Minningarorð
Sigríður Davíðsdóttir
1919-2014
húsmóðir og saumakona
frá Patreksfirði
Útför frá Fossvogskapellu föstudaginn 16. maí 2014 kl. 13
Jarðsett í Gufunesi
Ræðuna geturðu hlustað á og lesið hér fyrir neðan. Ritningarlestrar og sálmaskrá eru neðanmáls.
Náð . . .
Í liðinni viku var fróðlegur þáttur í Sjónvarpinu þar sem feðginin Lára, fréttamaður og Ómar Ragnarsson vitjuðu fjalla og fjarða á suðurhluta Vestfjarðarkjálkans. Bergið er fornt og hart en litir og ljós mýkja allt, hvítir sandar og grænar hlíðar og dalir gera firðina svo undurfagra og Rauðasandur er engu líkur á þessu landi. Og Kollsvík er mörgum ykkar minnisstæð. Sjórinn í Suðurfjörðunum hefur allt annan lit en firðirnir fyrir norðan sem ég minntist á er ég jarðsöng tvíburasystur hennar, Bjarnheiði árið 2008 og Vikar bróður þeirra 2005. Birtan í sjónum er önnur en í flestum öðrum fjörðum og túrkisbláminn einstakur í djúpinu.
Landið er fagurt og frítt og nú bíðum við sumarsins óþreyjufull því öll þráum við yl og birtu, fuglalíf, blóm og laufskrúð. Fegurðin býr innra með okkur öllum svo er Guði fyrir að þakka.
Sigríður sem var tvíburi fæddist í Kóngsengi í Rauðasandshreppi 13. ágúst 1919. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík þann 7. maí 2014. Foreldrar hennar voru hjónin Andrea Andrésdóttir f. 20. nóv. 1887 á Vaðli á Barðaströnd d. 3. maí 1968 og Davíð Jóhannes Jónsson f. 16. des. 1884 á Geirseyri við Patreksfjörð d. 10. jan. 1930.
Börnin voru 7:
Hörður (f. 19. okt. 1917), tvíburarnir
Sigríður (f. 13. ágúst 1919) og
Bjarnheiður Ólína, f. 13. ágúst 1919, tvíburarnir
Sigurjón f. 14. sept. 1921 og
Andrés f. 14. sept. 1921,
Vikar f. 1. september 1923 og
Leifur f. 5. des. 1924.
Öll látin.
Í minningargrein Stefáns Thoroddsen um Sigurjón Davíðsson bróður Sigríðar kemur vel fram hverjar aðstæður voru á fyrri hluta liðinnar aldar. Þar segir m.a.:
„ . . . Davíð Jónsson og Andrea Andrésdóttir, voru vel metnir borgarar á Patreksfirði. Davíð var að sögn stór maður, hraustmenni og listasmiður. Andrea var lítil kona og grönn, en hörkudugleg og bráðlagin. Davíð heitinn byggði fjölskyldu sinni hús á Geirseyri, en haðfi vart lokið því, þegar illvígur sjúkdómur heltók hann og lagði að velli á skömmum tíma frá konu og sjö ungum börnum.
Það hefði mörgum fallist hendur í sporum Andreu, því ofan á þessi ótíðindi bættist að atvinnuleysi og erfiðir tímar voru þá í þorpinu eins og Jón úr Vör lýsir vel í ljóðum sínum, en hann var samtíða þeim þar. Það hvarflaði þó ekki að Andreu. Hún tók alla vinnu sem bauðst, þótt karlmannsverk væri og vann t.d. lengstum á netaverkstæði og hnýtti togaravörpur á móti hvaða karli sem var og stóð ekkert upp á hana. Jafnframt hélt hún barnahópnum sínum heimili. Þarna voru rætur tvíburabræðranna Sigurjóns og Andrésar, sem vistuðust fljótlega hjá góðu fólki vestur í Arnarfirði og voru þar frá 8 ára aldri og fram yfir fermingu.“
Sigríður ólst upp í Hænuvík fram á 5. ár en þá settist fjölskyldan að á Patreksfirði. Faðir Sigríður féll frá á besta aldri og þá stóð Andrea ein uppi með börnin 7 og það elsta 13 ára, tvíburasysturnar á 11. ári.
Hún kynntist þar af leiðandi snemma kröppum kjörum og harðri lífsbaráttu. Móðir hennar var sterk kona sem lét ekki bugast og kom öllum sínum börnum til manns. Eftir andlát Davíðs í janúar 1930 var Sigríður send að Öskubrekku í Ketildölum í Arnarfirði og var þar í eitt og hálft ár hjá hjónunum Vigdísi og Einari Gíslasyni. Þau vildu fóstra hana til framtíðar en hún vildi komast aftur til mömmu og svo varð. Hún minntist þess að hjónin á Fífustöðum í Arnarfirði spurðu hvort hún ætti ekki bróður til að reka kýrnar fyrir sig og hún kvað já, við og nefndi Sigurjón sem væri svo fljótur að hlaupa. Úr varða að tvíburarnir, hann og Andrés, fóru í fóstur til Þórunnar og Gísla eins og áður kom fram og sóttu skóla hjá séra Böðvari á Hrafnseyri og fóru þaðan með fósturmóður sinni til stúdentsnáms við MA en Gísli lést þegar þeir voru 10 ára.
Sigríður fór suður til Reykjavíkur 17 eða 18 ára og þær systurnar fóru báðar í saumanám hjá Sigríðir Bankastræti. Þær leigðu hjá Óskari Halldórssyni útgerðarmanni sem var umsvifamikill í útgerð og einn mesti síldarspekúlant samtíðar sinnar. Á sumrin fóru þær heim í fjörðinn fagra en voru fyrir sunna á veturna. Þær unnu svo hjá Feldinum og stofnuðu lokst ásamt þriðju konunni saumastofu og ráku hana í 5 ár. Sigríður saumaði mikið heima alla tíð meðfram húsmóðurstörfunum og vann hvers kyns störf sem í boði voru. Hún vann í fiski og þær systu fóru með móður sinni norður á Siglufjörð í síld og fylgdu svo göngu síldarinnar til Raufarhafnar. Þá var unnið daga og nætur eða eins og skrokkurinn þoldi.
Sigríður giftist Ólafi Þorsteini Sigurðssyni, sem fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1921 en lést 2. maí 1987. Hann var elstur 7 barna hjónanna Sigurðar Þorsteinssonar, kaupmanns á Freyjugötu 11 og fyrri konu hans, Lilju Marteinsdóttur. Með síðari konu sinni átti Sigurður 3 börn. Ólafur var því elstur 10 barna Sigurðar.
Í minningargrein Vikars um Ólaf segir:
„Ólafur átti að mörgu leyti erfið bernskuár. Móðir hans missti heilsuna á besta aldri og árin eftir fyrri heimsstyrjöldina og kreppuárin voru barnmörgum fjölskyldum þung í skauti.
Á unga aldri fór Ólafur til sumardvalar í sveit eins og títt var um kaupstaðarbörn og er raunar enn. Tólf ára gamall fer hann að heiman til lengri dvalar, eða til að vinna fyrir sér eins og sagt var. Með öðrum orðum alvara lífsins var tekin við. Hann var á ýmsum bæjum austan fjalls og raunar víðar. Ekki er að efa að slíkar aðstæður hafa sett mark sitt á lífsviðhorf hans síðar á ævinni. Það gefur augaleið að barnaskólanám hefur verið stopult, en barnaprófi (fullnaðarprófi) lauk Ólafur á tilsettum tíma í Mosfellssveit og var þá á Blikastöðum. Eftir það lá leið hans til Húsavíkur og hlaut hann þá nokkra kennslu hjá Friðrik A. Friðrikssyni, prófasti, og var Ólafi jafnan hlýtt til síra Friðriks og konu hans.
Sextán ára gamall er Ólafur aftur kominn til Reykjavíkur og vinnur þá ýmis störf er til féllu, m.a. á bifreiðaverkstæði hjá Steindóri Einarssyni. Snemma árs 1940 tekur hann meirapróf bifreiðastjóra og fer að aka leigu- og langferðabílum. Hann ók um skeið áætlunarbíl til Þingvalla hjá Gunnari Guðnasyni á BSÍ, en lengst af ók Ólafur eigin leigubifreið.
Eftir að hann hætti leigubílaakstri var hann allmörg ár við lager- og útkeyrslustörf hjá Miðstöðinni hf., en síðustu fimmtánárin starfaði hann í Álverinu í Straumsvík eða þar til á síðasta hausti að heilsa hans brást.“
Börn Sigríður og Ólafs eru:
Jóhanna Andrea f. 1944
Urður f. 1945 og
Leifur f. 1948.
Afkomendur Sigríðar eru nú 40.
Börnin hennar ólust upp í Holtunum en voru í sveit á sumrin í Hænuvík og Reykhólasveit. Það var góður tími að vera í sveitinn fyrir vestan og fá í sálina hina sérstöku birtu suðurfjarða Vestfjarðakjálkans þar sem skelin gerir strandir hvítar og sjóinn túrkisbláan í sólinni.
Hún hugsaði fyrst og síðast um heimilið, að allir hefðu nóg. Hún signdi börnin þegar hún færði þau í hreinan bol en langamma á Freyjugötunni kenndi þeim bænir og vers. Þau gengu í MIðbæjarskólann
Ólafur lést 1987 úr krabbameini og Sigríður hélt áfram sínum störfum. Hún hafði alla tíð saumað allar flíkur á börnin og alltaf fann hún einhversstaðar vinnu. Hún var söngelsk og söng ásamt systur sinni í Dómkórnum um árabil og einnig í Söngsveitinni Fílharmóníu. Fyrsti kórinn hennar var kvennakór Slysavarnarfélagsins.
Og nú er hún kvödd hér í Fossvogskapellu með fögrum söng, bænum og minningarorðum. Þannig kveðjum við Íslendingar fólkið okkar með virðingu og þökk.
Ég flyt ykkur sérstaka kveðju frá Andreu, dótturdóttur Sigríðar og manni hennar Sigurjóni sem eru á Ítalíu.
Minnst var á fegurð landsins í upphafi þessara minningarorða en fegurð mannsandans er líka mikil. Þau eru mörg sem unnið hafa sigra í lífinu þótt ekki fari hátt og engar myndir hafi birst í blöðum eða glanstímaritum. Flestir vinna sín störf í kyrrþey og njóta menningar og lista í hógværð hjartans. Sigríður unni söng og fegurð lífsins. Söngurinn kveikir töfra í hjörtum okkar þega við opnum munninn og leyfum vindbelgnum að blása um hljóðfæri barkans. Þá gerist eitthvað í sálinni sem skapar samhljóm og fær hjörtun til að titra. Skáldin yrkja með orðum og hljómum og gleðja okkur alla daga og nú njótum við fegurðarinnar hér í þessum fagra sal þar sem stórbrotið listaverk túlkar lífsgönguna með því að sýna mestu persónu mannkyssögunnar í ljósum og dimmum litum. Kristur lifði fegursta lífi sem lifað hefur verið og hann gekk í gegnum mestu þjáningu allra tíma er hann leið á krossi. Guð reisti hann upp frá dauðum og þess vegna komum við saman í húsi hans þegar við kveðjum látna.
Við felum Sigríði Davíðsdóttur honum sem hún var vígði í heilagri skírn sem ómálga barn og biðjum henni blessunar um leið og við þökkum fyrir líf hennar og störf.
Blessuð sé minning hennar og Guð blessi þig. Amen.
Sálmarnir 121:1-8
|
1Helgigönguljóð.
Ég hef augu mín til fjallanna,
hvaðan kemur mér hjálp?
2Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.
3Hann mun ekki láta fót þinn skriðna,
vörður þinn blundar ekki.
4Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,
hann, vörður Ísraels.
5Drottinn er vörður þinn,
Drottinn skýlir þér,
hann er þér til hægri handar.
6Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein
né heldur tunglið um nætur.
7Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
hann mun vernda sál þína.
8Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu
héðan í frá og að eilífu.
Matteusarguðspjall 5:1-48
|
1Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. 2Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
3„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
4Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
5Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
6Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
7Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
8Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
9Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
10Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.
11Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. 12Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.
13Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
14Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 15Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. 16Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.