Ragnheiður Jónsdóttir 1932-2014

Mynd Ragnheiður Jónsdóttir copyÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

Ragnheiður Jónsdóttir

1932-2014

fv. kaupkona í Tízkuverslun Guðrúnar

Útför (bálför) frá Dómkirkjunni þriðjudaginn 22. apríl 2014 kl. 13. Jarðsett verður í Sóllandi.

Hægt er að hlusta á ræðuna og lesa hana hér fyrir neðan. Sálmaskráin, ritningarlestrar og kveðja sem flutt var frá Sigríði og Vigfúsi á Laxamýri er neðanmáls.

Við komum hér saman í páskavikunni sjálfri þegar gleðidagarnir ríkja en svo er dagarnir 40 nefndir frá páskum til uppstigningardags.  Þeir vísa til daganna sem postular Jesú og nánustu vinir sáu hann upprisinn. Í Jóhannesarguðspjalli segir:„Lærisveinarnir urðu glaðir er þeir sáu Drottin.“ (Jóh.21.20) Gleðidagarnir vísa til þeirrar gleði endurfunda og eftirvæntingar.

Íhugunartextar kirkjunnar sunnudagana eftir eftir páskar eru flestir úr Jóhannesarguðspjalli. Stef gleðidaganna eru samfélagið við hinn upprisna Drottin í ljósi kveðjuroða hans þegar hann ræddi við lærisveina sína og vini um aðskilnað og endurfundi og komu heilags anda. Einn af textunum er þessi: „Ég er góði hirðirinn… Ég þekki mína og mínir þekkja mig….Ég gef þeim eilíft líf.“
Nú þegar sumarið nálgast og náttúran vaknar af vetrardvala þá er gott að íhuga þessi stef og sjá lífið í ljósi páskanna sem segja að sorgin sé að baki og dauðinn sigraður. Birta páskanna lýsir upp öll él og hret, vonbrigði og mótlæti og gefur nýja von á sorgarstund.

Ég er góði hirðirinn, sagið Jesús og hann þekkti líka Davíðssálminn góða sem hefst á þessum orðum: Drottinn er minn hirðir. Myndmálið er skýrt, Guð er hirðir sem gætir hjarðar sinnar og Jesús er holdtekja þeirrar umhyggju og elsku á meðal manna.

Ragnheiður var alin upp í sveit. Hún þekkti sveitastörf og umhyggju fyrir dýrum. Hún var næm og umhyggjusöm gagnvart lífinu og annaðist oft veik dýr í æsku.

Kærleikurinn var henni í blóð borin og ömmuhjartað var næmt fyrir þörfum barnabarnanna eftir að þau komu eitt af öðru.

Ragnheiður fæddist að Skörðum í Reykjahverfi,  Suður- Þingeyjarsýslu 18. desember árið 1932. Hún lést á Landspítalanum 10. apríl 2014.

Foreldrar hennar voru hjónin Jón Þórarinsson bóndi  frá Valþjófsstöðum í Múlaþingi, f. 12 nóvember 1895, d. 29 október 1984 og Sólveig Jónsdóttir frá Skörðum, f. 30 september 1899, d. 25 desember 1982.

Systkini Ragnheiðar eru:  Þórarinn Jónsson , f. 6 ágúst 1926, bóndi í Skarðaborg, giftur Sigurveigu Kristjánsdóttur frá Klambraseli en hún lést árið 2000. Stefán Jón Jónsson f. 6 maí 1929, d. 30 aríl 1985, skólastjóri og bóndi að Kúfhóli í Austur-Landeyjum. Eftirlifandi eiginkona Stefáns er Guðrún Lára Sigurðardóttir frá Kúfhóli  í Austur- Landeyjum. Þuríður Hill, f. 21 febrúar 1935, búsett í Bandaríkjunum, gift Bob Hill fyrrum kennara.

Samband systkinanna var alla tíð náið og gott og þau fylgdust vel með hvert öður af þeirri elsku sem þeim var í blóð borin.

Einkabarn Ragnheiðar er Ragnar Þór, f. 4. janúar 1957, lögregluvarðstjóri. Faðir Ragnars var Árni Scheving tónlistamaður sem lést árið 2007.

Ragnheiður var 24 ára þegar hann fæddist og ekkert varð úr sambandi þeirra Árna. Ragnar fékk skjól í Skörðum hjá ömmu og afa og naut þar einstaks atlætis og umhyggju alla tíð. Mamma fylgdist vel með drengnum sínum og Árni hafði samband við hann alla tíð.

Hún giftist síðar Sigurbirni Ingþórssyni, tónlistarmanni en það samband var erfitt og stormasamt og leiðir skildu. Sigurbjörn er látinn (f. 17.7.1934 – d.6.7.1986)

 

Ragnar eignaðist þrjú börn með fyrri konu sinni, Maríu Sigmundsdóttur en þau eru:

Sólveig Unnur, f. 24 janúar 1979, söngkennari í Vestmanneyjum, unnusti Ásgeir Páll Ágústsson.

Árni Þór, f. 26 mars 1983 viðskiptafræðingur, búsettur í Bandaríkjunum, kvæntur Viktoríu Rós Gísladóttur. Þau senda kveðju sína hingað í dag og þakka fyrir elskusemi ömmu og umhyggju alla tíð.

Kjartan Már, f. 16 júlí 1990 pípulagningamaður, búsettur í Reykjavík.

Seinni kona Ragnars er Bríet Olga Dmitrieva. Saman eiga þau dótturina Agneu Snærós, f. 21 janúar 2012. Fyrir á Bríet Olga börnin Tómas Arnar, f. 23 apríl 2001 og Alexsöndru Olgu, f. 2 ágúst 2002.

Barnabörnin voru henni afar kær og hún spurði ætíð um þeirra hag og líðan. Í hvert sinn sem nýtt barn sá dagsins ljós var hún mætt með sinn faðm og bros. Yngsta ömmustelpan fékk óskipta athygli og hún kallaði hana ýmist Puntstráið, Rósina, Littlu-Dís eða Englabarnið.

Árið 1985 urðu þáttaskil í lífi Ragnheiðar þegar Sigurður B. Markússon, f. 1 nóvember 1927, fyrrum hljóðfæraleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, tónlistakennari og kórstjóri, kom inn í líf hennar. Hann var lífsförunautur hennar allt til dauðadags. Þau bjuggu að Óðinsgötu 32b. Samband þeirra var afar kærleiksríkt og fagurt og Sigurður annaðist hana af mikilli umhyggjusemi og elsku í veikindum hennar síðustu misserin og lagði mikið á sig til að vera henni til trausts og halds. Börn Sigurðar létu ekki sitt eftir liggja og reyndust Ragnheiði afar vel. Þau eru: Ragnar, f. 28 febrúar 1953, framhaldskólakennari, giftur Margréti Jónsdóttur; Markús, f. 13 desember 1959, tæknifræðingur, kvæntur Kristínu Kristinsdóttur og Styrmir, f. 30 nóvember 1967, kvikmyndagerðamaður, kvæntur Halldóru Guðrúnu Ísleifsdóttur.

Ragnar og fjölskylda hans eru Sigurði og hans fólki afar þakklát fyrir góð kynni og allt það sem þau voru móður hans bæði á góðum dögum og ekki síður þegar halla tók undan fæti hjá henni.

Ragnheiður stundaði barnaskólanám í sinni heimasveit. Hún fór síðan til náms í tvo vetur að Laugum í Reykjadal. Ung að árum fluttist hún til Reykjavíkur og m.a. hóf leiklistarnám undir stjórn Ævars R. Kvarans. Ragnheiður hafði mikinn áhuga á því sem laut að fatatísku og almennt að góðu útliti og klæðnaði fólks. Stærstum hluta starfsæfi sinnar var Ragnheiður verslunarstjóri og síðar einn af eigendum tískuverslunarinnar Guðrúnu að Rauðarárstíg 1 í Reykjavík. Sú verslun var á þeim tíma leiðandi í kventískufatnaði.

Hún kom ung til Reykjavíkur, sveitastúlkan, næm á fegurð lífsins, tónlist og tízku, fagra liti blóm og ólíka birtu árstíða.

Hún hafði næmt eyra fyrir músík og oft kallaði fögur tónlist fram tár á kinn. Henni þótti afar vænt um íslenska tónlist og þekkti gjarnan nöfn höfunda bæði texta og tónlistar og segist Ragnar oft hafa flett upp í hennar minni hvað þetta varðar og svo tók hún stundum lagið til að undirstrika þekkingu sína.

Ragnheiður var verslunarstjóri og síðan einn af eigendur tízkuverslunnar Guðrúnar að Rauðarárstíg 1 í Reykjavík. Á þeim tíma var verslunin í fremstu röð verslana sem seldu kvenfatnað hér á landi.  Þegar mikið lá við og allt stefndi í fínar veislur hér í borg þá leituðu margar konur ráða hjá Ragnheiði sem gerði þær að prinsessum og drottningum með næmu auga sínu og smekk. Fv. forseti Íslands, naut oft þjónustu hennar við val á klæðnaði við ýmis opinber tækifæri.

Ragnheiður var afar næm og tilfinningarík en bar þó ekki tilfiningar sínar á torg.

Hún var trúuð kona og bænrækin og vissi sig vera barn Guðs alla tíð.

Hún var hreinskiptin og ákveðin. Hún hafði alla tíð sterkar skoðanir á þjóðmálum og fylgdi Sjálfstæðisflokknum að málum.

Sterkur strengur var alla tíð milli hennar og einkasonarins og hún fylgdist vel með öllu í lífi hans og fjölskyldu hans, ræddi sigra og góða áfanga í lífi þeirra og sagði öðrum stolt frá sínum.

Hugur hennar leitaði oft norðu að Skörðum. Bernskudagarnir rifjuðust upp og allt það góða sem hún lærði þar og naut. Skörð voru staðurinn hennar enda þótt hún hafi dvalið mestan hluta ævi sinnar hér syðra. Hún lærði það í bernsku að hlusta á útvarpið sem kom í sveitina 2 árum áður en hún fæddist. Útvarpið breytti Íslandi, menningin varð almanna eign og hvert heimili tónleikasalur og leikhús, fréttastofa og upplýsingamiðstöð. Alla tíð hlustaði hún á veðurfregnir í útvarpinu og þær voru henni sem helgistund. Hún vissi hvern dag hvernig vindar blésu á miðum og annesjum, inn til dala og uppi á hálendi. Ragnar segist hafa gætt sín á því alla tíð að hringja aldrei í hanna meðan veðurfregnir voru lesnar eða landsleikir í handbolta eða fótbolta voru í sjónvarpinu!

Þegar árin færast yfir verður uppruninn og æskustöðvarnar oft áleitnar. Við leitum rótanna og þess sem við best þekkjum og fegurst.

Ræturnar eru ekki aðeins í landi og umhverfi, sveit og sýslu, heldur liggja þær dýpra. Við erum gestir og útlendingar á þessari jörð, segir í hinni helgu bók og borgarskáldið Tómas sagði að lifið væri ferðalag og við værum gestir. Heimkynni okkar eru í himni Guðs og þangað stefnum við, í faðm góða hirðisins.

Ragnheiður hefur lokið góðu og fögru lífsverki og er hér kvödd af þakklátum ástvinum og samferðafólki. Við biðjum Sigurði blessunar og góðra daga og Ragnari og fjöskyldu hans gæfu og gengis.

Ég flyt ykkur sérstaka kveðju frá Jóni Þórarinssyni, bróðursyni Ragnheiðar sem komst ekki vegna veikinda.

Blessuð sé minning Ragnheiðar Jónsdóttur. Guð blessi hana og okkur dagana sem við eigum eftir á lífsveginum. Blessi hann heimkomu hennar og okkar í fyllingu tímans.

Að lokum læt ég hljóma hér hina fornu páskakveðju:

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum ands. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Tilkynningar:

Bálför, ekki hefðbundin líkfylgd. Signt yfir á kirkjuhlaði eða í bíl.

Erfi í Iðnó.

Jarðsett verður í Sóllandi.

Ræðan birt á vefsíðunni: ornbardur. com

Takið postullegri blessun:

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.

Ritningarlestrar:

Filippíbréfið 4.4-7

4Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. 5Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. 6Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. 7Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Markúsarguðspjall 16.1-7

Hann er upp risinn

1Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. 2Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. 3Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ 4En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór.5Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.
6En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. 7En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“

 

Salmaskra Ragnheidur Jonsdottir copy

 

Kveðja frá Laxamýri. SMELLTU Á TEXTANN ÞÁ STÆKKAR HANN!

Kveðja frá Laxamýri við útför Ragnheiðar Jónsdóttur

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.