grunnur af því að hún varð Vesturbæingur upp frá því enda þótt hún hafi brugðið sér úr hverfinu um stundarsakir. Hún vildi að allt sitt fólk byggi í Vesturbænum og hafði sínar meiningar á hlutunum alla tíð. Hún var t.a.m. mikill krati og hafði ríka réttlætiskennd.
Hér á árum áður varð heimili þeirra miðstöð gesta og gangandi. Frændfólk og vinir sem komu í heimsókn í borgina ofan af Skaga gistu gjarnan hjá þeim meðan verið var að útrétta ýmislegt í henni Reykjavík eða að finna sér húsnæði til fastrar búsetu. Heimilið þeirra var eins og umferðarmiðstöð og allir velkomnir og ætíð nóg pláss.
Margrét var fyrst og fremst húsmóðir og uppalandi en sinnti inn á milli ýmsum störfum sem verkakona, vann t.d. hjá Vífilfelli, Dairy Queen, í fiski á Kirkjusandi og víðar og gekk í þau störf sem í boði voru hverju sinni og hún komst yfir. Hún var einnig virkur þátttakandi í rekstri prentsmiðju Jóhanns. Þau voru samhent og dugleg. Hún naut þess að hugsa um heimilið og börnin og þau segja hana hafa verið algjöra súpermömmu sem gerði allt af alúð og gleði. Hún var hjálpsöm og greiðvikin og sat sjaldan auðum höndum heldur vann handavinnu og gerði margt fallegt í þeim efnum um ævina.
Þau voru glæsileg saman. Ég kynntist þeim fyrst þegar þau sóttu Neskirkju reglulega og komu prúðbúin til messu, hún glæsileg og fín og Jói í jakkafötum, gjarnan ljósleitum og aðhnepptum. Já, herramenn kunna að hneppa að sér jakkanum – einni tölu! Munið það strákar! Þau vöktu athygli þar sem þau fóru saman.
Margrét var meðal stofnenda Ljóssins og þau hjónin voru bæði virk í félaginu sem hafði aðsetur hér í Neskirkju um tíma. Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Þau lögðu félaginu lið og studdu starfið af heilum hug ásamt Laufeyju. Þau sóttu bænastundir í kirkjunni á miðvikudögum og sóttu sér styrk í trúna í glímunni við að halda góðri heilsu. Starf Ljóssins var stór þáttur í lífi hennar síðustu árin. Þar eiganðist hún góða vini og þar fékk fagurkerinn í henni að blómstra. Hún skapaði marga fína hluti í því starfi og sérstaklega þótt hún flink í að þæfa trefla og vinna skartgripi. Hún var þakklát fyrir starfsemi Ljóssins.
Þau hjónin voru sameiningartákn fyrir börnin sín og fjölskyldur og lögðu mikið upp úr því að hópurinn stæði saman. Áhugi þeirra og hvatning er líklega helsta ástæða þess hversu samheldinn hópurinn er í dag.
Umhyggja Margrétar og áhugi fyrir barnabörnum og barnabarnabörnunum var einstakur og var hún alltaf með á nótunum um allt sem þau tóku sér fyrir hendur.
Hún var tónlistarunnandi og það var mikið sungið á hennar heimili og sérstaklega þegar systurnar komu saman. Þá var tekið í gítarinn og sungið við raust. Hún fylgdist vel með tónlist og tónlistarviðburðum jafnt hér heima sem erlendis og sérstaklega hafði hún gaman af íslenskum og dönskum söngvakeppnum og ef barnabörnin hófu upp raust sína með söng þá var amma ekki langt undan með hvatningu og bros.
Hún hafði einnig brennandi áhuga á íþróttum og fylgdist grannt með þegar stærri íþróttaviðburðir áttu sér stað. Hún hvatti barnabörnin til dáða í íþróttum og naut þess að fylgjast með þeim í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur. Og í sjálfu KR-hverfinu var ÍA ætíð hennar uppáhaldslið í fótboltanum! En hún var nú farin að bogna í þeim efnum undir það síðasta!
Hún átti sína erfiðu daga um ævina, var stundum kvíðin og óróleg. Ef til vill átti bernskan þar hlut að máli, sundrun fjölskyldu hennar og togstreitan sem henni fylgdi. En hún átti trúna og í hana leitaði hún alla tíð. Hún spurði án efa oft: Hvað verðu nú? Og þegar árin færðust yfir hana og þau hjónin höfðu átt sín bestu ár saman og Jói var hættur að fá sér í tána þá kvaddi hann og hún varð ein eftir. Heilsan fór þverrandi en hún hafði mikinn stuðning barna sinna og afkomenda og naut þess að búa í sama húsi og Laufey og Jan og fjölskylda. Þau nutu líka nærveru hennar og alls þess góða sem í henni bjó.
Hvað verður nú? Hvað tekur við? Trúin segir að lífið haldi áfram. Margt af því sem við skiljum ekki með hugsun okkar og skynsemi, skilur hjartað. Hjartað veit og skilur að Guð er almáttugur, eilífur og kærleiksríkur, skilur að ríki hans er og verður ætíð, að elska hans, miskunn og fyrirgefning er örugg eins og fjöllin sem standa styrk.
Fylgjendur Jesú spurðu forðum: Hvað verður nú? Og svo kom andinn yfir þá, andinn sem Jesús hafði lofað. Hann kom á hvítasunnuhátíðinni, andinn sem Jesús nefndi huggarann. Huggarinn kemur og hann mun veita okkur kraft til að lifa eins og hann gerði fyrir tvö þúsund árum og hefur gert alla tíð í hjörtum þeirra sem setja von sína á Drottinn. Andi Guðs er með okkur og andi Guðs leiðir látna móður, tengdamóður, ömmu, langömmu, systur, frænku og safmerðarkonu um þann veg sem hún á nú fyrir höndum.
Hvað verður nú? Fer maður ekki örugglega til Guðs? spurði hún.
Svar trúarinna er: Guð er með okkur í lífi og dauða og enginn getur slitið okkur úr hendi hans eða eins og postulinn sagði:
„Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ (Rm 8.38-39)
Hvað verður nú?
Lífið heldur áfram og það verður áfram í hendi Guðs.
Elska Guðs bregst engum. Við erum börnin hans og í þeirri vissu kveðjum við látinn ástvin.
Blessuð sé minning Margrétar Ólafsdóttur og Guð blessi þig. Amen.
– – –
Sálmarnir 130:1-8
1Helgigönguljóð.
Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
2Drottinn, heyr þú raust mína,
lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína.
3Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum,
Drottinn, hver fengi þá staðist?
4En hjá þér er fyrirgefning
svo að menn óttist þig.
5Ég vona á Drottin,
sál mín vonar,
hans orðs bíð ég.
6Meir en vökumenn morgun,
vökumenn morgun,
þráir sál mín Drottin.
7Ó, Ísrael, bíð þú Drottins
því að hjá Drottni er miskunn
og hjá honum er gnægð lausnar.
Filippíbréfið 4:4-7
4Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. 5Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. 6Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. 7Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.
Jóhannesarguðspjall 14:1-6
Vegurinn, sannleikurinn, lífið
1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.