Haukur Hergeirsson 1931-2014

Haukur HergeirssonÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

Haukur Hergeirsson

fv. ljósamaður og tæknistjóri

Sjónvarpsins

1931-2014

Bálför í Fossvogskepellu

þriðjudaginn 22. apríl 2014 kl. 15

Jarðsett í Sóllandi

Þú getur hlustað á ræðuna og lesið hér fyrir neðan. Ritningarlestrar eru birtir neðanmáls og sálmaskrá einnig.

Í vetur fór fram val á fegurstu orðum íslenskrar tungu. Eitt þeirra orða sem skoraði hátt var starfsheitið ljósmóðir og skal engan undra. Konan sem tekur á móti barni sem sér ljósið í fyrsta sinn gegnir göfugu hlutverki og hefur gert um aldir. Ljósið er okkur hugleikið enda erum við af ljósi orðin. Sólin er upphaf alls lífs á jörðu. Ljósið skiptir okkur öllu máli.

Haukur var ljósamaður. Hann lýsti upp verkefni sín og samstarfsmanna í Sjónvarpinu um árabil. Það er göfugt hlutverk að varpa ljósi á veruleikann. Ljósamenn skálda með geislum ljóss og skapa með því birtu og skugga í senn. Ljós og skuggar eru andstæður. Lífið er fullt af andstæðum og mótsögnum og það er einmitt það sem gerir það svo krefjandi og spennandi í senn. Lífið er líka óvissuferð því enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Haukur fæddist í Reykjavík 24. ágúst 1931 og lést 1. mars 2014. Foreldrar hans voru Ragnheiður Þórðardóttir og Hergeir Elíasson. Hann ólst upp á Kaplasjólsveginum ásamt þremur systkinum sínum, Valdimari, Herdísi (d. 2009) og Elíasi.

Hauk þekkti ég ekki nema af afspurn, heyrði nafnið hans og sá það á skjánum í kreditlistum í gegnum tíðina en bræðrum hans kynntist ég og þekki þá af góðu einu. Valdimar kenndi mér hagfræði í Verslunarskólanum og ég man að við þurftum að vera fljót að skrifa eftir honum það sem hann ritað á ofurhraða á töfluna hverju sinni. Elíasi og Bíbí tengdist ég svo með öðrum hætti eins og ykkur er mörgum kunnugt og hef fylgst með þeim góðu hjónum í gegnum tíðina og þeirra fjölskyldu.

Valdimar og Elías sýndu Hauki mikla umhyggju og hlýju í veikindum hans og heimsóttu hann reglulega. Ræktarsemi þeirra var einstök og vill Kolbrún og fjölskyldan þakka það af heilum hug.

Íþróttir tóku strax á unga aldri hug Hauks allan og þá helst einstaklingsíþróttir, fimleikar, skíðamennska, hlaup og hjólreiðar. Knattspyrna og aðrar hópíþróttir voru honum ekki eins hugleiknar en auðvitað var hann í fótbolta þegar hann var yngir eins og bræður hans en kannski vildi hann marka sér sérstöðu með því að stunda fremur aðrar greinar en hópíþróttir enda hæfðu þær karakter hans betur en hinar.

Árið 1962 kvæntist Haukur Steinunni Kolbrúnu, dóttur hjónanna Guðríðar Aradóttur og Egils Sigurðssonar. Hún ólst upp í Eskihlíðinni ásamt Hrafnhildi systur sinni.

Svo komu börnin eitt af öðru, Egill Bergmann, Haukur, Guja Dögg og Arngeir Heiðar.

Haukur yngri, fæddist alvarlega skertur og það var mikið áfall og erfitt en hann hefur dvalið á stofnunum frá því í bernsku.

Barnabörn Hauks og Kolbrúnar eru fjögur, Sigtryggur, Arnór Kári, Dagur og Andri.

Haukur var stoltur af fjölskyldu sinni og lagði sig alla tíð fram um að vera þeim góður faðir, tengdafaðir og afi.

Vinna var honum mikils virði. Hann átti gott samstarfsfólk og marga kunningja á lífsleiðinni en var þó alla tíð sálfum sér nógur.

Íslenska sjónvarpið hóf starfsemi sína 1966 og ári síðar hóf Haukur störf þar sem ljósameistari eftir að hafa verið í starfsnámi hjá sænska sjónvarpinu. Hann blómstraði í þessu umhverfi og unni hag sínum vel, var vinsæll starfsfélagi og góður fagmaður. Síðar varð hann tæknistjóri og starfaði sem slíkur til sjötugs er hann fór á eftirlaun. Hann hefði svo gjarnan viljað vinna lengur þrátt fyrir að hafa orðið fyrir áfalli árið 1999 þá 68 ára, fékk heilablóðfall sem olli því fyrst um sinn að hann rataði ekki eins og áður. Hann átti þó ágæt ár framundan en varð svo aftur fyrir áfalli árið 2006 sem skerti getu hans mjög til allrar tjáningar. Hann þurfti mikla umönnun siðustu misserin. En svo gerðist nokkuð sérstakt þegar haldið var upp á 75 ára afmælið hans árið 2006 og fjölskyldan fagnaði með honum með söng og tónlist þá hóf hann allt í einu upp raust sína og tók undir í lagi sem hann þekkti vel. For he’s a jolly good fellow. Þá var eins og losnuðu höft í huga hans og söngurinn ómaði.

Nú stendur yfir tími skíðamanna og enn er nægur snjór. Haukur var góður skíðamaður naut sín vel í brekkum og vildi auðvitað kenna Kolbrúnu á skíði á sínum tíma en það vildi nú ekki betur til en svo að hún fótbrotnaði í fyrstu kennslustundinni! Hún átti nú samt eftir að standa á skíðum og renna sér brekkurnar með honum og njóta útiveru í árum saman. Þau fóru oft í Skálafell en þar voru fjölskylduvænar brekkur og hættur minni. Haukur var Ármenningur í grunninn en átti skjól hjá KR í Skálafelli þegar hann fór með fjölskyldunni á skíði.

Þau Kolbrún áttu saman góða daga, ferðuðust um landið og fóru í margar útlilegur með börnin og svo til útlanda þegar utanferðir urðu almennari en áður.

Haukur var fremur dulur um sín innri mál, flíkaði ekki trú sinni, en taldi sig berdreyminn. Þau hjónin létu pússa sig sama heima hjá frænda Hauks, séra Þorsteini Fríkirkjupresti  á sínum tíma og áttu gullbrúðkaup 1. desember 2012.

Hvað skipti Hauk mestu, spurði ég þær systur, Kolbrúnu og Hrafnhildi þegar við vorum að undirbúa þessa kveðjustund. Svar þeirra var: Að vinna sín störf af alúð og fagmennsku, að sjá fyrir fjölskyldunni og stunda hreyfingu og útivist.

Hans er minnst með þökk en um leið var um það beðið að hér yrði ekki flutt löng ræða og alls ekki væmin lofræða heldur stutt hugvekja með æviágripum. Ég vona að mér takist að uppfylla þær óskir.

 

Við minnumst góðs drengs og þökkum fyrir lífið hans.

Sérstakar kveðjur hafa borist frá börnum mágkonu Hauks, Agli Briem og fjölskyldu á Ítalíu og Þóru Björg Briem og fjölskyldu í Svíþjóð.

Í upphafi minntist ég á ljósið. Nú birtir meir og meir með hverjum deginum. Sumarið er á næsta leyti. Sumardagurinn fyrsti er ekki kirkjulegur dagur sem slíkur en hann er í mínum huga einn mesti trúardagur Íslendinga því hér á landi er haldið upp á það að sumarið sé komið hvort sem snjóar eða sólin skín. Við segjum gleðilegt sumar í trúnni á að sumarið komi með sól og yl. Við væntum sumars þrátt fyrir aðstæður. Trúin sem slík er skilgreind á einum stað í allri Biblíunni: „Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“

Trúin er því í grunninn von um eitthvað gott.

Jesús Kristur sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem trúir á mig mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“ En hann sagði líka þetta um fylgjendur sína: „Þér eruð ljós heimsins. Þannig lýsi ljós yðar á meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“

Hann er ljós heimsins og við erum ljós heimsins, kölluð til að lýsa heiminn upp, vera ljósameistarar hvert á sínu sviði.

Vonir okkar beinast líka að því sem tekur við og í því sambandi minni ég á orð Jesú sem margir muna af myndum í sjónvarpi og af ljósmyndum, orðin sem eru yfirskrift í sáluhliði kirkugarðsins í Vestmannaeyjum: „Ég lifi og þér munuð lifa.“

Öll þessi máttugu orð um ljós og líf sem hér hafa verið tilgreind hafa gefið fólki von um aldir og árþúsund. Leyfum hjartanu að ráða og sjá lífið í sínu stóra samhengi þar sem gáturnar leysast og böl og þjáning verða að baki.

Í dag er hér sungið í minningu góðs drengs og auðvitað tökum við lagið sem hann söng síðast glaður í bragði þrátt fyrir fjötra sjúkdóms og áfalla. Sá atburður var í vissum skilningi einskonar tákn um upprisu, lausn úr fjötrum. Hin kristna von sér lífið einmitt þannig að það losni að lokum úr þeim fjötrum og skorðum sem þessi tilvera setur því. Og táknrænt er það að mállaus maður hafi sungið af gleði því í himninum ómar lofsöngur í myndmáli höfunda Nýja testamentisins.

Hauks er minnst með söknuði og þökk og vonandi verður okkar sjálfra líka minnst þannig í fyllingu tímans.

Guð blessi minningu Hauks Hergeirssonar og blessi Guð þig og allt þitt fólk. Amen.

 

Ritningarlestrar:

Filippíbréfið 4.4-7

4Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. 5Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. 6Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. 7Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Markúsarguðspjall 16.1-7

Hann er upp risinn

1Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. 2Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. 3Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ 4En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór.5Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. 
6En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. 7En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“

sálmaskrá Haukur Hergeirsson-2

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.