Stefanía Ólöf Magnúsdóttir 1917-2014

Stefanía ÓlöfÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

Stefanía Ólöf Magnúsdóttir

„LÓA“

húsfreyja, verkakona, skáti

1917-2014

Hörpugötu 9 og 13B

 

Útför frá Neskirkju föstudagin 9. maí 2014 kl. 13 (fæðingardag eiginmanns hennar).

Ræðuna geturðu hlustað á og lesið hér fyrir neðan. Neðanmáls eru svo ritningarlestrar og sálmaskráin.

Náð . . .

Nú standa yfir svonefndir gleðidagar í kirkjunni en dagarnir frá páskum til uppstigningardags heita svo. Dagana 40 eftir páska sáu fylgjendur Jesú hann upprisinn og glöddust mjög. Hann birtist þeim aftur og aftur og eftir að hann hvarf þeim sjónum á uppstigningardag fóru þeir um allt og sögðu frá gleði sinni. Boðskapur þeirra var og er fagnaðarerindi, gleðitíðindi sem heimurinn þarfnast að heyra enn í dag.

Lífið er verkefni og við finnum það öll á eigin skinni að úrlausnarefnin eru krefjandi og við vanbúin til margs sem lífið færir okkur að leysa úr. Við finnum til vanmáttar og vitum að líf okkar er allt annað en fullkomið.

Þjóðfélagið sem við lifum í er flókinn vefur þar sem grunnstofnanir skipta miklu, fjölskylda, skóli, vinna, atvinnulíf og félagslíf. Í fjölskyldunni er lagður grunnur að farsælu lífi. Börn læra þar fyrstu samskipti við aðra, læra að virða aðra, komast af í samfélagi annarra. Skólarnir vinna sitt mikilvæga starf og atvinnulífið tekur svo við. En svo er það félagsstarfið sem skiptir ekki hvað minnstu máli. Kirkjan, íþróttahreyfingin og skátafélögin skipta miklu máli aðeins nokkur dæmi séu nefnd.

Ung kynntist Lóa skátastarfi og var sannur skáti alla ævin. Þar átti hún góða vini og naut þess að starfa og taka þátt í uppbygglegu starfi þar sem leikur og söngur er í hávegum hafður. Sjálfur var ég skáti sem barn og unglingur og á skemmtilegar minningar af fundum, útilegum og ferðalögum. Það var svo gaman að leika sér. Já, að leika sér. Er það ekki tilgangur lífsins? Eigum við ekki að leika okkur alla ævina? Hvernig væri ef við leyfðum okkur meiri leik og gleði í stað þrúgandi alvöru og áhyggju í dagsins amstri?

„Leikur eins og skák getur haft tilgang eins og til dæmis að skemmta mönnum, þjálfa rökhugsun og einbeitingu, safna stigum, vinna mót. Þessi tilgangur leiksins er algerlega utan við leikinn sjálfan og er til vegna þess að skákin er leikin af mönnum sem lifa sínu lífi utan við taflborðið og láta sig varða um þroska sinn, heiður og önnur gæði. Sama má segja um aðra leiki sem menn leika. Ef þeir hafa tilgang þá er það vegna þess að þeir eru hluti af einhverju stærra samhengi, veröld sem nær út fyrir leikinn sjálfan.“ (Atli Harðarson – af vefnum)

Og þá spyr ég um lífsleikinn sjálfan, hefur hann ekki tilgang vegna þess að hann er hluti af stærra samhengi? Við tengjumst öll á einn eða annan hátt og svo er Hann til sem öllu gaf líf og setti lífsleikinn af stað.

Hér hafa þrjú hugtök borið á góma, gleðidagar, fagnaðarerindi og lífsleikur og af þeim má leiða orði lífsgleði.

Við komum hér saman til að gleðjast og þakka fyrir líf mætrar konu sem við kveðjum með virðingu og þökk. Í dag er liðin 105 ár frá fæðingu eiginmanns hennar, Gunnars, sem lést 1984.

 

Stefanía Ólöf hét hún og fæddist á Hóli í Ólafsfirði 25. janúar 1917. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 30. apríl 2014.

Foreldrar Lóu eins og hún var kölluð voru Guðrún Jóna Ólafsdóttir og Magnús Grímur Ólafsson. Faðir hennar lést frá barnahópnum og þeim var komið fyrir hjá góðum fjölskyldum, Lóu hjá föðursystur sinni og manni hennar, Marsibil Ólafsdóttur og Kristni Þorsteinssyni.

Fóstursystir Lóu var Ólöf Kristinsdóttir og alsystkyn voru, Ingólfur, Sigríður Kristín, Pálína, Magnea, Steingrímur, Gunnlaugur og Margrét sem öll eru látin.

18. desember 1937 giftist Lóa, Gunnari Jósefsyni f. 9. maí 1909, d. 13. okt.1984, hann var frá Atlastöðum í Fljótavík á Hornströndum. Þar er mikilfengleg og fögur náttúra og öflin sterk í sjó og vindum. Hornstrandir hafa fóstrað marga sterka einstaklinga, karla og konur, í aldanna rás en það var Geirmundur Heljarskinn sem nam Fljótavík forðum daga.

Lóa og Gunnar eignuðust 6 börn og tóku að sér systurdóttir Lóu 6 ára gamla.

Börn:

1. Sigríður Kristín Árnadóttir, maki Skjöldur Stefánsson d. 2008. Skjöldur átti son sem er látinn. Saman áttu þau 4 börn: Pálínu Hrönn, Stefán, Árna Óttar og Skjöld Orra.

2. Kristinn Gunnarsson, maki Svava Ágústdóttir, þau eiga 3 börn: Áslaugu, Gunnar Hauk og Kristínu Rut.

3. Margrét Gunnarsdóttir, maki Þorlákur Baxter, þau eiga 3 börn: Katrínu, Arnar Þór og Sigríði Björk.

4. Jón Magnús Gunnarsson, maki Elín Þóra Magnúsdóttir, þau eiga 3 börn: Magnús Hrafn, Gunnar Atla og Lindu.

5. Bryndís Gunnarsdóttir, maki Reynir Guðmundsson, þau eiga 3 börn: Stefaníu Ólöfu, Halldór Albert og Thelmu Lind.

6. Gunnlaug Kristín Gunnarsdóttir, maki Páll Brynjar Arason, þau eiga 2 börn: Bryndísi Ósk og Ragnar Franz.

7. Elín Halla Gunnarsdóttir sem lést 5. ág. 1990, 29 ára gömu. Eftirlifandi maki hennar er Sæmundur Sigurðsson. Elín átti Elías Inga Árnason með Árna Pálssyni sem var mikið hjá ömmu í Skerjó.

Afkomendur Lóu og Gunnars eru 86. Hún fylgdist alla tíð vel með hópnum sínum, mundi brúðkauðsdaga barna sinna og afmælisdaga afkomenda. Það er mikið ríkidæmi að eiga slíkan hóp af myndarlegu fólki.

Sértstök kveðja hefur borist „til elsku ömmu Lóu“ frá Thelmu Lind, Hjalta og Michael Reyni sem eru stödd á Spáni. Einnig frá langömmubörnum Lóu, þeim Stellu Finnbogadóttur sem er stödd í Danmörku og Hákoni Þór og Daníel Frey á Akureyri.

Lóa var góð móðir sem gætti sinna vel og var vinur barna sinna. Þeim þótti gott að tala við mömmu eða skrifa henni bréf og fá hjá henni ráð. Hún var alltaf til staðar. Þannig var það á mörgum heimilum forðum og við erum mörg sem þekkjum öryggið sem skapaðist af því að vita af mömmu heima með hlýjan faðm, góðan mat, bakkelsi, hrein föt, sum saumuð af henni sjálfri og hlýja heimaprjónaða sokka. Þetta voru góðir dagar.

Lóa ólst upp í Ólafsfirði og á Siglufirði, þar vann hún m.a. í síld. Þar byrjuðu hún og Gunnar búskap, svo fluttu þau til Akureyrar. Gunnar var fjölhæfur maður, húsasmiður, skipasmiður og kafari og rak fyrirtæki fyrir norðan. Eftir að þau fluttu til Reykjavíkur 1955 vann hún ýmis störf svo sem í Ísbirninum, Flugeldhúsinu og Háskóalbíói. Gunnar sem hafði rekið slipp á Akureyri áður en þau fluttu suður vann fyrst hjá BP og síðan hjá Vita- og hafnarmálastofnun og rak trésmíðaverkstæði inn við Höfða um tíma. Hann dó úr krabbameini 1984 og hún hafði því verið ekkja í 30 ár er hún lést á 98. aldursári.

Þau bjuggu fyrst á Frammnesvegi 30 og svo á Hörpugötu 9 og 13b þar sem áður var Gústabúð.

Lóa var alla tíð virkur skáti og naut þess að vera með í þeim góða og uppbyggilega félagsskap. Á efri árum var hún í St. Georgs gildinu og átti þar marga góða vini.

Lóa var hógvær manneskja og yfirveguð sem tranaði sér ekki fram. Hún gat verið glettin og gamansöm og sagði t.a.m. við börnin að hún ætti lóð úti í bæ og vísaði þar með til grafar sinnar í Gufunesi.

Hún lagði alla tíð upp úr því við börnin að þau ættu að standa sig, vera heiðarleg og dugleg. Hún kenndi þeim grunngildi þau sem þjóðfélag okkar hefur byggt á í þúsund ár. Rifjað var upp þegar Elín heitin var stelpa að hún safnaði börnum saman fyrir utan heimili sitt og leiddi svo hópinn í sunnudagaskólann í Neskirkju. Í hverfinu þekktu öll börn konuna í Hörpugötunni sem þau kölluðu ömmu Lóu. Sjálf sótti hún starf í Neskirkju og þjónaði þar á margan hátt ásamt öðrum konum um árabil, fór í safnaðarferðir og tók virkan þátt í starfi kirkjunnar fyrir eldri borgara.

Börnin hjálpuðu til heima og svo báru þau út Morgunblaðið og svo tók Lóa við og sinnti því til 1983. Hún lét sig ekki muna um sporin í hverfinu og var ávalt viðbúin til góðra verka eins skáta er siður. Og nú berst Mogginn í hús með minningargreinum um mæta konu sem var trú í smáu sem sem stóru og vann sín verk af alúð og gleði. Hún sá um sig sjálf eftir að hún varð ekkja og eftir dvölina á Felli í Skipholti var hún á Vífisstöðum um tíma og naut þar bæði fegurðar umhverfis og þjónustu góðs fólks. Þá fór hún í Sóltún en þar var hún stuttan tíma, aðeins 3 sólahringa.

Lóa var barngóð og væn manneskja en henni var ekki fisjað saman. Hún gat verið hörð af sér eins og þegar hún lá heima með sprungin botlanga í 10 daga og ætlaði að láta sé batna en varð svo að fara í aðgerð þegar verkirnir voru orðnir óbærilegir.

Hún prjónaði alla tíð mikið, saumaði föt á hópinn sinn, var vandvirk og vinnusöm í hvívetna. „Hún mamma var alltaf að punta mig þegar ég var stelpa“, segir Sigríður Kristín og lýsir það vel elsku hennar og gleði yfir börnunum sem hún lifði fyrir.

Stefanía (eins og hún var kölluð af þeim sem önnuðust hana) dvaldi á Dvalarheimilinu Felli í Skipholti síðustu árin. Þar var hugsað vel um hana og á starfsfólkið miklar þakkir skilið fyrir umhyggju og elskusemi. Dagarnir í Sóltúni urðu þrír eins og fyrr sagði. Margt getur gerst á þrem dögum. Við vitum aldrei hvenær kallið kemur en það hlýtur að vera á næstu grösum hjá fólki sem komið er vel á tíræðisaldur.

Kristur var þrjá daga í gröf sinni uns Guð reisti hann upp. Með dauða sínum og upprisu sigraði Kristur dauðann sjálfan, mesta óvin mannsins. Það var lokaleikur Guðs í tafli lífsins, mátleikur í lífsleiknum mikla. Guð hefur í Kristi unnið skákina og við peðin fögnum á gleðidögum yfir því að eiga lífið í Kristi, eiga lífið hér og nú sem er vettvangur lífsleiksins.

Njótum lífsins og leikum okkur. Guð gleðst án efa yfir börnum sínum sem kunna að leika sér eins og hún Lóa gladdist yfir sínum börnum í þeirra leit að þroska og betri skilningi á lífinu.

Lífið er leikur á taflborði Guðs. Njótum þess að vera til og þökkum fyrir að hafa átt Lóu sem samferðakonu.

Blessuð sé minning Stefaníu Ólafar Magnúsdóttur og Guð blessi þig. Amen.

Tilkynningar:

Sign yfir í forkirkju. Kaffi og svo í garð. Ræða á vefnum.

Postulleg kveðja: Guð vonarinnar . . .

 

Sálmarnir 121:1-8

1Helgigönguljóð.
Ég hef augu mín til fjallanna,
hvaðan kemur mér hjálp?
2Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.
3Hann mun ekki láta fót þinn skriðna,
vörður þinn blundar ekki.
4Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,
hann, vörður Ísraels.
5Drottinn er vörður þinn,
Drottinn skýlir þér,
hann er þér til hægri handar.
6Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein
né heldur tunglið um nætur.
7Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
hann mun vernda sál þína.
8Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu
héðan í frá og að eilífu.

Filippíbréfið 4:4-7
4Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. 5Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. 6Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. 7Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.
Jóhannesarguðspjall 14:1-6
Vegurinn, sannleikurinn, lífið

1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.

Salmaskra Stefanía Ólöf copy

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.