Ingibjörg Ásgeirsdóttir 1957-2014

ingibjorgasgeirsdottirÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Ingibjörg Ásgeirsdóttir

lögreglukona

1957-2014

Útför (bálför) frá Neskirkju föstudaginn 7. febrúar 2014 kl. 13

Ræðuna geturðu hlustað á og lesið hér fyrir neðan.

Friður Guð sé með okkur öllum.

Ein af erfiðari gátum lífsins er án efa fólgin í þessari spurningu: Hvers vegna þjáist fólk? Á fyrstu síðum Biblíunnar örlar á þankagangi tengdum þeirri spurningu í sögunni um fallið. Sagan um Adam og Evu í aldingarðinum er ekki saga fyrstu manna þessa lífs eins og oft er haldið heldur saga allra manna, saga okkar, mín og þín. Hún er saga um fólk sem glímir við lífið, fólk sem lifir hamingjusömu lífi en svo fer allt á annan veg en ætlað var. Í sérhverri Paradís lífsins læðist inn höggormur sem skemmir hið góða og fullkomna. Sagan er í senn skýringar- og táknsaga og þar með lykill að skilningi á tilveru mannsins í þessari veröld gleði og sorgar. Hún er um leið skýring á því hvers vegna gæta þarf laga og réttar í veröldinni. Saga um tilgang lögreglunnar.

Það er vont að missa og svo er það líka sárt. Sorgin grípur mann og það er fátt við henni að gera nema bíða hana af sér og það tekur tíma, langan tíma. En sé þeim tíma varið í leit að tilgangi og merkingu eftir klassískum leiðum er unnt að komast af eftir missi og öðlast um leið dýrmætan ávöxt þroska og visku. Ég nefndi klassískar leiðir til að minna á að mannkynið hefur um aldir glímt við þennan vanda og til hafa orðið gimsteinar í bókmenntaarfi heimsins í glímunni við spurninguna sem ég nefndi í upphafi. Jobsbók í GT er tilraun til að svara umræddri spurningu.

Gyðingur í New York, rabbíi, ritaði bók á liðinni öld í glímunni við Guð og sjálfan sig eftir sonarmissi. Bókin ber heitið Why Bad Things Happen To Good People og er til í íslenskri þýðingu undir heitinu: Hvers vegna ég? Hún er góð lesning þegar fyrstu mánuðir eftir missi eru að baki.

Ingibjörg Ásgeirsdóttir fæddist í Hafnarfirði 6. nóvember 1957. Hún lést á líknardeild Landspítalans 3. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Ásgeir Hjálmar Karlsson byggingaverkfræðingur, f. 13. janúar 1927, d. 2. apríl 1980 og Ingibjörg Johannesen dönskukennari og löggiltur skjalaþýðandi, f. 4. október 1930, d. 22. janúar 2010. Systkini Ingibjargar eru

Jón Ásgrímur f. 1955, maki Emly Johannesen, f. 1955.

Halldóra, f. 1956, maki Birkir Árnason, f. 1955, d. 2009. Börn þeirra eru Ásgeir, f. 1985 og María Björk f. 1987.

Blessuð sé minning foreldra Ingibjarga og mágs.

Fjölskylda hennar flutti til Danmerkur 1960 og bjó þar í 6 ár er hún flutti heim og settist að í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún gekk í Melaskóla. Síðar flutti fjölskyldan í Garðabæ og bjó við Markarflöt. Ingibjörg gekk í skóla þar og fór svo í Menntaskólann við Tjörnina sem varð að Menntaskólanum við Sund. Fjölskyldan bjó í eitt ár við Búrfellsvirkjun 1966-67 er þar vann Ásgeir og segja þau Jón og Halldóra að það hafi verið einn besti tími ævi þeirra. Þar er víðáttan mikil og fjöllin stór, náttúran kröftug og mikilfengleg.

Ingibjörg varð stúdent frá Menntaskólanum við Sund 1978. Á skólaárunum vann hún við verslunarstörf og að loknu stúdentsprófi var hún um skeið þerna hjá Ríkisskipum. Hún hóf störf hjá Lögreglunni í Reykjavík 1983 og lauk námi frá Lögregluskóla ríkisins 1985. Hún starfaði sem almennur lögreglumaður m.a. á Patreksfirði í nokkra mánuði 1993 en varð síðar rannsóknarlögreglumaður 1995 og lauk starfsferli sínum í útlendingadeild Lögreglunnar í Reykjavík. Hún vann við friðargæslustörf í Sarajevo í Bosníu, og síðar í Sierra Leone í Afríku. Hún gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum í Lögreglufélagi Reykjavíkur. Ingibjörg stundaði skotfimi af kappi og þótti mjög góður skotmaður og var kjörin skotíþróttakona ársins 2003. Hún keppti á vegum ÍSL á Norðurlanda- og Evrópumótum og á landsmótum hér heima og vann til verðlauna. Ingibjörg, sem sæmd var silfurmerki Íþróttasambands lögreglumanna 2012, sótti ýmiss námskeið í tengslum við starfið. Hún sat í stjórn Lögreglufélags Reykjavíkur um tíma og var varaforseti IPA í tvö kjörtímabil. Ingibjörg var listunnandi og heimsótti fjölmörg lönd. Ingibjörg hafi sterk tengsl við Færeyjar og Danmörku, átti þar frændfólk sem hún heimsótti oft.

Ingibjörg tók mjög nærri sér föðurmissinn. Hún gerði allt sem í hennar valdi stóð til að hjúkra föður sínum og standa með móður sinni. Hún glímdi mjög við spurninguna sem fyrr var getið, glímdi við Guð og átti í fangbrögðum við hann upp frá því.

Fjölskylduvinur og námsfélagi Ásgeirs frá árunum í Danmörku, Hjálmar Ólafsson, ritaði grein í Tímann skömmu eftir andlát Ásgeirs og sagði þar m.a.:

„Fundum okkar bar of, alltof sjaldan saman eftir að hann kom heim frá námi með indæla konu með sér, Ingibjörgu af færeysku bergi. Þar var mikið jafnræði með valmennum.

Þá sjaldan við fundumst, réði gleðin ein ofar hverri kröfu. Það voru ánægjustundir sem best er lýst í ljóðum og söngvum.

Mitt í þeim söngleik dynur ólánið yfir. Ásgeir missir heilsuna og er vart hugað líf eftir áfallið.

Þá sýndi Ingibjörg, að hún kunni margt fleira en dansa færeyskan dans betur en flestir. Með hennar hjálp og barnanna náði Ásgeir furðu góðum bata. Það var eitt af kraftaverkum mannkærleikans, þar réðu úrslitum umönnum og ástúð hans nánustu.

Það sem engum hafði komið til hugar kom á daginn. Ásgeir var orðinn vinnufær.

Hann starfaði síðan um árabil á tæknideild Kópavogsbæjar.

Þá vann stærstan sigur sú sem hefði mátt eiga meiri stuðning okkar hinna á stundum.

Um síðustu áramót dró nokkuð snöggt til tíðinda um heilsu Ásgeirs og lauk því stríði nú rétt fyrir páskahátíðina. Enn sem fyrr stóð Ingibjörg sem klettur og börn þeirra.“ (Hjálmar Ólafsson, Íslendingaþættir Tímans 10. maí 1980)

Þessi texti gefur innsýn í líf fjölskyldu Ingibjargar, samheldni hennar, baráttu í erfiðum aðstæðum og grimm örlög sem fjölskyldan varð fyrir.

Ingibjörg Johannesen lést fyrir rétt rúmum 4 árum eftir erfið veikindi og hafði þá átt góða og bjarta daga eftir missinn. Reynsla kynslóðanna er sem betur fer sú að öll él birtir upp um síðir.

Það er ósanngjarnt að missa ástvini í blóma lífsins og það er sárt og erfitt að vinna úr erfiðum missi. En sorgin má líkja við göngu yfir íslenska hálendið. Þar eru kaldar ár og brött fjöll, jöklar og sandar, en einnig grónar grundir og blómum skrýddar brekkur. Lífsgangan er blanda af því að eiga ferð sem tekur á fótinn og svo niður í móti og loks á sléttlendi.

Hún hafði alla tíð yndni af að ferðast. Hún fór oft til Danmerku en þar bjó móðursystir hennar og var þeim systkinum besta frænka sem hugsast getur. Leifur móðurbróðir þeirra bjó líka í Kaupmannahöfn en frá 1966 í Færeyjum og reyndist þeim góður frændi.

Systurnar áttu mörg sameiginleg áhugamál m.a. það að horfa á handbolta. Þær fóru með íslenska landsliðinu til Malmö fyrir 4 árum og nutu þess að hrópa og öskra í skautlegum búningum á áhorfendabekkjunum. Til stóð að fara til Danmerkur og horfa á Evrópumótið fyrir stuttu en veikindi Ingibjargar komu í veg fyrir það. Hún horfði hins vegar á leikina á líknardeildinni og hafði ómælda ánægju af.

Ingibjörg eignaðist góða vini í gegnum tíðina en aldrei þróaðist sú vinátta í hjónaband sem hún þráði innst inni. Þegar vonir hennar brugðust sagði hún stundum: „Týpiskt fyrir mig.“ Kannski var í henni ögn af forlagatrú. Hún þráði líka að eignast börn en systurbörnin, Ásgeir og María Björk, urðu henni sem hennar eigin. Hún var þeim frábær frænka, gjafmild og ræktarsöm. Hún átti stóran vinahóp, góðar vinkonur og starfsfélaga í lögreglunni. Einn félaga hennar, Sigurður Reynir, er staddur í Buenos Aires um þessar mundir. Hann biður fyrir innilegar samúðarkveðjur til systkina Ingibjargar og systurbarna. Kveðju sína sendir einnig Kristina Sigurðardóttir.

Ingibjörg var gestrisin og átti myndarlegt heimili. Hún hafði mikla ánægju af starfi sínu og naut þess að eiga góða starfsfélag.

Hún var fáguð kona með góðan smekk, fagurkeri sem gerði allt vel sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var ótrúlega skemmtileg, heyrði ég sagt, fyndin og orðheppin. Hún var vinur vina sinna en hafði ekki þá þörf að láta öllum líka vel við sig. Sýnir það hennar innri styrk.  Hún var klettur í augum fjölsklyldunnar og þeim fannst ætíð gott að leita til hennar því hún sagði ávallt það sem máli skipti og gaf bestu ráðin. Hún var besta manneskja í heimi til að faðma, sagði fjölskyldumeðlimur. Hún setti sig sjaldan í fyrsta sæti og husaði fyrst og síðast um hag ástvina sinna og vildi svo gjarnan hlífa þeim í erfiðum aðstæðum og taldi sig nógu sterka til að vera í því hlutverki og þar mat hún sjálfa sig rétt.

Hún kunni svo sannarlega að lifa lífinu – einn dag í einu – jafnvel eftir að hún veiktist.

[Innskot um bílakaup sem er á hljóðupptökunni]

Margir brandarar flugu á milli hennar og ástvina meðan hún dvaldi á líknardeildinni. Hún hló mikið og naut hins skemmtilega og húmoríska í lífinu.

Hún greindist með krabbamein fyrir rúmu ári. Hún fékk fréttirnar skömmu fyrir jólin 2012 en hélt því leyndu fyrir fjölskyldunni fram yfir hátíðarnar til að spilla ekki jólagleðinni. Hún fór í veikindaleyfi og gekkst undir lyfjameðferð og hóf svo aftur störf í 75% hlutfalli. Hún var afar seig og sterk í veikindum sínum og hélt alla tíð fullri reisn. Hún fór til Danmerkur með fjölskyldunni í jolefrokost í desember s.l. Hún vann einn dag milli jóla og nýárs en fór á líknardeildina í 2. viku janúar og var þar til hinsta dags og naut góðrar umönnunar sem hér er þakkað fyrir.

Hún hélt jól og áramót með systur sinni og fjölskylu en Jón var í Færeyjum um jól og áramót og þorrablótið féll ekki niður en var haldið þetta árið hjá Halldóru.

Fjölskyldan var alla tíð í fyrsta sæti í lífi hennar. Hún naut samvista við fólkið sitt og þær systur fóru reglulega á kaffihús til að spjalla og njóta samvista, oftast á Kaffi Mílanó.

Ingibjörg var hrein og bein, heiðarleg og sönn manneskja, sem átti svo margt að gefa þessum heimi. Kraftar hennar nýtast ekki lengur en minningar um góða konu munu lifa og hafa áhrif á þau sem henni unnu.

Líf okkar heldur áfram í þessum heimi hamingju og harma. Lífsgátan er ekki leyst en kristin trú boðar von í honum sem þjáðist á krossi og yfirgaf þetta líf í blóma lífsins. Hann sagði:

Ég lifi og þér munuðu lifa.

Sú bæn hans rættist hina fyrstu kristnu páska og enn horfir fólk til birtunnar frá gröf hans sem lýsir okkur í móðu sorgar og missis. Megi vonin um upprisu og eilíft líf styrkja ykkur í sorginni og gefa ykkur trú á bjartari daga.

Guð blessi minningu Ingibjargar Ásgeirsdóttur og Guð blessi þig.

Amen.

Bálför.

Erfi.

Minningarorð.

Takið postullegri blessun:

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni. Svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.

4 athugasemdir við “Ingibjörg Ásgeirsdóttir 1957-2014

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.