Einar Eggertsson 1930-2014

einareggertssonÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Einar Eggertsson

skipstjóri

1930-2014

Útför frá Langholtskirkju

fimmtudaginn 6. febrúar 2014 kl. 13

Jarðsett í Gufunesi

Þú getur hlustað á og lesið ræðuna hér fyrir neðan.

Friður Guðs sé með okkur.

Hvað vitum við um næstu skref í lífinu?Hvernig verður þessi dagur? Hvað mun gerast á morgun?

Við vitum það ekki.

Lífið er óvissuferð. En við höldum áfram og reynum að feta okkur fram um veg og notum til þess ein og önnur mið.

Guðspjallið sem ég las tilheyrir þessari viku. Þegar Gregoríska tímatalið var tekið upp árið 1700 hófst vetrarvertíð fyrsta virkan dag eftir kyndilmessu 2. febrúar og stóð yfir í 14 vikur. Kirkjan las mönnum þá textann um mátt Jesú sem kyrrði vind og vatn, guðspjallið sem við heyrðum rétt í þessu.

Í kirkjunni í Grindavík þar sem ég þjónaði um tíma á liðinni öld er stór mósaíkmynd gerð eftir málverki Ásgríms Jónssonar er sýnir Jesú með útrétta hönd og lærisveina hans mæna á hann í forundran. Brimið freyðir við klettaströnd. Landslagið er íslenskt. Myndlistarmaðurinn vildi koma því til skila að Jesús væri hér, hann væri með í för í siglingum lísins.

Um allt land eru forn mið sem sjómenn þekktu og sigldu eftir. Nú erum við mörg með snjallsíma í vasanum sem tengdur er gervihnetti og getur sýnt hnattstöðu okkar við hvert fótmál. Þannig var það ekki forðum daga og ekki heldur þegar Einar hóf að sækja sjó. Þá notuðu menn kompás og sjókort og hin gömlu mið og það dugði vel.

Duga snjallsímar nú til þess að við rötum rétta leið í lífinu? Það er nú stóra spurningin.

Einar vissi hvert hann stefndi. Hann vissi það alla tíð enda mótaður af menningu og trú þjóðarinnar í þúsund ár og trúariðkun hennar í húslestrum, bæn og söng og þekkti heilræði úr helgum textum.

Ég hitti þau Eggert og Sigurlaugu í Neskirkju en þangað komu þau á helgum dögum til messu meðan þau bjuggu í Vesturbænum. Þau voru glæsileg hjón og yfir þeim friður og góðvild sem geislaði af þeim. Og nú eru þau bæði horfin af þessu jarðlífi, farin í hinstu för með sín mið í sálu og sinni.

Einar fæddist á Þórshöfn á Langanesi f. 18.6.1930, d. 28.1.2014

Foreldrar hans voru Eggert Ólafur Briem Einarsson, héraðslæknir, f. 1.6.1894 að Hálsi í Fnjóskadal, d. 23.8.1974, og Magnea Jónsdóttir, húsfreyja, f. 22.2.1899 í Stykkishólmi, d. 11.10.1975.

Einar var fimmti í röð sjö systkina sem eru:

Jóhanna Katrín Kristjana f. 27.9.1924, d. 13.3.1970,

Jón  f. 21.11.1925,

Ester f. 6.4.1927,

Anna Gunnlaug f. 4.7.1928,

Eggert Ólafur f. 26.10.1931,

Halldór Gunnlaugur f. 8.10.1936.

Halldór býr í borg englanna, Los Angeles, í Kaliforníu og sendir kveðju sína hingað. Systkini Einars vilja jafnframt koma á framfæri einlægri þökk fyrir líf elskulegs bróður.

Þá flyt ég ykkur einnig kveðju frá Ellen og fjölskyldu í Noregi.

Eggert kvæntist Sigurlaugu Kristinsdóttir, húsfreyju, 6. ágúst 1955. Sigurlaug var fædd 5.9.1930, dáin 2.2.2010. Foreldrar hennar voru Jón Kristinn Árnason frá Skeiði í Svarfaðardal, f. 22.12.1899, d. 1.4.2000, og Unnur Guðmundsdóttir frá Dæli í Fnjóskadal, f. 8.4.1896, d. 6.1.1967.

Einar og Sigurlaug eignuðust 4 börn:

Eggert Ólaf, Magneu, Unni og Áslaugu.

Eggert Ólafur, f. 11.7.1953, myndlistarmaður.

Magnea, f. 11.12.1957, skólastjóri, gift Þorsteini Sverrissyni, f. 11.12.1955, vélfræðingi. Þau eiga 3 dætur:

Auði Ingu, f. 26.6.1978, framkvæmdastjóra, gift Theódóri Hjalta Valssyni, f. 29.4.1973, tæknifræðingi. Þau eiga 2 börn: Einar Örn, f. 12.2.2009, og Söru Björk, f. 3.2.2011;

Hildi Ingu, f. 17.10.1979, verkfræðing. Hún á 3 börn: Auði Freyju, f. 26.1.2006, Hákon Frey, f. 26.1.2006 og Steinunni Freyju, f. 27.3.2012;

Ásu Ingu, f. 30.3.1982, fimleikaþjálfara, í sambúð með Ingvari Rafn Hjaltalín, f. 15.2.1979, lögfræðinema. Dóttir Ingvars heitir Emelía Kolka, f. 11.3.2001.

Unnur, f. 25.6.1961, sjúkraliði, gift Jóhannesi Helgasyni, f. 16.6.1958, flugstjóra. Þau eiga 2 syni:

Helga, f. 18.11.1982, flugmann, í sambúð með Freyju Rut Emilsdóttur, f. 29.12.1981, kennara. Þau eiga 2 dætur.

Emmu Katrínu, f. 13.3.2008, og Júlíu Marín, f. 6.10.2011. Elsta dóttir Helga heitir Laufey Helga, f. 3.6.2001;

Atla, f. 15.6.1988, íþróttafræðing, í sambúð með Halldóru Elínu Jóhannsdóttur, f. 24.9.1985, kennara.

Áslaug, verkefnastjóri, f. 14.6.1963, gift Gunnlaugi Helga Jóhanssyni, f. 26.11.1960, málarameistara. Þau eiga 2 börn; Einar Þór, f. 21.5.1992, háskólanema og Helgu Kristínu, f. 27.9.1995, framhaldsskólanema.

Einar flutti árið 1941 frá Þórshöfn í Borgarnes og átti sín uppvaxtarár þar. Heimilið var oft mannmargt því systkinahópurinn var stór og líflegur auk þess sem faðir hans var héraðslæknir. Það var allt í senn heimili, læknisstofa og apótek. Hann gekk í Menntaskólann á Akureyri og fór síðan í Farmannadeild Stýrimannaskólans í Reykjavík. Einar starfaði hjá Landhelgisgæslunni áður en hann settist á skólabekk í Stýrimannaskólanum. Eftir útskrift sigldi hann á skipum SÍS, Hamrafelli og Helgafelli, á sanddæluskipinu Sandey og lengst af á olíuflutningaskipinu Kyndli. Eftir að stöfum hans  á sjónum lauk vann hann í nokkur ár hjá Skeljungi í Reykjavík.

Einar og Sigurlaug bjuggu alla sína sambúð í Reykjavík lengst af í Álfheimum 66. Þau voru ástfangin hjón og Einar var ætíð hrifinn af sinni fallegu og virðulegu konu.

Einar var víðlesinn og hafði áhuga á alls kyns söguefni, ævisögum, glæpasögum, fræðibókum, sagnfræði og þá sérstaklega sögu seinni heimstyrjaldarinar. Á stíðsárunum voru breskir hermenn í Borgarnesi og hann sem ungur drengur fylgdist af áhuga með öllu sem því tengdist.

Hann vann við vegavinnu á unglingsárunum og þekkti landið vel hvort sem það var af sjó eða landi. Einar og Sigurlaug ferðust mikið um landið í seinni tíð hvort, fóru bæði í dagsferðir og lengri ferðalög. Þá keyrði Einar og þau höfðu með sér bækur um land og sögu sem Sigurlaug las upp úr. Þannig nutu ferðarinnar betur og fræddust um staði og fólk. Oft voru barnabörnin með þegar farið var í dagsferðir. Einar var náttúrunnandi og þekkti vel algengustu fugla í náttúru Íslands.

Hann hafði mikinn áhuga á að fræðast um alls kyns hluti og ef hann þekkti ekki málefnið þá hafði hann þann frábæra eiginleika að spyrja. Hann var ekkert að látast og fór ekkert leynt með það hvað hann vissi og hvað ekki. Þegar fylgst var með spurningakeppnum eða keppt í spilum þótti mörgum gott að vera með honum í liði.

Hann hafði alltaf mikinn áhuga á íþróttum og  spilaði með Þrótti. Hann fylgdist með enska boltanum en einnig með börnum sínum og barnabörnum við þeirra íþróttaiðkun.

Ástvinir hans minnast hans með mikilli gleði og þökk. Barnabörnin eiga um hann og ömmu sína fagrar minningar. Þau gáfu þeim athygli og tíma, léku sér með þeim og miðluðu lífsvisku og elsku. Einar hafði yndi af hvers kyns boltaleikjum og fór oft út með þeim að leika. Þau muna hvað hann var naskur í feluleik og gat dulist lengi enda þótt hann væri hæstur og rúmmál hans mest. Þau gátu talað um allt við afa. Börnin í hverfinu áttu í honum hvert bein og hringdu gjarnan bjöllunni heima hjá Einar og Sigurlaugu og spurðu um hann og vildu fá hann til skrafs og leikja. Hann hafði jákvæða lífsafstöðu og svo þetta góðlega viðmót og trausta sem laðaði að sér unga sem eldri.

Seinasta árið bjó hann hjá Unni dóttur sinni til að létta undir með fjölskyldunni og hún minnist þess með hvaða hætti hann opnaði augu hennar fyrir umhverfinu, fjöllum og áttum. Sjómannseðlið var alltaf til staðar með miðin og áttirnar á hreinu. Hann fór daglega í gönguferðir meðan hann gat og naut þess að hafa fjölskylduna með sér í þeim ferðum. Hann gekk alla tíð mikið og synti í laugum. Börnin segja að hann hafi átt vini í helstu heitum pottum höfuðborgarinnar enda ræðinn og skemmtilegur maður. Oft fóru börnin og síðar barnabörnin með honum í sund. Svo fór hann fór með þeim niður að Tjörn og hafði bátinn hans afa Kristins með í för og kenndi þeim að sigla honum meðfram bakkanum.

Þau segja að það hafi ekki skipt öllu máli hvað þau gerðu með honum heldur hvernig hann gerði hlutina. Nærvera hans skapaði svo góðar kenndir með þeim, öryggi og ró.

Fátt er börnum mikilvægara í amstri daganna en athygli spakra ástvina. Hann hafði alltaf tíma fyrir þau í fríum og eftir að hann fór á eftirlaun sinnti hann þeim enn betur en áður. Hann horfði á fleiri þúsund kollhnýsa um ævina, badmintonskot, fótboltaspörk og golfsveiflur.

Stundum hringdi hann að fyrra bragði í börnin sín og spurði hvort ekki kæmu einhver barnabörn til að gista um kvöldið. Hann sóttist eftir vinskap við þau.

Þau fengu líka að koma um borð hjá honum og sigla milli hafna, fengu að ýta á mikilvæga takka í brúnni og finna skipið fara á skrið.

Hann hafði góðan húmor og gerði gjarnan grín að sjálfum sér sem er góður eiginleiki og ber merki um þroskaða sjálfsmynd. Hann þjálfaði börnin í orðaleikjum og allskyns gátum.

Hann var í grunninn hógvær maður en ekki skaplaus, fastur fyrir, en sanngjarn. Hann var sáttfús og mörgum þótt gott að leita ráða hjá honum. Hann var laus við tildur gerði grín að ættarsnobbi og ættarnöfnum og hafði góð efni á því. Hann var velviljaður og mátti ekkert aumt sjá, keypti alla happdrættismiða sem honum buðust og bæði hundar og kettir fengu hjá honum stroku og klapp.

Hann var æðrulaus í veikindum sínum og til þess tekið af hjúkrunarfólki hversu duglegur hann var og seigur. Ég kom til hans nokkrum dögum fyrir andlátið. Við ræddum saman stutta stund og ég spurði hvort ég mætti ekki biðja með honum. Hann tók því fagnandi og þegar amenið kom á eftir efninu sagði hann: Eigum við ekki að bæta við einu Faðir vori?

Hann klæddi sig upp tveim dögum fyrir andlát sitt til að mæta í barnaafmæli. Hann gladdist í hópi ástvina, sat lengi og spjallaði.

Tveimur tímum fyrir andlát sitt gerði hann að gamni sínu.

Börnin hans, tengdabörn og afkomendur voru löngum hjá honum í veikindum hans og studdu hann með öllum ráðum meðan hann lifði. Þau hafa misst mikið.

Nú horfir hann ekki lengur á Sjelsí (Chelsea) í sjónvarpinu eins og hann kallaði uppáhaldslið Gullu systur sem hann horfði á með henni og Sölva tengdasyni hennar. Hann var aftur á móti United-maður og hafði verið lengi.

Hann vissi ætíð hvað hann vildi. Þekkti sín mið í lífinu og nú er hann horfin af þessu jarðlífi, farin í sína hinstu för.

Hann sigldi árum saman á Kyndli og færði fólki og fyrirtækjum olíu til ljósa, kyndingar og véla. Hiti í húsum verður að vera góður í köldu landi og hjól atvinnullífsins þurfa að snúast hjá fiskveiðiþjóð og svo þurfa ljósin að loga í hýbýlum fólks.

Eitt sinn undirbjó ég útför ungrar konu og ræddi við aldraða móður hennar og spurði hana: Hvað hefur þú nú fengist við um ævina fyrir utan húsmóðurstörfin? Ég vann nú lengst af við það að setja ljós á flöskur, sagði hún. Ljós á flöskur, hváði ég? Já, ég vann hjá Lýsi h.f.

Já, ljósið kemur til okkar með ýmsu móti. Það skín við okkur í geislum sólar og kemur einnig til okkar í þeim gula sem dreginn er úr djúpinu og lýsti upp hýbýli fólks fyrr á öldum og nærði hugsun og heila, sinar og liðamót – og gerir enn.

Allt sem lifir er af ljósi komið og að baki öllum heimsins ljósum er ljósið eina, „sólnanna sól“ – Kristur,  sem sagðist vera ljós heimsins og bætti svo við um fylgjendur sína og þar með um okkur að við værum einnig ljós heimsins og að verkin okkar ættu að benda til himinsins heim og vera þannig öðrum mið.

Nú leggur nýr Kyndill úr höfn sem siglir undir merkjum ljóssins og stefnir á himins höfn.

Hvað vitum við um næstu skref? Hvernig verður þessi dagur? Hvað mun gerast á morgun?

Við vitum það ekki en lífið er í hendi hans sem var forðum um borð með lærisveinum sínum. Hann er í kirkjunni, í kirkjuskipinu og hann ber kyndil kærleika og miskunnar í hendi sér, stillir storma lífsins og stýrir sínu fari heilu heim.

Við erum örugg um borð með honum í lífi og í dauða.

Við vitum ekki hvað lífið færir okkur af gleði eða sorgum en eitt er víst, við erum aldrei ein meðan við eigum trú á hann sem bæði vindur og vatn hlýða, honum sem gekk veg þjáningar og vann að lokum sigur á dauðanum.

Við felum Einar Eggertsson því ríki er hann vonaði á og þráði og þökkum fyrir lífið hans og öll þau góðu mið sem hann gaf af visku sinni, góðvild og örlæti.

Blessuð sé minning Einars Eggertssonar og Guð blessi þig.

Amen.

Tilkynna jarðsetningu, líkfylgd, erfi og ræðubirtingu á vef.

Takið postullegri kveðju:

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni. Svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.