Karl Guðmundsson 1924-2014

karlgudmundssonÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Karl Guðmundsson

verkfræðingur

1924-2014

Garðatorgi 7, Garðabæ

Útför (bálför) frá Fossvogskirkju

föstudaginn 14. febrúar 2014 kl. 15

Ræðuna geturðu hlustað á og lesið hér fyrir neðan.

Ritningarlestrar og sálmaskrá er hægt að skoða neðanmáls.

Friður Guðs sé með okkur öllum.

„Ertu að byggja? Viltu breyta? Þarftu að bæta?“

Með þessum orðum hefur verslun nokkur auglýst í fjölmiðlum áratugum saman.

Og nú spyr ég þig: „Ertu að byggja? Viltu breyta? Þarftu að bæta?“

Lífið er ekki kyrrstætt. Það kallar á uppbyggingu og breytingar. Með því að beina þessum spurningum til ykkar er ég að vísa til þess hvort þið lítið á lífið sem byggingarstarf.

Það er stórkostlegt undur og þakkarefni að fá að vera til, að eiga lífið. Lífið er áskorun, það er verkefni, það er á vissan hátt verkfræðilegt úrlausnarefni.

Þegar litið er yfir ævi Karls Guðmundssonar kemur í ljós að hann tók lífsverkefnið föstum tökum og skipulega. Hann vann að eflingu og fágun eigin sálar og vann sín störf af alúð og vandvirkni alla tíð. Hann var glaðsinna og gamansamur enda þótt hann hafi stundum birst samferðamönnum sínum við fyrstu sýn sem alvörugefinn maður. Hann gat verið fastur fyrir og stífur á meiningunni en reyndi eftir megni að setja fram hugmyndir sínar og álit af sanngirni og virðingu fyrir skoðunum annarra. Stundum gaf hann lítið eftir ef hann var algjörlega sannfærður um eigin rök. Hann hafði marga kosti og einn þeirra var sá að hann gat sagt þeim, sem fáir þorðu að vera hreinskilnir við, skoðun sína og meiningar. Það gaf til kynna sterka sjálfsmynd og traust á rökhugsun, þekkingu og menntuðu innsæi.

Hann fæddist á Akranesi 1. september 1924 og var því á 90. aldursári er hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 7. febrúar s.l.

Foreldrar hans voru Guðmundur Ólafsson f. 11.2.1885, d. 16.5.1968, kennari á  Akranesi og við Héraðsskólann á Laugarvatni, og Ólöf Sigurðardóttir f. 21.4.1890, d. 11.1.1975, húsfreyja.

Systkini hans eru:

Ólafur f. 2.6.1914, d. 10.12.2004;

Guðný f. 7.9.1915, d. 16.12.2007;

Sigurður f. 16.5.1917, d. 25.9.2008;

Guðbjörg f. 11.7 .1920, d. 5.4.1991;

Björn f. 22.8.1928, d.15.7.2007, og

Ingólfur f. 22.11.1930 sem einn lifir systkini sín.

Karl lauk skyldunámi við Héraðsskólann á Laugarvatni.

Árin þar voru mikilvæg mótunarár. Hann bjó í foreldrahúsum á skólastað og sá marga sér eldri nemendur eflast í skólanum og skynjaði fljótt mikilvægi menntunar. Að alast upp á heimili kennara og á skólastað mótaði hann fyrir lífstíð.

Fyrstu árin hans bjó fjölskyldan á Akranesi. Hann er sagður hafa verið skapgóður sem drengur, glaður og forvitinn þar sem hann naut frelsis og „flandraði um Skagann og lék sér“ eins og bróðir hans orðar það.

Á Laugavatni var hann mikið með föður sínum. Þeir fiskuðu í vatninu, gróðursettu tré og ræktuðu kartöflur. Á vetrum var farið á skíði í brekkum og skautað á vatninu og hann útbjó sér sleða sem hafði skauta undir hverju horni og segl til að beita í vindinn. Þannig gat hann farið greitt á ísilögðu vatninu. Hann var þrátt fyrir þetta enginn útivistarkappi sem slíkur en undi hag sínum oftast best heima við grúsk og lestur en gekk sér til heilsubótar alla tíð. Hann stundaði þó hjólreiðar á sínum yngri árum, lék blak og synti og keppti í hvoru tveggja. Hann var námfús og næmur á allt sem að skólanum laut. Samnemandi hans talaði hann inn á að sækja um skólavist í MA því fyrir norðan væru svo góðar aðstæður til skíðaiðkunar.

Hann fór norðu og í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi 1945. Þaðan lá leiðin í HÍ og þar lauk hann fyrri hluta prófi í verkfræði 1948. Þá sigldi hann utan og lauk prófi í byggingaverkfræði frá Danmarks Tekniske Højskole 1951.

Þann 5. ágúst 1950 kvæntist hann Rósu Þorgeirsdóttur, húsmæðrakennara frá Hlemmiskeiði á Skeiðum. Þau voru fædd sama árið. Ástin blómstraði og lífið blasti við þeim. Þau eignuðust dóttu 9. nóvember 1951, Rósu, sem er leikskólakennari. En lífið er aldrei öruggt og engin hefur tryggingu fyrir því að fá að líta næsta dag. Hann fór til vinnu einn morgunn eins og venja var. Þetta var 21. janúar 1952 og litla dóttirin tveggja og hálfsmánaðar gömul. Þá dundi áfallið yfir. Eiginkonan unga og glæsilega varð bráðkvödd (f. 6.2.1924, d. 21.1.1952). Hún hafði farið til móður sinnar að sýna henni efni í skírnarkjól dóttur sinnar og hné örend niður við dyrnar. Karl stóð uppi einn  með barnið.

Allar götur frá þessum mikla missi lagði hann áherslu á að kveðja vel, kyssa konuna bless að morgni og fagna henni að kvöldi, faðma ástvini og kveðja vel og vandlega. Hann vissi að lífið er óvissuferð og enginn á morgundaginn vísan. Allar götur síðan var hann órólegur ef fólkið hans skilaði sér ekki á réttum tíma, svo djúptæk var þessi reynsla og harmur sem hann varð fyrir. Undir það síðasta ræddi hann þess reynslu við ástvini sína.

Móðursystir Rósu litlu, Unnur Þorgeirsdóttir, kennari og maður hennar Sigurður Eyjólfsson, skólastjóri á Selfossi tóku hana að sér og ólu upp af ástríki og ábyrgð. Rósa er gift John Fenger f. 26.5.1950, viðskiptafræðingi. Þau búa í Ameríku.

Synir þeirra eru: 1) Hilmar Bragi f. 29.9.1973, k.h. Kerri Lynn, þau eiga þrjú börn. 2) Ármann Örn f. 8.6.1976, hann á einn son. 3) Ingi Rafn f. 6.5.1980, k.h. Deven, þau eiga eina dóttur. Bræðurnir og ástvinir þeirra senda sínar bestu kveðjur til ættingja og vina hér heima og þakka afa fyrir allt.

Karl vann sín störf en glímdi við missinn og sorgina. Hann keypti sér íbúð á 12. hæð í háhýsi efst á Laugarásnum sem var nýbyggt en á 4. hæð var íbúð í eigu jafnöldru hans. Í fyrstunni var engin lyfta í húsinu og búslóðir voru hífðar með talíum upp á svalir. Karl lét sig ekki muna um að hlaupa stigana upp í sína íbúð á 12. hæð. Forsjónin leiddi þau saman og hún varð seinni kona hans. Það var gæfa beggja þegar þau gengu í hjónaband 3. júní 1960, Ásta Hannesdóttir, hjúkrunarfræðingur og Karl XII nefndur eftir íbúðinni sinni.

Ásta er frá Hvammstanga. Hún starfaði við sitt fag í 30 ár sem hjúkrunarfræðingur og kom þekking hennar og menntun sér vel síðustu árin í lífi Karls en hún hjúkraði honum af mikilli natni og elsku og hefur löngum lagt upp úr því að vera vel á sig komin til að geta hugsað um hann sem allra best.

Dóttir þeirra er Hólmfríður f. 3.6.1963, leikskólakennari, gift Elfari Rúnarssyni f. 29.6.1963, lögfræðingi. Börn þeirra eru: Anton Örn f. 16.9.1989, Rúnar Karl f. 23.6.1991 og Ásta Gígja f. 8.8.1997.

Litla íbúðin við Austurbrún 2 var stór í þeim skilningi að þar var nóg rými handa öllum og af verkfræðilegri hugkvæmni bjó hann til létt skilrúm á lömum sem opnuðust út frá vegg en í veggnum var rúm sem féll niður og þá var komið afstúkað gestaherbergi í stofunni. „Í húsi föður míns eru margar vistarverur“, sagði Jesús, nóg rúm handa öllum. Seinna bjó móðir hans hjá þeim Ástu á Bakkaflötinni seinustu 10 ár ævi sinnar og naut elsku þeirra og hún gaf sjálf af sínu örlæti til þeirra og Hófíar.

Karl var vandvirkur og fær verkfræðingur sem kom að mörgum stórum verkum og framkvæmdum eins og sést í texta sálmaskrárinnar þar sem starfsferill hans er rakinn í stórum dráttum. (Sjá sálmaskrána neðanmáls)

Hann vann ekki aðeins að framkvæmdum í timbri og stáli, steinsteypu og malbiki, heldur var honum alla tíð hugleikin sú list að rækta sinn innri mann.

Karl gekk í Frímúrararegluna á Íslandi 1955 og gegndi þar margvíslegum trúnaðarstörfum. Hann hlaut m.a. heiðursmerki Frímúrarareglnanna í Danmörku og Svíðþjóð. Hann leit á það sem mikla gæfu að hafa kynnst þeim góða félagsskap sem Reglan er. Hann naut þess að grúska í fræðum hennar sem ganga út á það að móta menn, efla og fága á grundvelli kristinnar trúar. Þar bar hann höfuð og herðar yfir marga bræður, bókstaflega vegna líkamsburða sinna, en ekki síður sökum áhuga, ástundunar og þekkingar á inntaki og eðli Reglunnar. Hann vann ötullega að ýmsum málum bræðra sinna, þýddi erindi og mikilvæga texta og gaumgæfði samhengi og heildarhugsun starfsins. Hann var gæddur góðu innsæi og skilningi á starfinu, eðli þess og sýn á veruleikann og innra líf bræðra. Hann var alla tíð þakklátur R. fyrir að hafa bjargað sér á erfiðum tímum í einkalífinu þegar hann glímdi við sorg sína. Þar eignaðist marga góða vini. Áhugi hans á starfi R. kom m.a. í ljós er hann sagði Elfari að hann hlakkaði til að komast á eftirlaun svo hann gæti sinnt betur sínu æðsta áhugamáli. Hann hafði litla skrifstofu í húsi R. um tíma og þar vann hann löngum stundum í þágu hennar og samfélags bræðranna. Elfar minnist þess frá fyrstu árum sínum með fjölskyldunni að oft hringdi síminn heima hjá Karli um kvöldmatarleytið og hann hvarf inn í herbergi og talaði lengi. Oftar en ekki voru þetta  bræður í leit að ráðum um Regluna eða lausn á verkefnum á lífsveginum. Alltaf hafði hann tíma og oft fór hann á fætur árla morguns og vann að málum R. áður en hann fór á verkfræðistofuna. Bræður hans úr St. Jóhannesarstúkunni Gimli standa heiðursvörð hér í dag og félagar úr Æðstaráði Reglunnar munu bera kistu hans úr kirkju og sýna þar með virðingu sína og þökk fyrir einstakan bróður og velgjörðarmann Reglunnar.

Hann átti auðvelt með að leiðbeina öðrum, var góður kennari eins og hann hafði ætt til. Hann var góður leiðsögumaður bræðra í Reglunni. Ég á honum þökk að gjalda fyrir góða leiðsögn sem beindi mér aftur inn í R. eftir langt hlé.

Elskusemi bræðra hans, Sigurðar og Björns, kynntist ég einnig, en ég jarðsöng þá báða og vel man ég móttökur Ingólfs er hann tók á móti mér þegar ég kom nývígður í heimsókn á Biskupsstofu þar sem hann starfaði þá.

Meðan Karl var við nám í MA hjálpaði hann samnemendum sínu í glímunni við stærðfræðina og meðan hann var í verkfræðináminu nutu stúdentar á Laugavatni aðstoðar hans. Hann kenndi einnig dálítið í HÍ á sínum tíma og þótti þolinmóður leiðbeinandi.

Hann bjó yfir ríkri réttlætiskennd og kom hún m.a. fram þegar hann var ungur að vinna á Raufarhöfn. Þar sá hann er eldri maður var að berja strák og ofbauð Karli meðferðin og fann til með honum. Hann gekk að ofbeldismanninum, tók í hálsmálið með annarri hendinni og í buxnastrenginn með hinni og fleygði honum yfir grindverk á kolabinginginn. Þarna var réttlætið í húfi og þá þurfti  að bregaðast við af festu, krafti, styrk og karlmennsku. En hann var prúðmenni í grunninn og ljúfur maður. Hann kom mér ætíð fyrir sjónir með bros á vör og glettni í huga, elskulegur og vingjarnlegur.

Hann var næmur faðir og elskur að dætrum sínum. Hann ræktaði sambandið við Rósu alla tíð og Hófí annaðist hann af mikilli elsku og umhyggju. Eftir að þau hjónin byggðu húsið að Bakkaflöt 9, í hraunjaðrinum, sem hann átti mörg handtök í, naut hann útiveru í hrauninu. Hófí minnist þess er hún fór með pabba á vit ævintýra í mögnuðu umhverfi. Þau lögðust í mosann og horfðu á skýin og fuglana þegar sólin vermdi hraunið. Álfatjörnin var ísilögð á vetrum og pabbi sópaði hana til að hægt væri að renna sér á skautum. Hann smíðaði sleða handa Hófí og á aðfangadag bankaði hann á útihurðina og hljóp síðan á bak við hús. Hófí fór til dyra og fann sleðann frá jólasveininum og sýndi pabba sem virtist alveg jafnhissa og hún. Hann fór á flugdrekanámskeið með afastrákunum, Antoni Erni og Rúnari Karli, smíðaði boga og örvar fyrir þá. Efnið í örvarnar fann hann á nýársdag er hann fór um hverfið og safnaði rakettuprikum. Ásta Gígja minnist góðra stunda með afa og þolinmæði hans við hana og bræðurna. Þegar afastrákarnir í Ameríku komu gaf hann þeim allan sinn tíma, sagði þeim sögur og fræddi þá um land og sögu. Afabörnin hér heima komu gjarnan við á Bakkflötinni á leið úr skóla og fengu hressingu hjá ömmu og afa, góðar samræður og smá hjálp við heimalærdóminn.

Garðurinn þeirra Ástu varð fagur og gróinn með árunum og vann til verðlauna. Ásta var garðyrkustjórinn og Kalli dyggur vinnumaður í þjónustu hennar. Stórar hendur hans hentuðu vel í garðvinnuna en svo var hann um leið svo fínn í höndum að hann gat hlúð að smáblómum og byggt líkan af húsinu þeirra. Hann hafði góða rithönd og svo beitti hann formskrift fagurlega á teikningar sínar.

Verkaskipting þeirra Ástu var á hreinu. Hún sá um matseld en hann um uppvaskið og gerði það af vandvirkni í höndum enda þótt uppþvottavél væri á heimilinu hin síðari árin. Honum fannst gott að íhuga við uppvaskið.

Hann var gamansamur, sagði sögur og gat hlegið hátt og dátt.

Þau áttu góða daga, Ásta og hann. Hún var hans stóra gæfa og lán og átti sinn þátt í að rækta sambandið við Rósu í gegnum tíðina.

Systurdóttir Ástu, Hólmfríður Steingrímsdóttir, sem búsett er í New York hefur verið frænku sinni mikil stoð síðustu vikurnar og kveður Karl hér í dag. Fjöskylda hennar, Curt (Hostetter), Ásta Bennie (Hostetter) og Jakob Hostetter senda innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Einnig sendir vinarfólk Ástu og Karls, George og Marty í New York samúðarkveðjur.

Karl var víðlesinn og fróður. Hann naut þess að lesa skemmtilegar bókmenntir og dró oft fram Góða dátann Svejk og naut þess að lesa.

[Innskot um myndina í sálmaskránni þar sem hann er með bókina á höfinu og hlær]

Hann var að glíma við Sturlungu undir lokin en í sálu hans var þó enginn ófriður eins og á þeirri öld sem sú saga lýsir. Hann var tilbúinn að kveðja, æðrulaus og öruggur í sinni trú um að hann væri í hendi Guðs í lífi og í dauða. Hann vissi að byggingartarf lífsins verður ekki unnið án fulltingis hins hæsta höfuðsmiðs himins og jarðar og þekkti orð heilagrar ritningar:

„Ef Drottinn byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina vakir vörðurinn til ónýtis.“ (Sl127:1)

Allt er undir hinum hæsta komið.

Við erum öll að byggja og þurfum í senn að breyta og bæta. Þannig er lífið. En þá skiptir máli að standa rétt að málum, að hafa rétta reglu á öllu, fara eftir þeim brautum sem mannkyn þekkir best til lausnar á verkefnum þeim sem bíða á lífsveginum.

Í lexíu komandi sunnudags úr spádómsbók Jeremía segir:

„Svo segir Drottinn:
Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni,
hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu
og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum.
Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því
að hann sé hygginn og þekki mig.
Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni,
á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.“ (Jeremía 9.22-23)

Hér er kjarninn ljós og hann er fólginn í því að þekkja, þekkja hinn eina sanna og fylgja honum. Kristin trú er ekki fólgin í reglum eða flóknum fyrirmælum, torræðum kenningum eða leyndardómsfullum gátum, heldur er hún fólgin í vináttusambandi Guðs og manns, hún er bræðra- og systralag, systkinasamband í kærleika og vinátta við allt sem er rétt og satt, gott og fagurt.

Kristin trú er iðkuð með því að ganga veginn með honum sem er „vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ Kristin trú er auðveld eins og ástin. Leyfðu þeirri ást að grípa þig og haltu áfram að byggja, breyta og bæta með honum sem er byggingarmeistarinn mesti og „Jesú, bróðir besti“.

Megum við svo öll hverfa í fyllingu tímans inn í þá tilveru þar sem vistarverurnar eru margar og rýmið nóg, inn í það verkfræðiundur hins hæsta höfuðsmiðs sem hin himneska borg er, þar sem eilífðin ríkir og sól og tungl lýsa ekki lengur um daga og nætur en lambið er lampinn sem ljómar og lýsir.

Við kveðjum Karl Guðmundsson með virðingu og þökk. Blessuð sé minning hans og Guð blessi fjölskyldu hans og ástvini og  okkur öll sem enn erum að byggja, breyta og bæta okkar líf.

Dýrð sér Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Sálmaskrá – Karl Guðmundsson copy

Ritningartextar sem lesnir voru við athöfnina:

I. Korintubréf 13. kafli:

Kærleikurinn mestur

1Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
2Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
3Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum
og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur
en hefði ekki kærleika,
væri ég engu bættari.
4Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
5Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
6Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
7Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
8Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok,
og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.
9Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.
10En þegar hið fullkomna kemur líður það undir lok sem er í molum.
11Þegar ég var barn talaði ég eins og barn,
hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn.
En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn.
12Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu,
en þá munum vér sjá augliti til auglitis.
Nú er þekking mín í molum
en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.
13En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur.

Jóhannes 14.1-6

Vegurinn, sannleikurinn, lífið

1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.