Minningarorð
Magnús Guðmundsson
húsateiknari frá Aðalvík
1925-2014
Kvisthaga 3
Útför (bálför) frá Neskirkju fimmtudaginn 8. maí 2014 kl. 13
Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Sálmaskráin er neðst og ritningarlestrar.
Náð . . .
„ . . . fegurst er í Aðalvík.“
Hann gengur berfættur í hvítum sandinum og fyrir Kleifarháls sem skilur að víkurnar. Þar er skafl þótt komið sé langt fram á sumar. Sólin er heit þennan dag. Um kvöldið horfir hann á sólina snerta hafflötinn og rísa upp á ný þar sem Víkin veit mót vestri. Hann hafði þá gengið á Straumnesfjall í nýju strigaskónum úr kaupfélaginu á Ísafirði og séð til Grænlandsjökuls í hyllingum við sjóndeildarhringinn. Þetta er minning sem greipt er í huga hans, ein fegursta upplifum æskuáranna.
Og nú stendur hann hér við altari Neskirkju og kveður einn af sonum Aðalvíkur.
Þetta var um miðjan sjöunda áratug liðinnar aldar en þá var Aðalvík ekki lengur í byggð en sumt af fólkinu sem þar hafði búið var sest að á Ísafirði eða hér fyrir sunnan, í Reykjavík, Keflavík og víðar, myndarlegt og duglegt fólk upp til hópa.
Magnús fæddist að Þverdal í Aðalvík, Sléttuhreppi, Norður-Ísafjarðarsýslu, 18. október 1925.
Foreldrar hans voru Guðmundur Snorri Finnbogason, fæddur að Sæbóli í Aðalvík og kona hans Jónína Sveinsdóttir, fædd í Selhaga á Skörðum, Austur Húnavatnssýslu.
Guðmundur Snorri og Jónína fluttu að Þverdal í Aðalvík árið 1920 og bjuggu þar til ársins 1945. Þá brugðu þau búi og fluttu til Reykjavíkur og bjuggu þar til æviloka.
Systkini Magnúsar voru Finnbogi Ingimar, Garðar Hannes, Margrét Sólveig og Sveinn Benedikt og Sturla Jósef Sigurður Sturluson (fósturbróðir). Þau eru öll látin. Jónína Garðarsdóttir, sonardóttir þeirra Guðmundar Snorra og Jónínu ólst upp hjá þeim til fullorðinsára.
Hann kom hingað suður tvítugur og kynntist lífsförunauti sínum og kvæntist 1. janúar 1950 Hallveigu Hannesdóttur, Höllu, fæddri 3. október 1927. Hún lést 24. maí 2013. Foreldrar hennar voru Guðrún Guðbjörnsdóttir, fædd að Kolbeinsstöðum í Miklaholtshreppi og Hannes Elísson frá Berserkseyri í Eyrarsveit á Snæfellsnesi.
Fyrsta barnið, Guðrún, leit dagsins ljós 13. júlí 1950, eiginmaður hennar er Halldór Gunnar Halldórsson. Þá fæddust þeim tvíburar f. 24.júlí 1957, Gylfi og Gauti. Eiginkona Gylfa er Elín Soffía Ólafsdóttir og eiginkona Gauta var Hanna Sofie Jörgensen, sem lést árið 2006.
Barnabörnin eru Guðrún Eygló Bergþórsdóttir, eiginmaður hennar er Gunnar Wiencke. Magnús Halldórsson, unnusta hans er Jenný Lára Lund. Magnús og Ragnar Gautasynir og Tryggvi og Egill Gylfasynir.
Barnabarnabörn Höllu og Magnúsar eru: Viktoría Rut, Matthías Ragnar, Jóakim Enok, Dagbjört Eva og Ronja Sóley.
Magnús stundaði nám við Iðnskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi í húsasmíði 1948. Þau Halla byggðu sér hús að Kvisthaga 3 í Reykjavík og bjuggu þar alla tíð.
Þau höfðu aðeins verið gift í 2 ár þegar Magnús hélt utan til náms 1952 við Tækniskólann í Kaupmannahöfn. Hann var þar í fjögur ár og útskrifaðist þaðan sem byggingafræðingur árið 1956. Þetta var mikil ákvörðun á þeim tíma og þurfti djúpa elsku og þrautseigju beggja til. Þau voru þá búin að byggja við Kvisthagann en Halla leigði meðan á námi Magnúsar stóð hjá foreldrum sínum á Snorrabraut 35. Hún vann hjá Brunabótafélagi Íslands en Guðrúnar gættu amma og afi meðan mamma var í vinnunni. Svona gekk þetta fyrir sig og lukkaðist vel og fljótlega eftir að Magnús kom til baka litu tvíburarnir dagsins ljós.
Að loknu námi ytra vann Magnús sem húsateiknari. Fyrst um sinn á teiknistofu landbúnaðarins og fleiri teiknistofum, en lengst af starfaði hann á stofu sem hann og félagi hans, Þorvaldur Kristmundsson, arkitekt, stofnuðu.
Magnús hafði alla tíð yndi af ferðalögum og útiveru. Þau hjónin byggðu sér sumarbústað við Hafravatn í Þormóðsdal og undu þar löngum stundum. Þau tóku við gróðursnauðu og uppblásnu landi, hlúðu að því og ræktuðu, svo þar er nú skógivaxinn unaðsreitur.
Magnús hafði gaman af lestri bóka og sérstakt yndi af ljóðalestri og tónlist. Hann söng um árabil í Karlakór Reykjavíkur og kirkjukór Dómkirkjunnar. Þau hjónin sóttu um margra ára skeið tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og stunduðu leikhúsferðir. Þau fóru í sund á hverjum degi í Sundlaug Vesturbæjar á meðan heilsan leyfði og reglulegar gönguferðir. Var þá gjarnan gengið meðfram Ægisíðunni, út í Skerjafjörð eða út á Seltjarnarnes.
Ég hitti Magnús stundum á förnum vegi og við tókum tal saman. Hann hafði gaman af að ræða við prestinn um ýmis málefni. Kom kímni hans og glettni þá gjarnan í ljós. Eitt sinn ræddum við eilífðarmálin í sturtu í Vesturbæjarlauginni. Magnús og Halla komu stundum til helgihalds hér í Neskirkju. Síðast hitti ég þau á Ægisíðunni þar sem þau gengu saman sér til heilsubótar, glæsileg hjón og vel á sig komin. Það hefur líklega verið fyrir 2 árum eða svo en fyrir tæpu ári jarðsöng ég Höllu hér í Neskirkju.
Á sumrin ferðuðust Magnús og Halla innanlands sem utan. Þau heimsóttu meðal annars syni sína og tengdadætur í Kaupmannahöfn og hafði Magnús gaman af því að vitja fornra slóða námsáranna þar í borg. Æskuslóðirnar í Aðalvík og Þverdal skipuðu alla tíð sérstakan sess í hjarta Magnúsar. Þverdalssystkinin fóru þangað margar vinnu- og skemmtiferðir með fjölskyldum sínum. Þá var glatt á hjalla og sungið fram á rauða nótt og ætíð sungið Sól að hafi hnígur. Þá titruðu gjarnan hjörtun og augun vöknuðu.
Sem faðir og uppalandi lagði Magnús áherslu á heiðarleika og trúmennsku í mannlegum samskiptum. Hann trúði að jafnrétti væri mönnum fyrir bestu og að forsenda framfara væri menntun. Mikilvægt væri að börn nytu sömu tækifæra og réttinda til mennta. Hann lifði mikla breytingatíma. Hann fæddist í torfbæ á Hornströndum og varð síðan vitni að tunglferðum manna og netbyltingunni. Hann var hugvitsmaður og hreifst mjög af tækniframförum samtímans. Þegar hann kom að verkefnum, hugsaði hann jafnan hvort og þá hvernig mætti bæta vinnuaðferðir. Hann hannaði og smíðaði t.d. færiband til að flytja áburð frá veginum við Hafravatn og inn á sumarbústaðarlóðina, þegar skógræktin stóð þar sem hæst. Magnús var mjög handlaginn og smíðaði fjölda muna bæði stóra og smáa, og skipti þá ekki máli hvort unnið var í tré eða járn. Á efri árum sótti hann bókbands- og tréskurðarnámskeið og hafði gagn og gaman af.
Magnús var félagslyndur og glaðvær í fasi og hafði góða kímni- og frásagnargáfu. Síðustu ár ævinnar greindist hann með Alzheimer sjúkdóm sem að lokum dró hann til dauða. Þrátt fyrir að sjúkdómurinn ágerðist tapaði hann aldrei húmornum. Hann gat þulið upp stóru og litlu spámennina, með blik í auga, sér og börnum sínum til skemmtunar, seinast nokkrum dögum fyrir andlát sitt. Og alltaf hreif hann söngurinn. Þegar börnin komu í heimsókn var gjarnan sungið og þá skein sól í sinni og allt varð bjart. Hann söng við raust í seinasta stórafmæli Sveins bróður en þeir voru báðir söngmenn.
Magnús lést á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík, 19. apríl síðastliðinn.
Ástvinir Magnúsar vilja þakka læknum og hjúkrunarfólki á Grund fyrir hlýja og kærleiksríka umönnun.
Ævisól Magnúsar er gengin til viðar og samkvæmt kristinni trú rís hún á ný eins og sumarsólin úti fyrir Víkinni. Um þennan leyndardóm og undur hafa skáldin ort eins og t.a.m. Sigurður Kristófer Pétursson en sálmur hans Drottinn vakir birtist fyrst í sálmabók Þjóðkirkjunnar árið sem Magnús flutti til Reykjavíkur:
Þegar æviröðull rennur,
rökkvar fyrir sjónum þér,
hræðstu eigi, hel er fortjald,
hinum megin birtan er.
Höndin, sem þig hingað leiddi,
himins til þig aftur ber.
Drottinn elskar – Drottinn vakir
daga’ og nætur yfir þér.
Þessi er trúin sem kynslóðirnar hafa öðlast af styrk og von í aldanna rás, fólkið sem varð að leggja sig allt fram til að komast af við erfiðar aðstæður á stuttu sumri við ólgandi haf.
Sterkir stofnar uxu upp úr Víkinni, duglegt og hæfileikaríkt fólk, mótað af máttugum öflum náttúru og umhverfis og af hvert öðru í leik og störfum.
Við kveðjum Magnús Guðmundsson með virðingu og þökk fyrir líf hans og störf. Blessuð sé minning hans og Guð blessi þig.
Amen.
Sálmarnir 121:1-8
|
1Helgigönguljóð.
Ég hef augu mín til fjallanna,
hvaðan kemur mér hjálp?
2Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.
3Hann mun ekki láta fót þinn skriðna,
vörður þinn blundar ekki.
4Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,
hann, vörður Ísraels.
5Drottinn er vörður þinn,
Drottinn skýlir þér,
hann er þér til hægri handar.
6Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein
né heldur tunglið um nætur.
7Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
hann mun vernda sál þína.
8Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu
héðan í frá og að eilífu.
Filippíbréfið 4:4-7
|
Jóhannesarguðspjall 14:1-6
|
1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.