+Árni Sigursteinn Haraldsson 1944-2014

Árni S HaraldssonÖrn Bárður Jónsson

 

 

Minningarorð

Árni Sigursteinn Haraldsson

1944-2014

frá Vigur

Útför frá Garðakirkju þriðjudaginn 27. maí 2014 kl. 13

Jarðsett í Görðum

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningarlestrar og sálmasrkáin eru neðanmáls.

 

 

Lífið vestur í Djúpi gekk sinn vanagang þegar Árni fæddist enda þótt lýðveldið hefði verið stofnað 12 dögum fyrr. Það breytti nú litlu varðandi fæðingar og dauða, fuglalíf og fisk í kringum landið. En mannlífið breyttist þó í kjölfarið og vitund fólksins um sjálft sig líka. Ísland hefur gjörbreyst á 70 árum. Árni var meðal hinna fyrstu lýðveldisbarna og bar að auki annað nafn, Sigursteinn. Foreldrara hans voru Haraldur Valdimarsson verkstjóri á Ísafirði og Þórey Sigurðardóttir (f.22.9.1911) frá Folafæti við Ísafjarðardjúp. Hann var tekinn í fóstur í eynni Vigur í Ísafjarðardjúpi af ábúendum þar, Björgu Björnsdóttur og Bjarna Sigurðssyni bónda og hreppsstjóra. Móðir hans var reyndar einnig fóstruð í Vigur. Hann ólst upp hjá þeim til 17 ára aldurs en fór þá að heiman og vann ýmis störf hér og þar.

Hálfbróðir Árna var Þórarinn f. 1930 d. 2004, sonur Þórarins Sigurðssonar.

Systur hans sammæðra eru:

Kristrún, 25.6.1949, Björg, 11.9.1951 og Elsa Björk, 2.1.1957, dætur Péturs Einarssonar frá Fjallseli í Fellum, Fljótsdalshéraði.

Hálfsystur Árna, samfeðra, dætur Haraldar verkstjóra á Ísafirði og Brynhildar I. Jónasdóttur, ljósmóður eru: Þórunn, Elsa og Jóna Vigdís sem er látin (d. 2002).

Ungur kynntist hann Kaju Joensen Óladóttur í Sandgerði. Þau fluttu til Húsavíkur þar sem Árni sinnti ýmsum störfum, var lögreglumaður, vann við prentiðn, var stöðvarstjóri Shell en þekktastur er hann fyrir að hafa unnið sem bólstrari fyrir norðan og jafnan nefnur af Húsvíkingum, Árni bólstrari. Þau bjuggu víðar en skildu fyrir u.þ.b. 10 árum. Kaja býr í Færeyjum en þaðan er hún og er orðin heilsuveil.

Seinni hluta ævinnar bjó Árni í Reykjavík, vann við bólstrun, tók þátt í félagstarfi af ýmsu tagi og málaði m.a. myndir. Allt lék í höndum hans.

 

Börn Árna og Kaju eru:
1) Magni Árnason, bóndi og sjómaður í Breiðdal.

Maki: Maria Christie Pálsdóttir.
Börn hans og stjúpbörn Maríu: María Björg Magnadóttir, Heimir Árni Magnason, Særún Ósk Magnadóttir.
2) Björg Árnadóttir, hárgreiðslukona á Ítalíu.
Maki: Corrado Montipo.
Börn: Erik Montipo, Martin Montipo.
3) Óli Þór Árnason, mjólkurfræðingur og mjólkurbússtjóri í Belgíu.
Maki: Sara Mörk.
Börn: Ólivia Mörk Óladóttir, Jónatan Mörk Ólason, Davíð Mörk Ólason.

Árna er lýst sem vinnusömum manni sem kláraði sín verk af vandvirkni og af heilindum. Hann var hjálpsamur en um leið kappsamur mjög og vildi ljúka öllu strax. Hann var mikill mínútumaður segja börnin hans og alltaf að skipuleggja tíma sinn. Ef hann var á ferðalagi þá skipti hann leið sinni í áfanga og reiknaði út hvern legg og vissi því nákvæmlega hversu mikinn tíma hann þurfti og ók „þéttingsfast“ til að ná settu marki hverju sinni.

Börnin minnast hans sem góðs kokks sem eldaði frábæran lunda og margt fleira og bakaði heimsins bestu pönnukökur. Af þessu má ráða að honum var margt til lista lagt. Árni var friðsamur maður. Hann var músíkalskur og lék bæði á orgelharmóníum og harmóniku. Hann hafði næmt auga fyrir fegurð lífsins og naut þess að skreyta heima hjá sér og komst í mikið jólaskap þegar hann skreytti jólatréð árlega af miklum ákafa. Hann ætlaði að njóta efri áranna og var búinn að kaupa sér golfsett en það var nú lítið notað en þeim mun meir spilaði hann bridge og hlakkaði ætíð til að hitta félagana og var jafnan búinn að baka stafla af pönnukökum fyrir spilakvöldin.

Aðspurð um lífsmottó hans, segja börnin að hann hafi lifað fyrir vinnuna og helsta lífsregla hans hafi verið að gera öðrum gott og vænta hins sama eða eins og segir í hinni gullnu reglu Krists: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ Reglan sú er algild og eilíf og gott að hafa hana sem viðmið á lífsveginum. Hann leitaðist við að lifa heilbrigðu lífi, einkum hin síðari árin eftir að hann hætti að nota áfengi og leið miklu betur.

Hann kláraði sitt lífsstarf og það á tíma, eins og sagt er, en nú er þetta búið og ævin að baki og ekkert framundan.

Eða hvað?

Hans biðu verekefni og til stóð að hann málaði íbúðina hjá Þórunni systur sinni en það varð ekki. Kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða, segir í máltæki sem ég lærði af Djúpmanni í bernsku.

Ég flyt ykkur kveðjur frá börnum Þórunnar, Ingibjörgu og Haraldi sem búa í Stokkhólmi.

Skarphéðinn Aðalsteinsson frá Húsavík sendir ykkur kveðju en hann var heimagangur hjá Árna og fjölskyldu fyrir norðan og biður fyrir samúðarkveðjur frá sér og fjölskyldu sinni og  þakkar góðar stundir í Sólbrekku og Laugarbrekku.

 

Og enn situr spurningin eftir: Er þetta allt búið þegar við kveðjum þessa jarðvist? Erum við ekkert annað en mold? Víst erum við af jörðinni og hverfum þangað aftur. Sú er vissa og trú allra kynslóða en kristnin bætir við og segir okkur eiga útgönguleið úr hringrás frá mold til moldar. Hún beinir sjónum okkar til hins stóra semhengis alls sem er. Rökhugsunin á í erfiðleikum með allt sem sprengir hinn hefðbundna ramma veruleikans en hjartað, þessi innri skynjun, sem býr í okkur öllum hefur hæfileilkann til að sjá í gegnum allar gátur og út yfir öll mörk. Hjartað veit að lífð er meira og stærra en það sem við augum blasir í önnum daganna.

Nú standa yfir svonefndir gleðidagar í kirkjunni, frá páskum til uppstigningardags en þá daga forðum glöddust lærisveinarnir yfir því að sjá Jesú upprisinn. Þá sáu þeir með hjartanu, þessari djúpu og næmu skynjun brjóstvitsins og lífið gekk upp. Meira að segja þjáningin var ekki lengur óskiljanleg. Upprisan breytti öllu. En hún er ekki bara veruleiki handan landamæra lífs og dauða. Upprisan er að verki í lífi okkar allra. Hún gefur nýja von, reisir fólk upp úr veikindum, opnar nýjar dyr og tækifæri, stuðlar að fyrirgefningu og sátt og gerir lífið þess virði að lifa því í von og trú. Þessi tvö síðastnefndu hugtök, trú og von, heyra saman og eru náskyld. Við lifum ekki án trúar á lífið, lifum ekki án þess að vona á betri tíð. Og þegar trúin og vonin verða stærstar sprengja þær ramma veruleikans og sjá lífið halda áfram í annarri vídd þar sem Guð er allt í öllu.

 

Fyrir 10 dögum kom Árni ásamt Þórunni systur sinni hingað í kirkjugarðinn að leiði Brynhildar móður Þórunnar og Jónu Vigdísar. Hann er nú jarðsunginn á dánardegi Brynhildar sem sá til þess að hann tengdist föðurfjölskyldu sinni á sínum tíma.

 

Lífið gekk sinn vanagang vestur í Djúpi þótt lýðveldið væri stofnað en það gaf fólkinu þó nýja von. Á sama hátt gefur vitundin um ríki Guðs í Kristi nýja von. Hún er mesta vonarafl tilverunnar. Við lifum nú gleðidagana eins og fylgjendur frelsarans forðum. Höldum í vonina um ríki Guðs og hið stóra samhengi alls sem er.

 

Blessuð sé minning Árna Sigursteins Haraldssonar og Guð blessi þig.

Amen.

Salmaskra Árni S Haraldsson copy

 

Ritningarlestrar við athöfnina:

 

Sálmarnir 121:1-8

1Helgigönguljóð.
Ég hef augu mín til fjallanna,
hvaðan kemur mér hjálp?
2Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.
3Hann mun ekki láta fót þinn skriðna,
vörður þinn blundar ekki.
4Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,
hann, vörður Ísraels.
5Drottinn er vörður þinn,
Drottinn skýlir þér,
hann er þér til hægri handar.
6Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein
né heldur tunglið um nætur.
7Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
hann mun vernda sál þína.
8Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu
héðan í frá og að eilífu. 

 

 

Jóhannesarguðspjall 14:1-6

 

Vegurinn, sannleikurinn, lífið

1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.